20.10.1970
Sameinað þing: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

1. mál, fjárlög 1971

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Áður en ég geri grein fyrir fjárlagafrv. fyrir árið 1971, mun ég í stórum dráttum skýra afkomu ríkissjóðs á árinu 1969 og horfur í fjármálum ríkisins á yfirstandandi ári. Ríkisreikningurinn fyrir árið 1969, sem lagður hefur verið á borð hv. þm., er annar reikningurinn, sem gerður er í samræmi við lögin um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga frá árinu 1966. Reikningurinn fyrir árið 1968 var mjög síðbúinn vegna víðtækrar endurskipulagningar, sem þurfti að gera á allri reikningsfærslu í samræmi við hin nýju lög. Átti sú seinkun aðeins að vera í eitt skipti og gerði ég ráð fyrir því í fyrra, að reikningurinn fyrir árið 1969 yrði tilbúinn eigi síðar en um mitt þetta ár. Því miður hefur reyndin orðið önnur sökum þess, að ekki hefur tekizt að fá allar stofnanir til þess að ljúka reikningsskilum sínum nægilega snemma og hefur stærsta vandamálið þar verið uppgjör skólakostnaðarreikninga, en lögð verður rík áherzla á það að tryggja það á næsta ári, að allar skilagreinar berist í tæka tíð. Var þess ef til vill naumast að vænta, að á fyrsta ári mundu allir aðilar bregðast nægilega skjótt við, og rangt væri að segja, að viðbrögð stofnana ríkisins hefðu ekki almennt verið jákvæð.

Áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs skv. fjárlögum 1969 voru 7 milljarðar 96 millj. kr. Álagðar eða tilfallnar rekstrartekjur á árinu, sem færast til tekna í ríkisreikningi skv. gildandi reglum, urðu hins vegar 7 milljarðar 455 millj. kr. eða 359 millj. kr. hærri en fjárlög áætluðu. Innheimta ríkistekna á árinu reyndust 7 milljarðar 387 millj. kr. eða 291 millj. kr. umfram fjárlög. Stærsti liðurinn í umframtekjum ríkissjóðs á árinu, 102 millj. kr., voru persónuskattar, aðallega vegna almannatrygginga, er voru áætlaðir 550 millj. kr., reyndust álagðir 652 millj., en 626 millj. kr. innheimtust á árinu. Með l. nr. 7 1969 var ákveðin 10% hækkun bóta almannatrygginga og einnig hækkun annarra bóta Tryggingastofnunar ríkisins. Jafnframt var ákveðin samsvarandi hækkun iðgjalda almannatrygginga. Tekjuskattar voru í fjárlögum áætlaðir 674 millj. kr., reyndust við álagningu 713 millj. kr., en innheimtust 715 millj. kr. Eignarskattar voru áætlaðir 134 millj. kr., reyndust álagðir 150 millj. kr. og innheimtir 166 millj. Framantaldir skattar eru einu nafni nefndir beinir skattar og voru samtals áætlaðir í fjárlögum 1 milljarður 358 millj. kr., reyndust álagðir 1 milljarður 515 millj. kr. og innheimtir 1 milljarður 507 millj. kr. Óbeinir skattar voru samtals áætlaðir í fjárlögum 5 milljarðar 666 millj. kr., en reyndust álagðir 5 milljarðar 819 millj. kr. og innheimtir 5 milljarðar 761 millj. kr. Stærsti liðurinn í umframtekjufærslu óbeinna skatta var söluskattur. Hann var áætlaður 1 milljarður 440 millj., reyndist álagður 1 milljarður 501 millj., en innheimtur nam hann 1 milljarði 452 millj. kr. Álagning umfram innheimtu felur í sér aukningu óinnheimtra eftirstöðva í söluskatti um 49 millj., en þess ber þó að gæta, að söluskattur vegna fjórða ársfjórðungs fellur í gjalddaga 15. jan. næsta ár og er því ógjaldfallinn í árslok. Gjaldfallnar eftirstöðvar söluskatts lækkuðu um 22 millj. kr. á árinu og sýnir það bætta innheimtu. Veigamesti tekjuliður óbeinu skattanna eru aðflutningsgjöldin, sem nema 2/5 hluta þeirra. Almennu tollatekjurnar urðu 2 milljarðar 261 millj. eða 16 millj. kr. umfram fjárlög og aðflutningsgjöld af sjónvarpstækjum reyndust 14 millj. kr. hærri en áætluð. Launaskattur var í fjárlögum áætlaður 135 millj., en reyndist 160 millj. kr. í álagningu og 161 millj. í innheimtu. Tekjur af stimpilgjaldi og þinglýsingu reyndust 24 millj. umfram áætlun og skattar af framleiðslu 15 millj. kr. í álagningu og 18 millj. kr. í innheimtu. Í þeim tekjum felst framleiðslugjald af áli að fjárhæð 7 millj. kr., er fjárlög gerðu ekki ráð fyrir. Álgjaldið skiptist í þrjá staði: Hafnarfjarðarkaupstaður fær í sinn hlut 25%, Iðnlánasjóður 4.1 % og Atvinnujöfnunarsjóður 70.9% og er það hans hluti, sem fram kemur í tekjum í ríkisreikningi.

Með brbl. nr. 79 1969 var gerð breyting á l. nr. 96 1965 í þeim tilgangi að bæta fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins. Verðjöfnunargjald rafmagnsveitnanna var hækkað með þessum lögum. Tekjur af því gjaldi voru áætlaðar 23 millj. kr. í fjárl., en reyndust 52 millj. Tekjur af sölu ÁTVR voru áætlaðar 679 millj., án hluta þeirra er fá gjald af eldspýtum og vindlingum, en urðu 738 millj. eða 59 millj. kr. umfram áætlun. Sölunefnd varnarliðseigna skilaði 13 millj. kr. tekjum, en áætlun gerði ráð fyrir 9 millj. Ýmsir tekjustofnar óbeinna skatta gáfu aftur á móti verulega minni tekjur en ráðgert var í fjárlögum. Innflutningsgjald af bifreiðum og bifhjólum var aðeins 2/5 af fjárlagaáætlun eða 41 millj. kr., sem er 62 millj. kr. lægri fjárhæð en fjárlagaáætlun. Tekjur af sölu erlends gjaldeyris, sem er andvirði leyfisgjalda og hluti af umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna, urðu einnig lægri en áætlun eða 65 millj. kr. á móti 81 millj. kr. og þar af var innheimt 57 millj. Innflutningsgjaldið, sem á var lagt skv. brbl. nr. 68 1968, lækkaði um 21 millj. kr. á árinu 1969 vegna lögákveðinna endurgreiðslna í sambandi við gengisbreytinguna 1968. Arðgreiðslur frá fyrirtækjum og sjóðum í ríkiseign voru í fjárlögum áætlaðar 37 millj. kr., en reyndust 51 millj. Hér er um að ræða tekjustofna, sem skiluðu hlutfallslega mjög góðum tekjum, þótt ekki nemi eins háum fjárhæðum og ræddar hafa verið hér að framan. Arðgreiðslurnar taka fyrst og fremst til rekstrar Keflavíkurflugvallar, sem skilaði 34 millj. kr. í ríkissjóð, eða rúmlega þriðjungi meira en áætlaða fjárhæðin, og fríhafnar á Keflavíkurflugvelli, sem skilaði 5 millj. kr., eða um 45% umfram áætlun. Nettótekjur af rekstri þessara stofnana voru þó enn meiri. Ýmsar tekjur í ríkisreikningi voru áætlaðar 36 millj. kr., reyndust 69 millj. Þyngstar á metunum eru vaxtatekjur, 20 millj. kr. umfram áætlun. Fela þær í sér dráttarvexti af ýmsum ríkistekjum, er gjaldendur standa ekki skil á á réttum tíma. Með ýmsum tekjum kemur söluandvirði fastra fjármuna, þ. á m. sala Maríu Júlíu 3.1 millj. kr., en samtals eru tekjur þessar 4.5 millj. og sérstakt framlag Tryggingastofnunar ríkisins vegna umsýslu innheimtumanna ríkissjóðs 6.5 millj. kr. Í fjárlögum var ekki gert ráð fyrir þessum liðum í tekjur.

Eins og fram hefur komið, reyndust innheimtar tekjur 7 milljarðar 387 millj. kr. en álagðar 7 milljarðar 455 millj. Mismunurinn felur í sér aukningu á óinnheimtum tekjum um 68 millj. kr., en reyndist 223 millj. kr. aukning 1968. Í þessum tölum er innifalin aukning eftirstöðva vegna ógjaldfallins hluta tekna, fyrst og fremst söluskatts 4. ársfjórðungs. Árið 1968 nam sú aukning 32 millj., en 1969 70 millj. Ef þessar fjárhæðir eru undanskildar, nam aukning eftirstöðva 1968 191 millj. kr., en á árinu 1969 lækkuðu hins vegar eftirstöðvar samtals um 2 millj. kr. Þess ber að gæta í þessu sambandi, að eftirstöðvar persónuskatta, sem renna til Tryggingastofnunar ríkisins, hækkuðu á árinu um 27 millj. kr., þannig að gengið hefur á aðrar eftirstöðvar ríkissjóðsins sjálfs sem nemur 29 millj. Innheimtan á árinu hefur því batnað mjög verulega og má efalaust að nokkru rekja það til almenns bata í efnahagslífinu, en að nokkru leyti til bættrar frammistöðu innheimtumanna ríkissjóðs.

Rekstrarútgjöld ríkissjóðs skv. fjárl. ársins 1969 voru áætluð 7 milljarðar og 1 millj. kr. Ýmsir svokallaðir markaðir tekjustofnar, sem færðir eru ríkissjóði til tekna í fjárlögum, en renna eiga til ákveðinna þarfa og miðast hverju sinni við það, sem raunverulega innheimtist, urðu 23 millj. kr. lægri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Þar af var gúmmígjald 10 millj. undir áætlun. En aftur á móti urðu aðrir markaðir tekjustofnar 216 millj. kr. hærri en fjárlagaáætlun og þar af voru 7 millj. kr. vegna álgjalds, sem fjárl. tóku ekki til. Aðrir helztu liðir, sem urðu umfram áætlun, voru: Iðgjöld til Tryggingastofnunar ríkisins 103.1 millj., verðjöfnunargjald af rafmagni 29.6 millj., launaskattur 25.3 millj., innflutningsgjald af bensíni til Vegasjóðs 24.3 millj. og aðflutningsgjald af sjónvarpstækjum 14 millj. Þar sem hér er um lögboðin gjöld að ræða, verða þau að teljast til hækkunar á fjárlagaheimildum, en hafa raunverulega engin áhrif á afkomu ríkissjóðs í þrengri merkingu. Sérstakar lántökuheimildir skv. framkvæmdaáætlun fyrir árið 1969, námu hvað a-hluta ríkisreiknings snertir samtals 177 millj. kr. Útgjöld skv. fjárl. og þeim sérstöku lagaheimildum, sem hér hafa verið nefndar, námu því samtals 7 milljörðum 371 millj. kr., en í þessari tölu eru ekki taldar með geymdar fjárveitingar, sem notaðar voru á árinu. Gjöld rekstrarreiknings ársins 1969, eins og hann liggur nú fyrir, urðu 7 milljarðar 590 millj. kr. Rekstrarútgjöld ársins hafa þannig orðið 219 millj. kr. umfram fjárlagaheimildir og þær sérstöku heimildir aðrar, sem Alþingi hefur samþykkt og ég hef hér nefnt. Útborganir úr ríkissjóði á árinu 1969 voru 164 millj. kr. hærri en fjárlagatalan svo breytt.

Þegar þess er gætt, að ein fjárlagaheimild var ekki notuð, sem nam rúmlega 80 millj. kr., niðurgreiðslur á vöruverði innanlands, eru um 300 millj. kr. umfram fjárlög, sem rétt er að skýra nokkru nánar. Fjárveitingar til æðstu stjórnar ríkisins námu 54 millj., en rekstrargjöldin urðu 61 millj. kr. Reksturinn er þannig umfram fjárlög sem nemur 7 millj., nær eingöngu vegna Alþingis.

Heildarfjárveiting til fors- og menntmrn. var 1 milljarður 175 millj. kr., en niðurstaða rekstrarreiknings 1 milljarður 233 millj. eða 58 millj. kr. hærri en fjárveiting. Sú fjárhæð kom fram nær öll hjá fræðslu- og skólamálum og þar af 40 millj. kr. vegna héraðs-, gagnfræða- og barnaskóla. Útgreiðslan á árinu úr ríkissjóði nam Í milljarði 242 millj. kr. Liðurinn söfn, listir og önnur menningarmál fer 15 millj. kr. fram úr upphaflegrí fjárlagaáætlun. Skýringin er sú, að tekjur af aðflutningsgjöldum af sjónvarpstækjum fóru fram úr áætlun sem þessu nam, en þær tekjur voru jafnóðum greiddar Ríkisútvarpinu til uppbyggingar sjónvarpskerfisins.

Útgjaldaheimild til utanrrn. skv. fjárlögum var 117 millj., en bókfærð rekstrargjöld á vegum þess á árinu voru 135 millj. kr. og útgreitt 138 millj. Gjöld aðalskrifstofu ráðuneytisins fóru 8 millj. kr. fram úr áætlun og sendiráðanna 13 millj. kr. Framlög til alþjóðastofnana urðu 4 millj. undir áætlun. Að því er varðar aðalskrifstofu rn. hefur komið fram, að ýmis kostnaður, einkum vegna flutnings manna milli landa, hefur verið óvenjumikill á þessu ári. Auðvitað verða vissar tilfærslur ambassadora og annarra starfsmanna sendiráða ekki umflúnar, en kostnaðar vegna við þessa flutninga þarf hins vegar að forðast slíkar breytingar nema um brýna nauðsyn sé að ræða. Sum sendiráðin virðast í rekstri sínum alls ekki hafa tekið tillit til fjárlagatillagna. Ströng gát hefur ekki verið höfð héðan að heiman á fjárreiðum sendiráðanna jafnóðum, þar eð þau annast iðulega alls konar greiðslur fyrir ríkið aðrar en eigin rekstrargjöld. Nú hefur hins vegar verið komið á nauðsynlegu eftirliti með þessum greiðslum.

Greiðsluheimild til atvmrn., að meðtöldum þeim breytingum, sem sérstök lög leiða af sér, námu sem næst 891 millj. kr. Bókuð rekstrargjöld urðu 991 millj. kr., en útborganir á árinu námu 1 milljarði og 20 millj. kr. Umframgjaldfærslan kemur fram í framlögum til landbúnaðar, vegna uppbótar á útfluttar landbúnaðarafurðir skv. l. 29 millj., til framræslu- og jarðræktarstyrkja 25 millj. og til skóla 10 millj. Þá er í sambandi við lausn á kjaradeilu sjómanna fallizt á það að greiða á árinu úr ríkissjóði framlag til áhafnadeildar aflatryggingasjóðs 15 millj. kr., sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum.

Heildarútgjaldaheimildir dóms- og kirkjumálaráðuneytis námu 631 millj. Bókfærð gjöld á árinu urðu 640 millj. Útgjöld vegna heilbrigðismála urðu 4 millj. kr. hærri en fjárlög ráðgerðu. Kostnaður við dómgæzlu og lögreglumál hefur fallið til á árinu sem nemur 16 millj. kr. umfram fjárveitingar. Stafar rúmur helmingur þeirrar fjárhæðar af rekstrarkostnaði umfram áætlun af ýmsum embættum á vegum rn., svo sem ýmsum fógetaembættum, lögreglustöð, landhelgisgæzlu og umferðarmálum. Hins vegar urðu gjöld lægri en fjárl. ráðgerðu á ýmsum öðrum liðum, t. d. löggæzlu, ýmsum dómsmálakostnaði o. fl.

Fjárlagaheimildir félmrn. með þeim leiðréttingum, sem hér hafa verið gerðar, námu 2 milljörðum 491 millj. kr. og gjaldfærð var á árinu svo til sama fjárhæð.

Fjárlagaheimildir fjmrn. námu á árinu 1969 401 millj. kr. Sú fjárhæð er þó of há að því leyti, að þar er meðtalin fjárveiting til að greiða framlag ríkissjóðs á móti lífeyrisiðgjaldi allra starfsmanna ríkisins. Þetta mótframlag hefur verið gjaldfært hjá hverri stofnun sem hluti af hennar launakostnaði, þannig að ofangreindar heimildir eru oftaldar sem nemur 46 millj. kr., og raunveruleg útgjaldaheimild er því 355 millj. Gjöld á vegum rn. urðu hins vegar 446 millj. skv. rekstrarreikningi eða 91 millj. hærri en fjárl. ráðgerðu. Meginskýring þess er fólgin í mun hærri vaxtaútgjöldum en fjárl. gerðu ráð fyrir vegna hinnar óhagstæðu greiðslustöðu ríkissjóðs við Seðlabankann á árinu. Aukaframlag til Ríkisábyrgðasjóðs var 6 millj. kr., sem felur í sér mun betri afkomu sjóðsins en á árinu 1968. Útgjöld vegna ríkisábyrgða höfðu farið minnkandi ár frá ári, frá því að l. um Ríkisábyrgðasjóð voru sett þar til á árinu 1968, er gerbreyting varð til hins verra. Urðu útborganir úr sjóðnum umfram innborganir á því ári rúmar 155 millj. kr. og framlag ríkissjóðs til að standa straum af þeim halla var 150 millj. Árið 1969 voru útborganir umfram innborganir 98 millj. kr. og framlag úr ríkissjóði 91 millj., en að auki kemur ábyrgðargjald, 7 millj. kr. 1969, sem telst meðal tekjuliða ríkissjóðs og sem viðbótarframlag til sjóðsins. Útgreiðslur sjóðsins á árinu 1969 urðu því 55 millj. kr. lægri en 1968, sem sýnir mjög batnandi afkomu ýmissa ábyrgðaraðila.

Samtals námu útistandandi kröfur Ríkisábyrgðasjóðs vegna vanskila í árslok 1969 577 millj. kr. Meginhluti útgjalda sjóðsins á árinu vegna ábyrgðarskulda var vegna síldarverksmiðja eða 68 millj. Er orðin brýn nauðsyn að taka mál Síldarverksmiðja ríkisins og reyndar síldarverksmiðja almennt til heildarendurskoðunar og gera sér grein fyrir því, hvort hægt er að hafa einhver not af þessum verksmiðjum næstu árin, því að ekki sýnast horfur á, að brædd verði síld í náinni framtíð og er þá aðeins um loðnuvinnslu að ræða. Vanskilaskuldir Orkusjóðs jukust um 16 millj. kr. og nokkur hækkun varð á vanskilum vegna togaralána, en horfur eru á, að á næstu árum fáist endurgreiddar þær rúmar 40 millj. kr., sem lagðar hafa verið út vegna togarans Narfa, þar eð önnur lán, sem á togaranum hvíla, eru að mestu greidd upp og togarinn er nú í ágætu lagi. Engar nýjar greiðslur féllu á Ríkisábyrgðasjóð á árinu vegna Flugfélags Íslands og eldri skuldir hafa verið greiddar að fullu á þessu ári.

Útgjaldaheimild samgrn. og iðnrn. að meðtöldum heimildum sérlaga námu rúmum Í000 millj. kr., en bókfærð gjöld urðu nær 1047 millj. Umframgreiðslur eru einkum fólgnar í meiri ársgreiðslum af lánum til landshafna en áætlað hafði verið og 7 millj. kr. umframútgjöldum til flugmála.

Útgjaldaheimildir viðskrn. samkv. fjárl. voru rúml. 584 millj., en bókfærðar eru á árinu 501 millj. Niðurgreiðslur á vöruverði urðu 84 millj. kr. undir áætlun, aðallega vegna minnkaðrar neyzlu.

Meginástæðurnar fyrir rekstrarútgjöldum umfram heimildir fjárlaga 1969 og aðrar sérheimildir eru þannig að mestu óviðráðanlegar, eins og vaxtagjöld af yfirdráttarlánum ríkissjóðs eða launahækkanir samkv. samningum eða lögbundin útgjöld, svo sem skólakostnaður, framræslu- og jarðræktarstyrkir eða útflutningsuppbætur. Heildarumframgreiðslurnar nema þó ekki nema um 4%.

Heildarmyndin af rekstrarreikningi ríkissjóðs árið 1969 er þessi: Rekstrartekjur reyndust 7 milljarðar 455 millj. kr., en rekstrargjöld 7 milljarðar 590 millj. kr. Rekstrarhalli varð því 135 millj. kr. Lánahreyfingar inn umfram lánahreyfingar út fyrir ríkissjóð og stofnanir voru 655 millj., þar af vegna endurmats 31 millj. kr., gengismunar o. fl. Greiðslujöfnuður er jákvæður sem nemur 459 millj. kr., og bætt viðskiptastaða á bankareikningum og sjóði var 291 millj. kr. Til skýringar á þessum tölum er þó þess að gæta, að í árslok 1969 samdi fjmrn. við Seðlabanka Íslands um að breyta 500 millj. kr. af yfirdráttarskuld á aðalreikningi ríkissjóðs við Seðlabankann í fast lán til 5 ára. Þessi ráðstöfun hefur þau áhrif á tölurnar, sem nefndar voru, að lánajöfnuður versnar sem því nemur, en greiðslujöfnuður batnar að sama skapi. Sömuleiðis batnar viðskiptastaða á bankareikningum.

Nú mun ég í stórum dráttum gera grein fyrir horfum varðandi afkomu ríkissjóðs á árinu 1970 eftir því, sem bezt verður vitað, en þar sem margt getur enn gerzt síðustu þrjá mánuði ársins, verður að taka allar slíkar ágizkanir með miklum fyrirvara. Fjárlög ársins 1970 voru afgreidd með einungis 25 millj. kr. greiðsluafgangi og er það lítilfjörlegur afgangur miðað við 9 milljarða kr. fjárlög. Í fjárlagaáætlunum var byggt á forsendum, sem kunnar voru í desember 1969, þegar fjárlagafrv. var endanlega afgreitt hér á Alþ. Hins vegar var ekki gert ráð fyrir breytingum útgjalda, sem vænta mátti á árinu, t. d. vegna kjarasamninga ríkisstarfsmanna. Nú liggja fyrir tölur um rekstur ríkissjóðs í þrengri merkingu fyrir þrjá ársfjórðunga 1970 og greiðslutölur til dagsins í dag. Af þessum tölum og öðrum gögnum, sem fyrir liggja, má fara nokkuð nærri um afkomu ríkissjóðs til ársloka, ef ekkert óvænt gerist. Er þá miðað við greiðsluafkomu. Rekstrarafkoma gæti orðið lítið eitt öðruvísi vegna reglna um tímasetningu á færslum tekna og gjalda.

Í gjaldahlið eru fyrirsjáanlegar verulegar greiðslur umfram fjárlög. Mestu munar um launahækkanir, sem þegar eru ákveðnar og verða varla minna en 200 millj. kr. Koma þar bæði til vísitöluhækkanir og svo 15% allsherjar grunnkaupshækkanir á laun opinberra starfsmanna, sem samið var um í sambandi við kjarasamningana í sumar. Þá hefur einnig vegna mikils kostnaðarauka sjúkrahúsa af völdum launahækkana og annars tilkostnaðar orðið óumflýjanlegt að endurskoða daggjöld sjúkrahúsa og er áætlað, að sjúkratryggingaútgjöld ríkissjóðs af þessum sökum hækki um 69 millj. kr. frá fjárl., og hækkun ellilífeyris og fleiri bóta almannatrygginga veldur 44 millj. kr. umframgreiðslu. Í fjárl. hafði verið ákveðin 5.2% hækkun bóta almannatrygginga annarra en fjölskyldubóta, en fjölskyldubætur voru hækkaðar um 27% með öllum börnum öðrum en fyrsta barni. Þótti mönnum almennt mjög lág þessi hækkun lífeyrisbótanna, en ekki var auðið að hækka þær meira miðað við afkomu ríkissjóðs þá nema með nýrri tekjuöflun.

Eftir hinar almennu launahækkanir í sumar ákvað ríkisstj. að nota heimild gildandi laga og hækka lífeyrisbætur og aðrar skyldar bætur almannatrygginga um 20% til viðbótar. Hafa ýmsir að vonum varpað fram þeirri spurningu, hvernig auðið hafi verið að hækka þessar bætur á miðju ári svo mikið, úr því að það var ekki auðið í ársbyrjun. Er því einfaldlega til að svara, að annars vegar var auðvitað með engu móti stætt á því að hækka öll almenn laun í landinu nema laun ellilífeyrisþega, sem efnahagslega eru verr settir, og hins vegar er það staðreynd, að launahækkanirnar sjálfar og stóraukin velta í þjóðfélaginu af þeirra völdum hefur bætt svo mjög afkomuhorfur ríkissjóðs, að auðið er að standa straum af útgjöldum, sem tekjuhorfur í ársbyrjun bentu til, að ógerlegt væri að standa undir.

Vegna hærra verðs á landbúnaðarvörum en gert var ráð fyrir í fjárlagaáætlun, má gera ráð fyrir 50 millj. kr. aukagreiðslu vegna lögbundinna út flutningsuppbóta á þessu ári. Þá er vitað um ýmsar smærri umframgreiðslur, sem verða varla innan við 40 millj. kr. Vega jarðræktarstyrkir þar þyngst, en einnig munu verða töluverð umframútgjöld við fasteignamatið, svo að auðið verði að ljúka því á þessu ári. Óvænt útgjöld vegna skaðabóta og ýmislegt annað. Loks má gera ráð fyrir, að vaxtaútgjöld ríkissjóðs af bráðabirgðaskuldum séu vanáætluð, varla innan við 30 millj. kr. Loks leiða umframtekjur af mörkuðum tekjustofnum sjálfkrafa til umframgreiðslu, má þar til nefna 30 millj. kr. hækkun á launaskatti vegna húsnæðismála og 13 millj. kr. framleiðslugjald á áli umfram áætlun. En þessir liðir hafa ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs í þrengri merkingu. Samtals má því gera ráð fyrir, að gjöldin verði um 475 millj. kr. umfram fjárlög.

Þá hafa verulega breyttar forsendur síðari hluta ársins aukið tekjuhorfur ríkissjóðs frá því, sem ráðgert var í desember 1969. Í stað 8 milljarða 397 millj. kr. tekna í fjárl. er nú gert ráð fyrir, að tekjur verði 9.l–9.15 milljarðar eða 700–750 millj. kr. hærri en fjárlög ráðgerðu. Munar hér mestu um 300–350 millj. kr. hækkun almennra aðflutningsgjalda, 96 millj. kr. hækkun tekjuskatta umfram fjárlagaáætlun, 128 millj. kr. hækkun söluskatts, 47 millj. kr. hækkun á hagnaði Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins, 30 millj, kr. hækkun launaskatts, 28 millj. kr. hækkun á stimpilgjaldi og 13 millj. kr. hækkun á álgjaldi umfram fjárlagaáætlun, auk smærri liða, sem samtals nema töluverðum fjárhæðum. Í öllum þessum tilfellum er um að ræða þróun, sem með engu móti varð séð fyrir við afgreiðslu fjárlaga ársins. Eina verulega óvissuatriðið, sem getur halt áhrif á þessar áætlanir, eru launabreytingar, sem verða kunna í samningum eða niðurstöðu kjaradóms um laun ríkisstarfsmanna nú fyrir næstu áramót, en samkv. samningum ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja eiga slíkar launabreytingar að verka aftur fyrir sig frá 1. júli 1970. Verður síðar vikið að því vandamáli.

Staða ríkissjóðs á aðalreikningi í Seðlabankanum um hádegi í dag var samkv. uppgjöri ríkisféhirðis 199 millj. kr. skuld og er það 178 millj. kr. betri staða en sama dag í fyrra, ef frá eru dregnar þær 600 millj. kr., sem skuldin var lækkuð með föstu láni Seðlabankans og greiðslu úr jöfnunarsjóði, þannig að um sambærilegar tölur sé að ræða. Sýnist vera ástæða til að ætla, að staðan á aðalreikningi verði jákvæð um næstu áramót, og er það í fyrsta sinn síðan í árslok 1966.

Fjárlagafrv. fyrir árið 1971 mótast mjög af þeim miklu efnahagssveiflum, sem orðið hafa á árinu 1970. Hefur sú þróun að sjálfsögðu mjög veruleg áhrif á fjárhagsafkomu ríkissjóðs bæði tekna- og gjaldamegin, og sé eingöngu litið á stöðu ríkissjóðs má segja, að áhrifin séu jákvæð, þótt útgjaldaaukning verði að sjálfsögðu mjög mikil. En vitanlega má ekki skoða vandamálin frá svo þröngu sjónarhorni, heldur verður að hafa efnahagskerfið í heild í huga og þá fyrst og fremst getu atvinnuveganna til þess að standa undir þeirri geysilegu útgjaldaaukningu, sem á þá hefur verið lögð á þessu ári og mun enn fara vaxandi í lok þessa árs og á næsta ári, verði ekkert að gert. Mun ég nánar ræða þann vanda síðar.

Svo sem venja hefur verið, var endanlega gengið frá fjárlagafrv. í lok ágústmánaðar, og eru því áætlanir um tekjur og gjöld ríkissjóðs í frv. við það miðaðar, að engar sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar í kaupgjalds- og verðlagsmálum, en ekki þyrfti þó að koma til sérstök opinber aðstoð við atvinnuvegina, þótt athuganir á efnahagsþróuninni væru þá þegar það langt komnar, að augljóst væri, að grípa yrði til einhverra aðgerða í efnahagsmálum, ef tryggja ætti atvinnuvegunum viðunandi starfsskilyrði. Þá var úrlausn þess vandamáls rétt að komast á umræðustig og þess því enginn kostur að undirbúa fjárlagafrv. með hliðsjón af hugsanlegum úrræðum í þeim efnum, sem enginn þá vissi, hver yrðu. Hygg ég naumast, að geti orðið um það ágreiningur, að þess var þá enginn annar kostur en að draga upp myndina af horfunum á árinu 1971 svo sem gert er í frv. vegna hinna nýju laga um Stjórnarráð Íslands og nýrrar reglugerðar í samræmi við þau lög um skiptingu viðfangsefna milli stjórnardeilda. Verður allmikil breyting á uppsetningu fjárl. nú miðað við fjárlög ársins 1970. Kemur þar bæði til, að rn. fjölgar og einstakar stofnanir og málefnaflokkar flytjast því á milli rn.

Heildarútgjöld á rekstrarreikningi ríkissjóðs eru áætluð 10 milljarðar 39 millj. 916 þús. kr., en voru 8 milljarðar 187 millj. 384 þús. kr. í fjárl. ársins 1970. Heildarhækkunin nemur því 1 milljarði 852 millj. 532 þús. eða 22.6%, en þar af er hækkun sérstakra tekjustofna, sem ráðstafað er til vissra aðila eða verkefna með sérlögum, 244 millj. 92 þús. eða 14.l%. Hækkun eiginlegra rekstrarútgjalda ríkissjóðs nemur því 1 milljarði 608 millj. 440 þús. eða 24.9% hækkun frá fjárl. 1970. Er hér vissulega um mjög stórfellda hækkun útgjalda að ræða, en meginhluti hennar stafar af hinum miklu kauphækkunum og þar af leiðandi kostnaðaraukningu, sem til hefur komið á þessu ári og enn mun fara vaxandi á næsta ári að öllu óbreyttu. Ekki er gert ráð fyrir neinni nýrri starfsemi á vegum ríkisins nema sem beinlínis er fyrir mælt í lögum. Veruleg aukning er að vísu á fjárveitingu til verklegra framkvæmda, en leitazt hefur verið við á sama hátt og áður að hafa fullt aðhald varðandi rekstrarfjárveitingar til ríkisstofnana og annarrar starfsemi á vegum ríkisins. Því er ekki að leyna, að í fjárlagatill. stofnana og einstakra rn. varð þess allvíða vart, að menn teldu líkur til, að fjárráð ríkissjóðs yrðu góð á árinu 1971, og því væri óhætt að vera nokkuð frjálslegur í fjárbeiðnum. En í meðförum fjmrn. voru fjárlagatill. stofnana og rn. skornar niður um nær 600 millj. kr. Var hér vitanlega um margvísleg nytjamál að ræða, en sem urðu að víkja fyrir þeirri höfuðnauðsyn, svo sem nú er ástatt, að auðið reynist að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög án þess að til komi nýjar skattaálögur. Þegar reynt er að meta, hvort ríkisútgjöld eða hækkun ríkisútgjalda sé óhæfileg eða ekki, tjóar að sjálfsögðu ekki að horfa eingöngu á niðurstöðutölur fjárlaga, heldur verður að hafa hliðsjón af heildartekjum þjóðarbúsins. Þegar borið er saman við önnur lönd, sem veita borgurum sínum sízt betri þjónustu en íslenzka ríkið gerir, þá er augljóst, að skattaálögur hér á landi eru ekki óhæfilegar, og þótt ríkisútgjöld hækki verulega ár frá ári er einnig ljóst, að hlutdeild ríkisútgjalda í þjóðartekjum fer ekki hækkandi. Árið 1968 nam þjóðarframleiðslan 27.3 milljörðum og voru ríkisútgjöld þá 22.5% af þjóðarframleiðslunni. Árið 1969 nam þjóðarframleiðslan 33.7 milljörðum og ríkisútgjöld voru 20.8% af þjóðarframleiðslu. Ekki er enn hægt að gera sér endanlega grein fyrir árinu 1970, en gera má þó ráð fyrir, að prósentan af þjóðarframleiðslu verði eitthvað lægri, og 1971 gera þjóðhagsáætlanir Efnahagsstofnunarinnar ráð fyrir, að þjóðarframleiðslan muni verða 48.8 milljarðar og verða þá ríkisútgjöldin 20.6% af þjóðarframleiðslunni þrátt fyrir hina miklu hækkun þeirra.

Langstærsti liðurinn í útgjaldaaukningu ríkissjóðs á næsta ári eru launahækkanir, sem áætlað er, að nemi 580 millj. kr. eða meira en þriðja hluta af allri hækkun ríkisútgjaldanna. Þótt hér sé meðtalin öll áfallin vísitöluhækkun, áætluð vísitöluhækkun 1. desember og nokkur viðbótarhækkun vísitölu á árinu 1971, eru samt ekki öll kurl til grafar komin. Viðræður um nýja kjarasamninga standa nú yfir við starfsmenn ríkisins og á þeim að verða lokið fyrir næstu áramót, en ekki er í frv. áætlað neitt fé til að mæta hækkunum útgjalda vegna þeirra samninga, enda engin leið að gera sér nokkra grein fyrir þeim útgjaldaauka, þegar frv. var samið. Heildarlaunagreiðslur stofnana í a-hluta ríkisreiknings munu í árslok 1970 nema um 2 milljörðum 180 millj. kr. á ársgrundvelli, en samtals eru nú allar launagreiðslur ríkisstofnana um 3.7 milljarðar á ári. Næststærsti hækkunarliður ríkisútgjalda eru hin ýmsu framlög til almannatrygginga, sem hækka um 359 millj., og nema þessir tveir liðir rúmum helmingi heildarhækkunar áætlaðra ríkisútgjalda á næsta ári. Framlög til ýmissa verklegra framkvæmda hækka um 185 millj., sem segir þó ekki nema hálfa sögu, því að sjálfsögðu ber einnig að telja til verklegra framkvæmda hin stórauknu framlög til húsnæðismála og hækkun fjárveitinga til Landnáms ríkisins, Fiskveiðasjóðs og Iðnlánasjóðs, alls um 165 millj. kr., svo hækkun fjárveitingar til verklegra framkvæmda er samtals um 350 millj. kr.

Með fjárlagafrv. fylgir nú, eins og hefur verið síðustu árin, mjög ýtarleg greinargerð, annars vegar samandregið heildaryfirlit um helztu breytingar tekna og gjalda miðað við síðustu fjárl. og hins vegar nákvæm sundurliðun og útskýring á einstökum breytingarliðum. Ég sé því enga ástæðu til að gera grein fyrir breyt. í fjárlfrv. miðað við fjárlög ársins 1970 í einstökum atriðum, enda yrði það allt of langt mál, en læt nægja að vísa til grg., en mun takmarka mál mitt við að skýra sérstaklega þá útgjaldaliði eða tekjuliði frv., sem ég tel ástæðu að vekja athygli á.

Með hinum nýju l. um Stjórnarráð Íslands, sem síðasta Alþ. samþ., var gerð veigamikil endurskipulagning á starfsemi Stjórnarráðsins, stjórnardeildum fjölgar nokkuð og gert er ráð fyrir auknu starfsliði. Var með löggjöf þessari að því stefnt, að stjórnardeildirnar yrðu færari en áður að annast yfirstjórn og nauðsynlegt eftirlit með ríkiskerfinu og var ekki um þetta mál ágreiningur hér á hinu háa Alþ. Öllum hlýtur hins vegar að hafa verið ljóst, að þessar skipulagsbreytingar mundu leiða til allverulegs útgjaldaauka við Stjórnarráðið, enda er gert ráð fyrir 16 millj. kr. hækkun á útgjöldum til Stjórnarráðsins á næsta ári auk verðlagsuppbóta, og til viðbótar er gert ráð fyrir að verja þurfi um 5 millj. kr. vegna breytinga á húsnæði og tilflutnings stjórnardeilda við tilkomu hinna nýju ráðuneyta. Telja verður, að fullt hóf hafi verið haft á aukningu starfsliðs Stjórnarráðsins og unnið er nú að því að fastmóta þróun einstakra stjórnardeilda með hliðsjón af verkefnum, þannig að Stjórnarráðið geti sinnt hlutverki sínu, svo sem l. gera ráð fyrir, án þess að um óhæfilega útþenslu þess verði að ræða.

Þegar útgjaldahækkun ríkissjóðs er skipt niður á einstaka málefnaflokka, vega menntamálin langþyngst og hækka framlög til þeirra um 466 millj. kr. Óumflýjanlegt er talið að auka enn verulega þá tilrauna- og rannsóknastarfsemi, sem fram fer á vegum skólarannsókna innan menntmrn. Fjármálaeftirlit skóla hættir sem sjálfstæð stofnun, en fjármáladeild rn. tekur við starfsemi þess, og er hin brýnasta nauðsyn að hafa sem styrkast fjármálaeftirlit með skólakerfinu og hinum einstöku þáttum þess, því slappleiki í þeim efnum nemur skjótlega milljónatugum í auknum útgjöldum ríkissjóðs. Að venju verður mikil hækkun útgjalda vegna fjölgunar kennara á hinum ýmsu skólastigum. Kostnaður við skyldunámsstigið, barna- og gagnfræðaskóla, hækkar um 74.9 millj., og 46.3 millj. af þeirri upphæð er almenn rekstrarkostnaðaraukning vegna fjölgunar kennara og hækkunar á öðrum rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir 23.1 millj. kr. til aukinna byggingaframlaga og 5.5 millj. kr. til að mæta hækkun viðhaldskostnaðar. Hin nýju skólakostnaðarlög, sem gera ráð fyrir miklu fljótari greiðslu framlaga ríkissjóðs til einstakra skólabygginga, eru tvímælalaust til mikilla bóta að því leyti, að skólabyggingafé nýtist betur. En menn standa hins vegar andspænis þeim vanda, að ekki er hægt að veita fé til jafnmargra skólabygginga og áður var í einu. Þetta ætti í raun og veru að koma í einn stað niður, en þó er erfitt fyrir þm. að bíða með ýmsar brýnar skólabyggingarframkvæmdir í kjördæmum sínum, nema því aðeins, að fyrirfram sé vitað, á hvaða ári þeir fái fjárveitingu til framkvæmda. Og er því hin brýnasta nauðsyn að gera áætlun til nokkurra ára um skólabyggingar, svo sem raunar l. gera ráð fyrir. Miðað við reynslu síðasta árs horfi ég með mestum kvíða á það vandasama verkefni fjvn. að ná bærilegu samkomulagi um viðráðanlegar fjárveitingar til nýrra skólabygginga á næsta ári.

Á síðasta ári var birt nál. svonefndrar háskólanefndar, sem leiddi ótvírætt í ljós, að stærstu fjárhagslegu vandamálin á sviði skólamála næsta áratug væru á framhaldsskólastiginu, nú fyrstu árin á menntaskólastiginu og síðan í stórvaxandi mæli á háskólastiginu. Var talið óumflýjanlegt, að byggingu Árnagarðs lokinni, að halda áfram og það í vaxandi mæli byggingum í þágu Háskólans. Happdrætti Háskólans var eflt og hefur skilað stórauknum tekjum á þessu ári. 30 millj. kr. fjáröflun var ráðgerð í framkvæmdaáætlun, sem þó hefur ekki þurft á að halda á þessu ári, en 30 millj. kr. fjárveiting er nú tekin í fjárlagafrv. vegna bygginga í þágu Háskólans. Samkomulag hefur orðið um það milli menntmrn. og fjmrn. að setja á laggirnar sérstaka byggingarnefnd til þess að samræma og hafa yfirumsjón með byggingarframkvæmdum Háskólans. Samhliða vaxa að sjálfsögðu stórlega rekstrarútgjöld Háskólans, bæði vegna óumflýjanlegrar stofnunar nýrra deilda og aukningar í eldri deildum. Var framkvæmd í sumar á vegum menntmrn. mjög rækileg athugun á rekstrarfjárþörf Háskólans á næsta ári og hefur fjmrn. í meginefnum fallizt á niðurstöður þeirrar athugunar, en samkvæmt því hækkar fjárveiting til reksturs Háskólans um 17.8 millj. kr. Mikil fjölgun nemenda verður á menntaskólastiginu, einkum í Menntaskólanum við Tjörnina og Hamrahliðarskóla og nýr menntaskóli tekur til starfa á Ísafirði og hækka framlög til reksturs menntaskóla um 16.3 millj., og munar þar mestu um framhaldsbyggingar við Hamrahlíðarskólann.

Auk eflingar Háskólans hefur annað og raunar mest umtalaða viðfangsefnið í menntamálum verið aðstoð ríkisins við námsmenn heima og erlendis. Framlög ríkissjóðs til Lánasjóðs ísl. námsmanna hafa að vísu aukizt stórkostlega síðustu árin og mun meira en verðlagshækkuninni nemur, en þó hefur réttilega verið á það bent, að sá hluti væri enn of stór, sem námsmönnum væri ætlað að afla sér af eigin rammleik til að standa undir sívaxandi námskostnaði. Stjórn lánasjóðsins, þar sem einnig eiga sæti fulltrúar námsmanna, var falið að taka þetta vandamál til rækilegrar athugunar. Var stjórn lánasjóðs algjörlega sammála um tillögugerð til ríkisstj., þar sem gert er ráð fyrir allverulegri aukningu framlaga og lánsfjáröflunar til Lánasjóðs ísl. námsmanna og féllst ríkisstj. á það í sumar að mæla með því hér á Alþ., að þessar till. yrðu samþ. Því hefur heyrzt haldið fram, að meðferð ríkisstj. á þessu máli hafi verið næsta óeðlileg og hafi ríkisstj. gefizt upp fyrir upphlaupsmönnum og hávaðalýð og þannig vísað veginn um það, að líklegasta leiðin til að fá málum framgengt væri að beita ribbaldahætti í stað raka. Hér er um reginmisskilning að ræða. Meginkrafan um, að séð verði fyrir öllum námskostnaði kemur ekki til álita. Enda ekki vitað, að svo sé í neinu landi, nema þar sem námslaunakerfi er, en í þeim löndum verða námsmenn að sætta sig við kjör og skuldbindingar að námi loknu, sem ekki þekkjast í vestrænum löndum. Ætlun ríkisstj. var alltaf sú að taka þetta mikla vandamál til rækilegrar athugunar, svo sem ítrekað var skýrt frá fyrr á þessu ári, og hlutur stúdenta við nám við Háskóla Íslands er aukinn mest hlutfallslega, en einmitt sá hópur námsmanna beitti aldrei ofbeldi heldur eingöngu rökum í sínum málflutningi, og það kom auðvitað heldur ekki til mála að láta námsmenn almennt gjalda þess, þótt fámennir hópar stúdenta, æstir af pólitískum upphlaupsmönnum, sýndu ósæmilegt framferði. Ástæðan til þess, að ríkisstj. tilkynnti ákvörðun sína, áður en hægt væri að leita endanlegs samþykkis Alþ. við meðferð fjárl., var sú, að óumflýjanlegt var fyrir námsmenn, áður en skólaárið byrjaði, að vita, hverra kosta þeir ættu völ. Lagt er til, að framlag ríkissjóðs til lánasjóðsins hækki um 32.6 millj. kr., en þess má geta, að miðað við þær reglur, sem fylgt hefur verið síðustu árin um ákvörðun framlaga til lánasjóðsins, hefði fjárveitingin hækkað um 20 millj. kr. Þá er áætlað, að árlegar lántökur sjóðsins hækki um 14 millj. og ráðstöfunarfé sjóðsins hækki á næsta ári um nær 50 millj.

Vegna aukinna viðfangsefna og mikillar hækkunar á útgáfukostnaði er óumflýjanlegt að hækka fjáröflun til Ríkisútgáfu námsbóka á næsta ári um 15 millj. kr., en 2/3 þessarar fjárhæðar eru greiddir af námsbókagjaldi, sem verður að tvöfaldast af þessum sökum. Framlög til iðnskóla hækka um 9.9 millj. og þar af 4.8 millj. til byggingar iðnskóla og framlag til Heyrnleysingjaskólans hækkar um 6.5 millj. kr., sem er að mestu vegna nýbyggingar skólans. Enn verður veruleg hækkun á fjárveitingu til Tækniskólans, vegna stöðugt aukinnar aðsóknar að skólanum. Í sambandi við Tækniskólann og Matsveina- og veitingaþjónaskólann er rétt að skýra frá því, að tekið hefur verið á leigu húsnæði fyrir skóla þessa, er leysa mun húsnæðisþörf þeirra um alllangt skeið. Verður því m. a. ekki þörf fyrir þá nýbyggingu fyrir Matsveina- og veitingaþjónaskólann, sem ráðgerð hafði verið. Má ótvírætt fullyrða, að hér hafi verið um hagkvæma ráðstöfun að ræða.

Í fjárl. yfirstandandi árs er í fyrsta sinn varið nokkurri fjárveitingu eða 10 millj. kr. til að jafna námsaðstöðu nemenda úr þéttbýli og strjálbýli, sem ætlað er til að létta undir með þeim nemendum í framhaldsskólum, sem þurfa að leita sér kennslu utan heimabyggðar sinnar en án þess að eiga aðgang að heimavist. Í fjárlagafrv. er nú gert ráð fyrir nokkuð hærri fjárveitingu í þessu skyni. Menntmrn. hefur látið fara fram athugun á þessu vandamáli, sem vissulega er þess eðlis að gefa verður gaum og þá vafalaust helzt á þann hátt að reyna að tryggja aukna heimavistaraðstöðu í framhaldsskólum. Er hér um kostnaðarsamt viðfangsefni að ræða, sem þó verður að reyna að leysa að því marki, að hvorki þurfi efnilegir nemendur að fara menntunar á mis af þessum sökum né heldur, að foreldrar jafnvel neyðist til að flytja búsetu sína vegna framhaldsmenntunar barnanna, sem ekki mun óalgengt. Hitt verða menn þó jafnan að hafa í huga, hvort sem rætt er um skólamál eða aðra þjónustu við þjóðfélagsborgarana, sem því miður vill oft gleymast, þegar umbótanna er krafizt, að allar kosta þessar umbætur mikla fjármuni, sem þjóðin verður þá að vera reiðubúin að leggja fram, og ég held, að okkur sé jafnframt nauðsynlegt að hafa í huga, að þótt við viljum hafa ótalmargt betra en það er og umbótavilji er alltaf lofsverður, þá er það ótvírætt, að Íslendingar hafa í sínu harðbýla landi komið á miklu meiri þjóðfélagslegum umbótum heldur en margar miklu ríkari þjóðir.

Framlag til Þjóðleikhússins hækkar um 9.1 millj. kr. Er hér um mikla hækkun að ræða, sem fyrst og fremst stafar af því, að á síðasta Alþ. var ákveðið, að Þjóðleikhúsið skyldi ekki lengur njóta hlunninda af skemmtanaskatti. Því miður eru horfur á, að fjárveiting til Þjóðleikhússins verði að hækka enn, sökum þess að leikhúsið hefur á síðustu árum safnað verulegum skuldum, og verður auðvitað ekki hjá því komizt að greiða þær skuldir. Fyrir nokkru fór fram ýtarleg athugun á rekstri Þjóðleikhússins og var þá gert ráð fyrir, að leikhúsinu ætti að nægja næsta þriggja ára bil sem svaraði 6 millj. kr. fjárveiting árlega að viðbættum hluta af skemmtanaskatti, en vegna mikilla launahækkana telur þjóðleikhússtjóri þessa áætlun ekki geta staðizt, þar eð ekki sé auðið að hækka verð aðgöngumiða til að mæta kauphækkuninni. Virðast menn því verða að bíta í það súra epli að gjalda þessa menningarstarfsemi svo dýru verði, sem raun ber vitni um, en hætt er við, að önnur leikstarfsemi í landinu eigi þá erfitt uppdráttar. Niðurfelling á hlutdeild Þjóðleikhúss og Sinfóníuhljómsveitar í skemmtanaskatti var ákveðin til að létta undir með félagsheimilasjóði, vegna lækkunar skemmtanaskatts af kvikmyndasýningum. Félagsheimilasjóður hefur alltaf búið við mikinn fjárskort miðað við ráðgerða hlutdeild í byggingu félagsheimila. Nam ógreidd heimiluð kostnaðarhlutdeild sjóðsins í félagsheimilum 56.4 millj. kr., en áætlaðar tekjur á næsta ári eru 10 millj. Þá hefur verið ákveðið að nota lagaheimild til útgáfu skuldabréfa, sem ráðgerð er í fyrsta áfanga 14 millj. kr. Ætti því að verða auðið að hreinsa verulega til nú varðandi eldri skuldir.

Fjárveitingar til sendiráðanna hækka um 11.1 millj. kr. og stafar nær helmingur þeirrar hækkunar af kostnaði við sendinefnd Íslands hjá EFTA í Genf, en engin fjárveiting var til þeirrar skrifstofu á fjárl. þessa árs. Vegna dýrtíðaraukningar í ýmsum löndum reynist einnig óumflýjanlegt að hækka staðaruppbót sendiráðsfólks allverulega. Vegna heimkvaðningar nokkurra starfsmanna sendiráða hækka launagreiðslur utanrrn., en þó er hér um verulegan sparnað að ræða miðað við, að starfsmenn þessir störfuðu í sendiráðum.

Vegna hækkunar á verði landbúnaðarvara er áætlað, að útflutningsbætur þurfi að hækka um 90 millj. kr. á næsta ári, en þær eru sem kunnugt er takmarkaðar við 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar og hafa um margra ára bil alltaf verið í hámarki vegna mikils útflutnings landbúnaðarvara, sem ýmsar hafa verið seldar langt undir sannvirði. Nema útflutningsuppbæturnar þá samtals 390 millj. kr., en líklegt er, að endurskoða verði þessar tölur fyrir endanlega afgreiðslu fjárl., því búvöruverð hækkaði meira í haust en gert hafði verið ráð fyrir við ákvörðun uppbótarfjárhæðarinnar í frv. Sem betur fer hefur markaðurinn fyrir kindakjöt batnað og verð hækkað og er það einkum að þakka auknum innflutningi til Norðurlanda í sambandi við aðild Íslands að EFTA.

Framkvæmdir í jarðrækt halda enn áfram að aukast og er gert ráð fyrir, að framlög til jarðræktar þurfi að hækka um 17.3 millj. á næsta ári. Aukastyrkur til súgþurrkunar fellur hins vegar niður, þar eð samkomulaginu við bændasamtökin um það efni hefur verið fullnægt. Aftur á móti hefur ríkisstj. ákveðið um það efni eftir samningu frv. að beita sér fyrir nýjum framlögum til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Þá var ákveðið á síðasta Alþ., að framlag til Landnáms ríkisins skyldi aftur hækka um þær 7.5 millj. kr., sem framlagið var skert með sparnaðarlögunum 1968. Er að sjálfsögðu mikilvægt um leið að taka starfsemi Landnámsins til heildarendurskoðunar, því ekki virðist vera neinn grundvöllur undir stofnun nýbýla svo sem ástatt er. En engu að síður þarf að mörgu að hyggja í landbúnaðinum til umbóta og l. um Stofnlánadeild landbúnaðarins eru nú í sérstakri endurskoðun. Má vænta þess, að starfsemi Landnámsins komi þá einnig til endurskoðunar.

Í fjárlagafrv. er ekki gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til landbúnaðarins vegna hins alvarlega áfalls, sem ýmis byggðarlög urðu fyrir af öskufalli í sumar til viðbótar miklu harðæri af völdum kulda og kals, sem enn einu sinni hefur dunið yfir íslenzka bændastétt. Þetta stafar ekki af sinnuleysi um þessi vandamál, enda hefur harðærisnefnd starfað að athugun vandans í allt sumar, heldur af þeim eðlilegu ástæðum, að till.-gerð um aðgerðir var óhugsandi í ágústlok, þegar gengið var frá fjárlagafrv. Síðan hefur harðærisnefnd skilað ákveðnum till., sem sýnast það hófsamlegar og skynsamlegar, að ríkisstj. hefur ákveðið að mæla með þeim við Alþ. Er gert ráð fyrir að aðskilja vandamálin þannig, að aðstoð vegna kals verði eins og áður á vegum Bjargráðasjóðs og verði ekki um beinar fjárveitingar til sjóðsins að ræða í því sambandi, heldur verði greitt fyrir lánsfjáröflun sjóðnum til handa. En hins vegar er tjónið vegna öskufallsins talið vera svo sérstæðs eðlis og það mikið í ýmsum sveitum, að því verði ekki mætt með lánveitingum heldur þurfi til að koma beinar styrkveitingar, sem gert er ráð fyrir að verði 60% af áætluðu tjóni, sem annars vegar stafar af mjög óvenjulegri fóðurgjöf í vor og hins vegar af óeðlilegum lambadauða, og er sennilegt að samtals nemi þessi aðstoð um 25 millj. kr. Til viðbótar þessari aðstoð við bændur á öskufallssvæðum ákvað ríkisstj. í sumar að leggja fram fé til þess að dreifa miklu áburðarmagni yfir heiðalönd og beitilönd önnur, sem þurfti að taka til afnota vegna tilflutnings á búfénaði og var dreift samtals um 525 tonnum af áburði, sem kostar um 3.5 millj. kr.

Með sparnaðarlögunum 1968 var fellt niður framlag ríkissjóðs til Fiskveiðasjóðs. Átti sjóðurinn það mikið orðið í reiðufé, að talið var gerlegt að leysa fjárþörf hans með lántöku. Síðan hefur fjárþörf Fiskveiðasjóðs vegna aukinna lánveitinga vaxið svo stórlega, að óráðlegt er talið að styrkja ekki betur eigin fjárstöðu sjóðsins, og ákvað síðasta Alþ., að á árinu 1971 skyldu að nýju hefjast föst framlög ríkissjóðs til sjóðsins og var ársframlagið ákveðið 35 millj. kr., sem nú er því tekið í fjárlagafrv. Smíði hafrannsóknaskipsins Bjarna Sæmundssonar hefur dregizt nokkuð, en gert er nú ráð fyrir rekstri þess allt næsta ár og hækkar því nokkuð framlag til Hafrannsóknastofnunarinnar af þessum sökum. Hins vegar er í frv. reiknað með því, að vélskipið Hafþór verði selt, en tímabundið rannsóknarefni, sem Bjarni Sæmundsson og Árni Friðriksson muni ekki komast yfir, verði þá leyst með leiguskipum. Ætti það að vera fjárhagslega hagkvæmara og sýnist ástæðulitið að hafa meira en tvö hafrannsóknaskip í gangi allt árið, enda þess að vænta með tilkomu hins nýja og fullkomna skips, að bætist mjög öll aðstaða til hafrannsókna. Framlög ríkissjóðs til hinnar almennu deildar aflatryggingasjóðs hækka um 6.6 millj. kr. í samræmi við ákvæði l. frá s. l. Alþ. Niður fellur hið sérstaka framlag ríkissjóðs, sem greitt hefur verið í tvö ár, vegna hinnar nýju áhafnadeildar aflatryggingasjóðs, sem gert er ráð fyrir, að geti á næsta ári staðið undir skuldbindingum sínum án sérstakrar ríkisaðstoðar.

Á vegum dóms- og kirkjumrn. er tekin upp ný fjárveiting, 2.5 millj. kr., til þess að standa straum af kostnaði við alþingiskosningar á næsta ári. Framlög til dómgæzlu og lögreglumála hækka samtals um tæpar 79 millj. og nema verðlagshækkanir 57.4 millj. af þeirri fjárhæð. Fjárveitingar til bifreiðaeftirlits hækka um 6.3 millj., aðallega vegna nýbyggingar, sem orðin er mjög brýn, en þess ber að gæta, að tryggð hefur verið sérstök fjáröflun með hækkun skoðunargjalds til þess að standa straum af nýbreytingu þessari. Mjög lítil fjárveiting hefur verið til almannavarna, frá því að hún var lækkuð með sparnaðarlögunum 1968, en talið er óumflýjanlegt að hækka fjárveitinguna nú um 3.8 millj. til kaupa á ýmsum öryggisbúnaði og birgðum, en sem kunnugt er er hlutverk almannavarna ekki aðeins að sjá um öryggisráðstafanir vegna styrjaldarhættu, heldur og einnig að koma til hjálpar, ef tjón verður af einhverjum náttúruhamförum. Aðeins er gert ráð fyrir 2 millj. kr. hækkun til Landhelgisgæzlunnar og er þar raunverulega um allverulega lækkun að ræða miðað við aukinn kostnað, sem leiðir af bættu skipulagi varðgæzlunnar. Nauðsynlegt er orðið að efla fluggæzluna, er það viðfangsefni nú í sérstakri athugun og kunna í því sambandi innan tíðar að þurfa að koma til sérstakar fjárveitingar, en ætla má, að aukin fluggæzla geti leitt til sparnaðar í notkun varðskipanna, þannig að ekki þurfi í heild að verða um aukin útgjöld að ræða. Allt frá því, að ákveðið var með sparnaðarlögunum 1968 að draga úr kostnaði ríkisins við löggæzlu hefur verið á það lögð áherzla, að þessi sparnaður gæti orðið raunhæfur og hafa fjárveitingar bæði á árinu 1969 og 1970 verið við það miðaðar, að sérstakar ráðstafanir yrðu gerðar til þess að draga úr þessum kostnaði. Mun sennilega þurfa að koma hér til sérstök lagabreyting og ákveðnar till. hafa verið gerðar af hálfu fjvn. og Hagsýslustofnunarinnar, hvernig auðið muni að ná fram þessum sparnaði, en því miður hafa þessar skipulagsbreytingar ekki enn verið lögfestar, en fjárveitingar til löggæzlu í fjárlagafrv. nú eru við það miðaðar, að svo verði gert á þessu þingi. Og þyrftu þá þær breytingar að verða að l. fyrir áramót.

Litlar breytingar verða á framlögum til kirkjumála umfram verðlagsuppbætur á laun, sem nema 10 millj. kr. Nokkur hækkun verður þó á framlagi til kristnisjóðs, og rétt er að vekja athygli á því, þó ekki sé um stóra fjárveitingu að ræða, að lagt er til að veita nokkra fjárhæð til aukinnar kristindómsfræðslu í skólum, en á það hefur verið lögð mikil áherzla af kirkjunnar mönnum. Í þessu sambandi er rétt að leggja á það áherzlu, að verði kristindómsfræðsla almennt aukin sem námsgrein í skólum, hlýtur það að verða að ákveðast innan skólakerfisins, og ber ekki að líta á þessa fjárveitingu nú sem neina ákvörðun í því efni, heldur aðeins til þess að gefa kirkjunni aðstöðu til þess að gera á sínum vegum nánast tilraunir í þessa átt í samráði við skólastjórnirnar.

Með l. frá síðasta Alþ. voru ákveðin stóraukin framlög ríkissjóðs til húsnæðismála. Var þar annars vegar um að ræða nær tvöföldun eða 35 millj. kr. hækkun á hinu almenna framlagi ríkisins til húsnæðismálastjórnar, en hins vegar mikla hækkun á framlagi til Byggingasjóðs verkamanna vegna stóraukinnar aðstoðar við verkamannabústaði samkvæmt ákvæðum hinna nýju laga og nemur útgjaldaaukning ríkissjóðs til verkamannabústaða um 48 millj. kr. á næsta ári. Er því hér um nýjan útgjaldalið að ræða, sem á næsta ári mun nema samtals um 83 millj. kr.

Tekjustofnar, sem með sérstökum lögum er ráðstafað til tiltekinna þarfa, hækka flestir eða allir nokkuð, svo sem álag á gosdrykki, sælgæti, erfðafjárskattur og skipulagsgjald, en þessir tekjustofnar snerta ekki afkomu ríkissjóðs í þrengri merkingu. Langmest hækkun verður á álgjaldi, sem lögum samkv. rennur til Atvinnujöfnunarsjóðs, og hækkar sá tekjustofn á næsta ári um 21.8 millj. kr., en hins vegar er fellt niður 20 millj. kr. framlag til Atvinnujöfnunarsjóðs, sem veitt var á þessu ári til að mæta sérstökum þörfum. Kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs til þess að mæta halla lífeyrissjóða verkalýðsfélaganna hækkar um 2.8 millj. kr. í samræmi við l. um það efni. Í því sambandi er rétt að taka fram, að ríkisstj. hefur ákveðið að beita sér fyrir því við Alþ., að lögfestur verði sérstakur lífeyrissjóður fyrir bændur og mundi ríkissjóður í sambandi við þá lagasetningu verða að taka á sig nokkrar kvaðir í samræmi við það, sem gildir um lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna fyrstu árin vegna hallareksturs þess sjóðs, en ekki þótti rétt að taka þau útgjöld í fjárlagafrv. fyrr en séð yrði, hverjar yrðu undirtektir Alþ. við það mál.

Að venju er annar stærsti kostnaðarauki ríkissjóðs aukin útgjöld við tryggingakerfið og nemur sú hækkun 358.5 millj. kr., sem skiptist þannig, að 135.4 millj. eru vegna lífeyristrygginga, 199.6 millj. vegna sjúkratrygginga og 23.5 millj. vegna atvinnuleysistrygginga. Í grg. frv. er að finna nákvæma sundurliðun á þessum útgjöldum, en áætlað er, að á næsta ári nemi framlög ríkissjóðs til tryggingakerfisins samtals 2 milljörðum og 81 millj. kr. að frátöldum persónuiðgjöldum, sem nema alls 668 millj. kr. Sé ég ekki ástæðu til þess að gera tryggingamálin frekar að umtalsefni, að undanskildum sjúkratryggingum, eða þann þátt þeirra, sem snýr að kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs í útgjöldum sjúkrasamlaganna, en það mál þarfnast mjög rækilegrar athugunar og nýrra úrræða, ef ekki á áð leiða út í ógöngur og til lítt viðráðanlegrar útgjaldaaukningar ríkissjóðs. Fyrir tveimur árum voru sett ný lög, sem ákváðu, að framvegis skyldu daggjöld sjúkrahúsa vera við það miðuð, að þau stæðu undir tilkostnaði sjúkrahúsa. Út af fyrir sig var hér um eðlilega hugsun að ræða, og sem fyrst og fremst var ætlað að tryggja það, að einstök byggðarlög yrðu ekki fyrir óhæfilega þungum búsifjum vegna reksturs sjúkrahúsa meðan önnur byggðarlög slyppu undan allri kostnaðarhlutdeild við þennan veigamikla og kostnaðarsama rekstur. Var sett á laggirnar sérstök daggjaldanefnd á vegum ríkisins, er ákvarða skyldi daggjöld hinna einstöku sjúkrahúsa og jafnframt ákveða, að þau skyldu flokkuð eftir þeirri þjónustu, sem þeim var ætlað að veita. Reyndin hefur orðið sú, að á þessu skipulagi hafa orðið ýmsir annmarkar og daggjaldanefnd hafði í upphafi ekki við annað að styðjast en síðustu ársreikninga sjúkrahúsanna, og varð því afleiðingin sú, að þau sjúkrahús, er rekin hafa verið með hvað mestum sparnaði, urðu lakast úti við ákvörðun daggjalda. En hins vegar hefur ekki enn tekizt að finna grundvöll undir þá flokkun sjúkrahúsa eftir þjónustu sem l. gera ráð fyrir. Hefur þetta skipulag og störf daggjaldanefndar, sem hefur sýnt lofsverða viðleitni til að halda útgjaldaaukningunni í skefjum, leitt til ýmiss konar leiðinda og gagnrýni, en alvarlegasti vandinn er þó sá, að verði því marki náð, að daggjöldin standi undir öllum kostnaði sjúkrahúsanna, þá er mjög dregið úr aðhaldi vegna reksturs þeirra, og er því ekki um annað að ræða en koma upp einhverju eftirlitskerfi, er geri heilbrigðisstjórninni og daggjaldanefndinni mögulegt að gagnrýna á raunsæjan hátt rekstur sjúkrahúsanna. Hef ég áður ítrekað lagt áherzlu á það varðandi ríkisspítalana, að nauðsynlegt sé að fá sérfróða menn í sjúkrahúsarekstri til þess að annast yfirstjórn þeirra sem sérgrein og á ekkert skylt við störf læknanna á sjúkrahúsum. Hefur raunar erlendrar sérfræðiaðstoðar verið leitað í sambandi við nauðsynlega endurskipulagningu í sjúkrahúsarekstri hér á landi á vegum ríkisins, en því miður hefur ekki enn tekizt að leysa það vandamál á viðunandi hátt, þótt lögð hafi verið áherzla á að auka t. d. samvinnu milli hinna stærri sjúkrahúsa, svo sem Borgarspítalans og Landsspítalans, og eftirtektarverðar séu þær skoðanir, sem settar hafa verið fram um það, að ekki muni vera svo ýkja mikill skortur nauðsynlegs sjúkrarýmis á almennum sjúkrahúsum hér á landi, ef nýting sjúkrarýmisins yrði betur skipulögð og komið á meiri „ambulance“þjónustu. Hins vegar er tilfinnanlegur skortur á sérgreinasjúkrarými og þá fyrst og fremst á sviði geðlækninga. Vegna hinna hækkuðu daggjalda verða útgjöld ríkissjóðs vegna rekstrar ríkisspítalanna minni á pappírnum en ella mundi vera, en nettóframlag til ríkisspítalanna hækkar nú um 60 millj. kr. og þar af framlög til bygginga um 30.8 millj. Í sambandi við útgjaldaaukningu ríkissjúkrahúsanna hefur verið fylgt þeirri meginreglu að samþykkja einungis þá fjölgun starfsliðs, þar sem um opnun nýrra sjúkradeilda er að ræða, en hins vegar hefur stjórnardeild ríkisspítalanna beðið um miklu meiri aukningu á starfsliði, sem ekki verða séð fullgild rök fyrir.

Útgjöld vegna tolla og skattheimtu aukast um 30.7 millj. kr. Er það nær eingöngu vegna eðlilegra launahækkana, og framlög til lífeyrissjóða og vegna eftirlauna hækka um 11.6 millj. Í fjárveitingum til fjmrn. er að finna sérstaka fjárveitingu, 150 millj. kr., til þess að mæta áætluðum verðlagsuppbótum á laun í desember og á næsta ári. Hefur þessum uppbótum ekki verið skipt niður á einstakar stofnanir, þar eð gert var ráð fyrir, að væntanlegar efnahagsráðstafanir kynnu að hafa áhrif á þessar greiðslur. Þá er á vegum fjmrn. tekinn upp nýr útgjaldaliður að fjárhæð 30 millj. kr. til þess að mæta kostnaði við lögboðna aðstoð ríkissjóðs í sambandi við kaup hinna nýju togara og var sú aðstoð ákveðin með sérstökum l. á síðasta Alþ. Er hér um að ræða u. þ. b. helming umræddrar aðstoðar, en gera má ráð fyrir, að greiðslur skiptist á næstu tvö ár. Þá hækka vaxtaútgjöld ríkissjóðs um 26.5 millj. kr. og lagt er til að hækka framlag til Ríkisábyrgðasjóðs um 15 millj., sem er þó mun minni fjárhæð en stjórn sjóðsins telur nauðsynlegt að fá til ráðstöfunar á næsta ári. Tekin er upp 4.7 millj. kr. fjárveiting til að standa straum af kostnaði við hina nýju framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins samkv. l. um skipan opinberra framkvæmda, sem samþ. voru á síðasta þingi. Sú d. mun taka til starfa nú í haust og bind ég miklar vonir við, að þetta nýja skipulag verði til þess í senn að tryggja mun betri undirbúning opinberra framkvæmda áður en í þær er ráðizt og jafnframt betri hagnýtingu fjárveitinga til hinna ýmsu framkvæmda, þegar komið er á framkvæmdastig. En löggjöf þessi felur í sér margar eftirtektarverðar nýjungar. Hér er ekki nema að mjög litlu leyti um útgjaldaaukningu að ræða fyrir ríkissjóð, því samhliða verður byggingaeftirlit húsameistaraembættisins og byggingadeild menntmrn. lögð niður.

Fasteignamatinu er nú loksins lokið. Hefur það reynzt miklum mun dýrara en gert var ráð fyrir, en þess ber að gæta, sem síðar mun verða gerð grein fyrir hér á Alþ., að fasteignamat með þessum hætti hefur aldrei áður verið framkvæmt hér á landi og skapast nú algerlega ný skilyrði til þess að fylgjast með raunverulegu verðgildi fasteigna, sem hefur þýðingu fyrir margvíslega starfsemi og stofnanir í þjóðfélaginu. Eigi þessi mikla vinna, sem unnin hefur verið í sambandi við fasteignamatið, hins vegar að skila raunhæfum árangri, ber brýna nauðsyn til þess, að fasteignamatinu verði haldið við með árlegri gagnasöfnun um nývirki og breytingar og því er enn gert ráð fyrir töluverðri fjárveitingu til fasteignamatsins, og unnið er nú að undirbúningi löggjafar um frambúðarskipulag fasteignamatsins og verður frv. um það efni lagt fyrir þetta þing. En fasteignamatið sjálft mun taka gildi um næstu áramót. Í sambandi við gildistöku hins nýja mats þarf að endurskoða margvíslega löggjöf, sem miðast við fasteignamat. Sýnir það gleggst nauðsyn slíkrar endurskoðunar, að heildarverðmæti fasteigna í landinu mun hækka úr 4.6 milljörðum í 76.2 milljarða. Eru þá ekki meðtaldar stórvirkjanir og mannvirkjagerð í Straumsvík, þannig að heildarniðurstaðan mun vera nálægt 80 milljörðum.

Lækkað er framlag til endurnýjunar ríkisbifreiða um 1 millj. kr. vegna endurskipulagningar bifreiðamála, sem gerð mun vera grein fyrir á öðrum stað, og framlag til kaupa á dagblöðum er lækkað um 2.9 millj. kr., sem er sú hækkun, sem Alþ. ákvað á þessu framlagi á síðasta þingi. Hef ég margoft lýst þeirri skoðun minni, að aðstoð við dagblöð eða blaðaútgáfu yfir höfuð með þessum hætti sé óviðunandi og verði Alþ. að gera sér grein fyrir því í heild, hversu aðstoð til stjórnmálaflokkanna skuli hagað. Hefur það mál verið í sérstakri athugun nú milli þinga og má vafalaust vænta þess, að till. um það efni komi til athugunar áður en endanlega verður gengið frá fjárlögum.

Kostnaðurinn við vegagerðir greiðist allur af hinum sérstöku tekjum Vegasjóðs, sem áætlað er að muni hækka á næsta ári um 20.3 millj. kr., að undanteknum afborgunum lána, sem ríkissjóður tók á sig á s. l. ári og munu á næsta ári nema um 14 millj. kr. auk afborgana af lánum vegna kísilvegar, sem að öllu leyti hefur verið kostaður af ríkissjóði. Framlög til flugmála hækka allverulega eða um 15 millj. kr. og er hér í senn um að ræða hækkanir vegna endurgreiðslna á lánum og einnig allverulega hækkun á framkvæmdafé, en framkvæmdafé vegna flugmála hefur jafnan hækkað mun minna en fjárveitingar til annarra þátta samgöngubóta, vegagerðar og hafnagerðar. Framlag til byggingar veðurstofu hækkar um 5 millj., en sú byggingarframkvæmd er nú að hefjast, og hækka þarf endurgreiðslu á landshafnalánum um 4.5 millj. Þá er lagt til að hækka ríkisframlag til Ferðamálasjóðs úr 1 millj. í 5 millj. Þessi sjóður er mjög fjárvana, en hefur hins vegar mjög vaxandi hlutverki að gegna með aukinni ferðamannaþjónustu, en ferðamannaþjónusta er nú að verða veigamikill þáttur í gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og á vonandi eftir að verða enn þyngri á metunum á komandi árum, ef unnt reynist að koma í veg fyrir óhæfilegar verðhækkanir, sem hætt er við að hreki ferðamenn á braut frá Íslandi. Rétt er að vekja athygli á því, að þrátt fyrir miklar kostnaðarhækkanir er ekki gert ráð fyrir hækkun rekstrarhalla Skipaútgerðar ríkisins. Jafnframt má geta þess, að sameiginleg útgerðarstjórn allra ríkisskipa hefur gefið góða raun.

Lagt er til að hækka framlag til Iðnlánasjóðs um 5 millj. kr. og verður þá ríkisframlag til sjóðsins alls 15 millj. kr. á ári. Þótt Norræni iðnþróunarsjóðurinn hafi stórkostlega bætt aðstöðu til eflingar íslenzkum iðnaði, þá hefur Iðnlánasjóður miklu og vaxandi hlutverki að gegna. Iðnlánasjóðsgjaldið er aðaltekjustofn sjóðsins og fer það gjald hækkandi, en ekki er óeðlilegt, að ríkisframlagið hækki einnig nokkuð. Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að athugun á margvíslegum náttúruauðlindum landsins og hugsanlegri hagnýtingu íslenzkra jarðefna og orkulinda til eflingar nýjum atvinnugreinum í landinu. Einn mikilvægur þáttur þessa viðfangsefnis er að láta fram fara heildarkönnun á nýtanlegum jarðefnum í landinu. Hefur náðst um það samkomulag við Iðnþróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna í Vín, UNITO, að stofnunin aðstoði við slíka athugun, og hefur hún þegar samþ. að veita Íslandi tækniaðstoð í þessu sambandi, er nema muni um 50 millj. kr. Íslendingar þurfa þó sjálfir eðlilega að greiða nokkurn hluta kostnaðarins, og er lagt til að verja 6 millj. kr. til greiðslu á mótframlagi Íslands.

Á s. l. ári ákvað ríkisstj. að beita sér fyrir því, að lokið yrði á árinu 1971 rafvæðingu strjálbýlisins að því marki, að þá yrði lokið lagningu allra lína, þar sem vegalengd milli býla er ekki yfir 1.5 km á býli. Var í ár aflað 15 millj. kr. innan framkvæmdaáætlunar til viðbótar fjárveitingum í fjárlögum til að þoka þessu verkefni áleiðis og hefur nú það vel miðað á þessu ári, að ekki mun reynast þörf á sérstakri lánsfjáröflun á næsta ári, en fjárveiting í fjárl. er hins vegar hækkuð vegna sveitarafvæðingarinnar um 4.9 millj. kr. og á fjárlagaupphæðin að nægja til þess að ljúka umræddu verki.

Niðurgreiðslur á vöruverði eru í fjárlagafrv. áætlaðar 577 millj. kr. og er í þeirri áætlun miðað við, að niðurgreiðslur verði hinar sömu og nú eru.

Í heimildargrein fjárlagafrv. eru fáir nýir liðir. Má nefna í samráði við undirnefnd fjárveitingan. að leita heimildar til að kaupa húsnæði fyrir fasta fulltrúa Íslands hjá EFTA í Genf, þykir það hagkvæmara en að greiða þá geysilegu húsaleigu, sem er þar í borg. Í fyrra var skipt á húsnæði fyrir sendiherrann í París og spöruðust um 30 millj. á þeim húsaskiptum. Er lagt til að nota hluta af því fé til húsakaupanna í Genf.

Heildartekjur á rekstrarreikningi eru áætlaðar 10 milljarðar 593 millj. kr., en voru 8 milljarðar 397 millj. kr. á fjárlögum 1970, og nemur hækkunin því 2 milljörðum 196 millj. kr. eða 26.2%. Af þessari fjárhæð nema tekjustofnar, sem varið er til sérstakra þarfa, 1 milljarði 999.8 millj. og hækka þær tekjur um 250.2 millj. Eiginlegar tekjur ríkissjóðs hækka því um 1 milljarð 945.8 millj. kr. Við áætlun hinna ýmsu tekjustofna er stuðzt við þjóðhagsspá Efnahagsstofnunarinnar fyrir árið 1971, en í henni er gert ráð fyrir 5% vexti þjóðarframleiðslu og þjóðartekna á því ári og 5–6% aukningu vöruútflutnings. Vegna þeirrar miklu aukningar rauntekna einstaklinga, sem varð við kjarasamninga í vor, er vöxtur einkaneyzlu og verðmætaráðstöfun almennt áætluð nokkru meiri en þetta eða 7–8%, og miðast aukning einkaneyzluútgjalda í þjóðartekjuáætluninni almennt við þetta. Verði hins vegar gerðar ráðstafanir til þess að draga úr veituaukningunni getur það haft lækkunaráhrif á tekjur ríkissjóðs, en dregur hins vegar aftur úr útgjaldaþörfinni.

Eignarskattar eru miðaðir við óbreytt fasteignamat, þ. e. a. s. nífalt gamla matið, svo sem nú er gert. Hins vegar er ljóst, að hækkun fasteignamatsins verður miklum mun meiri og eru lagaákvæði um eignarskatt ein hinna mörgu laga, sem þarf að endurskoða í sambandi við gildistöku hins nýja mats. Hækkun tekjuskatts er áætluð um 290 millj. kr. og miðast sú áætlun við 21.3% meðalhækkun kauptaxta frá ársmeðaltali 1969 til ársmeðaltals 1970 og enn fremur við nokkuð betra atvinnuástand og fólksfjölgun, þannig að skatttekjur eru taldar að muni hækka um alls 27% í áætluninni og er þá gert ráð fyrir, að skattvísitala hækki með eðlilegum hætti. Áætlað er, að innflutningsgjöld hækki um 587 millj. kr. og er þá gert ráð fyrir, að almennur vöruinnflutningur aukist um 10% á næsta ári. Langmest verður hækkun á söluskatti, sem talið er að muni hækka um 851.3 millj., sem í senn stafar af veltuaukningu og þeirri hækkun söluskattsins úr 7.5% í 11 %, sem lögfest var snemma á þessu ári og mun nú gilda allt árið 1971. Reksturshagnaður Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins er áætlaður að vaxi um 114 millj. kr. og þó er ekki gert ráð fyrir hækkun á verði áfengis og tóbaks. Launaskattur, sem rennur til húsnæðismála, hækkar um 79 millj. Hér hafa verið nefndir aðaltekjustofnar ríkissjóðs og ástæður raktar fyrir orsökum tekjuaukningar af þeim, en aðrir tekjustofnar hækka einnig flestir nokkuð, en þeir hafa allir mun minni þýðingu fyrir afkomu ríkissjóðs. Kjarni málsins er sá, sem skiptir höfuðmáli, að ekki er gert ráð fyrir neinni nýrri skattheimtu af þjóðfélagsborgurunum á næsta ári, heldur er hér aðeins um tekjuauka að ræða, vegna aukinnar viðskiptaveltu annars vegar og almennra tekna borgaranna hins vegar.

Rekstursafgangur ríkissjóðs samkv. fjárlagafrv. er 553 millj. kr., en þegar frá er dreginn halli á lánabreytingum verður greiðsluafgangur samtals 313.4 millj. kr. Er það töluvert hærri greiðsluafgangur en hefur verið á fjárlagafrv. áður, en gefur því miður ekki raunhæfa mynd af afkomuhorfum vegna ýmissa útgjalda, sem enn hefur ekki verið ætlazt fyrir, en sem ég hef drepið á, auk þess sem ekki hefur verið gert ráð fyrir neinum útgjöldum vegna efnahagsráðstafana.

Svo sem undanfarin tvö ár fylgir með fjárlagafrv. sem fylgiskjal drög að framkvæmdaáætlun ríkisins fyrir árið 1971. En samkvæmt þeirri áætlun er af ýmsum ástæðum gert ráð fyrir að fjármagna með lánsfé vissar ríkisframkvæmdir eða framkvæmdir, sem ríkið eðli málsins samkvæmt hefur forgöngu um að afla fjár til. Þessi drög að framkvæmdaáætlun eru aðeins birt til þess, að Alþ. gefist við meðferð fjárlaga kostur á að sjá þau viðfangsefni, sem ríkisstj. telur óumflýjanlegt að sinna auk þeirra, sem gerð er till. um í fjárl., en hins vegar er ekki ætlazt til neinnar formlegrar ákvörðunar í þessu efni fyrr en í byrjun næsta árs, þegar að venju verður leitað heimildar Alþ. til fjáröflunar vegna framkvæmdaáætlunarinnar og fjmrh. gefur Alþ. hið árlega yfirlit um þróun og horfur efnahagsmála og framkvæmda í landinu almennt. Sumar þær framkvæmdir, sem hér er gert ráð fyrir að afla fjár til, þurfa líka nánari athugunar við og kann því að vera, að fjárveitingar til ýmissa liða verði nokkuð aðrar að lokum en hér er gert ráð fyrir. Hins vegar vantar um 70 millj. kr. til þess að endar nál saman í áætluninni og má því gera ráð fyrir, að annaðhvort verði að taka sumar þessar framkvæmdir í fjárlög sem beinar fjárveitingar eða að öðrum kosti draga úr framkvæmdum. Framkvæmdaáætlunin gerir ráð fyrir heildarframkvæmdum að fjárhæð 567.4 millj. kr. og er þá meðtalin lagning hraðbrauta 196 millj., sem fjármagnað mun verða með láni frá Alþjóðabankanum, sem er þegar tryggt. En eðlilegt þykir að taka þessar framkvæmdir með í framkvæmdaáætlunina, þar sem þær eru fjármagnaðar með sérstöku ríkisláni. Aðrar framkvæmdir nema samtals 339.6 millj., en við bætist fjárþörf vegna framkvæmda á yfirstandandi ári 31.8 millj. kr., þannig að samtals þarf að afla fjár til fyrirhugaðra framkvæmda að upphæð 371.4 millj. kr. Svo sem undanfarin ár, er gert ráð fyrir að fjármagna framkvæmdaáætlunina eftir tveimur leiðum. Annars vegar með sölu spariskírteina og endursölu innleystra spariskírteina og hins vegar með PL-480 vörukaupaláni frá Bandaríkjunum, sem þó er enn töluverð óvissa um á næsta ári. Er fjáröflun eftir þessum tveimur leiðum ráðgerð samtals 300 millj. kr. og vantar því rúmar 70 millj., svo sem áður er nefnt, til þess að endar tekna og gjalda í framkvæmdaáætlun nái saman. Er það lítið eitt hærri fjárhæð en vantaði í framkvæmdaáætlunina fyrir árið 1970. Í drögum að framkvæmdaáætlun er gerð grein fyrir einstökum verkefnum, en þar sem hér er um ýmsar mjög veigamiklar framkvæmdir að ræða mun ég gera þær lítið eitt nánar að umtalsefni.

Enn er fjáröflun til þess að standa straum af afborgunum og vöxtum lána vegna Reykjanesbrautar einn af helztu liðum framkvæmdaáætlunarinnar, en afborganir og vextir af þeim lánum eru á næsta ári um 60 millj. kr. Tekjur af veggjaldinu eru áætlaðar 15.7 millj. og framlag úr Vegasjóði er 6.8 millj., og verður því aflað nýs lánsfjár, 38 millj., til að standa undir þessum útgjöldum. Ýtarlegar viðræður hafa farið fram milli fjmrn. og samgrn. um viðhlítandi lausn þessa vandamáls, sem verður eilífðarmál, ef ekkert verður að gert, og hefur orðið samkomulag um leiðir til úrlausnar, sem væntanlega verða á sínum tíma lagðar fyrir Alþ. í sambandi við áætlanir um endurgreiðslur þeirra lána, sem nú hafa verið tekin og tekin verða til lagningar hraðbrauta. Í framkvæmdaáætlun síðustu ára hefur verið aflað verulegs fjármagns til lagningar Hafnarfjarðarvegar í Kópavogi. Var sú fjáröflun byggð á ákveðinni áætlun um endurgreiðslu lánanna. Þessari kostnaðarsömu framkvæmd er ekki enn þá lokið, en þar sem ekki hafa verið gerðar enn þá fullnaðaráætlanir um fjármögnun á lokaáfanga verksins, þá er ekki gerð á þessu stigi till. um fjáröflun í framkvæmdaáætlun til þessarar framkvæmdar.

Gert er ráð fyrir að afla 12 milljóna til landshafnanna, en fullnaðaráætlun hefur ekki enn verið tekin um það, hvaða verk skuli sitja þar í fyrirrúmi. Fjárveitingar til landshafnanna vaxa einnig verulega í fjárlagafrv. vegna afborgana af lánum, en þessar hafnargerðir hafa á undanförnum árum yfirleitt verið fjármagnaðar með lántökum, þótt segja megi, að eðlilegra hefði verið að gera það með beinum fjárveitingum, og kemur auðvitað mjög til álita að taka allar fjárveitingar til landshafna nú inn í fjárlagafrv.

Langþyngst í framkvæmdaáætluninni vega ýmsar framkvæmdir á sviði orkumála og er þar stærsti liður fjáröflun vegna hinnar nýju Laxárvirkjunar, sem samkvæmt verksamningum og kostnaðaráætlun er gert ráð fyrir, að þurfi að vera um 118 millj. kr. á næsta ári. Nauðsynlegar eru margvíslegar umbætur á orkuöflun á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, sem óhjákvæmilegt er að afla lánsfjár til. Er gert ráð fyrir 40 millj. kr. fjáröflun í því skyni, en óskir stjórnar rafmagnsveitnanna eru verulega hærri. Er hér um að ræða ýmsar ráðstafanir til þess að draga úr notkun olíuaflstöðva með tengingu við samveitukerfið og ýmsan undirbúning aukinnar orkuöflunar, en ýmislegt er á prjónunum í þeim efnum og er þar veigamest Lagarfljótsvirkjun og Svartárvirkjun í Skagafirði, sem boðað hefur verið af iðnrh., að þetta Alþ. muni fá til endanlegrar ákvörðunar. Þarf þá að sjálfsögðu sérstaka fjáröflun til þeirra framkvæmda. Rannsóknir á hagnýtingu vatnsorku og jarðhitalinda landsins eru meðal hinna mikilvægustu verkefna, sem nú er unnið að, en hér er um mjög kostnaðarsamar rannsóknir að ræða, svo sem sjá má af þeim áætlunum, sem Orkustofnunin hefur gert um helztu viðfangsefni á þessu sviði á næstu árum. Í áætlun Orkustofnunarinnar er gert ráð fyrir mestum útgjöldum til þriggja virkjanasvæða í sambandi við vatnsorkuframkvæmdir, en það eru Jökulsá á Fjöllum með Dettifossvirkjun í huga, Austurlandsvirkjun, og þá sérstaklega Jökulsá í Fljótsdal, og Skaftárveita til aukningar á vatnsmagni Tungnaárvirkjana og Búrfellsvirkjana. Er áætlað í framkvæmdaáætlun að afla 20 millj. kr. til vatnsorkurannsókna til viðbótar fjárveitingum til þeirra rannsókna í fjárlögum, þannig að samtals verði til þessara rannsókna til ráðstöfunar á næsta ári um 36 millj. kr. Mörgum og miklum verkefnum þarf einnig að sinna á sviði jarðhitarannsókna, og þarf að auka rannsóknarboranir á þeim háhitasvæðum, sem búa yfir mestum nýtingarmöguleikum til efnaiðju og hitaveituframkvæmda, en það eru svæðin á Reykjanesskaga og í nágrenni höfuðstaðarins. En unnið er nú að óvenjumiklum hitaveituframkvæmdum á ýmsum stöðum á landinu og fleiri staðir hafa áhuga á athugun á jarðhita með hitaveitu fyrir augum, og er hér um þjóðhagslega mjög mikilvægar framkvæmdir að ræða. Vegna mikilvægis þessara rannsókna hefur verið ákveðið að kaupa nýjan jarðbor, sem sérstaklega hentar til rannsóknarborana. Hér er ekki nema að nokkru leyti um bein ríkisútgjöld að ræða, heldur fjáröflun til Orkusjóðs, til þess að hann geti veitt nauðsynlega aðstoð svo sem lög gera ráð fyrir til jarðborana. Borunin í Námaskarði vegna stækkunar kísilgúrverksmiðjunnar og jarðgufuaflstöðvarinnar, sem þar hefur verið reist sem tilraunastöð á vegum Laxárvirkjunar, er nú að heita lokið og þarf ekki nema smávegis fjáröflun til þess að ljúka greiðslum vegna þessa kostnaðar. Enn þarf að afla nokkurs fjár, 5.7 millj. kr., vegna áframhaldandi jarðhitarannsókna í sambandi við hugsanlega sjóefnaverksmiðju á Reykjanesi, og gert er ráð fyrir 12 millj. kr. lánsfjáröflun til byggingar lögreglustöðvar í Reykjavík. Er mikil nauðsyn að fara að ljúka þessari miklu byggingu, sem hefur verið lengi í smíðum. Mun þessi fjárhæð að vísu ekki nægja til þess að fullgera húsið, en segja má, að hér sé um framkvæmdir að ræða, sem fjármagna mætti með beinni fjárveitingu á fjárlögum, og má raunar segja hið sama um Rannsóknastofnun iðnaðarins, en gert er ráð fyrir að afla 6.5 millj. kr. til þess að ljúka þeirri byggingu, sem er brýn nauðsyn. Verði eitthvert fjárhagslegt svigrúm í fjárlögum, tel ég vel geta komið til álita að taka báðar þessar fjárhæðir í fjárlögin sjálf. Loks er í framkvæmdaáætluninni gert ráð fyrir að afla 63.2 millj. kr. lánsfjár vegna nýbyggingar Áburðarverksmiðju ríkisins. Sú bygging var hafin á yfirstandandi ári og er 55 millj. kr. fjáröflun í framkvæmdaáætlun þessa árs. Heildarkostnaðaráætlunin mun að sjálfsögðu hækka nokkuð af eðlilegum ástæðum og nemur í endurskoðaðri áætlun 265 millj.

Haldið hefur verið áfram stöðugri viðleitni til þess að auka hagkvæmni í ríkisrekstrinum og koma við sparnaði og bættri skipulagningu. Hefur forysta á þessu sviði verið í höndum hagsýslustjóra, en undirn. fjárveitingan., sem skipuð var fulltrúum allra flokka, hefur haldið marga fundi milli þinga, fylgzt með starfi fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar og komið að ábendingum og athugasemdum, eftir því sem n. hefur séð ástæðu til. Hefur sem áður verið hið bezta samstarf milli n. og rn. og enginn efi, að það er til mikilla bóta sú nýskipan, að fjárveitingan. fylgist stöðugt með sem flestum þáttum í ríkiskerfinu, en annist ekki aðeins afgreiðslu fjárlagafrv. á Alþ. Þá hefur aðhald ríkisendurskoðunar með stofnunum og embættismönnum aukizt og ríkisendurskoðandi hefur nú í athugun ýmiss konar skipulagsbreytingu á starfsemi ríkisendurskoðunarinnar til þess í senn að gera hana virkari og gera henni kleift í tæka tíð að komast yfir viðfangsefni sín, en það hefur um langan aldur verið gagnrýnt á Alþ., að endurskoðunin væri of langt á eftir tímanum með verkefni sín. Hér verður ekki gerð nein tilraun til að gera tæmandi talningu á hinum margvíslegu viðfangsefnum, sem koma til kasta fjárlaga- og hagsýslustofnunarinnar á sviði hagræðingarmála, en þó tel ég rétt að drepa á nokkur atriði.

Meginverkefni stofnunarinnar á þessu ári hefur verið að koma í framkvæmd reglugerðinni um bifreiðamál ríkisins, en þar er, svo sem hv. þm. er kunnugt, um áratuga vandamál að ræða, svo sem oft hefur verið rætt hér á hinu háa Alþ. Telja má, að mjög vel hafi gengið að koma reglugerðinni í framkvæmd, en hún tók að fullu gildi 1. júlí í sumar. Samkv. reglugerðinni átti að merkja allar þær bifreiðir, sem áfram yrðu í eigu ríkisins, en það var fyrst og fremst um hinar svokölluðu vinnubifreiðir að ræða, og var jafnframt lagt bann við því, að þær bifreiðir yrðu notaðar til eigin þarfa umráðamanna bifreiðanna. Hafa nú verið merktar um 450 bifreiðir. Í fyrstu kom í ljós, að ákvæði reglugerðarinnar um bann við einkanotkun voru brotin af einstökum aðilum, en þegar rn. hefur borizt slík vitneskja, þá hafa viðkomandi verið sérstaklega aðvaraðir. Sumar ríkisstofnanir hafa þegar komið upp geymslustöðvum fyrir bifreiðirnar, og í athugun er að koma upp sameiginlegri geymslustöð fyrir hinar minni ríkisstofnanir. Seldar hafa verið alls 94 ríkisbifreiðir, og er þar fyrst og fremst um að ræða hinar svokölluðu forstjórabifreiðir. Hafa bifreiðir þessar verið seldar ýmist með almennu útboði eða fyrrverandi forráðamönnum á grundvelli mats í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Þegar sala hefur farið fram með almennu útboði hefur ávallt verið um staðgreiðslu að ræða, en í síðara tilvikinu hefur verið gerður lánssamningur eins og reglugerðin gerir ráð fyrir. Þá hafa verið gerðir 550 aksturssamningar við starfsmenn vegna notkunar eigin bifreiða í þágu ríkisins. Þetta umfangsmikla verk hefur verið talsverðum erfiðleikum háð, einkum vegna greiðsluvenja, sem tíðkazt hafa um áraraðir, en samræmast ekki þeim grundvelli, sem nú er miðað við í gerð aksturssamninga. Hefur verið leitazt við að meta raunverulega akstursþörf í þágu starfs og mönnum skipað í akstursflokka í samræmi við það. Þar sem nú hefur verið komið á heildarkerfi varðandi slíka samningagerð, hafa aðstæður til raunhæfs mats batnað verulega, frá því sem áður var, og mun verða gert sérstakt átak á næstunni til þess að koma þessum málum í fullkomið horf. Jafnframt framkvæmd bifreiðareglugerðarinnar varðandi ríkisfyrirtækin og stofnanir ríkisins, sem beint heyra undir rn., hefur fjmrn. sérstaklega ritað bankaráði ríkisbankanna og öðrum ríkisstofnunum, sem lúta sérstakri stjórn, og lagt áherzlu á, að þessum reglum verði einnig fylgt í þeim stofnunum.

Annað veigamikið mál, sem unnið hefur verið að af sérstakri n., en í nánu samráði við undirn. fjvn., er athugun á sameiningu margvíslegra verkstæða, sem rekin eru á vegum ríkisins og ríkisstofnana. Hefur þetta mál verið í athugun síðan í fyrra. En það er mjög umfangsmikið og snertir margar stofnanir. Eru auk Landssmiðjunnar rekin samtals 11 verkstæði í véla- og málmsmíði á vegum 9 ríkisfyrirtækja hér í Reykjavík, auk verkstæða annars staðar á landinu. Öll eiga þessi fyrirtæki vinnuvélar af ýmsum gerðum og tegundum. Ekkert samræmi eða samráð hefur ríkt um vinnuvélakaup, kaup varahluta og rekstursvöru, notkun vinnuvéla og rekstur þessa fjölda verkstæða. Enda hafa nær eingöngu verið hafðar í huga þarfir einstakra stofnana, þegar ráðizt hefur verið í vélakaup eða verkstæðisrekstur. Vinna flest þessi verkstæði mjög skyld störf. Fleiri en ein, ríkisstofnun eiga þarna sambærilegar eða sams konar vélar, sem standa stundum ónotaðar um lengri tíma á sama tíma og önnur stofnun þarf á sams konar vél að halda. Ósamræmi í vélakaupum og tegundum véla veldur erfiðleikum í rekstri og margfaldri fjárfestingu í varahlutum og rekstrarvöru. Mörg smáverkstæði hafa óþarfa stjórnunarkostnað, mannafli verkstæðanna nýtist misjafnlega vegna smæðar þeirra og takmarkaðra verkefna og rík tilhneiging er til að taka inn á verkstæði þessi starfsmenn á ýmsum tímum, sem þar hafa raunar ekkert að gera, enda ætlað að sinna öðrum verkefnum aðra tíma ársins, og er það vandamál út af fyrir sig. En engum efa er bundið, að hér er brýn nauðsyn skipulagsbreytingar, hægt að koma við verulegum sparnaði með sameiningu verkstæða og aukinni samvinnu þeirra og sýnist raunar eðlilegt að stefna að sérstakri allsherjar vélamiðstöð ríkisins, sem ég vék að í síðustu fjárlagaræðu. Verður unnið með öllum hraða að því að koma þessum málum í viðunandi horf. En því er ekki að leyna, að hér getur orðið um nokkurt vandamál að ræða, þar sem mörg fyrirtæki eiga hlut að máli, og veltur því á miklu um samstarfsvilja. Þótt yfirleitt hafi till. um skipulagsbreytingar verið vel tekið af hlutaðeigandi stofnunum þá er því ekki að neita, að í sumum tilfellum gætir óhæfilegrar tregðu og andstöðu við það að hreyfa við gamalgrónum venjum, m. a. að ekki komist í framkvæmd ýmsar till. um fækkun starfsmanna í ríkisrekstrinum. Er það að vísu viðkvæmt mál á atvinnuleysistímum, svo sem ég vék að í síðustu fjárlagaræðu, en erfitt er þó að koma við sparnaði, ef ekki má fækka fólki.

Fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefur á hendi yfirumsjón með öllum húsaleigumálum ríkisfyrirtækja og stofnana ríkisins. Hefur eftir föngum verið leitazt við að koma á samræmdum reglum um þessi mál, og að fenginni nokkurri reynslu um framkvæmd húsaleigusamninga hefur nú nýlega verið gefin út af rn. sérstök reglugerð um húsaleigumál ríkisins, sem birt hefur verið. Mikil þörf hefur reynzt á því að setja fastar reglur um sem flest atriði, sem varða ferðalög starfsmanna á vegum ríkisins og þann kostnað, sem af slíkum ferðalögum leiðir, bæði innanlands og utan. Hefur nýlega verið gefin út heildarreglugerð um þetta efni, sem launadeild rn. og fjárlaga- og hagsýslustofnunin hafa undirbúið. Ríkisstofnanir hafa á undanförnum árum í vaxandi mæli komið upp mötuneytum fyrir starfsmenn sína. Hafa þessi mötuneytismál verið tekin til sérstakrar athugunar með samræmingu í huga á rekstrarkostnaði. Hefur komið í ljós, að ríkið rekur nú 29 mötuneyti, sem starfa allt árið, en auk þess starfar fjöldi mötuneyta hluta úr ári vegna tímabundins reksturs. Greiddi ríkissjóður beinlínis vegna reksturs þessara mötuneyta 20.5 millj. kr. árið 1969 og er þá ekki meðtalin nein húsaleiga eða fjármagnskostnaður og heldur ekki meðtalin mötuneyti skólanna, sem ríkið ber allan kostnað af á skyldunámsstiginu nema hráefniskostnað, en á framhaldsstiginu greiðir það ráðskonukaup. Athugun hefur leitt í ljós, að kostnaður ríkisins pr. máltíð er mjög mismunandi frá einni stofnun til annarrar, og er nú verið að kanna, með hverjum hætti sé unnt að koma á fullu samræmi í þessu efni og hverjar reglur skuli gilda við ákvörðun um rekstur mötuneyta af þessu tagi. Kemur þar m. a. til álita, hvort hagkvæmt sé að kaupa eða framleiða máltíðir á einum stað, t. d. fyrir hin mörgu mötuneyti hér í Reykjavík, í stað þess að reka matargerð með tilheyrandi búnaði á mörgum stöðum. Tekin hefur verið upp á vegum fjmrn. sú meginstefna, að Innkaupastofnun ríkisins annist sölu allra ríkiseigna og sé leitað tilboða í þessar eignir þannig, en að ekki geti orðið um neina óeðlilega sölu að ræða. Þá hefur jafnframt verið lögð áherzla á það, að Innkaupastofnunin annaðist sameiginleg innkaup fyrir ríkisstofnanir í sem ríkustum mæli til þess að tryggja hagkvæmari innkaup. Þá hefur Innkaupastofnunin einnig verið efld með deild til eftirlits með opinberum framkvæmdum í samræmi við l., sem um það efni voru sett á síðasta Alþ., og verður þar um mjög veigamikið verkefni að ræða. Rétt er að taka það skýrt fram, að með aukinni starfsemi Innkaupastofnunar ríkisins er ekki ætlunin að taka upp neina samkeppni við önnur viðskiptafyrirtæki í landinu heldur einungis að tryggja ríki og ríkisstofnunum sem hagkvæmust kjör með innkaupum í stærri stíl á grundvelli útboða, en um beinan innflutning sé þá fyrst að ræða, þegar innkaup eru hagkvæmust með þeim hætti.

Mörg einstök úrlausnarefni hafa komið upp í sambandi við rekstur einstakra ríkisstofnana, sem fjárlaga- og hagsýslustofnunin hefur unnið að í samráði við viðkomandi rn. Hefur það samstarf yfirleitt verið ágætt og hafa rn. í vaxandi mæli leitað til stofnunarinnar beinlínis um aðstoð varðandi athuganir á hagkvæmni í rekstri og nytsemi einstakra fjárráðstafana, sem ríkisstofnanir hafa viljað ráðast í. Síðustu árin hefur verið unnið að margvíslegri könnun og úrræðum til þess að auka hagkvæmni í rekstri Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins, enda hefur því alloft verið varpað fram í umr. um verðlagsmál, að reksturskostnaður þessa ríkisfyrirtækis sýndi, að ekki væri hægt að gera ráð fyrir, að almennur verzlunarrekstur í landinu gæti búið við þá álagningu, sem honum væri skömmtuð. Þó að vísu þær ásakanir hafi ekki nema að takmörkuðu leyti verið réttar, þá var sýnt, að með ýmsum aðgerðum mátti auka hagkvæmni í rekstri þessa stóra fyrirtækis, og hafa margvíslegar umbætur nú verið gerðar í góðri samvinnu milli rn. og forstjóra fyrirtækisins. Skulu þær skipulagsbreytingar ekki raktar hér í einstökum atriðum, en mikilvægast var að tryggja fyrirtækinu viðhlítandi húsnæði við skaplegu verði og var í því skyni á s. l. ári fest kaup á húseign fyrir áfengisdeild fyrirtækisins og tók deildin til starfa í því húsnæði í s. l. júlímánuði, en áður hafði starfsemi þessarar deildar verið á fjórum stöðum í Reykjavík. Er áætlað, að með þessari ráðstöfun verði hægt að fækka starfsliði fyrirtækisins um a. m. k. 20 manns, og árlegur launasparnaður ætti að geta orðið um 4 millj. kr. Húsakaupin sjálf voru mjög hagkvæm og spara fyrirtækinu tugi milljóna miðað við þá nýbyggingu, sem ætlunin var að reisa yfir starfsemi Áfengis- og tóbaksverzlunarinnar. Um alllangt skeið hefur verið veitt sérstök fjárveiting á fjárlögum til þess að byggja nýtt þvottahús fyrir ríkisspítalana. Ákveðið hefur verið nú að falla frá þessari nýbyggingu, þar eð tókst að festa kaup á hentugu húsnæði, og má fullyrða, að sú ráðstöfun hafi sparað mjög verulegar fjárhæðir og geri auðið að starfrækja þessa þjónustu á mun hagkvæmari hátt en áður.

Ég hef oft áður í fjárlagaræðum vikið að nauðsyn ítrustu hagsýni í meðferð ríkisfjár jafnhliða mikilvægi þess að breyta viðhorfi borgaranna til ríkissjóðs og ríkisfjármuna yfirleitt. Þótt margt hafi verið gert til úrbóta í ríkiskerfinu þá er vitanlega enn þá margt, sem má betur fara, og má aldrei slaka á viðleitni í þá átt. Því miður er torvelt að breyta viðhorfum almennings til opinberra fjármuna, þó vissulega beri að viðurkenna, að það séu ekki allir undir sömu sök seldir, en fórnarlund gagnvart þjóðfélaginu held ég, að sé ákaflega takmörkuð. Allir þekkja viðhorfið til skattframtala, þótt verulega hafi áunnizt vegna aukins eftirlits. Yfirleitt á öllu að bjarga með framlögum úr ríkissjóði, — en hver vill taka afleiðingunum með nýjum skattaálögum? Mikilvæg hlunnindi eru allt of oft misnotuð. Nýjustu dæmi þess eru atvinnuleysisbæturnar. Fötluðu fólki er veitt aðstoð til þess að eignast bíl vegna vinnu sinnar. Hvað er ekki hægt að benda á mörg dæmi misnotkunar? Enn er mönnum vafalaust í minni ótrúleg misnotkun í sambandi við niðurgreiðslur á verði neyzlufisks og kartaflna og þá ekki síður smáfisksuppbæturnar. Allar áttu þessar greiðslur út af fyrir sig rétt á sér, en reyndust óhæfar vegna grófrar misnotkunar. Svona mætti lengi halda áfram að nefna opinbera fjárhagsaðstoð, sem er meira og minna misnotuð og leiðir þá til ranglætis í stað þess réttlætis, sem aðstoðinni er ætlað að stuðla að. Viðhorf til opinbers fjár verður a. m. k. að vera með þeim hætti, að við förum ekki með það af meira gáleysi en eigin fjármuni.

Þá þykir mér rétt að víkja nokkrum orðum að kjaramálum opinberra starfsmanna. Samkomulag varð um það á milli ríkisstj. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja fyrir tveimur árum síðan, að reynt skyldi að byggja kjarasamninga á svokölluðu kerfisbundnu starfsmati. Unnið hefur verið svo að segja látlaust síðan að undirbúningi þessa starfsmats, en þetta viðfangsefni reyndist miklum mun erfiðara og flóknara en menn höfðu í upphafi gert sér grein fyrir. Átti kjarasamningum raunverulega að vera lokið um síðustu áramót, en þá var starfsmatinu það skammt komið, að samkomulag varð um það að halda því áfram og fresta endanlegri samningsgerð þar til um næstu áramót. Er þetta mál því að komast á lokastig og skal ég ekki gera einstök atriði að umtalsefni, en komið hefur glöggt í ljós, að skipulagt starfsmat er ekkert sjálfgefið kerfi, heldur getur þar margt upp komið, sem orkar tvímælis, en segja má, að grundvallaratriðið sé þó að gera sér grein fyrir því, hvað menn telja rétt, að launamismunur sé mikill í starfskerfinu, en hann er nú mun minni hér en í flestum eða öllum nálægum löndum og hafa afleiðingar orðið þær, að mjög erfitt er að fá menn í toppstöður. Mikil óánægja hefur risið meðal háskólamenntaðra manna og jafnvel ýmsir starfshópar, svo sem læknar og verkfræðingar, hafa í rauninni brotizt undan launakerfi ríkisins. Hitt verður jafnframt að hafa í huga, að veruleg tregða er hérlendis á að hafa mjög mikinn launamismun, þannig að hér er vissulega vandratað meðalhófið. Þá er því heldur ekki að leyna, að mikil óánægja er með núverandi skipan samningsréttarmálanna, einkum meðal háskólamanna, sem flestir hverjir hafa sagt skilið við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og myndað sín sérstöku samtök, sem krefjast samningsréttar. Mun niðurstaða samninga nú vafalaust hafa veruleg áhrif í þá átt, hvort hægt verður að ná samkomulagi um samningsaðildina. En almennt er það um starfsmatið að segja, að það er engum efa bundið, að það væri til mikilla bóta, ef hægt væri að fá samkomulag um starfsmat, sem til frambúðar væri hægt að leggja til grundvallar við hlutfall í launum opinberra starfsmanna, og gæti það orðið öðrum starfshópum í þjóðfélaginu til eftirbreytni. Lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna hafa verið í endurskoðun. Er þeirri endurskoðun nú lokið og málið til athugunar hjá ríkisstj., og má vænta þess, að frv. um það efni verði lagt fyrir yfirstandandi þing.

Víðtækar athuganir fara nú fram á öllu skattkerfinu. Staðgreiðslukerfisnefndin, sem Alþ. kaus samkv. þál., sem ríkisstj. lagði fyrir Alþ. 1967, lauk störfum á s. l. ári og skilaði mjög ýtarlegu nál. Kom þar glöggt í ljós, að málið var miklum mun flóknara heldur en margir höfðu gert sér í hugarlund, og taldi ég þá rétt að leita enn viljayfirlýsingar Alþ. um það, hvort haldið skyldi áfram undirbúningi að því að innleiða staðgreiðslukerfið og þá með hverjum hætti. Var því þáltill. lögð fram á síðasta þingi, en sú till. náði ekki endanlegri afgreiðslu þingsins og hefur till. nú aftur verið lögð fram á þessu þingi og vænti ég þess, að Alþ. láti í ljós einhvern vilja í málinu. Varðandi staðgreiðslukerfið er raunar um tvær meginstefnur,að ræða. Annars vegar þá, sem felst í nál., að reyna að aðlaga staðgreiðslukerfið núverandi skattkerfi í grundvallaratriðum óbreyttu, en hin aðgerðin er sú að leitast við að aðlaga skattkerfið að staðgreiðslukerfinu á þann hátt, að staðgreiðslukerfið verði sem virkast og ekki óviðráðanlega flókið og umfangsmikið. Er ég persónulega þeirrar skoðunar, að kanna eigi alvarlega, hvort síðari leiðin sé fær, að breyta sjálfu skattkerfinu, áður en sú leið verður ákveðin að innleiða staðgreiðslukerfið á grundvelli núv. skattkerfis, sem ég er hræddur um, að leiði til margvíslegra vandræða. Síðustu árin hafa ekki verið gerðar neinar stórvægilegar breytingar á hinni almennu skattalöggjöf, og hef ég í fjárlagaræðum áður tekið fram, að orsökin væri sú að gera mætti ráð fyrir því, að einmitt staðgreiðslukerfið mundi leiða til veigamikilla breytinga á gildandi skattkerfi og væri því nauðsynlegt að sjá, hverjar þær breytingar yrðu, áður en hafizt yrði handa um almennar breytingar á skattalögum. Það er hins vegar ljóst, að reynslan hefur sýnt, að sanngjarnt er og nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar á skattalögunum varðandi skattgreiðslur einstaklinga, enda þótt það sé ótvírætt, að beinir skattar til ríkisins séu ekki háir hér á landi miðað við flest önnur nálæg lönd, enda tekjuskattar og eignarskattar til ríkissjóðs hér aðeins um 10% af heildartekjum ríkissjóðs, sem er mun minna en í öðrum nálægum löndum. Þótt ég sé því ekki þeirrar skoðunar, að tiltækilegt þyki að lækka almennt beina skatta breytir það ekki því, að ýmissa lagfæringa er þörf á skattalögum. Þar sem augljóst er, að staðgreiðslukerfinu seinkar, þá var ákveðið á s. l. vori að fela skattamálanefndinni, sem sérstaklega starfar að vísu að skattamálum félaga, að taka til heildarathugunar nauðsynlegar lagfæringar einnig á skattgreiðslum einstaklinga og þá m. a. hafa til hliðsjónar þær ábendingar, sem fram hafa komið á Alþ. í tillöguformi síðustu þing. Var ætlazt til, að þessum athugunum yrði lokið svo snemma, að unnt yrði að leggja till. þessar fyrir yfirstandandi Alþ.

Þá var einnig ætlunin að endurflytja aftur á þessu þingi frv. það um skattamál félaga, sem lagt var fram á síðasta þingi, en með þeim lagfæringum og endurbótum, sem síðar hafa verið gerðar á því. En þær breytingar varðandi skattamál atvinnufyrirtækja byggjast á þeirri meginforsendu, að íslenzkur atvinnurekstur verði skattalega ekki verr settur í samkeppni en atvinnurekstur annarra EFTA-landa. Þar sem um var að ræða veigamiklar breytingar frá gildandi skattalögum, var talið nauðsynlegt að sýna þetta frv. í lok síðasta Alþ., án þess að þá væri hægt að vænta endanlegrar afgreiðslu, enda fram tekið, að ýmsir þættir málsins væru ekki enn endanlega skoðaðir ofan í kjölinn. Var því aðeins lögfest á síðasta þingi ákvæðið um fyrningar, sem tók gildi við skattlagningu í ár. Féllust allir flokkar jafnframt á þau tilmæli mín, að skipuð yrði sérstök mþn. fulltrúa allra flokka úr fjhn. Alþ., sem ynnu nánar að athugun málsins milli þinga og fengju til athugunar jafnóðum framhaldstill. embættismannanefndarinnar, sem vann að undirbúningi málsins. Hér er um mikið verkefni að ræða, sem enn er ekki endanlega lokið, en stefna verður að, að fái lokaafgreiðslu áður en þessu þingi lýkur.

Vegna hækkunar söluskatts fyrr á þessu ári bar brýna nauðsyn til að taka til rækilegrar endurskoðunar allt eftirlit með álagningu og innheimtu söluskatts. Hefur það mál allt verið í rækilegri athugun á undanförnum mánuðum og var skattrannsóknarstjóra falið að hafa yfirumsjón með innheimtukerfinu um land allt. Með ströngum fyrirmælum rn. til innheimtumanna um land allt varðandi skil á söluskatti má telja, að innheimtan sé komin í mjög viðunandi horf víðast hvar. En hins vegar er ljóst, að aukins eftirlits er þörf, svo að þessi mikli skattstofn skili sér með eðlilegum hætti, sem er að sjálfsögðu höfuðnauðsyn. Hefur því nýlega verið sett mjög ýtarleg reglugerð, þar sem kveðið er á um ýmis atriði til þess að auðvelda eftirlit með innheimtu skattsins, og jafnframt er í undirbúningi að setja sérþjálfaða menn í söluskatti á ýmsar stærstu skattstofurnar. Þá koma hér að haldi hin nýju bókhaldslög, en yfirumsjón með framkvæmd þeirra er einmitt einnig í höndum skattrannsóknarstjóra og hefur verið lögð rík áherzla á að fá góða samvinnu við atvinnurekendur um bókhaldslögin og gera þeim grein fyrir gildi þeirra, ekki hvað sízt fyrir atvinnureksturinn sjálfan, og má fullyrða, að skilningur atvinnurekenda og eigenda fyrirtækja almennt á því, hver vinningur þeim sjálfum sé að góðu bókhaldi og reikningsskilum, sé vaxandi. Um 500 bókhaldsskoðanir hafa verið gerðar á árinu og verður að segja þá leiðu sögu, að þessar athuganir hafa leitt í ljós, að ástandið á sviði bókhalds og reikningsskila er enn mjög slæmt og verra í hinum minni fyrirtækjum. Eigi að koma bókhaldi fyrirtækja almennt í viðunandi horf, verða að koma til fleiri aðilar en skattyfirvöld, svo sem bankar og hluthafar, sem veita mikið aðhald að fyrirtækjum erlendis varðandi fullnægjandi reikningsskil. Sú breyting hefur verið gerð á innheimtu söluskattsins, að í stað þess að hann áður var greiddur ársfjórðungslega verður hann hér eftir innheimtur á tveggja mánaða fresti.

Í síðustu fjárlagaræðu minni gerði ég grein fyrir því, að fylgzt væri með því af athygli af hálfu rn., hvernig virðisaukakerfið reyndist, en það skattform er nú ýmist búið að innleiða eða verið að innleiða á öllum Norðurlöndum, en áður hefur virðisaukaskatturinn verið tekinn upp í Efnahagsbandalagslöndunum. Skattur þessi er í eðli sínu ekki svo mjög frábrugðinn almennum söluskatti, en hann hefur fyrst og fremst þann kost umfram söluskattinn, að auðveldara er að fylgjast með því, að skatturinn skili sér, vegna þess að greiðendur skattsins á hinum ýmsu stigum hafa að vissu leyti eftirlit hver með öðrum. Hins vegar er því ekki að leyna, að þessum skatti fylgir aukin skriffinnska og í annan stað er mjög torvelt að koma við nokkrum undanþágum frá skattinum, þannig að erfiðara verður um vik að undanþiggja nokkrar almennar lífsnauðsynjar virðisaukaskatti heldur en söluskatti. Aftur á móti leggst skatturinn ekki á fjárfestingarvörur nema að mjög takmörkuðu leyti, og hefur því verulega þýðingu fyrir atvinnureksturinn.

Þótt hér sé um skattheimtu að ræða, sem bæði hefur kosti og ókosti, virðast kostirnir almennt vera taldir það þungir á metunum, að æ fleiri lönd taka upp þessa skattheimtu. Má því vafalaust gera ráð fyrir, að niðurstaðan verði einnig sú hér, og hefur því að tilhlutan rn. í sumar verið unnið að álitsgerð um virðisaukaskattkerfið og vonast ég til að geta gert Alþ. grein fyrir einstökum atriðum kerfisins einhvern tíma á þessu þingi, þannig að þm. geti áttað sig á því, hvort kostir kerfisins séu það veigamiklir, að rétt sé að stefna að því að innleiða það hér.

Í fjárlagaræðunni undanfarin ár hef ég jafnan gefið stutt yfirlit um starfsemi skattrannsóknadeildar ríkisskattstjóraembættisins. Á tímabilinu 1. október 1969 til 30. september 1970 hefur deildin tekið 220 ný mál til rannsóknar. Lokið var rannsókn 207 mála, en 90 mál eru nú í rannsókn. Heildarhækkanir gjalda vegna rannsóknarmála námu 30.4 millj. og eru þá meðtaldar skattsektir 13 millj., en ólokið er sektarákvörðun í 150 málum og álagningu hjá ríkisskattanefnd í 72 málum. Svo sem ég áður hef bent á segja þessar tölur aðeins hluta sögunnar, þ. e. þátt rannsóknarmálanna. Skattstofurnar lagfæra að sjálfsögðu fjölda framtala og markvisst er unnið að því með fundahöldum með skattstjórum og á annan hátt að samræma og styrkja skatteftirlitið og framkvæmd skattalaga og er það engum efa bundið, að hið eflda skatteftirlit hefur leitt til verulegra umbóta í skattframtölum. Unnið er nú að úrtaki framtala til skoðunar eftir ákveðnum reglum. Í byrjun kvörtuðu margir sáran yfir skattrannsóknunum og hinir sektuðu töldu illa með sig farið samanborið við þann mikla fjölda skattsvikara, sem slyppu við refsingu. Nú verður slíkum röksemdum ekki lengur við komið, eftir að skattrannsóknadeildin hefur starfað í mörg ár, og menn vita gjörla, hvaða áhættu þeir taka á sig með undanskoti fjár frá skattlagningu, enda hygg ég þessa löggæzlu nú almennt vera talda sjálfsagða. Markmiðið með starfi rannsóknadeildarinnar er hins vegar ekki það að handsama sem flesta skattsvikara, heldur að veita slíkt aðhald varðandi rétt framtöl, að hún þurfi ekki að fást við nema sem fæst skattsvikamál. Þá hefur að tilhlutan fjmrn. verið komið af stað samstarfi milli þess og Sambands ísl. sveitarfélaga um athugun á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, sem gæti í senn leitt til breytinga á tekjuskiptingu og gjaldaskiptingu milli þessara tveggja meginþjónustuaðila í þjóðfélaginu. Hefur af hálfu Sambands ísl. sveitarfélaga farið fram ýtarleg athugun á þessu máli í framhaldi af ráðstefnu, sem sambandið efndi til um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, en þá fól ég ráðuneytisstjórunum í fjmrn. og félmrn. að kynna sér viðhorf Sambands ísl. sveitarfélaga varðandi þetta efni og tjá því, að af hálfu ríkisins væri engin fyrirstaða um það, að teknar yrðu upp alvarlegar viðræður um, hvort skipan þessara mála gæti verið hentugri og heppilegri með einhverjum öðrum hætti en nú gildir. Geta hér að mínu mati vel komið til greina verulegar breytingar, sem ekki er þó tímabært að ræða í einstökum atriðum á þessu stigi.

Á síðasta þingi voru gerðar mjög veigamiklar breytingar á tollskránni vegna aðildar Íslands að EFTA, en samkv. þeim samningum er ekki skylt að framkvæma næstu tvær tollalækkanir fyrr en eftir 4 ár, svo að iðnaðurinn fái nauðsynlegan aðlögunartíma. Ekki er ætlunin að leggja fyrir þetta þing aðrar breytingar á tollskránni en varðandi örfáar vörur, sem nánari athugun hefur leitt í ljós, að lækka verður tolla á vegna EFTA-aðildar. Er hér aðallega um að ræða tvöfalt gler og rafmagnseldavélar og fáeinar aðrar vörur, sem ekki var fyllilega ljóst, að yrðu að lúta EFTA-meðferð. Þá eru í endurskoðun hjá rn. viss atriði laga um gjald af innlendum tollvörum, en þau gjöld þurfa t. d. að ná til sams konar innfluttra vara. Aðildin að EFTA hefur haft í för með sér mjög mikla vinnu fyrir íslenzk tollyfirvöld, því að það er mikið tæknilegt verk að fella tollstjórn okkar og skjalagerð alla að EFTA-kerfinu, en telja má, að sú aðgerð hafi tekizt mjög vel. Unnu saman að þessu mikla verkefni tollstjórnaryfirvöld og fulltrúar framleiðenda og verzlunar. Eftir hörð fyrirmæli og aðvaranir af hálfu rn. má segja, að tollheimta sé hvarvetna í landinu komin í mjög viðunandi horf og sá háttur úr sögunni, sem því miður tíðkaðist of víða, að vörur væru afgreiddar án tollgreiðslu, enda fylgist ríkisendurskoðunin eftir föngum með því, að svo sé ekki gert, og samkv. opinberum tilkynningum, sem rn. hefur gefið út um þetta efni, verður beitt þyngstu viðurlögum tollalaga, ef út af er brugðið.

Herra forseti. Að lokum nokkur orð um þær horfur og það ástand í efnahagsmálum, sem nú blasa við augum og er grundvallarnauðsyn að gera sér grein fyrir. Áður hef ég gert grein fyrir því, að vonir stæðu til, að rekstur ríkissjóðs á árinu 1970 yrði hallalaus vegna aukins innflutnings og veltu umfram það, sem fjárlög gerðu ráð fyrir, enda þótt um veruleg óviðráðanleg umframútgjöld yrði að ræða. Síðast var greiðsluafgangur hjá ríkissjóði 1966 og þá mjög verulegur eða um 450 millj. kr. En í stað þess að leggja þann afgang til hliðar svo sem æskilegt hefði verið, var talið nauðsynlegt að gera allar tiltækar ráðstafanir til að koma í veg fyrir almenna kjaraskerðingu í landinu, sem líka tókst með verulegum fjárgreiðslum úr ríkissjóði allt til haustsins 1967 þrátt fyrir mikið verðfall íslenzkra afurða Síðustu þrjú árin hefur verið árlegur nokkur reksturshalli hjá ríkissjóði, sem leiddi til skuldasöfnunar hjá Seðlabankanum, er nam um síðustu áramót um 630 millj. kr. Þessi hallarekstur var talinn réttlætanlegur vegna hins mikla samdráttar í þjóðarbúskapnum, og gerði þessi skuldasöfnun ríkissjóði kleift á þessum árum að halda uppi óskertri allri þjónustu við þjóðfélagsborgarana. Síðari hluta árs 1969 og á yfirstandandi ári tók hins vegar mjög að skipast til hins betra í þjóðarbúskapnum. Útflutningsatvinnuvegirnir bættu stórlega aðstöðu sína vegna batnandi verðlags og betri aflabragða, bjartsýni um framtíðina fór almennt mjög vaxandi og á mörgum sviðum í atvinnulífinu varð vart við nýtt og aukið framtak um ýmiss konar nýjan atvinnurekstur og eflingu annarra atvinnugreina. Hefur á einu ári raunverulega orðið gerbylting í atvinnulífinu til hins betra, þar eð nýr verðbólguhugsunarháttur tók sem betur fer ekki að gera vart við sig að neinu ráði á þessu tímabili. Telja má atvinnuleysið úr sögunni. Viðskiptajöfnuður við útlönd batnaði stórkostlega. Gjaldeyrisvarasjóðurinn óx um tvo milljarða frá 1. september 1969 til 1. september 1970 og nam þá tæpum 3.3 milljörðum kr. Innistæður í innlánsstofnunum jukust á þessu sama tímabili um 3 milljarða 366 millj., sem er meira en nokkru sinni áður á einu ári, og skuldir þjóðarinnar við útlönd til langs tíma lækkuðu á þessu ári um 800 millj. kr. Heildarstaða ríkissjóðs við Seðlabankann hefur batnað allverulega, 100 millj. verða fyrir áramót greiddar upp í áðurnefnda skuld við Seðlabankann og í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 100 millj. kr. í viðbótarafborgun.

Í fjárlagaræðunni 1968 komst ég svo að orði, að þáverandi erfiðleikaástand væri prófsteinn á það, hvort langframa velmegunarþróun hefði dregið úr manndómi þjóðarinnar til þess að mæta þeim erfiðleikum, sem við Íslendingar verðum alltaf að búast við öðru hverju miðað við einhæfa atvinnuvegi okkar. Ég tel nú óhætt að segja, að þjóðin hafi staðizt þessa prófraun og erfiðleikarnir hafi verið yfirunnir á mun skemmri tíma, bæði fyrir þá sök, að þjóðin sýndi almennt ótrúlega mikinn skilning á nauðsyn kjararýrnunar um sinn og gripið var til réttra efnahagsaðgerða til að mæta vandanum. Nú stöndum við aftur andspænis því að svara þeirri spurningu, hvort við höfum öll nægilega sterk bein til að þola góða daga, hvort við höfum dregið nauðsynlega lærdóma af efnahagserfiðleikum síðustu ára, þannig að við kunnum okkur hóf í kröfugerð á batnandi tímum, en missum ekki fótfestuna og höldum, að allt sé hægt að fá og allt sé hægt að gera svo sem óneitanlega átti sér stað í peningaflóðinu fram til 1967. Öll laun í landinu voru stórhækkuð um mitt þetta ár. Enginn vafi er á því, að útflutningsatvinnuvegirnir hafa bolmagn til þess að taka á sig allverulega kauphækkun, en jafnvíst er, að með áframhaldandi víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags yrði atvinnuöryggi í landinu stefnt í bráða hættu á skömmum tíma. Því miður var ekki samkomulag um að fara þá leið, sem ríkisstj. benti á og hefði getað tryggt verulegar kjarabætur án víxlhækkunaráhrifa og nýrrar verðbólguöldu. Þess vegna stöndum við í dag andspænis þeirri köldu staðreynd, að verði ekki skjótlega gripið til nauðsynlegra aðgerða til að koma í veg fyrir aukinn tilkostnað atvinnuveganna, þá munu almennar kauphækkanir verða orðnar a. m. k. 30% á næsta vori, og mun naumast nokkur halda því fram í alvöru, að atvinnuvegirnir fái risið undir svo stórkostlegri kostnaðaraukningu, án einhverrar sérstakrar aðstoðar. Það er hins vegar jafnvíst, að með skynsamlegum viðbrögðum nú er hægt að tryggja launþegum, að þeir geti haldið mjög verulegum hluta af kauphækkuninni frá í sumar sem raunverulegum kjarabótum, sem ekki brenni upp í nýjum verðbólgueldi. Takist nú að fá samkomulag um nauðsynleg viðbrögð, þá er vissulega engin ástæða til þess að halda annað en bjart sé fram undan og sú heilbrigða efnahagsþróun, sem nú hefur hafizt að nýju, geti orðið varanleg og leitt til sívaxandi velmegunar og bættra lífskjara alls almennings. Skelli menn hins vegar skollaeyrum við staðreyndum og láti kosningahitann verða rólegri yfirvegun og ábyrgðartilfinningu yfirsterkari, þá stöndum við andspænis stórfelldum nýjum vanda. Efnahagsmálin almennt munu koma til kasta Alþingis á öðrum vettvangi og ræði ég þau því ekki frekar í sambandi við fjármál ríkisins, en legg aðeins áherzlu á þá staðreynd, að svo sem réttlætanlegt var á samdráttartímum að reka ríkissjóð með nokkrum halla, þá er það jafnóverjandi miðað við núverandi efnahagsástand. Það er því ósk mín og von, að þótt kosningar séu á næsta leiti, náist um það samstaða hér á hinu háa Alþ. að afgreiða fjárlög ársins 1971 með fullkominni ábyrgðartilfinningu, þannig að ríkisbúskapurinn geti í reynd orðið hallalaus á því ári.