04.11.1970
Efri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (3233)

79. mál, Atvinnumálastofnun

Flm. (Helgi Bergs) ; Herra forseti. Á þskj. 81 flytjum við allir þm. Framsfl. í þessari hv. d. frv. til l. um Atvinnumálastofnun. Frv. gerir ráð fyrir því, að það verði komið á fót Atvinnumálastofnun, sem hafi það hlutverk, sem grein er gerð fyrir í 2. gr. frv.:

Í fyrsta lagi að semja áætlanir til langs tíma um þróun atvinnuveganna og marka stefnu í atvinnumálum þjóðarinnar. Í öðru lagi að hafa forgöngu um gerð framkvæmdaáætlana á sviði atvinnulífsins, þ. á m. um atvinnuuppbyggingu einstakra landshluta. Í þriðja lagi að beita sér fyrir ráðstöfunum til að auka atvinnuöryggi í öllum byggðarlögum landsins og í fjórða lagi að hafa á hendi heildarstjórn fjárfestingarmála, þá einkum með því að setja um þau mál almennar reglur.

Hliðstætt frv. þessu var flutt einnig af öllum framsóknarmönnum í þessari hv. d. fyrir tveimur árum síðan. Hér er um að ræða eitt af þeim þingmálum, sem við höfum sett fram til að varpa ljósi á stefnu okkar framsóknarmanna í atvinnumálum, og við leggjum þess vegna mikla áherzlu á þetta frv. Þegar frv. þessu líkt var hér til meðferðar fyrir tveimur árum, var því vísað til hv. fjhn. Meiri hl. hennar, fulltrúar hv. stjórnarflokka í n., lögðu til, að frv. yrði vísað til ríkisstj. og var það samþ. í d., en minni hl. lagði til, að frv. yrði samþ. Rökstuðningur hv. meiri hl. fjhn. þá fyrir því að vísa þessu máli til ríkisstj. gaf til kynna, að vænta mætti þaðan nokkurra viðbragða. Í nál. meiri hl., þar sem lagt er til, að málinu sé vísað til ríkisstj., segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Allri fjárfestingu, sem einhverja þýðingu hefur, er í rauninni þegar „stjórnað“ í þeim skilningi, að í hana verður ekki ráðizt, nema til komi leyfi eða fyrirgreiðsla í einni eða annarri mynd frá einhverjum opinberum aðila. Eru engar líkur á því, að hér verði breyting á í náinni framtíð. Meiri hl. gerir sér vel ljóst, að sú víðtæka stjórn, sem hið opinbera þegar hefur á þessum málum, er ekki svo vel samhæfð og skipulögð, að tryggt sé, að sú fjárfesting, sem þjóðarbúskapnum má telja mikilvægasta hverju sinni, sitji í fyrirrúmi fyrir öðrum. Að því hefur þó verið unnið með margvíslegu móti í tíð núv. ríkisstj. að koma þessum málum í betra horf. Má þar nefna bæði hinar almennu framkvæmdaáætlanir og áætlanir um uppbyggingu atvinnuvega í einstökum landshlutum, sem nú er unnið að, Fyrir þessu þingi liggur einnig frv. um skipulagningu framkvæmda á vegum hins opinbera, og um s. l. áramót var komið á fót atvinnumálanefndum í einstökum kjördæmum, og er þar að nokkru komið til móts við hugmyndir, sem í frv. eru settar fram. En samt sem áður er þörf frekari aðgerða í þessum málum. Meiri hl. telur að vísu hæpið, að stofnun, sem skipuð er á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að Alþ. og ríkisstj. getur þar engin áhrif haft, sé falið svo víðtækt vald sem lagt er til samkv. frv. Engu að síður erum við þeirrar skoðunar, að æskilegt sé í þessum efnum sem víðtækast samstarf milli stjórnvalda og stéttasamtaka og annarra almenningssamtaka, er málin varða. Allar till., sem í þá átt hníga, teljum við því athugunarverðar og leggjum samkv. því til, að frv. verði vísað til ríkisstj.

Þessi rökstuðningur, sem ég hér hef lesið, er það jákvæður gagnvart þeim hugmyndum, sem í frv. koma fram, að ætla mætti, að hæstv. ríkisstj,. hefði séð ástæðu til að láta eitthvað frá sér heyra um þessi mál á því nærri tveggja ára tímabili, sem liðið er síðan þessu máli var til hennar vísað, en það hefur ekki verið og því þykir okkur tímabært að taka nú málið upp að nýju á hv. Alþ. Meginhugsun frv. er sú, að beitt skuli skipulegum aðgerðum til þess að auka framleiðni og bæta lífskjör og tryggja og treysta atvinnugrundvöllinn í landinu. Þeirri skoðun er nú að vísu hreyft nokkuð í seinni tíð, að sókninni til betri lífskjara geti nú farið að linna og í staðinn skulum við stefna að fegurra mannlífi, og kom þetta m. a. fram á nýafstöðnum fundi hjá Alþfl. Þessar hugmyndir heyrast nú erlendis, þar sem iðnvæðing er komin á miklu hærra stig en hér hjá okkur, þar sem atvinnugrundvöllur er miklu traustari en hér er. Hér hefur ekki verið afrekað því á undanförnum árum, að við getum talið okkur standa jafnfætis öðrum Evrópuþjóðum í því efni. Við eigum eftir hér mest af þeirri iðnvæðingu, sem aðrir hafa þegar lokið. Við megum ekki láta það blekkja okkur, þó að bætt aflabrögð um takmarkaðan tíma og hækkað verðlag á erlendum mörkuðum auki okkur tekjur. Við megum ekki túlka það sem varanlegan hagvöxt í okkar þjóðfélagi, og raunar get ég nú ekki séð, að það sé fólgin nein mótsögn í því, að menn vilji bæði leita eftir bættum lífskjörum þjóðarinnar og einnig eftir fegurra mannlífi. En nóg um það. Við hljótum hér um sinn að stefna að bættum og styrktum atvinnugrundvelli í landinu og bættum lífskjörum og aukinni framleiðni með þjóðinni. En með aukinni vinnuframleiðni skapast líka möguleikar til að fást við fjölbreyttari og fleiri verkefni. Ef vinnuframleiðni í landi hér eykst um 2% á ári, þá má gera ráð fyrir því, þar sem við höfum nú í atvinnu um 80 þús. manns í landinu, að á hverju ári verði um 1600 þeirra ofaukið við þau störf, sem þeir hafa unnið, og geti leitað sér nýrra starfa. En þar með er ekki allt sagt um það, hvað mikið þarf að skapa af nýjum störfum, nýjum atvinnugreinum, því að við þetta, sem var nefnt, bætist svo fólksfjölgunin í landinu. Fyrir nokkrum árum gerði Efnahagsstofnunin áætlun um það, hvað starfandi atvinnufólki, sem stofnunin kallaði svo, mundi fjölga í landinu á næstu áratugum. Þessi útreikningur á fjölda atvinnufólks var að vísu gerður á þann hátt, að það var aðeins farið eftir aldursflokkum og síðan tekinn hluti fólks í hverjum aldursflokki, sem áætlað var að byði sig fram til starfa á almennum atvinnumarkaði, en það var 60% unglinga á milli 15–19 ára, 90% karla milli 20–24 ára og 45% kvenna á þeim aldri, 97% karla á aldrinum 25–49 ára og 30% kvenna á þeim aldri og 95% karla milli fimmtugs og 69 ára og 30% kvenna á þeim aldri, þannig að þessi áætlun er að vísu nokkuð gróf, og má gera ráð fyrir því, að hún reynist of há, vegna þess að í framtíðinni muni kannske fleiri unglingar ganga í skóla heldur en nú gera og menn hætti störfum kannske yngri heldur en þeir nú gera. En eigi að síður gefur slík áætlun okkur verulegar bendingar. Samkv. henni er gert ráð fyrir því, að nú á árinu 1970 séu 82 þús. manns starfandi í atvinnu hér á landi. En á árinu 1980 verði sá fjöldi orðinn rétt um 100 þús. eða 18 þús. fleiri, og á árinu 1990 verði talan mjög farin að nálgast 120 þús. og á árinu 2000 verði hún orðin 146 þús. Af þessu sést, að fjöldi þess fólks, sem hér stundar atvinnu utan heimilis, mun vaxa um nálægt 2000 á ári hverju. Það er því alls ekki of í lagt, þótt fullyrt sé, að hér þurfi að skapast ný störf fyrir a. m. k. 3000 manns á ári næstu ár og áratugi. Við flm, þessa frv. erum þeirrar skoðunar, að það gerist ekki af sjálfu sér, heldur sé nauðsynlegt að marka atvinnuvegunum stefnu og gera áætlanir til langs tíma um uppbyggingu þeirra til þess að tryggja atvinnuöryggi þjóðarinnar til frambúðar. Í helztu atvinnugreinum okkar er, eins og nú standa sakir, vandséð, að mörg ný störf skapist á næstu áratugum í landbúnaði og sjávarútvegi. Til þess að svo mætti verða í landbúnaði þyrftu a. m. k. að skapast nýir markaðir, sem við nú ekki sjáum fyrir og má því eins vel gera ráð fyrir því, að fólksfjölgun í landbúnaði geti ekki orðið mikil, heldur megi eins vel vænta þess, að staðið verði nokkuð í stað, þar sem framleiðniaukningin í atvinnuveginum gæti mætt stækkun markaðarins vegna fólksfjölgunar í landinu. Í sjávarútvegi höfum við heldur ekki vald á að auka framleiðslu okkar verulega, því að þar ráða öfl, sem við ekki fáum stjórnað, eins og auðlindir hafsins, sem við að vísu getum haft áhrif á með því að haga skynsamlega sókn okkar í þær og með aðgerðum á alþjóðlegum vettvangi til verndar þessum auðlindum, en gera verður ráð fyrir mikilli framleiðniaukningu á sviði sjávarútvegsins, sem virðist ekki skapa aukið rúm fyrir mjög aukinn fólksfjölda ú því sviði, þó að iðnaður, sem byggist á sjávarafurðum, hafi þar að vísu sérstöðu og annað sé um hann að segja.

En því nefni ég þetta, að ég held, að það dyljist fæstum, að það hljóti einkum að falla í hlut iðnaðarins að skapa arðbær verkefni fyrir þá miklu fólksfjölgun, sem fram undan er á næstu árum. En í iðnaðarmálum er stefna okkar Íslendinga því miður mjög óljós. Við álítum, að þá stefnu verði að marka eins og raunar stefnu á öðrum sviðum atvinnulífsins. Því heyrist oft haldið fram og þá sérstaklega af þeim, sem eru ekki málunum mjög kunnugir, að stóriðja gæti verið ein meginuppistaða í iðnvæðingu landsins. Ég skal vera manna seinastur til þess að halda því fram, að orkufrekur iðnaður eigi ekki rétt á sér með þjóð, sem býr í landi mikilla orkulinda, eins og við gerum, en okkur er hollast á þessu sviði eins og öðrum að horfast í augu við staðreyndirnar eins og þær eru. Hvernig gæti sú stóriðja verið, sem við gætum byggt upp hér á landi? Ef við notuðum alla þá raforku, sem hægt er að framleiða hér í landinu og talið er, að hægt sé að framleiða á það hagkvæman hátt, að hún yrði nýtt í þessu skyni, þá mundum við geta framleitt um 20 þús. gígawattstundir á ári, en miðað við það að fyrir hverja kwst., sem seld yrði, fengjust 3 mill, sem er 20% hærra verð heldur en samið var við álverksmiðjuna um, þá mundu brúttótekjur af þessu nema 5.3 milljörðum kr. á ári. En sú fjárfesting, sem nauðsynleg væri í landinu til þess að nýta þetta, væru verksmiðjur, og ef draga má ályktanir af álverksmiðjunni, og það má vegna þess, að hlutföllin í þessum orkufreka stóriðnaði eru nokkuð svipuð, þá mundi þurfa að byggja verksmiðjur, sem kostuðu 75 milljarða kr., og virkjanir, sem kostuðu 30 milljarða kr., eða samtals nokkuð á annað hundrað milljarða kr. Ef menn minnast nú þess, að allur þjóðarauður Íslendinga eins og hann er í dag eftir nýja fasteignamatið er um 125 milljarðar kr. eða ósköp svipuð upphæð þessu og þar af er kannske um þriðjungurinn í atvinnutækjum, hitt í opinberum framkvæmdum og íbúðarhúsum, þá er hér um að ræða fjárfestingu, sem er þreföld öll sú fjárfesting, sem nú er í atvinnutækjum á Íslandi. Það er ljóst, að við Íslendingar ráðum ekki við slíka fjárfestingu dg að flytja inn fjármagn í svo stórum stíl, hvort sem væri sem áhættufé eða lánsfé, væri að sjálfsögðu að stefna efnahagslegu og þar með einnig stjórnmálalegu sjálfstæði þjóðarinnar í tvísýnu. Hvað hefðist svo upp úr þessu? Upp úr þessu hefðist brúttóútflutningur að verðmæti um 50 milljarðar kr. á ári, en af því yrðu aðeins eftir í landinu um 10 milljarðar kr., sem er greiðsla fyrir rafmagn, vinnuafl og skatta. Hitt færi annað. Þessi upphæð er aðeins um fjórðungur af núverandi þjóðartekjum Íslendinga, og við þetta sköpuðust störf fyrir um 10 þús. manns, sem aðeins er þriggja til fjögurra ára fjölgun á íslenzkum vinnumarkaði. Ég ætla ekki að fara frekar út í þetta eða ræða mikið um framtíð iðnaðarins, stefnuna í iðnaðarmálum og iðnaðaruppbygginguna, því að við höfum, nokkrir framsóknarmenn, flutt í hv. Sþ. till. um, að gerð yrði 10 ára áætlun um iðnþróun í landinu. Slíkt verkefni væri að sjálfsögðu verkefni þeirrar stofnunar, sem hér er flutt frv. um, ef hún hefði verið orðin til, en þar sem gera verður ráð fyrir, að þó að frv. þetta fengi vinsamlega afgreiðslu, þá hefði stofnun hennar nokkurn aðdraganda, þá þótti okkur ekki fært annað en leggja til, að þegar yrði hafizt handa um gerð þessarar iðnþróunaráætlunar. En hér er svo gert ráð fyrir því, að langtímaáætlanir verði gerðar í öllum atvinnuvegum þjóðarinnar, og þar sem slíkar áætlanir eru í eðli sínu þannig, að þær verða að vera í stöðugri endurskoðun, þá mundi það einmitt verða hlutverk þessarar stofnunar að hafa slíka stöðuga endurskoðunarmeðferð með höndum.

Samkv. 2. tölul. í 2. gr. frv. er svo gert ráð fyrir því, að gerðar séu framkvæmdaáætlanir innan ramma langtímaáætlananna, framkvæmdaáætlanir í atvinnuvegunum hliðstætt því, þó kannske nokkuð ýtarlegar, sem gert hefur verið fyrir opinbera „sektorinn“ í þeim framkvæmdaáætlunum eða drögum að framkvæmdaáætlunum, sem gerðar hafa verið öðru hverju á undanförnum árum. Framkvæmdaáætlanir eru að okkar viti mjög nauðsynlegar, og það kemur raunar fljótt í ljós, ef maður skoðar þær skýrslur um fjárfestinguna í landinu, sem fyrir liggja, að hún er ákaflega sveiflukennd. Ég er hér með fyrir framan mig tölur um fjárfestinguna í ýmsum atvinnugreinum sl. 11 ár og þar kemur í ljós, að það er ekki bara heildarfjármunamyndunin, sem sveiflast mjög frá ári til árs, frá því að vera eitt árið 23.6% af þjóðarframleiðslunni og upp í það að vera 36.5% af henni, án þess að um sé að ræða nokkrar óeðlilegar breytingar á þjóðarframleiðslu, sem við er miðað. Hitt er miklu augljósara, hve sveiflurnar eru miklar í einstökum atvinnugreinum og þá kannske alveg sérstaklega í fiskveiðum og fiskiðnaði. Þegar litið er á tölurnar fyrir þessar greinar, kemur í ljós, að mjög mörg undanfarin ár hefur fjárfestingin verið miklu minni en svo, að þar geti verið um að ræða eðlilega endurnýjun, ef miðað er við það heildarfjármagn, sem bundið er í þessum greinum, en aftur önnur ár er fjárfestingin kannske sexföld eða áttföld það, sem hún er, þegar hún er minnst.

Það er augljóst, að þegar fjárfestingin sveiflast þannig, þá er hún ekki byggð á neinum áætlunum, ekki byggð á neinu fyrir fram gerðu plani. Það er rokið til og ráðizt í fjárfestingu, þegar mönnum virðist það kleift, af því að það hefur skyndilega hlaupið á snærið og komið einhvers staðar peningur eða einhvers staðar tekizt að kría út lán. Það verður ekki annað séð en hér sé um að ræða „spekúlatíva“ fjárfestingu, sem tæpast getur verið hagkvæm miðað við hitt, ef hún væri gerð samkv. áætlunum, jöfn endurnýjun og jöfn aukning frá ári til árs. Við höfum dæmi um þessa ,,spekúlatívu“ fjárfestingu, sem ég hirði ekki um að telja mörg af, en ég vænti þess, að hv. þm. muni eftir því t. d., að fyrir nokkrum árum, þegar saltfiskframleiðslan var sem hagkvæmust í hlutfalli við aðra framleiðslu, risu upp í einum kaupstað hér söltunarstöðvar, sem urðu fleiri en bátarnir, sem þar lögðu upp. Slíkar fjárfestingar eru á margan hátt óhagkvæmar, þær eru oft verr undirbúnar en skyldi og það vilja allir hlaupa til í einu og keppa um þá takmörkuðu möguleika, sem fyrir hendi eru. Þeir möguleikar geta takmarkazt af mörgu, þeir geta takmarkazt af t. d. sérfræðingum, ef um sérstakt svið er að ræða og mörgu öðru, sem gerir það að verkum, að möguleikarnir eru takmarkaðir og margir, sem um þá keppa.

Frv. gerir einnig ráð fyrir því, að framkvæmdaáætlanir nái til atvinnuuppbyggingar í einstökum byggðarlögum, enda er í 3. tölul. 2. gr. gert ráð fyrir því hlutverki stofnunarinnar, að hún geri ráðstafanir til þess að auka atvinnuöryggi í öllum byggðarlögum landsins. Það er alkunna, að atvinnuöryggi er næsta lítið og hefur lengi verið næsta lítið í mörgum byggðarlögum þessa lands og raunar um hríð í landinu öllu. Atvinnuleysi er viðloðandi á mörgum stöðum, ekki sízt norðanlands og austan, og þegar verulega að kreppir, er oft reynt að bregða við með einhverjar skyndiráðstafanir til þess að leysa vandann. Slíkar ráðstafanir eru oft lítt undirbúnar, kannske vanhugsaðar, og koma sjaldnast að varanlegu haldi. Við viljum með okkar till. hér í þessu frv. leggja áherzlu á, að unnið sé skipulega að því að tryggja varanlega atvinnugrundvöllinn í öllum byggðarlögum landsins, og við teljum raunar, að það sé ákaflega mikið nauðsyn á því, að við reynum að gera okkur sem gleggsta grein fyrir því, hvaða atvinnurekstur á í framtíðinni að verða stundaður í einstökum byggðarlögum landsins. Ég geri ráð fyrir því, að fleiri en ég hafi orðið varir við þann vanda, sem arkitektar okkar og skipulagsfræðingar komast í, þegar þeim hefur verið falið að skipuleggja eitthvert þorp eða þéttbýlisstað og þeir spyrja: Hvaða atvinnurekstri eigum við að gera ráð fyrir? Þá hefur þeim sjaldnast tekizt að fá skynsamleg svör við því, enda ekki von, því að áætlanir um þau efni liggja yfirleitt ekki fyrir.

Nú er það ljóst, að við verðum í vaxandi mæli að leggja áherzlu á bætt skipulag í landinu, skipulagslöggjöf okkar nær aðeins til kaupstaða og þéttbýlisstaða, en auðvitað er óviðunandi annað en skipulagsstarfsemi nái til landsins alls, en hún verður að byggjast á atvinnupólitík og þess vegna verður að vera mörkuð stefna í atvinnumálum þjóðarinnar. Við leggjum því til, að í þessum efnum verði tekin upp ný vinnubrögð, skipuleg áætlunargerð til langs tíma eða framkvæmdaáætlanir til skemmri tíma og áætlanir um atvinnuuppbyggingu í einstökum landshlutum. Við leggjum hér, eins og ég hef verið að rekja, mikla áherzlu á áætlanagerð. En til hvers ætlum við að gera áætlanir? Ætlum við að gera þær okkur til skemmtunar, eins og þegar verið er að spá í spil, til þess að finna út, hvað framtíðin ber í skauti sér? Það er ekki. Við lítum ekki á þetta sem einhvers konar upplýsingaþjónustu um umhverfi framtíðarinnar, eins og veðurspá eða eitthvað því um líkt, heldur á hér að okkar dómi að vera á ferðinni skilgreining markmiða okkar, skilgreining þeirra markmiða, sem við stefnum að í atvinnumálunum og vörðun þeirra leiða, sem við ætlum að fara til þess að ná þeim markmiðum. Okkar skilningur er sá, að það sé nauðsynlegt að stýra þjóðfélagsmálunum eftir þeim áætlunum, sem gerðar eru. Þess vegna teljum við nauðsynlegt, að fjárfestingunni sé stjórnað, og raunar er það ekki orðið eins almennt véfengt eins og áður var, samanber þá tilvitnun, sem ég gerði hér í upphafi máls míns í nál. hv. meiri hl. fjhn. frá því í hitteðfyrra. En við teljum, að sú fjárfestingarstjórn eigi að fara fram með töluvert öðrum hætti heldur en gert var hér á árunum, þegar Alþfl. og Sjálfstfl. höfðu forustu í ríkisstj., á árunum 1947 og þar eftir í fjárhagsráði, sem þá var komið á fót, þegar þjóðfélagsþegnarnir urðu að mæta með umsóknir og beiðnir til þess að fá að gera sína hluti. Við ætlumst til, að það séu settar um hlutina almennar reglur í samræmi við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið, t. d. er í frv. gert ráð fyrir því, að það sé hægt að banna algerlega tiltekna tegund fjárfestingar, um takmarkaðan tíma eins og t. d. Svíar hafa gert og hefur reynzt þar vel. Ég geri ráð fyrir því, að þegar menn athuga, að á undanförnum 5 árum, á árunum frá 1965–1969, hefur fjárfesting í verzlunarbyggingum t. d. verið töluvert miklu meiri en í öllum fiskiðnaði, þá kynnu menn að geta sætzt á, að það væri ekki nein goðgá, ef nauðsyn bæri til, að dregið yrði úr þeim tegundum bygginga, enda nokkuð af þeim nú, sem standa tómar hér og þar.

Ég skal svo koma að því, hvernig við hugsum okkur stjórn þessarar stofnunar samkv. 5. gr. frv. Að vísu vil ég taka það fram, að okkur er það fyrirkomulag, sem þar er gerð till. um, ekki svo óskaplega fast í hendi, að við séum ekki reiðubúnir til þess að ræða um einhverja aðra tilhögun á því, ef mönnum þætti betur henta, en aðalhugmyndin er sú, að í stjórn þessarar stofnunar yrði vettvangur fyrir samstarf milli atvinnuveganna og ríkisvaldsins til þess að marka þá stefnu, sem þarf að marka í atvinnumálunum. Frv. gerir þess vegna ráð fyrir því, að í stjórn þessarar stofnunar sé þriðjungurinn frá ríkisvaldinu, kosinn af Alþ., þriðjungurinn frá atvinnurekendum og þriðjungurinn frá samtökum starfsmanna við atvinnureksturinn.

Það hefur víða um lönd, þar sem stofnanir af þessu tagi hafa verið settar á stofn, verið lögð megináherzla á einmitt að skapa samstarf þessara aðila um stefnumörkunina og áætlanagerðina. Ég hef nú því miður ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér eins vandlega eins og ég hefði viljað tilhögun slíkra mála í nágrannalöndum okkar, en það rifjaðist upp fyrir mér, að fyrir allmörgum árum kom hér norskur bankastjóri, sem flutti erindi um samstarf ríkisins og atvinnulífs í sambandi við stefnumörkun í atvinnumálum og áætlanagerð, og erindi hans var birt í Fjármálatíðindum. Það eru liðin 6 ár síðan, svo að þetta eru nú ekki nýjar fréttir, en samt ómaksins vert að rifja þetta aðeins upp. Það var dr. Lindebrække, norskur bankastjóri, sem flutti erindi um þetta í Háskóla Íslands sumarið 1964. Hann sagði þar frá ýmsum nefndum og stofnunum og ráðum í ýmsum löndum, sem sett höfðu verið á stofn til þess að auka samstarf atvinnuvega og ríkisvalds í þessu skyni og segir m. a. frá athugunum, sem norsk stofnun hafði gert um þetta, þar sem segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þessar athuganir sýna, að til eru í fjölda landa stofnanir, sem hafa þau verkefni að auka samstarf milli ríkis og atvinnulífs. Þetta á t. d. við um Holland, Frakkland, England, Austurríki og Danmörku. Og það á við um öll lýðræðislönd, að mikill áhugi er ríkjandi fyrir þeim vandamálum, sem hér er um að ræða, og víða áætlanir um að koma á fót hliðstæðum stofnunum.“

Síðan segir hann frá því, að norska ríkisstj. sé um þær mundir, þegar þessi fyrirlestur var fluttur, að koma á fót nefnd, sem á að hafa það hlutverk að setja fram skoðanir um eftirtalin atriði:

l. Aðalstefnuna í fjögurra ára framkvæmdaáætlunum, sérstaklega að því er varðar notkun hinna búskaparlegu gæða og forgang framkvæmda. Aðalstefnuna í þjóðfélagsframkvæmdum yfir enn lengri tíma.

2. Framkvæmd framkvæmdaáætlananna, þar með taldar nauðsynlegar aðgerðir til að tryggja framgang þeirra og nauðsynlegar endurskoðanir á áætlununum.

3. Aðalstefnuna í sérstökum áætlunum um einstaka þætti efnahagslífsins.

4. Þýðingarmikil undirstöðuatriði varðandi framkvæmdir á ákveðnum svæðum.

5. Framleiðnimál.

6. Stefnuna í efnahagsmálum og önnur veigamikil atriði við áætlanagerð til styttri tíma. Ráðið á að vera ráðgefandi, og álitsgerðir þess eiga að jafnaði að vera samþykktar einróma. Ráðið getur þó með 2/3 hlutum atkv. gert samþykktir, sem beint er til fjmrn. Sé um mismunandi álit að ræða, skal ráðið einnig gera grein fyrir minnihlutaáliti.

Hér virðist mér vera athyglisvert, hvað hlutverk þessarar nefndar eða ráðs er líkt því, sem við höfum gert ráð fyrir í Atvinnumálastofnuninni. Að vísu virðist mönnum kannske í fljótu bragði, að það sé nokkur munur á, þar sem þarna er um að ræða ráð, sem á að vera ráðgefandi, en Atvinnumálastofnunin í okkar frv. hefur hins vegar nokkuð víðtækt vald. Ég vil þó benda á, að því valdi eru þau takmörk sett, að það er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. leggi fyrir Alþ. til staðfestingar þær áætlanir, sem Atvinnumálastofnunin hefur gert og ætlar að vinna eftir. Hið raunverulega vald er þess vegna í höndum Alþ. eins og vera ber.

Þetta norska samstarfsráð, sem dr. Lindebrække var að segja frá og ég var að lesa upp áðan er skipað 21 manni. Af þeim eiga 5 að vera fulltrúar stjórnvalda, 5 fulltrúar rannsóknarstofnana, 11 eiga að vera fulltrúar atvinnulífsins. Af þessum 11 eru 5 fulltrúar iðnaðar, verzlunar, siglinga og lánastofnana í eigu einkaaðila, tveir eru fulltrúar landbúnaðar og sjávarútvegs, 3 norska alþýðusambandsins og einn fulltrúi frá norsku samvinnufélögunum. Hér er einnig athyglisvert, að þetta samstarfsráð, sem þarna er gert ráð fyrir, er eins og í okkar frv. að meiri hluta til skipað fulltrúum frá atvinnuvegunum, en einnig fulltrúum stjórnvalda og opinberra aðila. Þarna er lögð megináherzla á það, eins og við gerum líka, að skapa samstarfsvettvang fyrir fulltrúa atvinnulífsins og ríkisvaldið.

Það er skoðun okkar flm., að fram þurfi að fara endurskipulagning á því kerfi, sem nú er ætlað að hafa áhrif á fjárfestingu hér í landinu, þ. e. a. s. ýmsar stofnanir og þá fjölmörgu sjóði, sem veita fé til framkvæmda í landinu og áreiðanlegur maður sagði mér fyrir skömmu, að mundu vera a. m. k. 18, og við erum alveg sammála því, sem fram kemur í nál. fjhn. frá því í hitteðfyrra um það að það er mikil nauðsyn á því, að það fari fram nánari samræming, og þessi starfsemi eins og hún er nú er ekki svo vel samhæfð og skipulögð, eins og þar segir, „að tryggt sé, að sú fjárfesting, sem þjóðarbúskapnum má telja mikilvægasta hverju sinni, sitji í fyrirrúmi fyrir öðrum.“ Um þetta þykir okkur gott að vita, að hv. meiri hl. fjhn. er okkur sammála. Við teljum þess vegna, að þetta flókna kerfi þurfi að endurskoða með tilliti til þess að samræma það og sameina það, og þess vegna er ekki í okkar frv. gert ráð fyrir því, að sett yrði upp sérstakt nýtt skrifstofubákn fyrir þessa stofnun, heldur er í 6. gr. heimild fyrir stjórn Atvinnumálastofnunarinnar til þess að semja við starfandi ríkisstofnun um að annast skýrslu- og áætlanagerð og afgreiðslu mála fyrir stofnunina eftir nánari ákvörðun stjórnarinnar. Það er hins vegar ekki á þessu stigi farið frekar út í það, hvaða starfandi stofnun þetta skuli gera, því að við væntum þess, að það geti mjög fljótt orðið samkomulag um, að það yrði látin fara fram veruleg endurskipulagning á þessu kerfi, og þá kemur þetta líka til athugunar. Sú skipulagsstarfsemi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. er þess eðlis, að hún miðar að aukinni hagkvæmni. Hún miðar þess vegna að kostnaðarlækkun í þjóðfélaginu og sá kostnaður, sem gert er ráð fyrir, að af því leiði að setja þessa stofnun á fót, er í því sambandi algert aukaatriði.

Þetta frv. er, eins og ég gat um í upphafi, herra forseti, flutt til þess að varpa ljósi á stefnu okkar framsóknarmanna í atvinnumálum og fjárfestingarmálum. Við teljum ekki, að það eigi að láta kylfu ráða kasti um framtíðarafkomu þjóðarinnar. Ýtarleg áætlunargerð til stefnumörkunar og skipuleg framkvæmd þeirra áætlana er mesta nauðsyn okkar á þessu sviði nú um þessar mundir. Breytt stefna er þess vegna að okkar mati nauðsynleg til þess að tryggja sem beztan ávöxt af auðlindum landsins og vinnu og starfi þjóðarinnar.

Ég legg svo til, herra forseti, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.