24.03.1971
Neðri deild: 68. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í C-deild Alþingistíðinda. (3222)

285. mál, eftirlit með skipum

Flm. (Haraldur Henrýsson) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér frv. á þskj. 572 til l. um breyt. á l. nr. 52 frá 12. maí 1970, um eftirlit með skipum. Svo sem fram kemur í grg. með þessu frv., flutti ég það á árinu 1968 ásamt Hjalta Haraldssyni, sem þá átti sæti hér á hinu háa Alþ. Á s. l. ári voru samþ. hér á Alþ. ný lög um eftirlit með skipum, en án þess að tekið væri tillit til þeirra sjónarmiða, sem fram koma í þessu frv., og tel ég það mjög miður, því að hér er um mikið öryggismál að ræða.

Hér er lagt til, að varðskip ríkisins geti haft uppi eftirlit á hafi úti með öryggisbúnaði skipa og siglingatækjum þeirra. Eins og nú er, eru aðalskoðanir framkvæmdar einu sinni á ári, og er mjög sjaldan um nokkrar aðrar skoðanir að ræða. Reynslan hefur margsinnis sýnt, að töluvert skortir á, að öryggisútbúnaður sé alltaf í lagi, einkum að því er varðar hin minni skip. Það mundi tvímælalaust vera aukið aðhald að því, ef varðskipunum yrði beitt hér til eftirlits. Aðstæður hér við land eru slíkar, að miklar kröfur verður að gera til skipa og alls búnaðar þeirra. En það eitt nægir ekki að gera kröfur og setja reglur, ef þeim er ekki hlýtt, svo sem oft hefur því miður komið í ljós og leitt af sér slys.

Ég benti á það hér í framsögu fyrir frv. þessu árið 1968, að við teldum sjálfsagt, að lögreglumenn athuguðu öryggisútbúnað bifreiða milli aðalskoðana og kærðu vanrækslu í þeim efnum. Mér sýnist ekki síður þörf á slíkum skyndiskoðunum á skipum, þar sem bæði er oftast um fleiri mannslíf að ræða og miklu meiri verðmæti. Auk þeirrar heimildar, sem í frv. felst til varðskipsmanna um skoðun á öryggisútbúnaði, felst einnig í því heimild til bráðabirgðaskoðunar, telji varðskipsmenn augsýnt af siglingu skipsins, að haffærni þess sé ábótavant eða hleðsla ólögleg. Fyrir nokkru var sett reglugerð um hleðslu skipa á síldveiðum, sem hlýtur þó að gilda almennt um hleðslu skipa. Þetta var ekki gert að ástæðulausu, því að menn höfðu ástæðu til að rekja mörg sjóslys beinlínis til ofhleðslu. Síðan reglugerðin var sett hefur töluvert verið um kærur að ræða fyrir ofhleðslu, en þó er ljóst, að þessar reglur eru enn brotnar mjög oft og á grófan hátt. Þannig birtust mönnum daglega dæmi slíkra brota nú fyrir skömmu, er loðnuveiðibátar komu drekkhlaðnir að landi, og var reyndar furðulegt, að rétt yfirvöld skyldu láta slíkt átölu laust og án þess að hafast neitt að. Ef ekki er tekið fast á þessum málum, er til lítils að setja um þessi efni strangar reglur.

Virkasta aðhaldið hér yrði eflaust það, að skipstjórar vissu, að varðskipa væri jafnan von til eftirlits á þessu sviði, og þannig er líka helzt stuðlað að því, að koma í veg fyrir tjón af brotinu. Ég tel, að varðskipsmenn eða yfirmenn varðskipa, sem mundu hafa yfirumsjón með þeim skoðunum, sem framkvæmdar yrðu, séu nú þegar fullfærir um að inna þessi verkefni af hendi. Þessir menn eru bezt að sér og lærðastir íslenzkra sjómanna um þau tæki, sem hér um ræðir, og meðferð þeirra. Það er hins vegar nauðsynlegt, að náið samráð verði milli Landhelgisgæzlunnar og siglingamálastjórnar um framkvæmd þessara mála og settar yrðu nánari reglur um framkvæmd þessa eftirlits og, ef ástæða þætti til, haldið námskeið fyrir áhafnir varðskipa til að gera þær hæfari til að sinna þessu verkefni.

Að lokum vil ég benda á það, að slíkt eftirlit og löggæzla á hafi úti er ekkert einsdæmi, og vil ég í því sambandi benda á bandarísku strandgæzluna, sem mér er tjáð, að hafi sig töluvert í frammi við eftirlit með öryggisútbúnaði skipa.

Ég vil að lokum, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.