18.02.1971
Neðri deild: 48. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í C-deild Alþingistíðinda. (3141)

209. mál, hefð

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það hefur fokið í vin minn og frænda, hv. 2. þm. Norðurl. v., Gunnar Gíslason. Ég var alls ekki að drótta því að honum, að hann hefði átt nokkurn þátt í þessu Skjónumáli, en hann finnur til með sínum, það er ekkert óeðlilegt. Ég ætlaði hinum þm. það ekki heldur, en mér virðist þessi frv. flutningur þeirra benda til þess, að þeim hafi verið þetta eitthvað afar viðkvæmt eða staðið eitthvað á bak við, og ég hygg, að fleirum en mér detti það í hug. Og satt að segja er ekki alveg laust við, að þetta mál hafi verið ofurlítið pólitískt rekið heima í héraði.

Viðvíkjandi því, að frv. sé dálítið klaufalegt eins og það er, þá held ég, að það sé alveg glöggt. Fyrri hluti laganna hljóðar svo:

„Hefð má vinna á hverjum hlut, jafnt fasteign sem lausafé, er getur verið eign einstakra manna, án tillits til þess, hvort hann var áður einstaks manns eign eða opinber eign.“

Búpeningur tilheyrir lausafé. Það er alltaf í öllum fornritum t. d., þegar talað er um lausafé, að það er búpeningur, og þannig ef lausafé á að standa, það er ekki ráðgert að fella neitt niður, þá verður það dálítið skothent. Og svo er þetta endurtekið víðar: „Skilyrði fyrir hefð er 10 ára óslitið eignarhald á lausafé.“ Það er ekkert minnzt á að fella þetta niður. „Nú hefur maður umráðum náð með glæp eða óráðvandlegu atferli, og má hann þá ekki hefð vinna,“ þannig að það þýðir það, að það er ekki hægt að vinna hefð, nema það sé rétt fengið. Það er ekki hægt að vinna hefð, nema það sé réttilega fengið. Við getum bara tekið land, það hafi gleymzt að gera kaupsamning eða þinglýsa landi, eins og getur viljað til, þá getur hefð ráðið úrslitum. Lögin eru tekin upp úr dönskum lögum og eru þrauthugsuð. Það er því tóm vitleysa úr hv. 2, þm. Norðurl. v., að mér bæri sérstaklega að fara að skipta mér af þessu. Hitt er annað mál, að það skipti engu, þó að engin hefðarlög hefðu verið til, ég hefði unnið þetta mál. Ég hafði alveg nægileg vitni, að ég hefði alltaf átt þetta hross, þannig að þau hafa ekki komið mér að neinu gagni, þessi lög.

Viðvíkjandi bitanum, sem séra Gunnar var að tala um, þá gat ég um það óbeint, þegar ég var að tala um það, að nágranna mínum hefðu fundizt vera missmíði á eyranu að aftan, þegar strokið var laust niður fingri. En það kom málinu ekki við viðvíkjandi deilu okkar Jóns í Öxl. Það var aðeins vaglskora og fjöður, sem þar réðu úrslitum. En markið var skemmt á hryssunni, ég hef aldrei borið neitt á móti því.

Það skiptir mig engu máli, hvort frv. er samþ. eða ekki. Það er eins og hver önnur vitleysa. Menn eru að hlaupa þarna með lagabreytingu inn í þrauthugsuð lög. Sendið frv. til umsagnar lögfræðinga og vitið hvað þeir segja. Þeir undrast þessa vitleysu. Það hefði enginn verið að orða þá við þetta mál, þessa þm. úr Norðurl. v., ef þeir hefðu ekki sjálfir gefið tilefni til þess með þessum tillöguflutningi sínum. Og þó að hv. 4. þm. Norðurl. v. talaði ekki beint um skjóttu hryssuna, þá vissu allir, hvað bak við lá. Þetta gerir hann í samræmi við sálufélaga sína fyrir norðan, sem hafa staðið að þessu hryssumáli.

Viðvíkjandi trassamennsku minni, þá hefur þetta nú allt saman flotið hjá mér, nokkurn veginn, þessi búskapur, — ég er náttúrlega ekki alltaf hlaupandi á eftir hverri einstakri skepnu, það hefði þá ekki gengið vel hjá mér búskapurinn. En að ég sé meiri trassi en aðrir, því læt ég ósvarað, a. m. k. slepp ég nokkurn veginn skaðlaus af þeim trassaskap.