30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 635 í C-deild Alþingistíðinda. (3267)

110. mál, vöruvöndun útflutningsafurða sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti.

Ég vil strax taka það fram, að ég stend ekki hér upp til þess að andmæla í einu eða neinu því frv., sem hér er til umr., heldur langtum fremur til þess að undirstrika þá þörf, sem flm. taldi á framkvæmd þeirra atriða, sem í frv. felast. Ég get fyllilega tekið undir þau orð hans, að sú skipan mála, sem á þessum hlutum hefur gilt til þessa dags, er hvergi nærri fullnægjandi, og kannske verður aldrei svo vel um þessa hnúta búið, að geti talizt fullnægjandi í öllum atriðum. Og það er einnig rétt, að hér er aðeins fjallað um einn þátt þessa mikla vanda, sem er aukin vöruvöndun á okkar sjávarafurðum. En sjómenn hafa á undanförnum árum sagt, og það tel ég að sé meginástæðan fyrir tregðu í þessum efnum: Til hvers skyldum við við svo og svo misjafnar, erfiðar aðstæður vera að vanda umbúnað um okkar fisk, þegar við fáum nánast eitt og sama verðið fyrir fiskinn, hvernig svo sem hann er til reika, þegar hann kemur að fiskvinnslustöðinni? Og ég hygg, að það sé alveg bráðnauðsynlegt, að þarna sé gerður svo verulegur verðmunur á, að menn hyggi betur að þessum málum en hingað til hefur verið. Það er venjulega sá hluturinn, sem almenningur skilur bezt. Og það er vissulega rétt hjá sjómönnunum, að þeir hafa kannske sízt allra aðstæður til þess oft og tíðum í erfiðum vetrarveðrum að búa svo vel að fiskinum sem kostur er á, þegar það er ekki gert, eftir að fiskurinn kemur í sjálfa fiskvinnslustöðina. Góða fiskinum er þar sturtað, — ef það orð má nota, — honum er hellt þar saman við lélega fiskinn og sáralítill verðmunur gerður á því, hvernig fiskinum er skilað á land.

Þá er það einnig rétt hjá flm., að þetta má segja, að sé upphafið að vöruvöndun um borð í sjálfum skipunum. En mín skoðun er sú, eftir að hafa fjallað um þessi mál nú um nokkurra ára skeið, — og í því hafa starfað tvær nefndir á vegum rn., sem ég vænti fastlega, að hv. þn. hafi samband við, undir forustu Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, undir forustu Fiskmats ríkisins, við þær nefndir verði rækilega rætt, — að grundvallarskilyrðið í þessu sé það, að það þurfi að vera meiri alhliða vöruvöndun alveg frá því að fiskurinn kemur fyrst upp úr sjó og þangað til hann kemur í hendur neytenda. Meðan ekki eru samræmdar aðgerðir í þeim efnum á báðum þessum stöðum og alla leiðina gegnum öll vinnslustig, þá verður erfitt að fá einn aðilann til að byrja. Óhjákvæmilega verða hér einhverjir byrjunarörðugleikar. Menn kunna í fyrstunni að verða fyrir einhverju fjárhagslegu tjóni af þeim sökum fyrir utan sjálfan stofnkostnaðinn, og þess vegna verður að skapa það gagnkvæma traust milli aðila þarna, að þeir trúi því í raun og veru, að það verði svipaðar skyldur lagðar á allra herðar í þessum efnum.

Ég held, að þetta sé meginorsökin. En eins og flm. gat um, er þegar búið að vinna allmikið að athugunum og tilraunum í þessu mati, sem ég vænti, að þn. reyni að kynna sér eftir föngum. Ég tel frv. eigi að síður mjög tímabært, en teldi, að það ætti að vera víðfeðmara og fjalla um allar greinar fiskvinnslunnar, ekki bara aðbúnaðinn um borð í veiðiskipunum, heldur öll vinnslustigin. Þessu vildi ég koma hér að með hliðsjón af þeirri reynslu, sem ég tel mig hafa af tilraunum til úrbóta í þessu efni, og með hliðsjón af yfirlýsingum aðila, sem þarna fjalla um.

Það er t. d. eitt atriði, sem flm. minntist ekki á áðan, aðkoman að sjálfum vinnslustöðvunum hér í landi. Þær þola vart dagsljósið, og við megum þakka fyrir, meðan erlendir kaupendur okkar reyna ekki að gera tilraun til að komast inn í sumar þessar fiskvinnslustöðvar, því að utan frá tryði enginn maður, að þar inni væri matvælavinnsla.

Allt þetta þarf að fylgjast að, og umgengni um fiskinn þarf að byggjast meira á því sjónarmiði, sem flm. lýsti, að við séum hér að fara með matvörur, sem við ætlum að fá hæsta mögulegt verð fyrir, og það gerum við ekki nema með stórlega bættum vinnubrögðum í þessum efnum, og þá verður um leið að fá um það gagnkvæmt traust á milli aðila, að það séu ekki bara skyldur lagðar á sjómennina eina um aðbúnaðinn á fiskinum um borð, heldur séu þessar skyldur ekki síður lagðar á vinnslustöðvarnar í landi, og þá efast ég ekkert um, eins og flm. benti á með tölulegum staðreyndum umræddrar nefndar, að allir aðilar eigi að hagnast vel á því, auk þess, sem við hljótum enn um ókominn tíma að byggja afkomu okkar á því, að vel sé þarna um hnútana búið.

Ég stóð aðallega upp til þess að leggja fram þær óskir mínar, að n., sem um málið fjallar, sem væntanlega verður sjútvn., kynni sér rækilega það, sem búið er að gera í þessum efnum að undanförnu, og kanni til hlítar, hvort ekki er nauðsynlegt að fylla frekar út í þetta frv., gera það víðfeðmara, eða hvort tímabært er með hliðsjón af þeim nefndastörfum, sem í gangi eru, að samþ. slíkt frv. strax. Ef það reynist vera álit þeirra, sem um þessi mál hafa fjallað, þá tel ég grundvallarnauðsyn, að frv. verði útvíkkað allverulega og nái til fleiri vinnslustiga en sjálfrar veiðinnar.