29.10.1970
Neðri deild: 8. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Frv. þetta er efnislega um það að lengja fresti, sem eru í l. um meðferð kjarasamninga opinberra starfsmanna. Út af fyrir sig er ég ekki andvígur því, að það sé gert, og er ekki kominn hér til þess að halda uppi neinu málþófi og sjálfsagt að athuga það, að málsmeðferð geti orðið á þann veg, sem hæstv. ráðh. hefur óskað eftir. En í sambandi við þetta mál hefði ég gjarnan viljað, að nánar væri skýrt frá stöðu þessara mála en gert er í aths. við frv. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Þar sem samkomulag hefur þegar orðið um nokkur höfuðatriði í væntanlegum kjarasamningi, standa vonir til, að samningar takist, en tími mun ekki vinnast til að ljúka samningaviðræðum fyrir 1. nóv. n. k.“

Hér er gefið í skyn, að samkomulag sé komið um sjálfsagt veigamikil atriði, og í blöðum hefur mátt lesa það, að samkomulag væri um, að laun opinberra starfsmanna kæmu til með að hækka að meðaltali um 33% og þetta hefði í för með sér útgjöld fyrir ríkissjóð, sem næmu um 600 millj. kr. á ári. Þessu hefur hvorki verið játað né neitað, og ég út af fyrir sig vil ekki fullyrða neitt um, hvort það er rétt eða ekki, sem þetta blað hefur skýrt frá, en það er náttúrlega augljóst, að hvort tveggja er, að hér er um efnisatriði að ræða, sem varðar náttúrlega mjög afkomu ríkissjóðs og einnig almennt stöðu launamála í landinu. Því er ég nú að óska eftir, ef ástæður stæðu þannig, að það væri eitthvað frekar hægt að skýra frá, hvernig staða málanna nú er.

Í þessu sambandi vil ég taka það fram, sem kannske er óþarfi að gera, að undanfarið og um alllangan tíma hafa farið fram viðræður milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj., fulltrúa ríkisstj., um dýrtíðarvandamálin, verðbólguvandamálin, þó að mínu viti hafi nú verið gert allt of mikið úr þeim viðræðum og í raun og veru almenningi gefið í skyn, að þar væru hlutir að fara fram, sem að mínu viti hafa verið málaðir allt of sterkum litum. Það hefur ekki svo mikið gerst í þessum viðræðum. En því hefur jafnframt verið lýst yfir nú síðustu daga, að ríkisstj. væri farin að nálgast að taka ákvarðanir í þessum efnum og a. m. k. þingflokkum stjórnarflokkanna sent málið mjög bráðlega og málið yrði lagt fyrir Alþ. og helzt afgreitt fyrir eða um miðjan nóv. að sögn hæstv. viðskmrh. hér í d. einmitt nú fyrir nokkrum dögum. Það þarf náttúrlega ekki að fara í neinar grafgötur með það, að þessar fyrirhuguðu aðgerðir feli í sér bættan hlut, hvað laun snertir, þess fólks, sem í sumar samdi um 15–18% kauphækkun. Það er þess vegna býsna fróðlegt að fá að vita, einmitt þegar mál öll standa eins og ég hef nú skýrt frá, hvernig önnur launamál standa. Það er fjarri mér að telja eftir, að opinberir starfsmenn fái bót sinna kjara. Þar eru sjálfsagt á mörgum sviðum umbætur nauðsynlegar eins og annars staðar í launamálum. Það ber engan veginn að skilja það svo. En ef fréttir viðkomandi blaðs, sem er dagblaðið Vísir, fyrir ekki löngu síðan, þær fréttir, sem ég gat um hér í upphafi máls míns, um u. þ. b. 33% hækkun á launum opinberra starfsmanna til viðbótar þeim 15%, sem þeir fengu jafnt verkfallsmönnum í vor, eru réttar, þá er náttúrlega alveg augljóst, að afgreiðsla launamála opinberra starfsmanna verður ekkert einangrað fyrirbæri og varðar því fleiri aðila en aðeins ríkisstj. og viðkomandi opinbera starfsmenn.