18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í C-deild Alþingistíðinda. (3137)

209. mál, hefð

Flm. (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Sunnl. að flytja hér frv. um breytingu á lögum um hefð, sem eru orðin allgömul eða allt frá árinu 1905. Frv. þetta er ekki mikið að efni eða flókið og þarfnast ekki langrar framsögu. Það felur í sér þá breytingu eina á þessum lögum, að hefð verði eigi unnin á búpeningi. En eins og kunnugt er, þá getur í vissum tilvikum unnizt hefð á lausafjármunum eftir 10 ár, en á fasteignum eftir 20 ár samkv. þessum lögum. Í grg. frv. er að því vikið, að búfénaður sá, sem gengur laus í högum og afréttum, er í meginefnum markaður og helgast eigendum sínum í samræmi við það. Hefur svo verið frá ómunatíð, eða svo lengi sem heimildir geta um og a. m. k. frá því er Jónsbók tók gildi árið 1281.

Þá er einnig í grg. að því vikið, sem ókunnugir mundu ætla, að ekki væri algengt, að við skil á búpeningi verða stundum mistök. Það er algengast við skil á hrossum, enda þau ekki ævinlega jafnvandlega markskoðuð eins og tíðkast um sauðfé. Það ber því nokkuð oft við, að bændur heimta skepnur sínar eftir nokkur ár, þótt þær séu með þeirra glöggu og réttu marki. Flm. telja óeðlilegt, þótt skepnur séu með þessum hætti í vörzlu eins og sama manns fullan hefðartíma lausafjár, að unnizt geti á þeim hefð. Þar með er stefnt að því að greina á milli lifandi penings og dauðra hluta. Flm. álíta, að mark eigi að helga eiganda sínum búfé, enda þótt einstakar skepnur hafi verið í vörzlu annars manns í fullan hefðartíma eða hvað lengi sem um er að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta frv. mörg orð. Eftir því sem mér er kunnugt og okkur báðum flm., sem erum bændur og allmjög kunnugir viðhorfum bænda, a. m. k. í okkar byggðarlögum, þá eru slík ákvæði í lögum talin óeðlileg, og stefnum við að því, að þau verði á brott numin og lögunum breytt í samræmi við það, sem frv. greinir frá.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.