15.03.1971
Neðri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í C-deild Alþingistíðinda. (3185)

244. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Eðvarð Sigurðsson) :

Herra forseti. Örfá orð. Það er aldeilis rétt, sem hæstv. félmrh. segir, að samhliða því sem þessi ákvæði féllu niður úr lögum í fyrra, þá var einnig bætt verulega um lögin um verkamannabústaðina. En enda þótt þau lög eða sú breyting geti létt undir með mönnum í framtíðinni, þá er það engan veginn svo, að þau leysi þann vanda, sem ég hér áðan var að tala um. Sá vandi verður ekki leystur nema með því, að þessi ákvæði laganna verði framlengd, tekin upp að nýju eða annað jafngift komi þess í stað. Þeir menn, sem byrjaðir voru á íbúðum, þegar þessi breyting var gerð, höfðu ekki hugmynd um, að það væru uppi ráðagerðir um að fella þessi lán niður. Þessir menn urðu ekki til með sínar íbúðir lánhæfar í tæka tíð. Og eins er með þá, sem nú eru að byrja á íbúðum. Þeir eru einnig eins á vegi staddir að kaupa íbúðir. Lánin til þeirra, sem fá nú úthlutað, við skulum segja í janúarmánuði, lánunum eins og þau voru fyrir áramót, eitthvað 580 þús., ef ég man rétt, þeir fá sem sagt allverulega lægri lán, og meira að segja þótt þeir fengju þessi hærri lán núna eftir áramótin, þá fá þeir samt sem áður lægri lán heldur en þeir, sem fengu úthlutað í haust. Þetta er vandinn, sem þessir menn eiga við að stríða. Það er alveg óhjákvæmilegt að reyna að brúa þetta bil, sem þarna verður, með einhverjum hætti, með þeim hætti, sem þetta frv. leggur til, eða öðrum alveg jafngildum, brúa þetta bil a. m. k. þar til lífeyrissjóðirnir geta tekið til að lána mönnum. Það er alveg óhjákvæmilegt. Ef lífeyrissjóðirnir væru orðnir þess megnugir að lána mönnum einhverjar verulegar upphæðir eða þá mörgum smáar, skulum við segja, að gæti líka komið til mála, þá mætti kannske segja, að þessir menn væru eitthvað ofurlítið betur á vegi staddir. En eins og nú horfir við er alveg skilyrðislaust nauðsynlegt að bæta um fyrir þessum mönnum.