04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (3133)

207. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 5. þm. Austf., Vilhjálmi Hjálmarssyni, að flytja hér tvær brtt. við þessi lög um tekjuskatt og eignarskatt frá 1965. Frvgr. eru þannig, með leyfi forseta:

1. gr.: Síðasti málsl. 3. mgr. 3. gr. laganna orðist svo:

Aldrei kemur þó hærri upphæð til frádráttar en 60 þús.

2. gr.: Á eftir orðunum „Fyrir hjón“ í B-lið 16. gr. laganna komi: og einstætt foreldri, sem heldur heimili fyrir börn sín.

3. gr.: Lög þessi öðlast þegar gildi og skulu koma til framkvæmda við álagningu tekju- og eignarskatts fyrir skattárið 1970.

Á tveimur síðustu þingum höfum við flm. þessa frv. flutt frv. um breyt. á þessum lögum, er varðar fyrri grein frv. Munurinn er þó sá, að nú leggjum við til, að frádráttarupphæðin megi vera allt að 60 þús. kr. í stað 50 þús. áður. Er það í samræmi við þær verðlags- og kaupbreytingar, sem orðið hafa síðan. Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt eru ákvæði, sem heimila hjónum að draga frá skattskyldum tekjum sínum 50% þeirra tekna, er konan vinnur fyrir, „enda sé teknanna ekki aflað hjá fyrirtæki, sem hjónin annaðhvort eða bæði eða ófjárráða börn þeirra eiga eða reka að verulegu leyti“, eins og segir í lögunum. Vinni konan að eigin atvinnurekstri hjónanna, eiga þau rétt á því, að metinn sé hlutur konunnar af sameiginlegum hreinum tekjum hjónanna, miðað við beint vinnuframlag hennar við öflun teknanna, og dregin 50% frá hlut hennar, áður en skattgjald er lagt á hinar sameiginlegu tekjur hjónanna. En hér fylgir böggull skammrifi, því að aldrei kemur þó hærri upphæð til frádráttar en 15 þús. kr. Þetta ákvæði í lögunum er óbreytt frá árinu 1960, þó að allt verðlag og kaupgjald hafi a. m. k. fjórfaldazt síðan. Árið 1958 var þetta lagaákvæði á þann veg, að frádráttarupphæðin mætti aldrei vera hærri en tvöfaldur persónufrádráttur konunnar. Persónufrádráttur einstaklings var þá 6500 kr. og því hámarksfrádráttur á árinu 1958 13 þús. kr. Persónufrádráttur til tekjuskatts fyrir einstakling er nú 134 þús. 400 kr. Á þessu sést, hversu fráleitt það er, að þessi frádráttarupphæð skuli öll þessi ár hafa staðið óbreytt þrátt fyrir það t. d., að kaupgjaldið hefur a. m. k. fjórfaldazt á þessu tímabili, eins og áður segir.

Síðan þetta frv. var lagt fram, hefur verið lagt fram hér stjfrv., sem felur í sér breytingu á þessu ákvæði laganna, þ. e. a. s. um þessa fyrri gr. Hins vegar nær sú lagfæring mun skemmra en við leggjum til, að gert verði, og er ekki í samræmi við þær verðlags- og kauplagsbreytingar, sem orðið hafa síðan þetta lagaákvæði var sett inn í lögin 1960. Okkar tillaga miðast við það, að þessi frádráttur sé hlutfallslega svipaður og hann var þá, en til þess þyrfti hann að vera a. m. k. 60 þús. kr. eins og tillaga okkar er, að hann verði. En stjfrv. er á þá leið, að þessi frádráttur yrði um 47 þús. kr. og var því í raun og veru gengið á hlut þeirra, sem eiga rétt á að fá þennan frádrátt, miðað við það, sem ætlazt var til 1960 og fyrir þann tíma.

Þegar hæstv. ríkisstj., sem enn situr, kom til valda, var það fyrirheit gefið að fella niður tekjuskatt af almennum launatekjum. Árið 1960 var lögunum um tekjuskatt og eignarskatt breytt af þessu tilefni. Ein breytingin, sem þá var gerð, var að afnema persónufrádrátt og þau ákvæði, sem voru í beinum tengslum við hann. Áður en þessi breyting var gerð, höfðu einstæðar mæður sama persónufrádrátt og hjón, ef þær höfðu heimili fyrir börn sín, og til viðbótar þessum frádrætti höfðu þær 1/3 af persónufrádrætti hvers barns eða 1/3 meira en aðrir. Í stað þess frádráttar, er einstæðar mæður höfðu haft, var sett inn í lögin 1960 nýtt ákvæði: „Ef einstæðir foreldrar eða aðrir einstaklingar halda heimili og framfæra þar skylduómaga sína, mega þeir draga frá skattskyldum tekjum upphæð, er nemur 10 þús. kr. að viðbættum 2000 kr. fyrir hvert barn.“ Þegar lögunum var breytt 1965, voru þessar upphæðir hækkaðar upp í 16 þús. kr. og 3200 kr. fyrir hvert barn. Þessi frádráttur er nú 26900 kr. og fyrir hvert barn 5380 kr. Persónufrádráttur til tekjuskatts er nú fyrir hjón 188200 kr., fyrir einstakling 134400 kr. og fyrir barn 26900 kr. Einstæðir foreldrar, sem eiga 2 börn, fá nú í aukafrádrátt kr. 37660 kr., en ef lagaákvæðin hefðu verið enn óbreytt, er giltu þegar núv. ríkisstj. kom til valda, þá hefði þessi frádráttur verið 71733 kr. En ef frv. þetta yrði að lögum, mundi hann verða 91460 kr.

Ef gift kona vinnur utan heimilis, má hún draga frá tekjum sínum 50%, áður en skattgjald er á þær lagt. Ef gift kona vinnur utan heimilis og hefur í árskaup 240 þús. kr., þá mundi hún fá í frádrátt 120 þús. kr. Ef hún missir manninn og heldur heimili fyrir 2 börn, mundi hún fá í frádrátt að óbreyttum lögum aðeins 37660 kr., þrátt fyrir þann aðstöðumun, sem orðið hefði. Hér er um svo mikið ranglæti að ræða, að löggjafinn getur tæpast verið þekktur fyrir að hafa þessi ákvæði lengur óbreytt.

Á það má benda, að einstæðir foreldrar verða að koma börnum sínum á barnaheimili eða fá handa þeim aðra gæzlu, á meðan þeir eru í vinnunni. Barnaheimili eru enn mjög af skornum skammti og geta því færri en vilja komið börnum sínum þangað, eins og hefur komið fram í blöðum nú síðustu vikurnar. Daggjald þar er nú 2200 kr. á mánuði. Einstaklingar, sem taka börn í gæzlu, taka um eða yfir 3 þús. kr. á mánuði fyrir barnið, og við þessar upphæðir bætist svo flutningsgjald til að koma börnunum til og frá þessum heimilum í flestöllum tilfellum. Sé aðstaða einstæðra foreldra athuguð miðað við aðra þjóðfélagsþegna, virðist því einsýnt, að sá frádráttur, sem lagt er til í þessu frv. að þeir fái, sé engin ofrausn af hendi þjóðfélagsins.

Í frv. því, sem hæstv. ríkisstj. lagði fram hér í hv. þd. fyrir skömmu um breyt. á sömu lögum, er ekki lagt til, að þessu ákvæði, sem hér er til umr., verði breytt. Hins vegar kom hæstv. fjmrh. inn á þetta atriði laganna í ræðu sinni, þegar hann talaði fyrir stjfrv. og gat um það, að n. sú, er frv. samdi, hefði rætt um frádrátt einstæðra mæðra vegna frv., er var vísað til hæstv. ríkisstj. um það efni. Hæstv. ráðh. hafnaði ákvæðum þessa frv. á þeirri forsendu, að þar væri aðeins lagt til að auka frádrátt til einstæðra mæðra, en gengið fram hjá vanda einstæðra feðra og taldi, eins og rétt er, að aðstæður þeirra væru sízt betri en mæðranna. Það frv., sem hæstv. fjmrh. mun hafa átt hér við, var flutt árið 1969 af hv. þm. Pálma Jónssyni og Pétri Sigurðssyni.

En hefur löggjafinn lagt þennan vanda alltaf að jöfnu? Því verður að svara neitandi. Í lögum um almannatryggingar frá 1963 segir í 16. gr. með leyfi forseta :

„Barnalífeyrir er greiddur með börnum yngri en 16 ára, ef faðirinn er látinn eða örorkulífeyrisþegi“. Síðar í gr. segir: „Tryggingaráð getur ákveðið að greiða ekkli allt að fullum barnalífeyri, ef fráfall eiginkonu veldur tilfinnanlegri röskun á afkomu hans.“ Í 17. gr. þessara laga segir: „Mæðralaun skulu greidd ekkjum, ógiftum mæðrum og fráskildum konum, sem hafa börn undir 16 ára aldri á framfæri sínu.“ Er hægt að fá annað út úr þessu en löggjafinn líti svo á, að það þurfi ekki að vera tilfinnanleg röskun á fjárhagslegri afkomu heimilisins, þó að húsfreyjan falli frá? Heimilisstörfin eru þá svona metin og það af ráðamönnum þjóðarinnar. Þetta er svo furðulegt, að yfir það ná engin orð. En er það ekki fyrst og fremst þessi mismunun, sem hefur valdið því, hvað orðið er nú áberandi, hvað heimilisstörf eru vanmetin hjá þjóðinni, en slíkt vanmat getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir þjóðfélagið og því ber hv. Alþ. að grandskoða þessi mál, standa þannig að allri löggjöf, sem að einhverju leyti snertir þá þætti, sem varða heimilisstörfin, að engin hætta sé á, að löggjafaratriði geti stuðlað að þessu vanmati. Engum heilskyggnum manni ætti að koma það til hugar, að fjárhagslegt áfall fyrir hvert heimili sé minna, þó að húsfreyjan falli frá en húsbóndinn, og skiptir þar engu um, þó að húsfreyjan hafi eingöngu unnið heimilisstörfin. Ég þekki t. d. mann, sem missti konuna frá þremur ungum börnum. Hann varð að taka ráðskonu og þessi maður hefur ekkert fengið frá almannatryggingunum nema það, sem hann áður fékk, þ. e. a. s. fjölskyldubætur. Þetta var sæmilega stæður maður, átti t. d. íbúð, þegar hann missti konuna, en nú safnar hann stöðugt skuldum. Hefði þessi maður fengið það sama úr tryggingunum og húsfreyja, er missir mann sinn, þá hefði hann fengið í barnalífeyri með þremur börnum á ári 71646 kr. og mæðralaun 51756 kr. eða samtals 123400 kr. Þó að þessi greiðsla hefði ekki staðið undir þeim kostnaði, er heimilishaldið kostar, þá hefði hann þó munað töluvert um þessa upphæð.

Er nú ekki kominn tími fyrir konurnar að láta þessi mál meira til sín taka og krefjast þess, að einstæðir feður njóti sama réttar og þær í þessu og öðru tilliti? Heimilisstörfin eru ekki síður mikilvæg fyrir þjóðfélagið en önnur störf, og því verður hér að ráða bót á án tafar. Frv. hæstv. ríkisstj. gerir ráð fyrir að skerða þann frádrátt, sem giftar konur hafa fengið, sem vinna utan heimilis. Þar er gert ráð fyrir, að þessi frádráttur geti aldrei orðið hærri en hálfur persónufrádráttur hjóna, sem þýðir það, að þær mundu nú fá í frádrátt allt að 94 þús. kr., ef frv. verður lögfest. En ef frv. okkar hv. 5. þm. Austf. yrði samþ., þá mundu einstæðir foreldrar með 2 börn fá svipaðan frádrátt eða 91 þús. 460 kr. Ég vona, að allir hv. alþm. verði mér sammála um það, að hér sé mál á ferðinni, sem ekki er hægt að komast hjá að lagfæra. Vonast ég því til, að frv. fái fljóta og jákvæða afgreiðslu.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.