18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í C-deild Alþingistíðinda. (3140)

209. mál, hefð

Flm. (Pálmi Jónsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Ég varð satt að segja nokkuð undrandi á ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Meginhluti hennar snerti í rauninni alls ekki það frv., sem hér er flutt, heldur var eins konar upplestur og túlkun hans á einstökum gögnum í hinu svokallaða Skjónumáli. Um þann hluta af ræðu hans ætla ég ekki að hafa nein orð önnur en þau, að mig undraði það þó mest, að hann skyldi koma með hálfgildings aðdróttanir hér í þingsölum um það, að marki merarinnar Skjónu, sem fræg er orðin um land allt, hefði verið breytt, eftir að hún kom úr hans umsjá. Læt ég það nægja.

Hann byrjaði sína ræðu á því að gera mér gersamlega upp orð. Hvergi í minni framsöguræðu minntist ég á Skjónumálið eða það, að ég hefði beðið með að flytja þetta frv. þangað til dómur væri í því fallinn. Hitt er svo aftur annað mál, að sá dómur Hæstaréttar er túlkun á þeim lagaákvæðum, sem frv. fjallar um.

Í annan stað minntist hann á það, að frv. þetta væri ruglingslega og vitleysislega samið. Það væri margtekið fram í þessum lögum, að hefð gæti unnizt á búpeningi og svo ætti að skjóta þarna inn á einum stað, að það skyldi ekki gerast, og furðaði hann sig mjög á því, að svo vitlaust frv. sem þetta skyldi lagt fram á Alþ. með tilliti til þessara orða hv. þm., þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa 1. gr. laganna, sem í frv. er gerð till. um breytingar á. Fyrsta gr. er svo hljóðandi:

„Hefð má vinna á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er getur verið eign einstakra manna, án tillits til þess, hvort hann var áður einstaks manns eign eða opinher eign.“ Við bætist, sbr. frv. okkar hv. 2. þm. Sunnl.: „Hefð verður þó eigi unnin á búpeningi.“

Það er hvergi í lögunum minnzt á búpening. Það er minnzt á hluti, hvort sem um er að ræða lausafé eða fasteignir. Og hingað til hefur það ekki verið skilið svo samkv. þeirri málvenju, sem ég þekki, að búpeningur væri hlutir. En það hefur nú samt verið þannig túlkað af Hæstarétti, að búfé falli undir þessa gr. laga, að það geti unnizt á hefð og í og með þess vegna er þetta frv. flutt, til þess að slíkir dómar, ef frv. verður að lögum, verði eigi kveðnir upp aftur.

Mér þykir það nú verra, að hv. 3. þm. Norðurl. v. skuli hafa horfið úr þingsalnum, en þá var hann með vangaveltur um það, að þetta frv. væri samið af hv. 10. landsk. þm., Eyjólfi Konráð Jónssyni, og skal ég nú ekkert vera að svara því. En ég hygg, að hvorugur okkar hv. þm. Ágústs Þorvaldssonar þurfi á aðstoð að halda við að semja frv. sem þetta, og ætla ég ekkert að segja um það frekar, en ég hygg, að það sé óþarfi að ætla frv. annað faðerni en það, sem fram kemur í þskj.

Annað var það nú eiginlega ekki, sem mér fannst máli skipta, sem fram kom í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Hitt er svo aftur annað mál, að hann má gjarnan mín vegna eyða tíma hv. Alþ. — fari það ekki þó fram úr hófi — í það að rekja málsgögn hins svokallaða Skjónumáls. Það mál er úr sögunni. Hv. þm. á Skjónu samkv. dómi Hæstaréttar, því verður ekki breytt og það hefur áreiðanlega enginn haft tilhneigingu til þess af þeim, sem hér eru inni, að hafa áhrif á gang Skjónumálsins, meðan það var til meðferðar. Ég held einnig, að það hafi heldur litla þýðingu fyrir afgreiðslu þessa frv., þó að hv. þm. lesi hér upp markadóma og önnur málsskjöl Skjónumálsins og túlkanir sínar á því efni.

Ég veit þó, að hann sagði eitt satt í sinni ræðu, og það var það, að ég hef aldrei svo ég viti til séð þetta fræga hross og engin afskipti af því haft.