18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 563 í C-deild Alþingistíðinda. (3138)

209. mál, hefð

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það sé öllum ljóst, að þetta frv. er til orðið vegna máls, sem ég þurfti að hefja, enda sagði hv. 4. þm. Norðurl. v. mér, að hann hefði geymt að leggja frv. fram þangað til málið var útkljáð, og samkv. því hefði þetta frv. aldrei verið lagt fram, ef ég hefði tapað málinu. Annars er við þetta frv. að athuga, að það er frekar klaufalega samið. Það á að bæta við 1. gr. laganna: „Hefð verður þó eigi unnin á búpeningi. Lög þessi öðlast þegar gildi.“ En nú er tvisvar a. m. k. talað um, að hefð gildi á lausafé, og svo á allt í einu að bæta við í frv. „hefð verður þó eigi unnin á búpeningi,“ þannig að í sömu greininni á að segja hvort tveggja, að hefð gildi á búpeningi og að hefð gildi ekki á búpeningi.

Nú hefur hv. þm. Eyjólfur Konráð sagt mér, að hann hafi vitað um þetta frv. Satt að segja hélt ég í fyrstu, að Eyjólfur Konráð hefði samið frv. En mér þykir þeir vera þunnir, sem útskrifast úr lagadeildinni, ef þeir geta ekki gengið betur frá samningu frv. Satt að segja er hálfgert til skammar fyrir þm. að flytja frv. sem þetta, það þarf að semja upp greinina, þar sem var talað um, að hefð gilti um lausafé. En að bæta þessu við yrði alger endurtekning. Það er ekki hægt fyrir mann, sem er útskrifaður frá Háskóla Íslands í lögum að standa á bak við svona vitleysu.

Ef þessir frændur mínir hefðu komið til mín og beðið mig að gera þetta, þó að ég sé nú ekki löglærður, þá hefði ég gert þetta sómasamlega. Þeir létu nú ekki svo lítið. Það er víst engin hætta á, að þetta frv. verði að lögum, enda hefur mér skilizt á flokksmönnum þessa hv. flm., — ég ætla nú ekkert að deila á flokksbróður minn, því að hann hefur verið narraður í þetta — að þeir muni ekki hafa verið hrifnir af flutningi þessa frv., og hafi ráðið flm. til þess að koma ekki með þetta. Annars er þetta skemmtilegt mál og þjóðin hefur haft ánægju án mikils kostnaðar af þessu hryssumáli.

Þegar þetta mál var dæmt í Hæstarétti, var dóminum skilað um það leyti, sem lokað var, kl. 5. Hann sagði mér, hæstaréttarritari, að það hefðu dunið hringingarnar allt kvöldið að spyrja og spyrja. Ég var hringdur upp og það var þá fréttaritari frá Mogganum og hann fór að spyrja mig, hvað ég vissi. Ég vissi ekki neitt, því að ég hafði ekki fengið dóminn. Ég vissi hins vegar, að ég mundi vinna þetta mál. Fréttaritarinn birti þetta hlutlaust í Mogganum. En svo var komið annað hljóð í strokkinn daginn eftir. Þá kom mynd af Skjónu og smáillkvittni neðan við. Ég sá, að frændi minn, Eyjólfur, mundi vera búinn að stinga penna niður. Og svo skeði einnig þetta kvöld, að það var hringt beint í hæstaréttardómara. Og hæstaréttarritari sagði mér, að það hefði aldrei komið fyrir fyrr, að hæstaréttardómarar væru ónáðaðir af kvöldinu, þannig að hér virðist eigi vera um smámál að ræða.

Það lá alltaf grunur á, að þessir þm. stæðu eitthvað á bak við þann félagsskap, sem stóð að þessu hryssumáli, því að þetta var smáfélag fyrir norðan. Svo hafa þeir verið að smáskríða út úr skugganum. En svo hlaupa þessir herrar illilega á sig að fara að koma með þetta frv., eins vitlaust og það er, því að þar með koma þeir því upp um sig, að þeir hafi alltaf staðið á bak við þetta mál, alltaf staðið á bak við þetta þokkamál. Og þeir losna aldrei við það, þeir bera þetta í frakkavösunum alla tíð, svo að það eru ekki undur, þó að þeir væru áhugasamir. Þetta er heimska, og satt að segja hélt ég, að Eyjólfur Konráð væri ekki svona mikill ættleri, því að ekki mundi gamli Meingrundar-Eyjólfur hafa hlaupið svona á sig. En það fer ekki öllu fram. Ég hefði gefið þeim mörg heilræði, ef þeir hefðu leitað til mín í þessu máli, a. m. k. haft frv. þannig, að það væri ekki til skammar að flytja það.

Viðvíkjandi þessu hryssumáli, úr því að farið er að koma með það inn í þingið, sem vafalaust er nú til að auglýsa málið, þá skal ég gera þeim þá ánægju að ræða það lítillega, því vilji menn rassskella sjálfa sig, þá er sjálfsagt að lofa þeim það — annars ætlaði ég ekki að ræða þetta mál meira. Þó skal ég minnast á örfáa punkta í þessu máli. Annars er nú búið að skýra þetta mál vel.

Hryssan var misdregin 1967 og ég vissi ekkert um það fyrr en mánuði síðar. Þá voru þeir að undirbúa málið. Satt að segja hélt ég, að hryssan hefði verið dregin í mín hross, en það var ekki. Það var skemmt mark á hryssunni, eins og oft kemur fyrir. Ég hygg, að á stóðhrossum detti oftast ofan af fjöðrum, a. m. k. eins oft, og ef illa er markað í byrjun, þá geta mörk aflagazt. Þetta vita allir menn, sem hafa eitthvað fengizt við hross. Og þetta er ekkert nýtt. Ég hef oft fengizt við að rétta stóð og oft verið réttarstjóri. Það var alltaf tekið gilt, ef menn þekktu fullorðin hross og tveir menn báru það, meira að segja ómörkuð hross eru afhent, ef einhverjir tveir menn þekkja þau, og aldrei hafa orðið deilur neinar úr þessu. En þarna var einhver Meingrundarstefna komin í hlutina, þannig að það gilti ekki, þó ég kæmi með nóg vitni. Satt að segja ætlaði ég aldrei í mál og bað um innsetningargerð og talaði um það við sýslumanninn að koma vitinu fyrir þá, sem höfðu hryssuna. En annaðhvort vildi hann það ekki eða a. m. k. var það ekki gert. Satt að segja er Jón í Öxl bezt viti borinn af þeim, sem stóðu bak við þetta mál, því að í því eina skjali, sem hann samdi sjálfur, segir hann ekkert um það, hvort hann eigi hrossið eða ekki, og Jón hefur aldrei sagt, að hann ætti hrossið, heldur hefur hann þumbazt við að afhenda það. Og í öðru lagi hafði hann vit á að þegja yfir því, að það fannst dautt tryppi á því svæði, þar sem Jóns hross áttu að vera árið 1951. Málaflutningsmaður hans skýrði frá þessu. Jón var búinn að segja mér, að hrossið hefði fundizt framan við Sauðadal árið 1951, en hann sagði það ekki í sinni grg., þannig að ég gat ekki sannað það. Þá hjálpaði upp á sakirnar Halldór nokkur á Leysingjastöðum og skýrði rækilega frá þessu. Við vitnaleiðslur lýsti Jón því yfir, að skjótt tryppi hefði fundizt dautt frammi á Sauðadal árið 1951. Það vildi svo vel til, að ég gat sannað það, að mín meri var ekki fædd fyrr en 1952. Sýslumaður Húnavatnssýslu sagði, að það hefðu orðið skipti í réttunum á tryppum, en ég átti bara ekkert skjótt tryppi þá, því að þessi hryssa, sem um er deilt, er fyrsta brúnskjótta hryssan, sem ég hef eignazt í mínum búskap, og ég leiddi vitni að hvoru tveggja, þannig að það var útilokað, að það hefðu getað orðið skipti. Tryppi Jóns fannst frammi á Sauðadal 1951, það er hér í skjölum hjá mér og get ég lofað hv. flm. að sjá það, fyrst hann er að hafa fyrir því að koma með heilt frv. út af þessu, — það er velkomið að lofa honum að sjá það. Það er ómögulegt, að verði skipti á dauðu hrossi og ófæddu hrossi, það getur ekki átt sér stað. Þetta vissu hinir virðulegu dómarar, sem dæmdu í málinu, að þetta gat ekki átt sér stað, þó að Ísberg sýslumaður ályktaði þannig. Það út af fyrir sig sannaði algerlega, að Jón í Öxl gat ekki átt þessa meri.

Fjögur vitni bera það, að ég hafi alltaf átt þessa hryssu. Þrjú eru nágrannar mínir. Elzti krakkinn minn þekkti hana alltaf síðan hún var folald og ég lét þessa dóttur mína segja frá því nákvæmlega eins og hún sagði mér það, því að það var svo vel sagt hjá henni. Og svo þekkti vetrarmaðurinn, sem var þá hjá mér, og bar það, að hryssan hefði verið folald 1952–53, ég hef hér eiginhandar yfirlýsingu frá vetrarmanni mínum. Ég hef aldrei heyrt nokkurn mann vefengja hann. Nú vil ég lofa hv. flm. að heyra það:

„Ég undirritaður lýsi hér með yfir, eftir að hafa séð brúnskjóttu hryssuna, sem þeir deila um, Björn Pálsson og Jón í Öxl, að ég álít það vera sömu hryssuna og var folald á Ytri-Löngumýri veturinn 1952–1953, en þennan vetur var ég vetrarmaður hjá Birni Pálssyni.“

Þessa yfirlýsingu vildi hann ekki gefa mér fyrr en hann var búinn að sjá hryssuna. Hann var að byggja hús á bæ, þar sem hryssan var í haust, og sá hana þá hvað eftir annað. Ég hygg, að það vefengi enginn þennan mann. Staðreyndin er því sú, að þarna átti að fremja heldur óþrifaverk, álykta, að það hefðu orðið skipti á dauðu hrossi og ófæddu hrossi, vafalaust mér til ófrægingar. Annars er mörgum ekki grunlaust um, að frændi minn, Eyjólfur Konráð, hafi ætlað að ríða þeirri skjóttu til þings á n.k. sumri. Út af fyrir sig hefði ég ekkert verið á móti því að gera honum einhvern greiða með hrosslán, en ég vildi þá láta fara öðruvísi að því en þetta. Vera má, að þeir hafi ætlað að tvímenna á henni, Pálmi og hann, einhvern veginn í félagi, og ég skil vel, að þeir séu sárir yfir því að hafa dottið af hryssunni.

Ég get lesið mörg fleiri vottorð, en ég vil ekki vera að tefja umr. á því, þar sem þeir vitna, að ég hafi alltaf átt þetta hross. En hins vegar vil ég nú ekki ganga fram hjá því að koma með sannanirnar, sem þeir þykjast hafa, og þá er það aðeins markið, því að það er einskis vert, sem Halldór á Leysingjastöðum fullyrðir viðvíkjandi þessari hryssu og aðrir, sem aldrei hafa séð hana. Það er rétt að taka það fram, bændum í Sveinsstaðahreppi til heiðurs, að þeir sögðu ekki annað en satt í þessu máli og enginn vitnaði það, að Jón ætti þetta hross, sem um er talað, heldur að Jón hefði átt skjótt tryppi í kringum 1950. Það var öll vitnaleiðslan. En Halldór á Leysingjastöðum sá aldrei þetta brúnskjótta tryppi Jóns í Öxl og ekki heldur Pálmi á Akri, þannig að þegar þeir eru að tala um þetta, þá vita þeir ekkert, hvað þeir eru að segja. En aðalatriðið er þetta, að ég hef sannað með vitnum, að ég hef alltaf átt þetta hross og þetta eru alls 5 vitni, fleiri þekkja ekki mín hross. Það eru nágrannar mínir, sem þekkja þau og það eins vel og ég, þó að ég sé glöggur, og ég sannaði líka, hvenær þessi hryssa var folald og gekk þá með móður sinni — enda víkja dómararnir ekki að því, að Jón í Öxli geti átt þessa hryssu. Hitt er svo annað mál, að markið var skemmt og þess vegna var ekki auðvelt að dæma mér hana skilyrðislaust eftir markinu. En nú er alveg sjálfsagt að lofa ykkur að heyra marklýsingarnar, því að það er eiginlega merkilegasti hlutinn í öllu málinu, þessar snilldar marklýsingar.

Marklýsingin fyrri, sem Jón Ísberg framkvæmdi og skrifaði fyrstur manna undir og ég ætla, að hann hafi samið sjálfur, og hann var mér ekkert sérstaklega vilhallur í þessu máli, hljóðar svo, það er deilt um vinstra eyrað, hvort þar er vaglskora eða fjöður: „Aftan vinstra er vaglskora nú,“ takið eftir, aftan vinstra er vaglskora nú „og ber markið ekki þess merki, að fjöður hafi kalið eða markið skemmzt af mývargi.“ Það er sem sagt fullyrt, að það er vaglskora nú, það er nú auðvitað óþarfi með núið, og það ber ekki þess merki, að það hafi kalið eða skemmzt af mývargi. Svo bætir hann við: „Hins vegar er ekki hægt að fullyrða um, hvort fjöður hafi kalið eða ekki.“ Þarna er maðurinn tvísaga, algerlega. Það er, að fjöður hafi verið mörkuð en skemmzt, en eins og markið er nú, er það vaglskora. Í forsendunum fyrir úrskurði sínum talar Jón Ísberg bara um fyrri hlutann, en ekki um síðari hlutann. Það eru lærðir menn, sem skrifa undir þetta, ég held, að það hafi verið þrír háskólaborgarar, og í 4 línum eru mennirnir tvísaga. Þeir segja fyrst, að það beri ekki þess merki, að það hafi kalið. Hins vegar sé ekki hægt að fullyrða um, hvort fjöður hafi kalið eða skemmzt. Með þessu er ekkert sagt. Það er ekkert fullyrt um það, þannig að þetta mark getur ekki ráðið neinum úrslitum. Nágrannar mínir skoðuðu einnig hryssuna. Ég bað þá að fara og skoða hryssuna, skoða markið, og þeir þekktu líka hrossið, svo að ég bað þá að athuga þetta og þeir lýsa því þannig: „Blaðstýft framan og líkast fjöður aftan vinstra.“ Blaðstýfinguna er enginn ágreiningur um, og líkast fjöður aftan vinstra. „Þess má geta, að ef fingri er strokið niður hægra eyra aftanvert, verður maður var við missmíði á eyranu. Um undirben á vinstra eyra gegnir því máli, að glögglega finnst fyrir broddi fremst á undirbeninni neðanvert. Við höfum aldrei séð vaglskoru á hrossi með þessu lagi, en hins vegar skemmdar fjaðrir.“ M. ö. o.: þeir votta, að þarna sé um skemmda fjöður að ræða. Enn fremur segja þeir: „Álit okkar er, að Björn Pálsson eigi hryssu þessa.“

Annar þessara manna hefur skoðað mörk ævinlega í stóðdrætti í minni sveit. M. ö. o.: Þeir bera, að þarna sé um skemmda fjöður að ræða, en hitt vottorðið, sem er nú eiginlega það eina, sem verulega er að marka, af dómkvöddum mönnum skulum við segja, þeir segja, að það geti vel verið skemmd fjöður, þannig að þarna er ekkert til þess að byggja örugglega á, að Jón í Öxl eigi hrossið. En þá er e. t. v. eftir það, sem er þýðingarmest og þeir byggja aðallega sína kröfu á. Það er síðari markskoðunin hjá sýslumanninum á Hólmavík. Ég lét þess getið við lögfræðinginn minn, að ég óskaði ekkert eftir frekari markskoðun, því að ég tók það fram, að það væri það langur tími liðinn á milli, að það væri vel hægt að breyta markinu, þannig að ég gerði ekkert með seinni markskoðunina. Í raun og veru ber þeim saman, nágrönnum mínum og Jóni Ísberg. Þeir verða raunar tvísaga, þeir síðarnefndu, en það kemur glöggt í ljós, að þeir fullyrða ekkert um, að það sé vaglskora. Það kemur glöggt fram veilan í því. Þeir, sem skoðuðu markið í seinna skiptið, virðast hafa verið mjög glöggir.

Hér er lýsingin: „Eyrun voru klippt og rökuð, þar sem vafi lék á marki. Hægra eyra er alheilt. Á vinstra eyra er markið blaðstýft framan, vaglskora aftan. Vaglskoran er frekar grunn, en ör er í framlengingu af þverskurði.“ Þetta er dálítið ólík marklýsing. Það er komið ör í framlengingu af þverskurði. Og nú er ekkert um, að það sé vaglskora. Nú er það alveg glöggt. „Tennur voru skoðaðar. Stjarnan í öllum framtönnum er orðin hringlaga og tennur mjög framstæðar. Slitflötur tannanna er orðinn jafnarma, þ. e. styttra bil er frá hlið til hliðar en framan frá. Bendir það til, að hryssan sé 17–20 vetra gömul.“ Þetta er að því leyti eftirtektarverð lýsing, að þetta kemur allt heim við það, sem ég segi. Það í raun og veru sannar allt, að ég eigi hryssuna. Takið eftir, þeir segja, að vaglskoran sé frekar grunn, það bendir eindregið til, að það hafi verið fjöður, því að vaglskoran er tekin dýpra inn og stærra mark yfirleitt. Fjöðrin hefur verið lítil, og broddurinn dottið af, en þegar þeir hafa sérstaklega orð á því, að vaglskoran sé grunn, þá bendir það til þess, að það sé skemmd fjöður. Aldur stemmir við mína hryssu, en eigi Jóns. Svo er ör í framlengingu á þverskurði, sem ekki var áður. Nú eru sumir, sem halda því fram, að örið sé síðan hryssan var folald og hnífurinn hafi gengið þarna inn. Ég hef oft skurslað mig og hefur aldrei verið 17 ár að gróa. Ég vildi því stinga upp á því við flm., að hann gerði skinnsprettu í eyrað á Halldóri á Leysingjastöðum og Eyjólfi Konráð og vita, hvort það verður 17 ár að gróa. Ef þeir eru grónir á 17 árum, þá er ólíklegt, að það hafi ekki einhver verið að fikta með hníf við eyrað á merinni einhvern tíma eftir að hún var folald. Auðvitað veit ég ekkert annað en þetta, — en því er marklýsingin ekki eins og hin? Ekki var ég við þessa marklýsingu. Þetta er bara önnur marklýsing. Það var nefnilega skemmtilegra fyrir þessa virðulegu flm., að þetta væri ekki lesið upp. Nú kemur hryssan heim til mín og ég ætla að fá nágranna mína til þess að líta á eyrað, hvort markið er nokkuð breytt frá því að þeir skoðuðu það.

Satt að segja þarf ég ekkert að verja. Það er búið að kveða upp dóm. Mér fannst rétt að skýra þessa punkta, úr því að þessir herrar voru að fikta við að koma með þetta frv. Raunar er þetta árás á dómstólana en ekki mig, því að ekki hef ég ráðið neitt um, hvaða dómar voru kveðnir upp. En það var sjálfsagt, úr því að þá langar til þess að flengja sjálfa sig, að benda þeim á þessi atriði. Það er m. ö. o. útilokað, að það geti hafa orðið hrossaskipti, því að meri Jóns var dauð ári áður en mín fæddist og marklýsingin er nú ekki sterkari en þetta. Og þeir geta athugað vísindalega um örið, hvort það tekur 17 ár, ef það kemur skinnspretta, að gróa. Það geta þeir gert á sjálfum sér, því að ég trúi eðlilega að þeir geti bezt gætt eigin eyrna, en ég fullyrði sem sagt ekkert um það. En mín reynsla er sú, að ef maður markar lamb að vorinu, þá sé það allt gróið að haustinu, og á hrossum grær þó fyrr heldur en á kindum, það er algengt t, d. með göt á eyra á hrossi, þegar markað er gat eins og stundum er gert, að þau brjóskfyllast. Það hefur oft komið fyrir hjá mér, að fjaðrir hafa gróið. Ég hef orðið að laga bita eftir hálfan mánuð á lambi. Ef það er tekið lítið inn í brjóskið, þá jafnar þetta sig undir eins.

Ég hafði ekki ætlað mér að vera neitt að ræða þetta mál meira. En ef þessir menn hafa ánægju af að gera sig að undri, þá er þeim ekki of gott að koma með þetta, því að það er meira en að efnislega séð sé frv. tóm vitleysa. Auðvitað dettur þinginu ekki í hug að vera að gera sig hlægilegt með því að samþykkja þetta. Það er svo fáránlega og bjánalega samið, að það er þeim til skammar, sem koma með það, og alveg furða, að lögfræðingur skuli standa á bak við flutning á svona bjánalegu frv.