11.11.1970
Efri deild: 14. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í C-deild Alþingistíðinda. (3258)

104. mál, Fiskvinnslustofnun ríkisins

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Ég mun hér í nokkrum orðum fylgja úr hlaði frv. mínu, 104. máli, um Fiskvinnslustofnun ríkisins. Raunar eru tvö hliðstæð mál komin fram í hv. Nd., þó að ekki sé alveg með sama hætti varðandi fyrirkomulag, en kjarni málsins er sá sami, þ. e. að settur sé á stofn fiskiðnskóli eða stofnun, er þjálfi menn í að verða fiskvinnslufræðingar, og fólk, sem vinnur við fiskvinnslu, fái aukna þjálfun og betri nýting verði á hráefninu.

l. gr. frv. segir, að sett skuli á stofn og starfrækt undir nafninu Fiskvinnslustofnun ríkisins margháttuð fiskvinnsla og hagnýting sjávarafla. Með minnkandi afla á undanförnum árum hafa menn komið auga á það, hversu nauðsynlegt er að leita að nýjum fisktegundum og jafnframt nýjum vinnslugreinum, og hefur árangur orðið verulegur. Má nefna stóraukna nýtingu á loðnu og skelfiski sem dæmi. Áður fyrr var aðeins veitt mikið af þorski, ýsu og karfa og síld. Þessar tegundir fisks báru uppi afla okkar og starfsemi, en sveiflur hafa átt sér stað, og þá fóru menn að huga að öðrum tegundum með ágætum árangri, og er nú svo komið, að útflutningsverðmæti þessara tegunda nemur mörg hundruð milljónum, og undrast sumir, af hverju við höfum ekki fyrr gefið þessum tegundum gaum.

Hlutverk fiskvinnslustofnunarinnar skal vera að annast margvíslegar tilraunir með vinnslu sjávarafurða og hagnýtingu þeirra ásamt því að þjálfa menn til verkstjórnar við alla fiskvinnslu og við mat á öllum sjávarafurðum og auka verklega kunnáttu fólks, er stundar vinnslu sjávarafla. Það má segja, að hér sé um þríþætt aðalverkefni að ræða: Það er að þjálfa menn til að annast verkstjórn og vera forstjórar í fiskvinnslu. Margir hverjir hafa lært þetta í skóla lífsins, og hann er ágætur út af fyrir sig. En aukin samkeppni og margt annað hvetur til þess, að menn séu þjálfaðir á sérstakan hátt til að stjórna fiskvinnslustofnunum, ekki síður en við verzlun eða iðnaðarfyrirtæki. Því er eðlilegt, að skipuleg þjálfun forsvarsmanna fiskvinnslustöðva sé tekin upp. Ekki er síður þörf á bættri þjálfun matsmanna á öllum sjávarafurðum. Það er því miður þannig ástand í dag, að það er skortur á vel þjálfuðum matsmönnum. Hér er um mikið vandamál að ræða. Þessir menn hafa yfirleitt fengið lélegt kaup og ótrygga vinnu, og verður hér úr að bæta. Margir matsmenn eru í dag jafnvel fyrrverandi skipstjórar eða yfirmenn á skipum eða verkstjórar í landi, ágætismenn, en vantar skipulega þjálfun, sérstaklega samræmingu í störfum, þannig að mat þeirra og störf séu sem jöfnust, hvar sem vera skal á landinu.

Langflestar afurða okkar eru seldar með þeim skilyrðum, að íslenzkt matsgildi ræður, og verð er miðað við gæðaflokka. Þó er síldin t. d. seld án þess að vera metin sérstaklega, heldur er hún tekin út og metin hæf eða ekki hæf. Sama gildir um hrogn, — þó að þau séu flokkuð í 1., 2. eða 3. flokk, þá gilda ekki um það ákveðnir gæðastuðlar. Persónulega tel ég þetta ástand óþolandi, og við vitum um það, að þegar mikið framboð er á vöru, hafa kaupendur eða fulltrúar kaupenda gengið á það lagið að pressa niður verðið, þótt um góða vöru sé að ræða. En væri hér fastur gæðastuðull fyrir hendi, eins og í freðfiski, saltfiski og skreið, ættu þeir þess ekki kost að pressa niður vöruverð í trausti þess, að nóg framboð sé, og við gætum jafnvel orðið í erfiðleikum með að afsetja framleiðslu okkar.

Stofnun, sem hér yrði sett á stofn, hefði mikið hlutverk, þar sem væri að tryggja hæfa menn til að meta afla okkar, og þegar hann er að verða kringum 10 milljarðar, þá er ekki litið í húfi, að vel takist til og matinu sé treyst og okkar afurðir hafi sem beztan orðstír á erlendum markaði, því að við vaxandi samkeppni er þar að etja.

Í 3. gr. er fjallað um það, að fiskvinnslustofnunin skuli í samráði við sölusamtökin eða sjálf leitast við að finna markað fyrir nýjungar í framleiðslu sinni. Það leiðir af sjálfu sér, að ekki er æskilegt að fara í margvíslegar nýjungar, nema markaður fyrir þær sé kannaður. Auðvitað þarf mismunandi mikið að leggja í slíkan kostnað, en til þess að hefja stórframleiðslu þarf að tryggja markað. Enginn framleiðir lengi án þess að eiga trygga sölu fyrir hendi. Sum sölusamtökin eru stofnuð beinlínis um ákveðna afurðategund og því varla við því að búast, að þau leggi í mikinn kostnað varðandi nýjungar, sem óvíst er að seljist. Því er lagt til, að hér sé um góða samvinnu að ræða milli fiskvinnslustofnunarinnar og þeirra sölusamtaka, sem eðlilegt væri, að hefðu með slíka sölu að gera.

Í 4. gr. er fjallað um stjórn stofnunarinnar. Það er með ósköp venjulegum hætti varðandi ríkisstofnanir, og þarf ekki að fjalla í löngu máli um það. Þó vil ég undirstrika, að ég tel rétt, að launþegasamtökin á því svæði, sem ég ætla stofnuninni að vera á, hafi rétt til að tilnefna 2 menn í stjórnina, vegna þess að hún mun starfa mjög í þágu launþegasamtakanna, og ekki er óeðlilegt, að þau fái að tilnefna 2 menn af 5 í stjórn undir þessum kringumstæðum. Aðrir tveir eru svo tilnefndir frá sjávarútveginum, annar frá öflunaraðilanum, en hinn frá sölusamtökunum og formaður yrði skipaður af ráðh.

5.gr. fjallar um, að Fiskvinnslustofnun ríkisins skuli annast fræðslustarf með margvíslegu móti, bókaútgáfu, námskeiðum, fyrirlestrum eða á annan árangursríkan hátt. Því miður er það staðreynd, að okkur hefur skort mjög bókmenntir um meðferð fisks og fiskvinnslu, og erum við þar eftirbátar annarra þjóða. Meira að segja Færeyingar hafa skákað okkur í þessu efni, að hafa góðar bókmenntir um meðferð á fiski og fiskvinnslu, og megum við þar gera mikið átak til bóta. Þó væri rétt að geta þess, að á s. l. vetri eða hausti kom út bók, bókin um fiskinn, sem var virðingarvert átak til þess að benda mönnum á góða meðferð á þessari vöru, og einnig hefur Fiskmat ríkisins gefið út smábæklinga í þessu efni, en samræmt átak og áróður vantar. Þarf að gera hér skipulegt átak, til þess að frá upphafi til enda sé farið eins vel með vöruna og unnt er. Það verður eitt af grundvallaratriðum svona stofnunar að hefja áróður í ýmsu formi í þessu efni, með útgáfu, námskeiðum og ferðalögum og með því að nota sjónvarp og nýjustu tækni til þess að hvetja menn til að vanda vöruna eins og verða má. Einnig er eðlilegt, að stofnunin veiti hagsmunaaðilum sjávarútvegsins upplýsingar og Verðlagsráði sjávarútvegsins, eins og það fer fram á.

Í 6. gr. er lagt til, að fiskvinnslustofnunin sé sjálfstæð stofnun með sér fjárhag, og þar legg ég til, að sérstakt útflutningsgjald verði innheimt af öllum sjávarafla, 0,25%. Þetta er ekki mikið gjald, þegar við höfum það í huga, að tilgangur þessarar stofnunar er gífurlega mikilvægur fyrir sjávarútveginn, og ef maður hugsar sér aðeins 1% nýtingarauka út úr hráefninu, þá skapar það marga tugi milljóna í auknu verðmæti, en þetta gjald mundi aðeins nema 2–3 millj. kr. á ári, og ég tel það eðlilegt, að sjávarútvegurinn leggi stofnuninni slíkt lið. En jafnframt geri ég ráð fyrir, að ríkissjóður komi á móti með rekstrartekjur, svo og að önnur gjöld fyrir stofnunina, svo sem skólagjöld o. fl., verði ákveðin nánar í reglugerð.

Það er von mín, þótt þetta sé með ákveðnum hætti sett fram af mér í þessu frv., að það fái hljómgrunn víðar, þar sem það er staðreynd, að menn úr öðrum flokkum hér á hv. Alþ. hafa lagt fram frv. hliðstæðs efnis, þó að það sé í annarri d., og við getum með þessu móti sameinazt um þessi grundvallaratriði, sem mikill áhugi ríkir um. Nauðsyn er að gera hér stórátak til betri meðferðar á fiski, aukinnar hagnýtingar og betri vinnslu, til þess að tryggja sjómönnum og þjóðarbúinu öllu hærra verð fyrir fiskinn og öruggari markaði. Ég held, að það beri ekki svo mikið á milli, að ekki væri hægt að sameina þetta og komast að æskilegri niðurstöðu og koma frv. í gegn á yfirstandandi þingi. Þá væri miklum áfanga náð. Það eru aðeins skiptar skoðanir, og það hefur staðið í vegi fyrir endanlegri mótun þessa máls, um það, með hvaða hætti fiskvinnslufræðslan á að fara fram. Ég held, að kjarni málsins sé sá, sem allir ættu að geta sameinazt um að leggja nógu mikið fjármagn í þetta og koma skólanum á stofn sem fyrst, og svo mun tíminn leiða það í ljós, hversu víðtæk starfsemin þarf að vera. Aðalatriðið er, að námskeiðin, sem haldin hafa verið á vegum Fiskmats ríkisins og Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins, hafa ekki leyst vandann, og úr því þarf að bæta. Hvar slík stofnun ætti að vera, má eðlilega um deila. Ég legg til, að hún verði í ákveðnu bæjarfélagi, vegna þess að það bæjarfélag á kost allan ársins hring á hinu ágætasta hráefni og liggur mjög vel við að öllu leyti. Einn flm. í hv. Nd. hefur bent á Vestmannaeyjar. Ekki skal ég draga úr gildi þess staðar, en samkomulag þarf að vera um að staðsetja stofnunina á því svæði, sem hefur möguleika á nægilegu hráefni allan ársins hring, góðu hráefni, annars er tilganginum ekki náð. Grundvallaratriðið er að sanna, að með góðri meðferð á fiski frá upphafi til enda næst hinn bezti árangur. Mikill áhugi er um allt land, að málið nái fram að ganga, og við þurfum að tryggja því framgang á yfirstandandi þingi. Ég tel þetta brýna nauðsyn og ég vænti þess, að hv. d. muni taka málið fljótlega til meðferðar.

Að loknum þessum fáu framsöguorðum, herra forseti, legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og sjútvn.