20.10.1970
Sameinað þing: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

1. mál, fjárlög 1971

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hæstv. fjmrh. hefur nú um sinn kaffært ykkur í flóði svimhárra talna og er mál að linni og við ykkur sé nú rætt á mæltu máli. Þau fjárlög, sem ríkisstj. hefur nú lagt fram, eru í engu frábrugðin þeim fjárlagafrv., sem Alþingi hefur verið ætlað að afgreiða undanfarin ár, nema að einu leyti, upphæðinni. Niðurstöðutölur hins nýja frv. hafa hækkað um tvo milljarða, um 2000 millj. kr. frá s. l. ári. Þetta eru verðbólgufjárlög. En e. t. v. kippir sér enginn upp við það, verðbólgufjárlög eru orðin hefð og löggróinn vani í tíð þessarar ríkisstj. Munurinn er aðeins sá, að hrunadansinn verður tryllingslegri með hverju ári, takturinn hraðari, hækkanirnar geigvænlegri. Í ár vaxa eiginleg útgjöld um 24.9%, nærri 25% eða um fjórðung. Tekjuhliðin er áætluð að vaxi um 29.3%, nær 30%. Með þessu eiga tekjurnar að vaxa um 1945 millj., sem þýðir það, að skattheimtan á þjóðina í heild vex um nær 2 milljarða kr. Hvað eru þessir tveir milljarðar kr.? Það er nálega sama upphæð eins og öll útflutningsaukning sjávarafurða á þessu ári. Það er rúmlega tvöföld sú upphæð, sem vinstri stjórnin var að reyna að koma saman fjárlögum með síðasta árið sitt, bara aukningin ein á þessu ári er rúmlega tvisvar sinnum hærri fjárhæð en heildarupphæð síðustu fjárl. vinstri stjórnarinnar. Þessar tölur segja okkur hryllingssögu um þróun fjármálanna í landinu síðasta áratuginn.

En hvaða lærdóma draga stjórnarflokkarnir og þeir foringjar þeirra, sem ráðið hafa stefnunni, af þessum tölum, þessari hryllingssögu? Nýr forsrh. hefur nýlega komið fram fyrir þjóðina og kynnt sinn fagnaðarboðskap. Jú, stefnan frá 1959 er óbreytt, sagði hann. Hvað þýðir þetta? Hver var stefnan, sem sett var fram 1959? Þar var fyrst og síðast á blaði að stöðva verðbólgu, koma á heilbrigðu fjármálakerfi, sem gengi án styrkja og uppbóta og stöðugrar íhlutunar ríkisvaldsins. Þessi stefna hljómar vel og litur vel út á pappír. En það segir sína sögu um framkvæmdina, að nú, 11 árum seinna, er það brýnna en nokkru sinni fyrr að stöðva verðbólguna. Fjórar gengislækkanir á einum áratug segja einnig sína sögu. Milli gengisfellinganna hefur styrkja- og uppbótakerfið stungið upp kollinum, eflzt og dafnað fram að næstu kollsteypu. Þróunin síðustu fjögur árin hefur í stuttu máli verið þessi: 1966 verðstöðvun fram yfir kosningarnar 1967. 1967 gengisfelling. 1968 gengisfelling. 1969 stundarhlé. 1970 virðist verðstöðvun eiga að koma á ný fram yfir kosningarnar 1971. Allir geta síðan séð fyrir sér þróunina næstu árin, ef áfram verður haldið á sömu braut. Og það er einmitt það, sem forsrh. hefur nú boðað. Sömu vinnubrögðum og sömu aðferðum, sem neikvæðan árangur hafa borið s. l. áratug, skal áfram beitt, sagði hann. Og það er það sama, sem fjmrh. boðar nú með þessu fjárlagafrv. Þótt stefnan, vinnubrögðin og aðferðin til að ná markmiði, sem allir í sjálfu sér geta verið sammála um, að keppa beri að, þ. e. stöðvun verðbólguþróunar, þótt allt hafi verið unnið fyrir gýg, skal samt áfram haldið á sömu braut, hvað sem tautar og raular. Það er boðskapurinn. Stjórnarherrarnir berja höfðinu við steininn og væri óskandi, að þeir hefðu ekki skaða af.

Það eru svefngöngur vanans, sem nú standa frammi fyrir þjóðinni og tilkynna henni rétt eins og það sé sjálfsagður hlutur, að skattheimtan skuli aukast um 2000 millj., um 10 þús. kr. á hvert mannsbarn, um 50 þús. kr. á hverja 5 manna fjölskyldu. Þeir standa fastir í löggróinni hefð og vana og eygja engin ný úrræði, hafa engar nýjar hugmyndir, brestur kjark og þor til að kanna nýjar leiðir eða leggja inn á nýjar brautir. Hver er ástæðan fyrir þeirri geigvænlegu þróun, sem birtist í fjárlagafrv. ríkisstj.? Hún er einfaldlega sú, að stjórnlaus en sjálfvirk verðbólguvélin, sem ríkisstj. hefur sjálf búið til og sett í gang, hefur verið í fullum gangi á þessu ári eins og undanfarinn áratug. Aðeins hálfu stórvirkari og hraðvirkari en nokkru sinni fyrr. En fjmrh., yfirsvefnganga vanans, gefur ósköp einfalda skýringu á þessu í aths. sínum við frv. á þá leið, að svo að segja öll útgjaldaaukning og þar með aukning skattheimtunnar stafi af kaupgjaldssamningum þeim, sem verkalýðshreyfingin gerði á s. l. vori. Einmitt það.

En með þessu er þó ekki einu sinni sagður hálfur sannleikur, ekki nema brot úr sannleika, því að þótt nokkrar hækkanir ríkisútgjalda hlytu að leiða af þeim almennu hækkunum kaupgjalds, sem samið var um, hefur hér ráðið mestu um sú stefna, sem fylgt hefur verið, frá því að kjarasamningar voru gerðir, og er þó raunar engin ný stefna og vafamál, að hægt sé að kalla slíkt stefnu, en meginefni hennar er þó það, að setja engar skorður eða hömlur aðrar en þær, sem útflutningsatvinnuvegunum eru sjálfkrafa settar af verðlagi erlendis. En í öðrum greinum var atvinnurekendum leyft að velta af sér kauphækkunum út í verðlagið og láta þannig launafólk borga kauphækkanirnar að verulegu leyti úr eigin vasa.

En hvað var það, sem raunverulega gerðist í kjarasamningunum á s. l. vori og hvað hefur verið að gerast síðan? Á árunum 1968–1969 var verkalýðshreyfingin knúin til að ganga að samningum, sem höfðu verulega kjaraskerðingu í för með sér, þannig að kjör lægst launuðu stéttanna höfðu lækkað um nálega 20%. Þetta var knúið fram í krafti þeirrar afsökunar, að þjóðarbúið hefði orðið fyrir nokkrum ytri áföllum og með svipu atvinnuleysisins reidda yfir höfði verkalýðsins. Þessar skerðingar voru þó miklu meiri heldur en nam lækkun þjóðartekna á því tímabili, sem áföllin dundu yfir, og því að langmestu leyti ósanngjarnar og óhæfar og þýddi raunverulega það, að láglaunafólk var látið taka á sig meginþungann af þessum áföllum. Það, sem í kjarasamningunum gerðist, var því að langmestu leyti ekki annað en það, að verkalýðshreyfingin endurheimti þann kaupmátt, sem verið hafði fyrir gengislækkanirnar, enda auðsætt, þegar samningagerðin fór fram, að ýmist voru orðnar eða fyrirsjáanlegar breytingar á möguleikum þjóðarbúsins til að bæta láglaunastéttunum á ný þær óþolandi kjaraskerðingar, sem þær höfðu orðið fyrir á undanförnum tveimur árum. Nú er hins vegar auðsætt, að engar þær vonir, sem menn gerðu sér um bætta afkomu og möguleika þjóðarbúsins til að standa undir kjarabótum, svo sem aflabrögð og verðlag á afurðum okkar erlendis, hafa í nokkru brugðizt. Aðeins á fyrra helmingi þessa árs jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða um rösklega 40% miðað við sama tíma 1969, þar af 21% vegna hækkaðs verðlags. Aflabrögð hafa einnig verið mjög góð síðari hluta ársins og afurðaverðið enn farið hækkandi á erlendum mörkuðum. Iðnaðarvörur hafa farið hækkandi erlendis og gefið þannig hækkað verð á okkar útflutningsvörum og einnig bætt stöðu iðnaðarins gagnvart erlendum samkeppnisvörum á innanlandsmarkaðinum. Þetta sannar það, að allar forsendur voru fyrir hendi til þess að kauphækkanirnar yrðu raunhæfar og ekki hrifsaðar aftur í nýju verðbólguflóði. Til þess þurfti þó að uppfylla eitt skilyrði, sterkt aðhald af hálfu valdhafanna um verðmyndunina, þar sem fylgt yrði þeirri meginstefnu, að atvinnurekendur væru gerðir ábyrgir fyrir þeim frjálsu samningum, sem þeir gerðu og undirrituðu, með því að taka raunverulega á sig kauphækkanirnar í batnandi árferði, með því að verja til þess hluta af sínum eigin gróða á s. l. ári, og hann var mikill. Það vita allir og hafa raunar viðurkennt. En hver hefur raunin hér á orðið? Fyrir atbeina verkalýðshreyfingarinnar hafði ríkisstj. verið sköpuð aðstaða eftir gengisfellinguna 1968 til að hala stjórn á nokkrum hluta verðmyndunarkerfisins gegnum verðlagsnefnd. En það mun ekki hafa verið búið að undirrita samningana, þegar kröfur verzlunarinnar um álagningarhækkun upp á 12–13% voru samt knúðar fram af oddamanni ríkisstj. í verðlagsnefnd og hlutur kaupsýslunnar því ekki aðeins gerður jafn og áður var, heldur stóraukinn, þar sem álagningargrundvöllur hennar hafði stórhækkað með hækkun verðlags á erlendu vörunni og auk þess auðsætt, að verzlunin mundi hagnast gífurlega á aukinni og mun hraðari veltu vegna aukinnar kaupgetu, sem hlaut að verða í kjölfar almennra kauphækkana. Það kunni ekki góðri lukku að stýra, þegar upplýst var, að einn mikilvægasti aðili atvinnurekenda í verðmyndunarkerfinu var látinn stórgræða á kjarasamningunum á kostnað neytenda, þ. e. a. s. launþeganna. Að svo miklu leyti sem í valdi stjórnarvalda hefur staðið, hefur þeirri stefnu verið fylgt síðan. Mestu stórgróðafélög landsins hafa einskis í misst, fengið að halda öllum gróða sínum óskertum og þó sennilega meira til, verið látin græða á kauphækkunum. Hefðu olíueinokunarfélögin þannig verið svipt gróðanum, hefði álagningarprósentan hjá þeim átt að lækka um 8%, sem hefði leitt til lækkunar á bensíni í stað hækkana. Olían hefði að vísu hækkað nokkuð vegna hækkana erlendis, en samkv. því álagningarkerfi, sem Lúðvík Jósefsson fann upp 1957 og farið hefur verið eftir síðan, varð nú 20% hækkun á öllum söluvörum olíufélaganna. Líkt er að segja, þar sem verðmyndunin er undir beinni stjórn ríkisvaldsins eða stjórnarflokkanna svo sem varðar opinbera þjónustu ríkisins og Reykjavíkurborgar. Þar eru ýmist orðnar eða fyrirhugaðar hækkanir á rafmagni, hitaveitu, pósti og síma, iðgjöldum til almannatrygginga, námsbókagjaldi, sem nú hefur verið tvöfaldað. Hafi kaupsýslan róið vel í fyrirrúminu, hefur skuturinn sannarlega ekki legið eftir hjá ríkisstj. Hækkun þessara liða verður verulega meiri en meðaltalshækkunin í kerfinu.

Í landbúnaðinum hefur allt gengið sinn gang eftir gömlum formúlum, hefð og löggrónum vana, án þess að nokkrar nýjar leiðir væru svo mikið sem athugaðar til þess að tryggja hag bænda og jafnframt tryggja, að landbúnaðarvörur rykju ekki upp úr öllu valdi, en þar hefur niðurstaðan orðið sú, að verð hefur hækkað mun meira en kauphækkunum nam og landbúnaðarvörur, sem verða að teljast meðal frumnauðsynja neytenda, eru að verða munaðarvörur á borðum mikils hluta láglaunafólks. Mjólkin ein hefur hækkað um 30%, en bændur almennt sitja samt eftir með skarðan hlut.

Þegar verið er að fullyrða, að vísitölukerfið sé orsök dýrtíðar, verða menn að kunna að greina á milli orsakar og afleiðingar og kunna skil á því, að vísitöluhækkanir eiga sér því aðeins stað, að verðlag hafi áður hækkað. Jafnir möguleikar eru á því með lækkandi verðlagi, að vísitalan færi kaupgjaldið niður á við. Hér höfum við reynt öll afbrigði vísitölu, fulla vísitölu, skerta, niðurgreidda vísitölu og vísitölulaus tímabil, en ekkert kák með vísitöluna hefur megnað að snúa verðbólguþróuninni við fremur en það verður til þess að lækka hita sjúklings að mölva hitamælinn. Vísitalan á fyrst og fremst að vera launþegum vörn og er jafnframt áskorun til stjórnvalda um, að halda verði verðbólgunni í skefjum. Alls staðar þar sem verðbólguþróunin fer úr skorðum og æðir stjórnlaust áfram telur verkalýðshreyfingin sig tilneydda að krefjast vísitölutryggingar. Þannig er vísitalan nú ein höfuðkrafa bandarískra verkamanna, eftir að verðbólguþróunin þar er farin yfir 5% á ári, og er þessi krafa m. a. ein höfuðorsökin til verkfalls, sem staðið hefur nú í 3 vikur í bandaríska bílaiðnaðinum.

Hver er svo vísitölusagan hér í sumar frá samningunum í vor? Jú, 1. september hafði hún mælt 4.2% hækkun. Það er skoðun mín, að hefði aðhalds verið gætt og ráðstöfunum af hálfu þess opinbera beitt í tæka tíð, hefði þessi hækkun getað verið mjög lítil. Síðan 1. september hafa enn komið til stórfelldar hækkanir og aðrar verið ráðgerðar, þannig að með áframhaldandi sömu stefnu og fylgt hefur verið gæti vísitöluhækkunin verið orðin 13–14% alls nú upp úr áramótum. En meginhluti þeirrar hækkunar kemur fram 1. desember n. k. Allir virðast sammála um, að slíkt mundi leiða til ófarnaðar. Að vísu benda allar upplýsingar til þess, að útflutningsatvinnuvegirnir geti borið hina umsömdu kauphækkun og auknar verðlagsbætur samkv. septembervísitölunni. En hins vegar bendir margt til þess, að aukin hækkun geti komið hart niður á atvinnuvegunum og jafnvel leitt til samdráttar og atvinnuleysis, ef ekkert er að gert. Þótt svo færi nú ekki er þó augljóst, að slíkar hækkanir mundu rýra mjög verulega árangur kjarasamninganna, sérstaklega fyrir láglaunafólkið. Kemur þar einkum tvennt til. Í fyrsta lagi, þótt talað sé um fulla vísitölu er ekki um fullar verðlagsbætur að ræða, þar sem t. d. launahækkun bóndans í verðmyndunarkerfi landbúnaðarins hefur að takmörkuðu leyti áhrif á kaupgjaldsvísitöluna. En hitt vegur þó þyngra á metunum, að í slíku verðhækkunarflóði hækka mest þær vörutegundir, sem teljast til grundvallarnauðsynja almennings, og mælir því vísitalan lágtekjufólki ekki sinn hlut til jafns við hálaunamenn. Fyrir láglaunafólk mundi því slík þróun leiða til þess að gera umsamdar hagsbætur að engu og það þótt ekki væri tekið tillit til þess, að það varð eitt allra stétta, láglaunafólkið, að fórna þriggja vikna tekjum til að knýja fram kjarabætur. Allir aðrir fengu sitt á silfurfati og vel það.

Hvað ber þá að gera? Þetta fjárlagafrv. gefur sannarlega engar vísbendingar um annað en áfram skuli haldið á sömu braut og það með auknum hraða, nefnilega leiðina norður og niður. Það er hins vegar vitað, að ríkisstj. veltir því fyrir sér, til hverra ráða hún eigi að grípa til að standa ekki alveg ber að því að standa uppi sem stefnu- og úrræðalaust rekald nokkrum mánuðum fyrir kosningar. Helzt er hægt að greina af óljósu tali ráðamanna, að til greina komi verðstöðvun í einu eða öðru formi og nú í tengslum við verðgæzlufrv. frá í fyrra, en það gerði ráð fyrir því sem meginreglu, að verðlagning yrði gefin frjáls. Gætu þessi tengsl hugsanlegrar verðstöðvunar af hálfu ríkisstj. við heildsalafrv., sem Alþýðublaðið kallaði svo, jafngilt því, að jafnframt svokallaðri verðstöðvun fram yfir næstu kosningar yrði kaupsýslustéttinni og atvinnurekendum almennt tilkynnt það, að yrðu þau góðu börnin og héldu sér á mottunni þar til nýjar kosningar hefðu farið fram, yrðu þeim veitt þau hegðunarverðlaun að mega ráðast á launþega og neytendur að vild eftir kosningarnar. Hver óskar eftir slíkri málamyndaverðstöðvun og hvaða vanda mundi hún leysa til frambúðar? Og samt sem áður stæði eftir sá vandi að sjá fyrir þeim verðlagsbótum, sem launþegar eiga heimtingu á samkv. samningum og þegar eru komnir fram annars staðar en í kaupgjaldinu sjálfu, en sú hækkun nemur nú nálega 5%. Við þann vanda verður ekki ráðið með þeirri stefnu, sem þetta fjárlagafrv. markast af. Þeim vanda verður aðeins mætt með því aðhaldi og þeim niðurskurði á rekstrarútgjöldum, sem gæfu svigrúm til þeirra aðgerða af hálfu stjórnvalda, sem þarna gætu jafnað metin. Ríkisstj. mun ekki geta dregið öllu lengur að kveða upp úr með það, hvort hún, eins og hún fullyrðir í öðru orðinu, ætlar að viðurkenna það, að samningarnir verði í engu skertir eða, eins og illa dulbúnar hótanir hafa komið fram um í hinu orðinu, hvort hún ætlar að ræna launþega umsömdum verðbótum með skerðingu á vísitöluákvæðum samninganna. Með skilmerkilegri yfirlýsingu miðstjórnar Alþýðusambands Íslands fyrir hönd allrar verkalýðshreyfingarinnar skal því hér með lýst yfir í nafni verkalýðshreyfingarinnar, að ekki kemur til greina, að þolaðar verði neinar lögþvinganir til breytinga á gerðum samningum frá s. l. vori, hvorki hvað varðar greiðslu verðlagsbóta né önnur atriði.

Öllum slíkum tilraunum til breytinga á samningunum mun verkalýðshreyfingin mæta og brjóta á bak aftur með órjúfandi samstöðu og með öllum þeim vopnum, sem henni eru tiltæk.

Verkalýðshreyfingin hefur úr ótrúlegustu áttum sætt ámæli fyrir þær viðræður, sem að undanförnu hafa átt sér stað við ríkisstj. Þannig hefur aðalmálgagn Alþb., Þjóðviljinn, sem þó sannarlega hefur átt sinn fulltrúa í viðræðunefndinni, verið með stöðugar aðdróttanir um, að með því að kynna sér þessi mál á þennan hátt hafi foringjar verkalýðshreyfingarinnar játazt undir að greiða veg ríkisstj. fyrir kjaraskerðingu og riftun þeirra samninga, sem þessir sömu menn undirrituðu fyrir nokkrum mánuðum. Öllum slíkum aðdróttunum er hér með vísað til föðurhúsanna, enda voru grundvallarsjónarmið viðræðunefndarinnar og miðstjórnar A. S. Í, sem aldrei hefur verið hvikað frá, að þær einu leiðir væru færar til lausnar á verðbólguvandanum, sem byggðu á gerðum samningum. Hafa viðræðurnar vafalaust verið gagnlegar til upplýsingar fyrir forustumenn samtakanna, svo að þeir eftir en áður eru færari um að byggja stefnu sína á staðreyndum, sem þeir og hafa gert, sbr. yfirlýsingar miðstjórnar Alþýðusambandsins frá 11. þ. m. Niðurstöðurnar af gaumgæfilegum athugunum Alþýðusambandsins eru þær, að ekki sé nú einungis unnt að leysa vandann á þeim kjaragrundvelli, sem lagður var af hreyfingunni á s. l. vori, heldur bæri einnig og væri kleift að standa svo að lausn mála nú, að viðunanleg bráðabirgðalausn fæli einnig í sér grundvallarkerfisbreytingar, stefnubreytingu, sem nú er hvort eð er óumflýjanleg, ef forða á efnahagslegum þjóðarvoða. Afstaða verkalýðshreyfingarinnar til raunhæfra verðstöðvunaraðgerða er í ályktun Alþýðusambandsins mörkuð á þennan hátt:

Miðstjórnin er reiðubúin til að standa nú þegar að raunhæfum aðgerðum til verðstöðvunar með eftirgreindum hætti og eftir öðrum leiðum, sem til greina koma og stefna að hömlun verðbólguþróunar.

1. Að gildandi ákvæði í l. um vald verðlagsnefndar og verðlagseftirlit verði ekki skert og sameiginlegum meiri hl. fulltrúa launþegasamtakanna og ríkisstj. í verðlagsnefnd verði beitt til strangs aðhalds varðandi þann hluta verðmyndunarkerfisins, sem nefndin hefur vald á, og til endurskoðunar á fyrri afgreiðslum n., sem orka mest tvímælis og ágreiningur hefur verið um milli fulltrúa launþegasamtakanna og fulltrúa ríkisstj.

Ég hef þegar vikið að þessu atriði hér að framan og sérstaklega því, hversu á hefur skort, að því mikla valdi, sem ríkisstj. hefur í verðlagsnefnd, væri beitt til að koma í veg fyrir óþarfa verðhækkanir, og þarf varla að hafa fleiri orð um það. En vitanlega sker það úr um samstarfsvilja ríkisstj. í verðlagsmálunum, hvort hún notar þetta vald til næsta einhliða stuðnings við allar kröfur atvinnurekenda og kaupsýslustéttanna eða hún leggst þar á sveif með fulltrúum launþegahreyfingarinnar. Varðandi endurskoðun á fyrri afgreiðslu verðlagsnefndar vil ég fyrst og fremst undirstrika kröfuna um endurskoðun verzlunar álagningarinnar, farmgjalda og verðlagningar á bensíni og öðrum verzlunarvörum olíufélaganna. Stefna launþegafulltrúanna í verðlagsnefnd hefur ekki verið sú að kúga þar einn eða neinn eða stefna nauðsynlegum atvinnurekstri í efnahagslegan vanda, heldur meta þar hvert mál óbundið af gömlum og úreltum formúlum. Þá stefnu ætti hver ríkisstj. kinnroðalaust að geta stutt, ella verða öll faguryrðin um allra stétta sjónarmiðin býsna einhliða.

Í 2. lið ályktunar Alþýðusambandsins er þess enn fremur krafizt, að sérstakar ráðstafanir verði gerðar til að hindra allar verðhækkanir, sem opinberir aðilar ráða úrslitum um og nokkur raunhæf tök eru á að koma í veg fyrir. Ríkið og bæjarfélög ráða beint stórum og áhrifamiklum þætti verðmyndunarkerfisins, og hefur vissulega úrslitaþýðingu, hvernig því valdi er beitt. Í því ástandi, sem við búum nú við, tel ég óráð, að ríki og ríkisstofnanir miði verðlag á þjónustu sinni ekki aðeins við þann kostnað, sem þær nú hafa, heldur einnig við framkvæmdakostnað, sem fyrirhugaður er einhvern tíma í framtíðinni. Slík stefna er sjálfsögð og réttlætanleg við aðrar aðstæður og betri, en eins og ástandið er nú, verkar þetta eins og olía á verðbólgueldinn. T. d. gerir Póstur og sími að jafnaði ráð fyrir um 200 millj. kr. árlegri fjárfestingu, sem notendum þessarar þjónustu er ætlað að greiða sama ár og framkvæmdirnar eiga sér stað. Hliðstætt dæmi er hinn geysilegi gróði raforkukerfisins, svo sem nýlega kom fram hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur, sem skilaði 70–80 millj. kr. hagnaði á s. l. ári. Þessu síðarnefnda ræður ríkisstj. ekki beint, en með sérstökum ráðstöfunum hefði verið unnt að halda þessu í skefjum. Sama máli gegnir um hitaveituna og fleiri þjónustugreinar Reykjavíkurborgar.

Í 3. lið yfirlýsingar Alþýðusambandsins er krafizt sundurliðunar á dýrtíðar„automatinu“, sem ég vil kalla svo. Þar segir, að allar lögbundnar launa- og verðviðmiðanir við launataxta verkalýðsfélaganna verði afnumdar með nýrri löggjöf, þ. á m. við kjör opinberra starfsmanna og verðlag landbúnaðarvara, enda hljóti þá þessar starfsstéttir fullan samningsrétt hliðstæðan þeim, sem verkalýðssamtökunum er tryggður með gildandi vinnulöggjöf.

Hér er t. d. komið að sjálfu sigurverki hinnar sjálfvirku verðbólguvélar. Ríkisstj. hefur skotið sér undan vandanum með því, að miklar hækkanir séu lögbundnar og fylgi sjálfkrafa í kjölfar launahækkana. En lög eru ekki óbreytanleg. Verki þau öfugt við tilgang sinn, ber Alþ. skylda til að breyta þeim, og þessi lög gera laun láglaunafólksins að lykilatriði í öllu launakerfinu. Það fær því allan þunga ríkisvalds og ofurvalds atvinnurekenda á sig til að halda þessum grundvallarviðmiðunarpunkti niðri. Hver einasta sjálfsögð kjarabót og leiðrétting á kjörum þessa fólks, eins og sú leiðrétting, sem allir voru sammála um, að væri sjálfsögð, eðlileg og viðráðanleg í vor, leiðir samstundis af sér sams konar leiðréttingu á öllu launakerfinu hlutfallslega stækkandi eftir því, sem ofar dregur, og þegar þar við bætist í höndum dáðlausrar ríkisstj., að svipuð svokölluð leiðrétting er gerð á öllu verðmyndunarkerfinu á eftir, þá verkar þetta líkt og að bæta einu núlli aftan við allar tölur í talnadálkum þjóðarbúsins. Þannig er hinn almenni launþegi úthrópaður sem aðalsökudólgurinn í vítahring verðbólgunnar. Ef hann bara sættir sig við sínar 15 þús. kr. á mánuði, þá mundi hálaunamaðurinn heldur ekki fá 15% hækkun á sín 50–100 þús. á mánuði. En þetta kerfi er rangt, rammvitlaust og rangt, og það verður að slíta það í sundur. Verkalýðshreyfingin gerir sér grein fyrir því, að hún er ekki ein í þjóðfélaginu og hún ætlar ekki lengur að semja um kjör annarra stétta en sín eigin og heyja til þess löng og fórnfrek verkföll. Hér er eðlilegast, að hver sjái um sig. Verkalýðshreyfingin á ekki að skammta öðrum stéttum kjör né vera bundin af kjörum annarra stétta, eins og reynd hefur á orðið.

Þá vík ég að fjórða atriðinu í ályktun Alþýðusambandsins, en þar segir svo, orðrétt:

„Að ýtrustu greiðslugetu ríkissjóðs, svo og því fé, sem nú er varið til verðbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir, verði beitt til verðlækkunar á grundvallarnauðsynjum almennings, svo sem með lækkun söluskatts á lífsnauðsynjum og til aukningar fjölskyldubóta. Verðlagningarkerfi landbúnaðarins og fyrirkomulag niðurgreiðslna verði hvor tveggja tekið til endurskoðunar í fullu samráði við bændastéttina og með sameiginlega hagsmuni þeirra og neytenda fyrir augum.“

Verkalýðshreyfingin hefur fyrir löngu gert sér það ljóst, að bændur geta ekki lengur vænzt hagsbóta gegnum afurðakerfið eitt saman. Þess vegna neitaði Alþýðusamband Íslands þegar fyrir 4 árum að taka þátt í þeim skrípaleik, sem árlega er leikinn í svonefndri Sexmannanefnd. Hér hefur verið ríkjandi rómantísk stefna í landbúnaðarmálum um áratugi, og hefur megineinkenni hennar verið það, að af stækkun búanna og aukningu hinna hefðbundnu búgreina, sauðfjár- og nautgriparæktar, leiddi samsvarandi bættur hagur bænda. Þessi stefna gat gengið meðan hægt var að selja landbúnaðarafurðir viðunanlegu verði á erlendum mörkuðum. En vandamál íslenzks landbúnaðar eru nú aðeins angi af landbúnaðarvandamáli alls hins vestræna heims, offramleiðslunni. Landbúnaður allra nálægra ríkja er rekinn með stórfelldum styrkjum og niðurgreiðslum. Við getum því ekki í fyrirsjáanlegri framtíð vænzt þess að fá kostnaðarverð fyrir landbúnaðarafurðir okkar erlendis. Þar sem innanlandsmarkaðurinn er þegar mettaður, hlýtur sífelld stækkun búanna umfram þarfir fólksfjölgunar í landinu að leiða til sívaxandi útflutningsstyrkja. Útflutningsuppbæturnar og alla styrki til hvatningar aukinni framleiðslu þessara afurða, verðlagningarkerfið og fyrirkomulag niðurgreiðslna verður því að endurskoða í fullu samráði við bændastéttina sjálfa. Kemur þar sérstaklega til athugunar að greiða þessa styrki beint til bændanna, ákveðna upphæð t. d. á meðalbú, lækka um leið rekstrarvörur landbúnaðarins með niðurfellingu á vélatollum, lækkun áburðarverðs, en taka jafnframt upp skatt á innflutt kjarnfóður. Bændur og launþegar, vinnandi fólk til sjávar og sveita, eiga að geta átt samleið í þessum málum. Núverandi kerfi gefur þeim öflum einmitt öllum bezta byrinn, sem með lýðskrumi vilja veiða atkv. hjá öðrum aðilanum á kostnað hins. Því kerfi verður því að breyta og leysa það upp.

Í 5. lið í samþykkt Alþýðusambandsins er þess krafizt, að skattar og útsvör af almennum launatekjum verði lækkuð og launaeftirlitið hert. Nú er svo komið að ætla má, að með óbreyttri skattvísitölu verði 60% kauphækkananna frá því í vor hrifsuð af skattránskrumlu hins opinbera. Fari svo, mun verkalýðshreyfingin verða í framtíðinni að leggja til grundvallar samningum þá upphæð, sem launþeginn fer með heim í launaumslagi sínu. Hún verður þá tilneydd að semja beinlínis um skatta í sambandi við sín launakjör, þannig að það verði ekki raunverulega lengur á valdi löggjafans, og er það þó frumhlutverk löggjafarþinga að ákvarða um réttláta skattheimtu.

Sjötta krafa miðstjórnar Alþýðusambandsins til verðstöðvunaraðgerða var sú, að fyllsta aðhalds í rekstri ríkisins og ríkisstofnana verði gætt í því augnamiði, að unnt verði að beita sem mestu fjármagni og sem áhrifamestum aðgerðum í framangreindu skyni. Hvaða fjármagn gæti nú verið tiltækt í þessu skyni? Ég segi, í fyrsta lagi væntanlegur greiðsluafgangur ríkissjóðs, 313 millj. kr. Í öðru lagi, ef tækist að stöðva verðbólguna hinn 1. september, næðust kr. 150 millj., sem áætlaðar eru til verðbóta á laun í desember og á næsta ári. Í þriðja lagi, 390 millj., sem ætlaðar eru til verðbóta á útfluttar landbúnaðarafurðir en ætla má, að bændum og neytendum gæti komið að meira gagni með einhverjum öðrum hætti. Í fjórða lagi 577 millj., sem fara eiga til niðurgreiðslu á mjólk og kjöti. Samtals eru þetta 1430 millj, kr. Ef við svo gerum ráð fyrir, að unnt væri að komast af með helmingshækkun á rekstrarútgjöldum þessa árs hjá ríkissjóði, þá fengi ríkisstj. þar 1000 millj. til viðbótar og til ráðstöfunar, samtals þá um 2400–2500 millj. Ég fullyrði, að með því að líta á fjárl. frá nýju sjónarhorni, afneita hinu sjálfvirka verðhækkunarkerfi, tilfærslu fjármuna úr einum vasa í annan, má fá a. m. k. þessa upphæð til ráðstöfunar gegn verðbólgu og 2500 millj. eru vissulega upphæð, sem verulega getur munað um, ef henni er beitt á réttan hátt. Ef við t. d. reiknum með, að það kosti um 150 millj. að greiða niður hvert vísitölustig, þá er þetta upphæð, sem gæti nálega vegið á móti öllum vísitöluhækkunum frá því í vor og til áramóta. Það er hægt að draga verulega úr verðbólgunni, ef ekki að stöðva hana, ef vilji er fyrir hendi og djörfung til að endurskoða kerfið frá grunni, rjúfa hina sjálfvirku þætti þess og koma þeim undir skynsamlega stjórn. En þetta fjárlagafrv. ber þess engan vott, að hin minnsta löngun til slíks sé fyrir hendi hjá stjórnarflokkunum. Það þarf engum að koma það á óvart, hvað Sjálfstfl. varðar. En Alþfl., sem hefur nýlega samþykkt að leggja áherzlu á að efla og styrkja tengsl flokksins við verkalýðshreyfinguna, við hvers konar samtök launþega og við neytendahreyfinguna, — telur hann það bezt gert með afstöðu fulltrúa viðskrh. í verðlagsnefndinni? Telur hann, að hann vinni sér traust þessara samtaka með því að beita verkalýðshreyfinguna e. t. v. lögþvingunum? Telur hann, að nú sé rétti tíminn til að samþykkja verðgæzlufrv. það, sem einn ráðh. hans felldi á síðasta þingi? Telur hann, að reynsla sú, sem verkalýðshreyfingin hefur af verðstöðvun í framkvæmd þessarar ríkisstj., — við fengum nú reynslu af henni fyrir síðustu kosningar — veki meira traust á nýrri verðstöðvun, ef þessu heildsalafrv. er hnýtt aftan í það? Mér finnst það ólíklegt.

Nýafstaðið þing Alþfl. hefur samþ. áskorun á alla íslenzka jafnaðarmenn að sameinast í einum flokki og falið þingflokki sínum að viðhafa forgöngu um viðræður við Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Alþb. Jafnframt er yfirlýst, að Alþfl. gangi óbundinn og með frjálsar hendur til kosninga varðandi stjórnarsamstarf. Þetta þýðir órofið stjórnarsamstarf.

Það verða hér á Alþ. á næstu vikum og mánuðum afgreidd mörg mál, sem sköpum skiptir fyrir afkomu allrar alþýðu manna, hvernig á verður tekið. Tekur Alþfl. þar á með launþegahreyfingunni eða heldur hann áfram að dansa eftir pípu íhaldsins til vors? Þá verður of seint að snúa við til vinstri. Óbætanlegur skaði verður þegar skeður. Prófraun ríkisstj. og sérstaklega Alþfl. er nú og hún verður jafnframt prófraun á heilindi Alþfl. Það vantar nú þegar svör Alþfl. alveg sérstaklega við öllum þessum spurningum, og í heild vantar svör við afstöðu hans til raunhæfra aðgerða í verðbólgumálunum. En hér hef ég, eins og ég hef getað í stuttu máli, reynt að túlka stefnu Samtaka frjálslyndra og vinstri manna í þeim málum, og hún er í einu og öllu samhljóða markaðri stefnu verkalýðssamtakanna. — Þökk fyrir áheyrnina. Góða nótt.