30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í C-deild Alþingistíðinda. (3266)

110. mál, vöruvöndun útflutningsafurða sjávarútvegsins

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 117 frv. til l. um ráðstafanir til að auka vöruvöndun útflutningsafurða sjávarútvegsins og vil leyfa mér að fara um mál þetta nokkrum orðum.

Það hefur lengi verið ljóst, að meðferð fiskafla hefur ekki verið sem skyldi frá sjónarmiði vöruvöndunar. Það hefur oft brunnið við, að það sjónarmið hafi ráðið mestu að draga sem mest að landi af fiski, en minna skeytt um það, hvert verðgildi aflans er, þegar að landi var komið, og eins má segja, að þegar að því hefur komið að skipta afla upp og taka hann til vinnslu, þá hafa aðferðir oft næsta lítið minnt á matvælaframleiðslu og allra sízt á vöru, sem er mjög viðkvæm og vandmeðfarin. Þetta eru raunar augljósar staðreyndir, sem ég er hér að segja, — staðreyndir, sem framsýnir og glöggir menn hafa lengi hamrað á og reynt að fá bætt úr, oft án árangurs að vísu, en stundum til nokkurs gagns, því að vissulega hefur ýmislegt áunnizt í þessum efnum á síðari tímum, þó að hvergi nærri sé viðunandi fyrir hagsmuni okkar höfuðatvinnuvegar og þar með þjóðarbúsins í heild. Tjón af þessum sökum, fjárhagslegt tjón vegna lélegrar meðferðar afla, hygg ég, að sé raunar illmælanlegt í tölum. En óhætt er að fullyrða, að beztu markaðir okkar fyrir sjávarafurðir eru háðir því, að um gæðavörur sé að ræða og helzt óaðfinnanlegar. Sé á því misbrestur, þá glatast þessir markaðir að meira eða minna leyti, og þegar svo fer, tekur langan tíma að bæta þann skaða, sem orðinn er. Hér er í fyrsta lagi um það að ræða, að léleg vara er auðvitað alltaf miklu verðminni en góð vara, en einnig hitt, að þegar um verulegt framboð á lélegri vöru er að ræða, þá hefur það líka áhrif til verðlækkunar á þann hlutann, sem er þó fullkomin gæðavara, og kemur þetta glöggt fram t. d. á okkar saltfisksmarkaði, þar sem verðtilboð frá okkar beztu markaðssvæðum hafa oft verið bundin við það, að svo og svo mikill hluti, helzt mikill meiri hluti, væri fyrsta flokks vara. Tilboð hafa oft verið þessum skilyrðum háð, og þegar ekki hefur verið hægt að fullnægja þeim, hefur það þýtt í þessari grein almenna verðlækkun, og er þetta kunnara en frá þurfi að segja, a. m. k. öllum þeim, sem eitthvað hafa kynnt sér markaðsmál í okkar saltfisksframleiðslu. En þannig er þetta líka alveg með hliðstæðum hætti í öðrum greinum sjávarútvegsins.

Í grg. með þessu frv. hef ég leyft mér að taka upp töflu, sem sýnir hlutföll gæðaflokka árið 1966, þ. e. a. s. útflutningsins, en nýrri talna um þessi efni, settra upp með hliðstæðum hætti, tókst mer ekki að afla mér, áður en ég lagði þetta frv. fram. Hins vegar hef ég orð fiskmatsstjóra fyrir því, að ástandið í þessum efnum hafi ekki batnað, frá því að þessi skýrsla var gefin af hans embætti. En þó að þessi skýrsla sé þannig ekki alveg ný af nálinni, þá gefur hún áreiðanlega nokkra hugmynd um það, hvernig ástandið er í þessum efnum. Þar kemur í ljós, að að meðaltali eru aðeins um 43% af okkar sjávarafurðum, sem lenda í 1. flokki, 25% lenda í 2. flokki, 14% í 3. flokki og 16% í 4. flokki, en þar er varan komin á það stig, að það er vafamál, hvort hún getur talizt mannamatur. En þegar þess er svo gætt, að það mun vera algild regla, að verðmunur á milli gæðaflokka sé ekki undir 10%, þá munu sennilega allir reikningsglöggir menn, sem líta á þessa töflu, sjá það, að beint tjón, alveg beint fjárhagslegt tjón, miðað við það, að við gætum flutt út að mestu leyti eða öllu alveg fyrsta flokks vöru, er a. m. k. sem svarar 10% af öllu verðmæti útflutningsframleiðslunnar. En þó má leiða að því líkur, að óbeina tjónið sé jafnvel sízt minna. Ef þetta er rétt, sem ég hygg, að sé nærri sanni, þá er hér að ræða um upphæðir, sem mundu vera einhvers staðar á bilinu frá 750–1500 millj. kr. á ári, miðað við það, að framleiðslan væri yfirleitt 1. flokks vara miðað við útflutninginn eins og hann er nú að magni og verði. En eins og ég sagði, segir þetta þó ekki nema hálfa sögu, vegna þess að verðmætisaukningin verður enn meiri en ég hef hér reiknað með, þegar um 1. flokks vöru er að ræða. Ég nefni það t. d. í sambandi við freðfisksframleiðsluna, að vara, sem seld er á Bandaríkjamarkaði í neytendapakkningum, er a. m. k. þrisvar sinnum verðmeiri heldur en sú, sem seld er í blokk, en í blokkina fer yfirleitt vara, sem ekki er talin fullkomlega 1. flokks vara. Mun nú verðið t. d. á neytendapakkningunni í Bandaríkjunum vera milli 70 og 80 cent pundið á móti 35–36 cent fyrir blokkina, þannig að áhrifin eru áreiðanlega meiri en ég hef hér gert ráð fyrir. En alla vega sýnir þetta, að hér er mjög stóran akur að plægja til þess að auka okkar útflutning, okkar gjaldeyristekjur, og miklir möguleikar á að auka arðsemi sjávarútvegsins, án þess að um aflamagnsaukningu sé að ræða. Á þessu er auðvitað sízt vanþörf, þegar þess er gætt, í hvaða ástandi fiskstofnar okkar eru og þar vofir yfir samdráttur og þurrð á ýmsum fisktegundum.

Það er einmitt þetta, sem hlýtur að leiða til þess, að við hljótum að taka upp þá stefnu, hljótum að hafa þá stefnu í sjávarútvegsmálum, að leggja höfuðkappið á verðmætisaukningu þess afla, sem að landi er dreginn og kemur til vinnslu í vinnslustöðvunum. Þar er auðvitað um margt að ræða: Í fyrsta lagi fullvinnslu sjávarafurða í verðmætari vörutegundir, almenna vöruvöndun, og svo tel ég, að aukin sókn komi ekki fyrr en í þriðja sæti, þegar um þetta er rætt.

Það eru auðvitað margar leiðir, sem hér gæti verið um að ræða til þess að bæta nokkuð úr. Í fyrsta lagi betri verkmenning, hvað allt varðar, bæði veiðar og meðferð vöru, breyttar veiðiaðferðir, því að sumar veiðiaðferðir hafa áreiðanlega í för með sér miklu lélegri vöru heldur en aðrar, og á ég þar sérstaklega við netaveiðar, sem skila að jafnaði miklu lakari vöru en aðrar veiðiaðferðir. Öflun markaða fyrir unnar vörur er svo að sjálfsögðu einn þáttur í þessari stefnu, sem við hljótum að taka upp. En síðast, en ekki sízt er svo um það að ræða að beita meiri nákvæmni og alúð um alla meðferð þess afla, sem næst að innbyrða í fiskiskipin og draga að landi.

Þetta frv., sem ég flyt hér í hv. d., fjallar aðeins um einn þátt þessa máls, en samt þátt, sem samkv. öllu eðli sínu er frumskilyrði fyrir allri góðri framleiðslu og frumskilyrði fyrir almennri vöruvöndun í sjávarútvegi, þ. e. a. s. það fjallar um vernd sjávarfangs, frá því að það er innbyrt í fiskiskip og þangað til það er tekið til vinnslu í vinnslustöðvunum. En á þessu stigi framleiðslunnar þarf auðvitað vöruvöndunin að hefjast. Það er grundvallaratriði, að varan sé ekki skemmd, þegar hún er tekin til vinnslu í vinnslustöðvunum. Með erlendum fiskveiðiþjóðum er fyrir því löng og ég vil segja örugg reynsla, að geymsla fisks, sem ísaður er í kassa af hæfilegri gerð og stærð um borð í skipunum, leysir mikinn vanda um vöruvöndun og er einnig af fleiri sökum hagstæð fjárhagslega. En þrátt fyrir reynslu annarra í þessu efni hefur þessi geymsluaðferð ekki rutt sér til rúms að neinu marki hér á landi. Ástæðurnar til þess eru vafalaust fleiri en ein, en sjálfsagt m. a. sú, að stofnkostnaður er allmikill í sambandi við þennan búnað, bæði á fiskiskipum og það, sem með þarf í vinnslustöðvum í sambandi við það, og einnig hitt, að sjávarútvegurinn hefur ekki átt kost á fjárhagslegri fyrirgreiðslu til þess að standa straum af þessum kostnaði, auk þess kemur svo sjálfsagt til gróin vanafesta og tómlæti, sem menn þekkja allt of vel, ekki aðeins í sjávarútvegi, heldur á mörgum öðrum sviðum. Þessi reynsla er ekki lengur aðeins reynsla erlendra þjóða. Hér á Íslandi hafa verið gerðar tilraunir með þessa geymslu á fiski, og m. a. var gerð mjög ýtarleg rannsókn árið 1969 á kostum og göllum við notkun fiskkassa, en þessi tilraun var gerð á vegum Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, Framleiðnideildar frystihúsanna í Vestmannaeyjum og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, og hygg ég, að flestir hv. þdm. Hafi fengið þessa skýrslu á s. l. vetri. Þar kemur fram niðurstaða þessara rannsókna, og ég fæ ekki betur séð en hún sanni fullkomlega, að notkun þessara fiskkassa við þau tilteknu skilyrði a. m. k., sem þar var um að ræða, var mjög hagstæð, og færir raunar heim fullvissu um það, að hér er um sérstakt þjóðþrifamál að ræða. En meðal þess, sem kom fram við rannsóknina, var eftirfarandi:

Að fiskur rýrnaði ekki í fiskkössum, og spöruðu þeir því allt að 5.5% rýrnun, en að meðaltali 3.6% rýrnun, sem kom fram við aðra venjulega geymslu á fiskinum í fiskibátunum. Þá kom það fram, að pakkanýting jókst úr 8.5% miðað við venjulega geymslu í 19.8%, en þetta þýðir, að meira en helmingi meira gat farið í þá dýrmætu vöru, þar sem um er að ræða neytendapakkningar, heldur en ef fiskurinn hefði verið geymdur með venjulegum hætti. Og þegar verðmismunarins er gætt á neytendapakkningum og blokk, þá sjá menn, að hér er ekki um neina smámuni að ræða.

Þá kom það einnig fram í þessum tilraunum, að geymsluþol jókst um 2–4 daga á aflanum við geymslu í kössum miðað við hefðbundna geymslu í stíum, og er þetta ekki lítið atriði. Í fyrsta lagi vegna þess, að hér er auðvitað um það að ræða, að varan skemmist ekki, en að öðru leyti vegna þess, að með þessari aðferð er hægt að dreifa vinnunni í frystihúsunum, og er það ekki lítils virði, því að allir kannast við þann mikla aukakostnað, sem vinnslustöðvarnar hafa af því, þegar mikill fiskur berst á land dag eftir dag, að láta útþrælkað fólk vinna nætur sem daga, leggja nótt við dag, þar sem afköst geta ekki orðið eins og ef unnið er með eðlilegum hætti og vinnan þar að auki miklu dýrari, þannig að hér er áreiðanlega í sambandi við þetta um stórkostlegt hagsmunamál vinnslustöðvanna að ræða og raunar vil ég segja einnig verkafólksins, sem við þetta vinnur, því að oft og tíðum er það svo, að sú ofþrælkun, sem þar á sér stað, er ekki mönnum bjóðandi. En á Norðurlöndunum, t. d. í Noregi, hefur notkun kassanna leitt til þess, að í fiskvinnslustöðvum er hægt að vinna jafna dagvinnu, og eftirvinna þekkist þar yfirleitt ekki, vegna þess að aflamagninu má sem sagt dreifa á fleiri vinnsludaga heldur en ef farið væri með fiskinn með öðrum hætti.

Þá eru tímamælingar á vinnu og útreikningar á vinnslu- og stofnkostnaði, sem ég tel, að megi gagnrýna að því leyti, að þar sé frekar vantalinn hagnaður heldur en hitt og það á mörgum sviðum, og gæti ég bent á dæmi um það, að sumt er þar ekki tekið með í reikninginn. Þessir útreikningar sýndu, eins og þeir voru gerðir, að beinn hagnaður af notkun fiskkassanna varð allt að 1468 kr. á tonn eða 1½ kr. á hvert kg og aldrei minni en 632 kr. á tonn miðað við markaðssölu eins og hún var í árslok 1969. Er þá auðvitað meðreiknaður allur stofnkostnaður í sambandi við þetta og allur rekstrarkostnaður, fyrningar á tækjum og annað því um líkt, gert ráð fyrir, að tækin væru fyrnd á 6 árum, ef ég man rétt. Þá kom það einnig fram, að gæði aflans jukust, betra mat varð á fiskinum og húsrými í móttöku gat orðið a. m. k. þrisvar sinnum minna heldur en með eldri aðferðum. Og enn kom það fram, eins og raunar leiðir af því, sem ég hef sagt, að við notkun fiskkassanna reyndist vinna að vísu meiri og stofnkostnaður, en til þess hefur verið tekið fullt tillit í þeim hagnaðarútreikningi, sem ég nefndi. Og eins og ég sagði, er áreiðanlega ýmislegt vantalið þarna í því, sem vannst við þessar breyttu aðferðir, og þá sérstaklega það, að ekki var tekið neitt tillit til þeirrar jöfnunar á vinnu í vinnslu, sem gæti orðið í vinnslustöðvunum, enda var hér aðeins um tilraun á einum bát að ræða og þess vegna ekki um það að ræða, að það gæti breytt heildarvinnunni í viðkomandi frystihúsi.

Ég vil þá aðeins víkja örlítið að einstökum greinum þessa frv., en í 1. gr. segir svo:

„Í fiskiskipum er skylt, eftir því sem ákveðið verður í reglugerð, er ráðh. setur, að hafa um borð sérstaklega gerða fiskkassa til að leggja í afla, jafnóðum og hann er innbyrtur. Skal aflinn geymdur í þeim, þar til hann er tekinn til vinnslu í fiskverkunarstöðvum.“

Hér er sem sagt gert ráð fyrir því að veita sjútvrh. heimild til þess að setja um það reglugerð, að slík geymslutæki skuli notuð fyrir fiskinn um borð í fiskiskipum, en þó ekki gengið lengra en svo, að gert er ráð fyrir, að hann beiti þessu valdi sínu eftir því sem rétt þykir og hagkvæmt um, hversu hraða skuli þessu nýja fyrirkomulagi. Og þar er auðvitað margt, sem kemur til greina, og treystist ég ekki til þess að leggja til, að þessu verði breytt í einu vetfangi, en taldi eðlilegra, að hér væri farið nokkuð eftir atvikum, bæði eftir því sem reynsla kæmist á þetta og eins kynni að vera, að á sérstökum tímum og með sérstökum skilyrðum hvað veiðiaðferðir snertir gætu verið mismunandi ástæður til þess að lögbinda þetta. Í annan stað kemur svo það til, að eins og ég gat um áður, þá er hér um nokkurt fjármagn að ræða, sem til stofnkostnaðar þarf, og gerir það það að verkum líka, að rétt hefur þótt að fara ekki of geyst í sakirnar, þannig að þetta gæti farið að nokkru eftir efnum og ástæðum á hverjum tíma.

Í 2. gr. er það ákvæði, sem er nýmæli, að í hverri fiskvinnslustöð, sem tekur fisk til verkunar, skuli vera húsnæði, sem gerir viðkomandi vinnslustöð kleift að geyma fisk þannig, að hann skemmist ekki meðan hann bíður vinnslumeðferðar. Þetta þýðir í raun og veru það, að skylt er að hafa kældar geymslur. En auðvitað kemur það fyrir ekki, þó að fiskur sé afhentur ísaður í kössum, ef ekki er jafnframt um það að ræða, að viðkomandi vinnslustöð hafi alla aðstöðu til þess að geta geymt fiskinn, geymt kassafiskinn þannig, að ekki valdi skemmdum. Og niðurstaðan af rannsókninni, sem gerð var í Vestmannaeyjum og ég hef minnzt á, leiddi það í ljós, að það er grundvallarskilyrði til þess að þetta nýja fyrirkomulag komi að haldi, að um kældar geymslur sé að ræða. En mjög víða í fiskhúsum er það ekki, og á það áreiðanlega sinn mikla þátt í því, að fiskur skemmist ekki aðeins á leiðinni til lands, heldur einnig meðan hann bíður vinnslumeðferðar í frystihúsunum. Og yfir sumartímann er þetta þannig, að það er kunnara en frá þurfi að segja, að fiskur tekur í sig gerlagróður, kannske örskömmu eftir að hann hefur verið losaður úr skipunum, og er í raun og veru algerlega útilokað, að yfir sumartímann geti verið um að ræða að framleiða 1. flokks vöru, nema fiskurinn sé ísaður strax um borð og svo geymdur síðan í kældri geymslu, þangað til hann er tekinn til vinnslumeðferðar.

Í þessari gr. er enn fremur gert ráð fyrir því til öryggis, að Fiskmati ríkisins sé gert að framkvæma skoðun á því, hvort þessi nauðsynlega aðstaða sé fyrir hendi, og geti ákveðið vinnslustöðvum rekstrarstöðvun, ef þær að áður fengnum aðvörunum bæta ekki úr því, sem ábótavant er í þessum efnum.

Í 3. gr. er ákveðið, að ráðh. skuli setja reglugerð um stærð og gerð fiskkassanna, sem notaðir eru. Þetta er alger nauðsyn af tæknilegum ástæðum. Bátar og fiskiskip koma með afla að landi og skila kössunum í vinnslustöðina og þurfa auðvitað að fá sams konar kassa aftur til baka, og strax af þessari ástæðu er nauðsynlegt, að þessi tæki séu stöðluð, og hefði að mínu viti átt að vera búið að gera það fyrir löngu, vegna þess að nú þegar er farið að flytja til landsins ólíkar tegundir af þessum kössum, þar sem þeir eru í notkun, og einnig stendur það alveg fyrir dyrum, að farið verði að framleiða kassana hér á landi.

Varðandi stofnkostnað við þessar framkvæmdir er það svo að segja, að hann er auðvitað allverulegur, en á að borga sig, eins og ég hef áður getið um. En þess má líka geta, að nú nýlega hafa komið á markaðinn fiskkassar, sem gera það miklu auðveldara en áður að koma þessu í framkvæmd, því að þeir eru þannig gerðir, að notkun þeirra mundi ekki útheimta miklar breytingar á innréttingu skipanna, og það er auðvitað ákaflega mikilsvert atriði, því að þar er um verulegan stofnkostnað að ræða, sem nú ætti að vera að mjög miklu leyti úr sögunni. Að öðru leyti segir svo 4. gr., hvernig þetta skuli fjármagnað, og það er með tilliti til þess, að þar sem hér er gert ráð fyrir því, að um skyldu sé að ræða að nota þessa geymsluaðferð við fiskinn, þá hefur einnig þótt nauðsynlegt, að útvegurinn ætti greiðan aðgang að fjárhagsfyrirgreiðslu í þessu sambandi, og er þess vegna gert ráð fyrir því, að Fiskveiðasjóði verði skylt að lána allt að 75% stofnkostnaðar með venjulegum lánskjörum til 6 ára, og ætti það ákvæði að vera trygging fyrir því, að þetta gæti komizt í framkvæmd af fjárhagslegum sökum.

Loks er svo gert ráð fyrir því í 5. gr. frv., að við verðákvarðanir sé Verðlagsráði sjávarútvegsins skylt að taka fullt tillit til þess kostnaðar, sem útvegurinn ber vegna ákvæða laga þessara. Ég held, að grundvallarskilyrðið fyrir því, að slíkar aðgerðir geti borið árangur, — aðgerðir til þess að auka vöruvöndun, — sé auðvitað hið fjárhagslega, þ. e. a. s. að framleiðendurnir finni, að það sé metið og þeir hafi af því beinan hagnað, eins og þeim ber að gera, þar sem þeir eru þá að færa miklu verðmætari vöru í þjóðarbúið en ella mundi.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að hafa um þetta miklu fleiri orð, en ég tel, að reynslan af því, hve mikið tómlæti hefur ríkt í þessu efni á undanförnum árum og jafnvel áratugum, sanni það, að hér er þörf á lagasetningu og þessi mál komist ekki í örugga höfn, nema lagaskylda verði að nota þær geymsluaðferðir, sem beztar þekkjast og fullkomin reynsla er fyrir bæði erlendis og einnig hérlendis. Ég álít því, að þetta frv. sé tímabært og þó að fyrr hefði verið, og hv. Alþ. beri að samþykkja það í líku formi og ég hef hér lagt til. Ég vil þó taka það skýrt fram, að ég er reiðubúinn til þess undir meðferð málsins að vera opinn fyrir því, sem betur mætti fara í frv., og sjálfsagt, að málið hljóti nákvæma skoðun í þeirri hv. n., sem fær það til meðferðar.

Ég vil svo leggja til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. sjútvn. að lokinni þessari umr.