08.03.1971
Neðri deild: 58. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (3165)

232. mál, lækkun tolla á heimilsvélum

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er um að lækka tolla á heimilisvélum, rafknúnum heimilisvélum. Á þeim er nú yfirleitt 80% tollur, sem er lúxustollur, en það er lagt til, að hann verði lækkaður í 30% og af varahlutum í 20%, en á varahlutum er tollur nú 50%.

Á undanförnum árum hafa átt sér stað nokkrar tollalækkanir, sem m. a. hafa gengið í þá átt að lækka tolla á vélum til atvinnuveganna, sem er eðlileg og sjálfsögð ráðstöfun, og mætti vissulega ganga lengra í þá átt, en svo er nú t, d. komið, að tollar á vélum til atvinnuveganna eru komnir niður í 7%, en á sama tíma eru tollar á rafknúnum heimilisvélum 80%. Það vita allir, að þessar vélar, heimilisvélarnar, eru fyrst og fremst til að létta störf þeirrar stéttar í þjóðfélaginu, sem kannske í reynd hefur lengstan vinnutíma og vinnur einna mesta vinnu, húsmæðranna, og það er ákaflega óeðlilegt, að þær vélar, sem þær nota, skuli ekki hafa fylgzt með þeirri þróun, sem hefur orðið varðandi tolla á vélum á undanförnum árum. Ég held, að þegar hv. þm. íhuga þetta mál, — og þeir eru áreiðanlega fleiri heldur en ég, sem skilja þá aðstöðu og þekkja þá aðstöðu, sem húsmæður hafa við að búa, — þá hljóti þeir að sannfærast um það, að rétt sé að láta þær vélar, sem húsmæður nota, fylgjast með í þeirri þróun, sem hefur átt sér stað á undanförnum árum, tollalækkuninni á vélum, og þess vegna vænti ég, að þetta frv. fái góðar undirtektir að þessu sinni. Það hefur áður verið flutt hér á Alþ. og ekki náð þá fram að ganga.

Ég vildi benda á það, að hér er ekki eins langt gengið í tollalækkunum eins og þegar atvinnuvegirnir eru annars vegar, þar sem tollurinn á vélum til þeirra hefur verið 7%, en ekki er lagt til, að tollurinn á þessum vélum lækki meira en niður í 30%. En þrátt fyrir það, að ekki fengist meira fram heldur en þessi lækkun, þá mundi hún muna mjög verulegu, m. a. vegna þess að ofan á tollana leggst 11% söluskattur, og þess vegna verður raunverulegur skattur, sem leggst á vélarnar, mun meiri heldur en þessi 80% tollur segir til um.

Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni. Ég leyfi mér að leggja til, að að umr. lokinni verði því vísað til hv. fjhn. d.