04.11.1970
Efri deild: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (3235)

79. mál, Atvinnumálastofnun

Flm. (Helgi Bergs) :

Herra forseti. Það er nú liðinn fundartíminn og ég sé ekki ástæðu til þess að verða langorður af tilefni þess, sem hv. síðasti ræðumaður hefur sagt. En það væri nú algert vanþakklæti af minni hálfu, ef ég þakkaði honum ekki fyrir þann ágæta rökstuðning, sem hann flutti hér fyrir okkar frv., að svo miklu leyti sem hann er því sammála. Hann lýsti því, að hann fylgdi okkur hálfa leiðina. Að vísu, þegar þar var komið, urðu á vegi hans þær hindranir, að honum tókst ekki að fylgjast með okkur lengur, en það er vissulega nokkur freisting fyrir okkur að reyna að lækka þær hindranir, þannig að við gætum notið samfylgdar hv. þm. alla leiðina.

Mér er nú ekki alveg ljóst, hvað á milli ber í sambandi við það, sem hv. þm. sagði um stjórn fjárfestingarinnar. Það var ljóst, að við vorum sammála um það, að það væri nauðsynlegt að hafa stjórn heildarfjárfestingarinnar. En hvort það átti að vera heildarstjórn á fjárfestingunni. þ. e. a. s. stjórn á fjárfestingunni í öllum atriðum, — að því er ég skildi hv. ræðumann, var slík stjórn ekki fyllilega að hans skapi. Okkar meining er fyrst og fremst sú, að fjárfestingarstjórnin beini framkvæmdunum inn á þær brautir, sem þjóðfélaginu eru nauðsynlegastar, atvinnulífi þjóðarinnar og þjóðfélaginu í heild, og til þess virðist okkur nauðsynlegt, að stjórnin á fjárfestingunni nái til meira en heildarfjárfestingarinnar. Hún verður að ná til fjárfestingarinnar í hverri einstakri grein atvinnulífsins. En orðalag af þessu tagi, og náttúrlega innihald þess orðalags um leið, má að sjálfsögðu athuga betur í n., og ég er reiðubúinn til þess að ræða það nánar við hv. þm. á milli umr.

Hann kom svo að nokkrum atriðum, sem hann lýsti sig á móti, sem fælust í þessu frv., og sumt af því kom nú dálítið á óvart satt að segja. Hv. þm. taldi, að það væri ekki hægt að hugsa sér áætlanir til langs tíma. Þær hefðu reynzt illa, þær hefðu þróazt þannig annars staðar, þar sem þær hefðu verið reyndar, þær hefðu verið gerðar mjög lauslegar, vegna þess að annað hefði ekki reynzt kleift. Ég vil aftur minna á það, sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni, að aðaltilgangurinn með þessum áætlunum, sem við köllum til langs tíma um þróun atvinnuveganna, er einmitt að marka stefnuna í atvinnumálum þjóðarinnar. Mér er það ekki sérstaklega fast í hendi, að þær áætlanir, sem gerðar væru til langs tíma, væru mjög ýtarlegar eða þar væri farið niður í einstök smáatriði. Aðalatriðið er, að stefnan verði mörkuð og mörkuð nógu skýrt. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um það, að eftir því sem áætlanir eru gerðar til lengri tíma, þeim mun fleiri óviss atriði koma þar inn í og þeim mun lauslegri er eðlilegt, að áætlanirnar séu. En í þessu sambandi hlýtur maður líka að minna á það, sem ég gerði einnig grein fyrir í framsöguræðu minni, að áætlanir af þessu tagi og raunar allar áætlanir, — ekki bara þessar til langs tíma, heldur líka þær, sem gerðar verða til styttri tíma, — hljóta að verða í sífelldri endurskoðun í þeirri stofnun, sem hefði umsjón með þeim, og þess vegna held ég, að sé líka minni hætta á öðru, sem hv. síðasti ræðumaður setti fyrir sig, og það var það, að áætlunin yrði úrelt. Ég tók svo eftir, að hv. ræðumaður nefndi, að það kæmi fyrir, að einhverjar framkvæmdir, sem gert væri ráð fyrir í áætlunum, væru ekki lengur skynsamlegar, þegar að þeim væri komið. En slíkt koma menn í veg fyrir einmitt með því að hafa áætlanirnar í sífelldri endurskoðun.

Mörg af þeim atriðum, sem hv. ræðumaður gerði aths. við, eru þannig vaxin, að það má vel ræða og athuga, hvort sameiginlegur skilningur og grundvöllur finnst til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu. T. d. um fyrirkomulagið á stjórn og starfi stofnunarinnar, þar sem hv. ræðumaður virðist hafa skilið frv. og mig á þann veg, að við ætluðum að láta þessa nefnd, sem skipuð væri svona fulltrúum ríkisvalds og atvinnuvega, atvinnurekenda og starfsfólks atvinnuveganna, í rauninni gera áætlanirnar. Slíkt væri venjulega verk efnahagssérfræðinga. Auðvitað var það ekki hugsun mín og hefur aldrei verið, að nefnd svona skipuð færi sjálf að vinna þau verk, sem með eðlilegum hætti verður talið hlutverk sérfræðinga að vinna. Það er gert ráð fyrir því hér í frv., að stjórn Atvinnumálastofnunarinnar hafi yfirstjórn þessara mála, þ. e. a. s. hún marki stefnu, hún skeri úr um stefnuatriði, hvert halda skuli, en hún fái auðvitað þá sérfræðilegu aðstoð, sem þarf til þess að annast skýrslu- og áætlanagerð, Það er einmitt alveg tekið fram að það fái hún hjá stofnun, sem hefur sérfróðu liði á að skipa. Ég var nú ekki alveg sáttur við það, hvernig hv. þm. ræddi um Alþ. í sambandi við þá hugmynd, að þessar áætlanir hlytu þar staðfestingu. Ég viðurkenni að vísu, að ýmislegt er í störfum og starfsháttum Alþ., sem ég kynni að óska, að væri á annan veg, en að Alþ. sé ekki fært um að staðfesta áætlanir af þessu tagi alveg með sama hætti og það er fært um að gera fjárlög fyrir ríkisbúskapinn, það á ég nú erfitt með að fella mig við. En í rauninni er ekkert af þessu, sem ég hér hef verið að nefna í tilefni af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, nein aðalatriði í þessu máli.

Ég gerði grein fyrir því í upphafi máls míns, að flutningur þessa frv. af hálfu okkar framsóknarmanna er til að varpa ljósi á stefnu okkar í þessum málum, þá stefnu, að við viljum ekki sætta okkur við það að láta kylfu ráða kasti um það, hvernig atvinnulíf og framkvæmdalíf þessarar þjóðar þróast á næstu árum, heldur viljum við, að við tökum upp á því skipulega stjórn með þeim skynsamlegasta hætti, sem við getum komið okkur saman um. Það er auðvitað aðalatriði málsins. Og ég get fullvissað hv. síðasta ræðumann um það, að við erum ávallt reiðubúnir til þess að ræða við hann og aðra hv. þm. og aðra áhugamenn, sem kynnu að vilja við okkur ræða um hvers konar breytingar á fyrirkomulagi þessa, svo lengi sem við getum orðið sammála um aðalstefnuna, aðalmarkmiðin, sem við höfum fyrir augum með flutningi þessa frv.