04.03.1971
Neðri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í C-deild Alþingistíðinda. (3158)

227. mál, félagsheimili

Flm. (Daníel Ágústínusson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Austf., þeim Gunnari Gíslasyni og Vilhjálmi Hjálmarssyni, að flytja frv. til l. á þskj. 420 til breytinga á lögum um félagsheimili, nr. 107 frá 1970. Efni frv. þessa er frestun í 5 ár á þeim ákvæðum í 2. gr. laganna að láta 10% af tekjum Félagsheimilasjóðs renna í menningarsjóð félagsheimila, sem enn hefur raunar ekki verið stofnaður. Frv. þetta er borið fram í samráði við íþróttanefnd ríkisins og fræðslumálastjóra, en á þessum aðilum hefur framkvæmd laga um félagsheimili frá 1947 einkum hvílt. Það er skoðun þessara aðila, að ekki sé tímabært að skerða tekjur Félagsheimilasjóðs, hvorki í smáu né stóru, meðan fjárhagur sjóðsins er jafnbágborinn og raun ber vitni um. Með breytingu í maí 1970 á lögum um skemmtanaskatt og lögum um félagsheimili var gerð tilraun til að bæta stöðu Félagsheimilasjóðs nokkuð og stytta þann skuldahala, sem hafði myndazt á undanförnum árum. Samþykkt var, að Félagsheimilasjóður skyldi fá 88% af skemmtanaskattinum í stað 45% áður. En þess ber að geta einnig, að skemmtanaskattur af kvikmyndahúsum var stórlækkaður, svo að hækkun á árlegum tekjum Félagsheimilasjóðs mun ekki vera nema ca. 4.7 millj. kr. eða hækka úr 8 millj. í 12.7 millj. kr. Þar að auki var samþ. heimild til útgáfu á skuldabréfum. Geta þau flýtt nokkuð uppgjöri við félagsheimilin, en vextir af þeim falla á Félagsheimilasjóð og auka þannig verulega skuldbindingar hans og greiðsluskyldu. Verði tekjur sjóðsins skertar um 10%, eins og lög gera ráð fyrir, lækka þær um 1.3 millj. kr. eða í 11.4 millj., sem verður árlegur byggingarstyrkur til félagsheimilanna. Nú er eftir að gera upp við 70 félagsheimili og þar af 28, sem eru fullbyggð. Var skuld Félagsheimilasjóðs við hin einstöku félagsheimili 40 millj. kr. um síðustu áramót, og hafði þá verið greitt með skuldabréfum ca. 14 millj. kr., en þau verður sjóðurinn að greiða með venjulegum útlánsvöxtum banka á næstu 10 árum. Þá er vitað um 13 aðila, sem eru í undirbúningi á einhverju stigi með byggingu félagsheimila. Það er því augljóst mál, að verði ekki frekari fjárveitingar látnar ganga til sjóðsins, verða vanskil hans mikil á næstu árum og auk þess mikil verkefni óleyst í sambandi við nýbyggingar félagsheimila. Forráðamenn félagsheimila, sem árum saman hafa orðið að bíða eftir lofuðu framlagi sjóðsins, sem er 40% af byggingarkostnaði, telja það furðulega ráðstöfun að hlaupa með 10% af tekjum sjóðsins í allt önnur verkefni, nánast eins konar tilraunastarfsemi, sem alveg er óséð að hvaða gagni kemur, á meðan þörfin æpir á auknar greiðslur til byggingarframkvæmda. Ég skal láta það liggja á milli hluta að ræða um hinn svonefnda menningarsjóð félagsheimila. Þetta ákvæði er sett í lögin af hæstv. menntmrh. og vafalaust af áhuga hans fyrir auknu menningarlífi. Til þess liggja ákveðnar forsendur. Hér er ekki lagt til að fella umrædda lagagr. niður, heldur fresta framkvæmd hennar um tiltekið árabil af mjög brýnni þörf, sem ég tel mig hafa rökstutt fullkomlega hér að framan og einnig í grg. þeirri, sem frv. fylgir. Einhverjir munu kannske hugsa sem svo, að þessi 10% skipti ekki öllu máli fyrir Félagsheimilasjóð, en það er reginmisskilningur, 6.5 millj. kr. næstu 5 árin og hærri upphæð, ef sjóðurinn fær meiri tekjur en áætlað er, skiptir ekki stærri sjóð verulegu máli. Þessi upphæð ein veitir mörgum félagsheimilum úrlausn á hverju ári, sem getur komið þeim að ákaflega miklum notum. Þetta þekkjum við vel, sem höfum haft það hlutverk á undanförnum árum að gera till. um skiptingu á lítilli fjárhæð til margra aðila og reyna eftir fremsta megni að leysa vanda sem flestra. Þar hefur hver milljónin sannarlega komið í góðar þarfir. Við höfum enn hugsað í millj. en ekki milljónatugum. Ég vænti því fastlega, að frv. þetta nái fram að ganga á þessu. þingi og auk þess verði á næstu árum hægt að efla fjárhag Félagsheimilasjóðs svo, að hann geti á eðlilegum tíma greitt vanskil sín við mörg félagsheimili í landinu og auk þess stuðlað að byggingu félagsheimila, þar sem þeirra er þörf til viðbótar þeim, sem fyrir eru. Þrátt fyrir alla fjárhagserfiðleika sjóðsins fyrr og síðar hafa lögin um félagsheimili frá 1947 valdið algerum tímamótum í byggingum samkomuhúsa víðs vegar um landið. Það væri annar og lægri svipur á þeim, ef sú aðstoð hefði ekki komið, sem lögin veita, þrátt fyrir allan dráttinn á greiðslunum.

Herra forseti. Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að lokinni þessari umr.