15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í C-deild Alþingistíðinda. (3184)

244. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. hv. 2. landsk. þm., Eðvarðs Sigurðssonar, vil ég taka undir það, sem hann gat um hér áðan, að einmitt vegna breytinga á lögunum, hefur það farið svo, að nokkrir aðilar hafa orðið út undan eða dottið niður á milli, eins og hæstv. félmrh. orðaði það. Enda þótt það sé rétt hjá hæstv. félmrh., að breyting sú, sem gerð var á lögum um verkamannabústaði geti orðið að miklu liði og þeir, sem byggja samkv. þeim ákvæðum, eru í raun og veru bezt settir, þá gildir það ekki um þá, sem lentu í því að vera byrjaðir og gerðu ráð fyrir því í sinni áætlun að njóta þessa 75 þús. kr. láns, en gátu það ekki af ástæðum, sem þeir gátu ekki alls kostar ráðið við. Það mundi því bæta þetta mál verulega, þó að ekki væri gert nema að framlengja þetta ákvæði til ársins 1971, að það gilti það ár, þá mundi þetta bil verða brúað. Ég vil því leyfa mér að taka undir ummæli hv. flm., hv. 2. landsk. þm., og treysta því, að hv. Alþ. taki þetta til athugunar og líti á það, að nauðsyn er a m. k. að framlengja þetta ákvæði, því að það er ekki fyrr en nú, að aðilar geta farið að byggja eftir ákvæðum um verkamannabústaði, því að yfirleitt koma þau ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1971. En margir aðilar gerðu ráð fyrir að njóta þessarar 75 þús. kr. lánsheimildar, sem var til staðar, þegar þeir byrjuðu sínar byggingaframkvæmdir, en eiga nú ekki kost á því, vegna þess að ákvæðið var fellt niður um síðustu áramót. Ég vil því mjög brýna það, hvort ekki væri hægt að ná samstöðu um það hér á hv. Alþ., þó að ekki væri annað heldur en framlengja þetta um eins árs skeið.