02.11.1970
Efri deild: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í C-deild Alþingistíðinda. (3228)

60. mál, vegalög

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv., sem ég flyt hér ásamt hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Vestf., fluttum við einnig í fyrra, og það fjallar eingöngu um breytingar á tekjum sýsluvegasjóða. En í 19. gr. vegalaga segir, með leyfi forseta, að sýsluvegir megi eigi vera styttri en 200 m og eigi ná nær býli en 200 m. Hér gætir mikils misræmis, því að sá, sem býr við þá aðstöðu, að vegur hans er 399 m langur, verður að kosta allan veginn sjálfur, en hinn, sem býr við veg, sem er 400 m eða lengri, þarf aðeins að kosta 200 m vegagerð. En í mörgum tilfellum getur verið hér um allmikinn kostnaðarauka að ræða hjá þeim, sem býr við lengri veginn. En till. okkar fjallar um að jafna þennan aðstöðumun, og þetta virðist vera sanngjarnt, því að ég held, að þetta hafi í upphafi, þegar vegalög voru samin, verið mistök, sem ekki hefur síðan fengizt leiðrétting á. En við vitum það, að bændur landsins hafa í mörg horn að líta með framkvæmdir og því er hér um réttlætismál að ræða, sem er hyggilegra að sé kostað af fleiri aðilum en þeim einstaklingum, sem búa við þessa vegi. Ég hygg, að þeir, sem bera hita og þunga dagsins af sýsluvegasjóðunum, hafi síður en svo á móti því, að þarna komist á meiri jöfnuður heldur en nú ríkir samkv. vegalögum.

Önnur breyting í þessu frv. er um heimild fyrir einstakar sýslunefndir að ákveða hækkun á þeim vinnustundafjölda, sem tekjur sýsluvegasjóðanna byggjast á. En nú byggjast sýsluvegasjóðstekjurnar á andvirði þriggja stunda vinnu, en þarna er gert ráð fyrir því í frv., að sýslunefndir hafi heimild til þess að bæta við einum tíma, svo að miðað verði við 4 tíma, ef sýslunefndum sýnist svo. Í 21. gr. vegalaga segir, að hvert hreppsfélag greiði árlega í sýsluvegasjóð sem samsvarar andvirði þriggja dagvinnustunda fyrir hvern íbúa, miðað við kaupgjald í almennri verkamannavinnu hjá Vegagerð ríkisins. Hér í frv. er um heimild að ræða fyrir sýslunefndir, en eins og kunnugt er, voru sýsluvegirnir allmikið lengdir við síðustu vegalagabreytingar eða um 653.2 km og eru því nú 2795 km langir. En þetta hefur komið sér mjög illa, þar sem margir þessara vega voru ekki akfærir eða þurfa mikilla endurbóta við, ásamt þeim vegum, er fyrir voru í sýsluvegatölu, sem sumir í það minnsta voru ófærir með öllu. Nokkuð er þetta misjafnt hvað hinar einstöku sýslur þurfa að leggja í framkvæmdir á þessu sviði. T. d. ef maður tekur Gullbringu- og Kjósarsýslu, þá eru flestir eða allir sýsluvegir í mjög góðu lagi, enda tekjur þeirrar sýslu mun hærri en annars staðar, þar sem fólksfjöldi er þar miklu meiri. Ef maður tekur aftur N.-Þingeyjarsýslu, Strandasýslu og Rangárvallasýslu, þá hafa þessar sýslur allt upp í 200 km langa sýsluvegi, eins og ég áður gat um, og akbrautir sýsluvega eru mjög misjafnar. En ástæður fámennustu héraðanna eru miklu lakari til að rísa undir svo mikilli vegagerð heldur en þar sem meira fjölmenni er og sýsluvegir styttri. Því finnst mér eðlilegt að auka tekjur sýsluvegasjóðanna frá því, sem lög gera ráð fyrir nú, og frv. þetta fjallar um þá hlið vegamála eingöngu, sem snýr að sýsluvegum, og mundi, ef að lögum verður, bæta mikið aðstöðu þeirra héraða, sem verst eru sett á þessu sviði. En á hinn bóginn tel ég, að Vegasjóður muni ekki missa af miklum fjármunum vegna annarra vega, þó að þetta frv. verði samþ., því að hér getur aldrei orðið um nema frekar litlar upphæðir að ræða fyrir Vegasjóðinn á hans mælikvarða, en kæmi aftur hinum fámennu sýslum að verulegu gagni, þar sem fjárframlög þeirra mundu að sjálfsögðu hækka nokkuð, og þó fer það kannske eftir ýmsum öðrum aðstæðum heima fyrir í héruðunum. Það er alþekkt fyrirbrigði, að sýsluvegasjóðir eða sýslurnar hafa orðið að rísa undir mikilli vaxtabyrði á undanförnum árum til þess að ýta áfram því þjóðvegakerfi, sem er í hlutaðeigandi sýslum. Og ef hægt er að komast hjá því að greiða þessa vexti og taka þannig þátt í þjóðvegakerfinu, þá mundu útgjöld sýsluvegasjóða og sýslnanna sáralítið hækka frá því, sem verið hefur á undanförnum árum, og kannske lækka í sumum tilfellum.

Till. þessa ber ég fyrst og fremst fram að beiðni sýslunefndar Dalasýslu, en Dalasýsla hefur marga illfæra sýsluvegi að sjá um og með þeim framlögum, sem nú eru veitt í því skyni, mundi taka marga áratugi að byggja upp sýsluvegakerfið þar, auk þess sem mér er vel kunnugt um það, að Dalasýsla hefur haft í mörg horn að líta að því er varðar þjóðvegina og lagt fram árlega, í það minnsta síðasta áratuginn, stórar fjárhæðir í vexti vegna landsbrautanna.

Ég vænti þess, að hv. þm. geti orðið mér sammála um það, að nauðsyn sé á að auka fjárframlög til sýsluvega, og ég er til viðræðu, ef aðrar heppilegri leiðir finnast í því skyni, því ég tel þetta vera nauðsyn og höfuðnauðsyn fyrir sýslunefndirnar, sem eiga að sjá um þessa vegi og fjárframlög til þeirra, að aukið fjármagn fáist, svo að hægt sé að ráða bót á því ófremdarástandi, sem víða ríkir í sýsluvegum landsins.

Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til samgmn. og 2. umr.