15.12.1970
Efri deild: 34. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

8. mál, virkjun Lagarfoss

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Till. og hugmyndir um virkjun Lagarfoss hefur nokkrum sinnum áður borið á góma bæði hér í þinginu og annars staðar. En þegar þar við bætist nú, að ástandið í virkjunarmálum Austurlands var orðið mjög alvarlegt, þá var það ekki nema að vonum, að rn. legði áherzlu á það við Rafmagnsveitur ríkisins að endurskoða fyrri áætlanir um virkjun Lagarfoss með það fyrir augum, að ef það sýndist hagkvæmt, þá yrði reynt að freista þess að fá samþykki til virkjunar á þessu þingi. Stjórn rafmagnsveitnanna ritaði svo, eins og fram kemur í aths. við frv., iðnrn. í sumar og taldi niðurstöður vera þær, að það gæti verið um hagkvæma virkjun að ræða, og lagði til: 1) Að aflað yrði lagaheimildar fyrir fullri stærð Lagarfossvirkjunar, eins og þar stendur. 2) Að undirbúningi 1. stigs virkjunarinnar yrði haldið áfram af fullum krafti. 3) Að stefnt verði að útboðum framkvæmda í tæka tíð fyrir hagkvæman innsetningartíma. Þegar þetta lá fyrir auk fleiri atriða, sem mæltu með málinu, eins og t. d. þær ráðagerðir rafmagnsveitnanna að vinna að því að byggja upp meiri markað fyrir rafmagn á Austurlandi, sérstaklega í sambandi við húsahitun, á meðan á virkjunarframkvæmdum stæði, þá var þetta frv. undirbúið, sem hér liggur fyrir.

Frv. hefur farið í gegnum Nd., og það má segja, að enginn ágreiningur hafi verið um frv. í sjálfu sér. Það komu fram hugmyndir um, að eðlilegt væri að hafa í því heimild fyrir sveitarstjórnir á Austurlandi til að gerast eignaraðilar að virkjun við Lagarfoss. Um það varð samkomulag í deildinni, að ég flytti brtt. þar að lútandi, en hins vegar var lögð áherzla á það af þm. Austf., sem ég átti viðræður við um málið, að það tefði ekki framgang málsins og virkjunarinnar og það kæmi ekki til fyrr en á síðara stigi málsins að hagnýta þá heimild. Ég held, að það sé alveg óhætt að fullyrða, að þessi breyting, sem gerð var á frv., eigi ekki að leiða til neinna tafa að þessu leyti.

Hins vegar þætti mér vænt um, ef þessi hv. d. gæti lokið málinu og þar með afgreiðslu þess í þinginu fyrir jólaleyfið. Það er að vísu óeðlilega langur tími, sem frv. er búið að vera til meðferðar í Nd., en það stafar, eins og ég sagði áðan, ekki af ágreiningi, heldur af öðrum ástæðum. Ég hygg, að það megi vænta þess einnig, að hér í þessari hv. d. þurfi ekki að verða ágreiningur um þessi heimildarlög, sem eru að öðru leyti svipuð öðrum heimildarlögum um virkjunarframkvæmdir, sem liggja fyrir þessu þingi og hafa áður legið fyrir þessu þingi, þótt stærðarhlutföllin séu eðlilega önnur. Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.