20.10.1970
Sameinað þing: 4. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

1. mál, fjárlög 1971

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á það hefur oft verið minnzt og ekki að ástæðulausu, að aðalloforð núverandi stjórnarflokka, þegar þeir tóku við völdum fyrir 11 árum, var að vinna bug á verðbólgunni. Allar aðgerðir ríkisstj. áttu að þjóna þessu markmiði. Það er ekki að undra, þótt landsmönnum komi þessi fyrirheit stjórnarflokkanna sérstaklega í hug þessa dagana, þegar hæstv. fjmrh. leggur fyrir Alþ. frv. til fjárl. fyrir næsta ár, þar sem skattheimta ríkisins á því ári er í krónum talið í fyrsta sinn skráð í 8 tölustöfum, fer yfir 10 þús. millj. kr. og nemur sem svarar um 50 þús. á hvert mannsbarn í landinu. Þetta getur talizt allsögulegur viðburður og óvæginn dómur um frammistöðu ríkisstjórnarflokkanna í dýrtíðarmálunum, þegar haft er í huga, að um það leyti, er þeir gáfu landsmönnum fyrirheitin um baráttuna gegn verðbólgunni, nam árleg skattheimta ríkiskerfisins innan við 1000 millj. kr. á ári, en er nú hálft 11. þús. millj. Er fjárlagafrv. þar á ofan þannig úr garði gert, að niðurstöðutölur þess eiga án efa eftir að hækka verulega, áður en það hefur verið endanlega afgreitt, því að hvorki er í frv. gert ráð fyrir neinum dýrtíðarráðstöfunum né fjármagni til að mæta þeim launahækkunum hjá opinberum starfsmönnum, sem um kann að verða samið eða úrskurðaðar verða á næstunni. Í fyrra hækkaði fjárlagafrv. í meðförum Alþ. um rúmlega 300 millj. kr. og árið 1968 um rúmlega 500 millj., svo að vera má, að hæstv. fjmrh. takist að koma hinu nýja skattheimtumeti sínu upp í 11 þús. millj. kr., þegar frv. verður endanlega samþ. Þegar haft er í huga, að aðalfyrirheit ríkisstj.-flokkanna fyrir rúmum áratug var stöðvun verðbólgunnar og jafnframt, að þjóðin hefur búið við sérstaklega hagkvæm ytri skilyrði allan þennan tíma, utan tvö ár, þegar aflamagn og afurðaverð fór niður í það, sem áður var talið meðalár, þá er von, að almenningur spyrji: Hvers vegna hefur svona hrapallega til tekizt? Til þess taka stjórnmálaflokkar að sér stjórn landsins, að beita löggjafar- og framkvæmdavaldinu til þess að hafa áhrif á það, í hvaða átt þróunin beinist á hinum ýmsu sviðum þjóðlífsins og ekki sízt í verðlagsmálum, sem svo miklu ráða um viðgang atvinnulífsins, þróun atvinnuveganna og lífskjör almennings. Til þess að ná tökum á þróun þessara mála hafa stjórnarflokkarnir nú haft rúman áratug. Skattheimtumetið nýja, fjárlagafrv. fyrir næsta ár með niðurstöðutölur, sem nema á 11, þús. millj. kr., ber árangrinum vitni.

Ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. hóf feril sinn við þær aðstæður, að minni hl.-stjórn Alþfl., sem þar áður hafði setið á valdastóli, hafði skorið niður laun með lagaboði, lækkað þau að krónutölu. Þessi skertu laun giltu, þegar viðreisnarstjórnin var mynduð, og fyrsta verk hennar var stórfelld gengislækkun, henni fylgdi verðhækkanaskriða, en ríkisstj. lögfesti um leið bann við vísitölubótum, og laun hækkuðu ekki um einn eyri, frá því að þau voru lækkuð í marz 1959 fram á mitt ár 1961, en verðlaginu hélt ríkisstj. ekki í skefjum að heldur. Og á miðju ári 1961, þegar verkalýðsfélögin sömdu um vægilega kauphækkun, svaraði ríkisstj. með tafarlausri gengislækkun, þrátt fyrir hækkandi afurðaverð og aukinn fiskafla. Bannið við vísitölubótum á laun gilti allt fram á sumarið 1964, þannig að allt frá upphafi stjórnarferils viðreisnarstjórnarinnar og fram að miðju ári 1964 voru engin sjálfkrafa tengsl launa og verðlags í landinu, vísitölubætur voru bannaðar með l. Allan þennan tíma, þann tíma, sem alls engar kauphækkanir urðu, og þann tíma, þegar vísitölubætur á laun voru bannaðar, blómstraði þó verðbólgan og verðhækkanirnar í landinu engu að síður. Ríkisstjórnin hefur jafnan beitt þingmeirihluta sínum til þess að búa hér þær aðstæður gagnvart kaupgjaldsmálum, sem hún hefur hverju sinni kosið, en allt hefur það komið fyrir ekki. Verðhækkunarflóðið hefur steypzt yfir almenning og þróunin hefur allan tímann verið sú, sem fjárlagafrv. fyrir næsta ár ber órækast vitni. Í tífalt hærri ríkisútgjöldum og skattheimtu á næsta ári en var fyrir rúmum áratug á sama tíma og laun hafa u. þ. b. fjórfaldazt. Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. hefur ekki skirrzt við að beita verkalýðssamtökin jafnan hverjum þeim ráðstöfunum, sem hún hefur talið sér henta, til þess að tryggja sér þann grundvöll, sem hún hefur þótzt þurfa til að ráða við verðbólguna. En þær ráðstafanir hafa að engu haldi komið, vegna þess að stefna hennar að öðru leyti hefur allan tímann kynt undir verðbólgunni og aukið hana. Engar slíkar ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur beitt gagnvart verkalýðssamtökunum, hefur hún notað til að halda niðri verðlaginu og mun ekki heldur gera það nú, þótt stjórnarherrarnir muni hugsa sér að koma enn til launþega og þykjast ætla að sporna við verðbólgunni með því að fá verkafólk til þess að falla frá vísitölubótum að einhverju leyti. Allar slíkar kúnstir hefur ríkisstj. fengið að reyna og árangurinn blasir við. Nei, engar þær fórnir, sem viðreisnarstjórnin hefur á valdatímum sínum krafizt af verkalýðnum, hafa komið að haldi til þess að hamla gegn þeirri verðbólgu, sem stefna ríkisstjórnarflokkanna á öllum sviðum hefur magnað óaflátanlega allan stjórnarferil þeirra, enda hafa þær aðgerðir gagnvart verkalýðssamtökunum, beinar kauplækkanir og skerðing og afnám vísitölubóta, einungis verið aðferð atvinnurekendavaldsins í landinu til þess að nota sér hliðhollt ríkisvald í togstreitunni við launafólk um arðinn af vinnunni. Nei, aðgerðir ríkisstj. gagnvart launafólki hafa vissulega ekki stefnt að því að efna loforðin um stöðvun verðbólgunnar, heldur fyrst og fremst að því, sem hefur setið í fyrirrúmi, að tryggja sem auðveldasta gróðasöfnun þeirra, sem eru skráðir eigendur að atvinnutækjunum í landinu og telja sig a. m. k. eiga arðinn, þótt skattyfirvöldin finni ekki aðra eigendur en almenning í landinu.

Þegar að kosningum hefur dregið, hafa æðstu menn ríkisstj. látið frá sér fara skelegg ummæli um væntanleg viðbrögð í verðlagsmálunum, t. d. lýst því yfir skýrt og skorinort, að semji atvinnurekendur um launahækkanir, þá verði þeir að bera það sjálfir og þeim verði ekki leyft að hleypa því út í verðlagið. Hverjar hafa efndirnar orðið? Við kynnumst þeim þessa dagana. Þegar kaupmáttur tímakaups hefur farið síminnkandi þrátt fyrir auknar þjóðartekjur og verkalýðsfélögin hafa reynt að rétta hlut sinn með nýjum kjarasamningum, þá hefur ríkisstj. þrátt fyrir allar sínar yfirlýsingar leyft allar þær verðhækkanir, sem farið hefur verið fram á, og látið hinar afskiptalausar. Ríkisstj. hefur afnumið verðlagsákvæði í æ ríkari mæli og hún hefur heimilað hækkun álagningar, þar sem hún hefur ekki þegar verið gefin með öllu frjáls. Þessi markvissa stefna í áttina til algers frjálsræðis kaupmannastéttarinnar í verðlagsmálum er í fullu samræmi við þá stefnu stjórnleysis, sem ríkt hefur í fjárfestingar- og innflutningsmálum. Utan um þetta er vafið fögrum orðum um athafna- og viðskiptafrelsi, en í reynd hefur verið um að ræða frelsi til að hrúga verðmætum í sambandi við innflutning og fjárfestingu og einhliða ákvörðunarrétt kaupmannavaldsins um verðlagsmál í landinu, einhliða rétt innflytjenda og kaupmanna til að skammta sér sinn hlut. Þetta hefur í reynd verið frelsi til handa þeim, sem fá gjaldeyrinn í hendur og breyta honum í erlendar vörur, til að græða að vild á því að selja þær til þeirra, sem hafa aflað þessa gjaldeyris með vinnu sinni á sjó og landi. Frelsi hinna fáu, sem fá að valsa með gjaldeyrinn, til að græða á hinum mörgu, sem afla hans.

Þetta frjálsræði yfirstéttanna í þjóðfélaginu endurspeglast í þróun verðlags- og kjaramála á stjórnartímabili viðreisnarflokkanna. Þegar dró úr afla og verð útflutningsvara lækkaði um skeið, svo að nálgaðist það, sem áður var þá talið meðalárferði, fékk launafólk að kenna á afleiðingunum í verðhækkanaflóði tveggja gengislækkana og stórfelldu atvinnuleysi, sem ríkisstj. kunni engin ráð við. Nú, þegar afli hefur aftur aukizt og verðlag sjávarafurða fer stórhækkandi, mætti ætla, að launafólk fengi sín kjör bætt að nýju og sína hlutdeild í auknum verðmætum, en þess í stað er frelsis- og frjálsræðisstefnu viðreisnarstjórnarinnar í verðlagsmálum þegar beitt með flóði verðhækkana til þess að halda lífskjörum almennings áfram í því lágmarki, sem þau höfðu komizt í, þegar aflinn hafði minnkað og verðlag útflutningsvara lækkað. Þetta er reynsla launafólks af stjórnarstefnunni. Ef eitthvað ber út af í ytri aðstæðum, þá dynur þegar yfir almenning hið stórfelldasta atvinnuleysi og kjaraskerðing, þegar svo ytri aðstæður eru betri en nokkru sinni áður í sögu þjóðarinnar, þá er lífskjörunum miskunnarlaust haldið niðri með stórfelldu flóði verðhækkana, sem éta upp á skömmum tíma þær launahækkanir, sem fengizt hafa fram með langvinnri og fórnfrekri verkfallsbaráttu. Það er eftirtektarvert, að jafnvel núna, þegar niðurstöðutölur fjárlagafrv. minna landsmenn óþyrmilega á það, hversu hrapallega stjórnarflokkunum hefur tekizt að efna fyrirheit sín í dýrtíðarmálunum, þá er hæstv. forsrh. ekki efst í huga þessi ógnarskattheimta á landsmönnum, sem er í æ ríkari mæli skattheimta á brýnustu lífsnauðsynjar almennings. Nei, þegar ráðleysi ríkisstj. veldur landsmönnum mestri blöskran og hverju alþýðuheimili stendur ógn af þeirri verðhækkanaskriðu, sem étur upp sem eldur þá litlu kauphækkun, sem samið var um í vor, þá gælir hæstv. forsrh. helzt við þá fyrirætlan ríkisstj. að breyta l. um tekjuskatt á þann veg, að hagnaður fyrirtækja verði sem mest skattfrjáls. Skattheimta ríkisins og bæjarfélaganna lendir þá á herðum almennings í þeim mun ríkari mæli. Jafnhliða því, sem neyzluskattar hafa verið jafnt og þétt hækkaðir á undanförnum árum, svo að óbeinir skattar nema nú um 80.9% af allri skattheimtu ríkisins, hefur sköttum verið létt af fyrirtækjum, og nú er ætlunin að fullkomna þær aðgerðir með nýjum l. um skattfrelsi fyrirtækja. Það kemur sér vel, t. d. fyrir Eimskip, sem hafði yfir hundrað millj. króna í hreinan hagnað á s. l. ári. Jafnframt er stefnt að því, að arður af hlutabréfum njóti sérstakra skattfríðinda fram yfir launatekjur, en það þýðir að sjálfsögðu, að þeim mun hærri hlut verða ríki og sveitarfélög að fá af atvinnutekjum einstaklinga og af neyzlusköttum, sem eru svo markviss tekjulind, að jafnvel elli- og örorkulífeyrisþegar greiða drjúgan hluta lífeyris síns aftur í ríkiskassann. Með beinum sköttum er ekki unnt að ná til svo tekjulágra þjóðfélagsþegna, en með því að leggja 11% söluskatt á svo til allar matvörur tekst ríkisstj. Sjálfstfl. og Alþfl. jafnvel að ná hluta af ellilífeyrinum aftur í ríkissjóðinn. Það er ekki að furða, þótt hæstv. menntmrh. hafi verið hreykinn á flokksþingi Alþfl. nú um helgina, þegar hann greindi frá því, hvað mörgum krónum væri nú varið til tryggingamála. Það skiptir hæstv. ráðh. sjálfsagt litlu, að verulegur hluti af krónutalshækkuninni er fenginn með þeirri fyrirkomulagsbreytingu, að áður var halli á rekstri sjúkrahúsanna greiddur beint úr ríkissjóði af heilbrmrn., en nú hafa daggjöld sjúkrahúsanna verið hækkuð svo, að þau dugi fyrir raunverulegum rekstrarkostnaði og hækkun daggjaldanna bætist nú við framlag til sjúkratrygginganna í staðinn fyrir framlagið frá heilbrmrn., sem áður fór til að greiða hallann. Fólk fékk ókeypis vist á sjúkrahúsum og fær hana enn, en framlög til tryggingamála hafa af þessum sökum hækkað verulega.

Krónutöluhækkun til tryggingamála dugir hæstv. ráðh. sjálfsagt til að gleðjast yfir á flokksþingi Alþfl., en hún dugir bótaþegum skammt, þegar hækkun á verðlagi brýnustu lífsnauðsynja er enn meiri. Alþfl. hefur nefnilega veitt Sjálfstfl. það fylgi hér á Alþ., sem hann þurfti til að koma fram grundvallarbreytingu á skattheimtu ríkisins, breytingu, sem er mjög í óhag þeim, sem við bág kjör búa, en þá grundvallarbreytingu má nokkuð marka af því, að á sama tíma og árlegur tekjuskattur hefur áttfaldazt á s. l. 11 árum og tollar áttfaldazt hefur söluskattur tuttugu og þrefaldazt. Elli- og örorkulífeyrisþegar greiða á degi hverjum sinn hluta söluskattsins, svo og verðhækkanirnar, en krónutöluhækkanir tryggingabótanna hafa jafnan komið á eftir verðhækkunum varanna. Og svo langt hefur Alþfl. ekki einu sinni fengizt til að ganga í raunverulegum úrbótum í tryggingamálum, að samþykkja vísitölutryggingu á bótum almannatrygginga. Mitt í þeirri verðhækkanaskriðu, sem nú dynur yfir almenning, kemur nú fram sérstakur áhugi hjá ríkisstj.-flokkunum um að stórauka skattfrelsi fyrirtækja með nýrri lagasetningu og gera að nýju tilraun til að knýja fram samþykkt á verðgæzlufrv., sem lagt var fram í fyrra og er ætlað að gefa raunverulega allt verðlag í landinu frjálst og afnema þær leifar, sem enn eru eftir af verðlagseftirliti, en jafnvel sumir Alþfl.-menn gáfu þessu frv. heitið heildsalafrv. Þessi áhugi er algerlega í samræmi við aðgerðaleysi stjórnarvaldanna gagnvart verðhækkanaflóðinu og er staðfesting á þeirri staðreynd, að stjórnarstefnan hefur allt frá upphafi beinzt að því að gera friðhelga gróðamyndunina í þjóðfélaginu, en ekki að því, sem lofað var, að halda verðbólgunni í skefjum, enda er hún og þær reglubundnu gengislækkanir, sem fylgja henni, tryggasti gróðavegur þeirra, sem hafa aðstöðu til að valsa með lánsfé úr bankakerfinu og opinberum sjóðum. Ríkisstj.-flokkunum hefur tekizt að tífalda skattheimtu ríkisins á stjórnarferli sínum og færa hana meir og meir yfir á herðar launafólks með hækkun neyzluskatta og ívilnunum við gróðafyrirtæki. Þrátt fyrir það birta málgögn þessara flokka á hverju ári fagnaðarríkar fyrirsagnir um fjárlög án nýrra skatta. Í aths. með fjárlagafrv. í fyrra stóð, með leyfi hæstv. forseta:

„Við gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1970 var fylgt þeirri meginreglu að takmarka svo útgjöld ríkissjóðs, að fjárlög gætu orðið afgreidd greiðsluhallalaus og án nýrra skatta.“

Nokkrum mánuðum síðar var búið að auka tekjur ríkissjóðs um 100 millj. kr. á ári með nýjum lögum um söluskatt, sem hækkaður var í 11%. Og meginstefnan hefur jafnan verið fjárlög án nýrra skatta. Þannig var þetta í fyrra og þannig er það orðað enn, en skattheimtan hefur eftir sem áður tífaldazt á áratug. Og nú, þegar gert er ráð fyrir, að skattheimta ríkisins hækki úr 8400 millj. kr. á þessu ári í 10660 millj. kr. á næsta ári eða um 2200 millj. kr., sem svarar til 50 þús. kr. hækkunar á hverja 5 manna fjölskyldu, þá birtist á forsíðu málgagns Alþfl., sem dyggilegast studdi s. l. vor hækkunina á neyzlusköttunum, fyrirsögn, sem ljómar af stolti: „Engir nýir skattar.“ Nei, hlustandi góður. Þú greiðir líklega enga nýja skatta á næsta ári, heldur einungis stórum stærri skammt af sömu sköttum, enda var ánægja Alþýðublaðsins með fjárlagafrv. og stöðu skattborgarans svo mikil, að fyrirsögnin, sem á forsíðu var „Engir nýir skattar,“ var með framhaldi greinarinnar inni í blaðinu orðin: Engir skattar. Það er furðulegt, að flokkur, sem er svo ánægður með frammistöðu sína í skatta- og verðlagsmálum, skuli hafa haft á móti því að leggja afrek sín undir dóm kjósenda þegar í haust. Þessi fyrirsögn Alþýðublaðsins, engir skattar, er að vísu nokkuð kaldhæðnisleg með frásögn af fjárlagafrv. í ár, þegar skattarnir fara í fyrsta sinn yfir 10 þús. millj. kr. En haldi stjórnarflokkarnir velli og komi þeir fram aðaláhugamálum sínum um breytingu á tekjuskatti fyrirtækja, þá á Alþýðublaðið þarna stutta og laggóða lýsingu á því, hver hlutur gróðafyrirtækjunum verður ætlaður af heildarskattheimtunni í landinu. Þar verður hægt að nota með fullum rétti fyrirsögnina: Engir skattar.

Ástæðan til þess, að launatekjur og tryggingabætur endast nú svo miklu verr en áður til kaupa á brýnustu lífsnauðsynjum, er ekki aðeins sú, að Sjálfstfl. og Alþfl. hafa á stjórnarferli sínum komið á 11% söluskatti, sem leggst á flestallar matvörur, heldur veldur hér einnig nokkru um, að þessir flokkar hafa á síðustu árum dregið stórlega úr niðurgreiðslum ríkisins á verði nauðsynjavöru. Sú ráðstöfun til viðbótar söluskattinum veldur því, að þessar vörur hafa hækkað meir en allt annað, en margar af þessum vörum eru einn veigamesti liðurinn í neyzlu þeirra, sem úr minnstu hafa að spila. Árið 1967 var meira en annarri hverri krónu, sem inn kom í söluskatt, varið til niðurgreiðslna á verði þessara nauðsynjavara, en nú aðeins 6. hverri. Til viðbótar við minna raungildi hverrar krónu hafa niðurgreiðslur á verði nauðsynjavara lækkað í krónutölu úr 708 millj. kr. 1967 í 577 millj. kr. á næsta ári. Á sama tíma hefur söluskattur hækkað úr 1300 millj. kr. í 3500 millj. Á næsta ári er enn gert ráð fyrir lækkun niðurgreiðslna um 5 millj. kr. Hins vegar er ætlunin að hækka niðurgreiðslur á þeim landbúnaðarvörum, sem fara til erlendra neytenda, um 90 millj. kr. á næsta ári. Þessar niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum til útlendinga hafa hækkað úr 5 millj. kr. 1960 í 390 millj. kr. 1971. Aðgerðir ríkisstj., undansláttur í verðgæzlumálum, stórhækkun söluskatts og minnkun niðurgreiðslna hefur hækkað svo gífurlega verðlag á brýnustu neyzluvörum, að barnafjölskyldur, elli- og örorkulífeyrisþegar og aðrir, sem við knöppust kjör búa, hafa orðið að draga úr neyzlu landbúnaðarvara, nota fisk í stað kjöts, smjörlíki í stað smjörs og minnka mjólkurneyzlu. Þetta verður til þess, að það magn landbúnaðarvara, sem þessar fjölskyldur áður neyttu og mundu enn neyta, ef kaupmáttur væri meiri, heitir nú offramleiðsla og henni kemur hæstv. ríkisstj. í lóg með því að fá hina færustu matreiðslumenn og auglýsendur til þess að dekstra Dani og aðra nágranna okkar til þess að kaupa íslenzkt lambakjöt á svo sem 50–60 kr. kg í smásölu, eftir að búið er að flytja það yfir hafið. Þessi viðskipti eru eitt af því, sem talið var EFTA-aðild til ágætis. Þessi er gangurinn. Ríkisstj. hækkar söluskattinn og minnkar niðurgreiðslurnar. Það veldur söluminnkun á landbúnaðarvörum á innanlandsmarkaði. Þá er hluta af söluskattshækkuninni og sparnaði af niðurgreiðslum, alls 390 millj. kr., varið á ári til þess að greiða niður verð á þessum vörum í útlöndum. Lækkun niðurgreiðslna 1968 var boðuð sem neyðarúrræði ríkissjóðs vegna samdráttarins, sem þá fylgdi í kjölfar minnkandi afla og lækkaðs verðs á útflutningsafurðum. Þrátt fyrir batann í efnahagslífinu, þegar úr tók að rætast á ný, er þessari skerðingu haldið áfram og raunverulega er framlag ríkissjóðs enn minnkað, þegar tekið er tillit til minnkandi raungildis krónunnar og samdráttar í neyzlu. Þetta er í fullu samræmi við þá stefnu, að með hömlulausu flóði verðhækkana er reynt að halda raunverulegum kaupmætti launanna áfram niðri í þeirri lægð, sem hann komst í á samdráttar- og atvinnuleysisárunum 1967 og 1968.

Ört vaxandi rekstrarkostnaður einkennir fjárlagafrv. nú sem undanfarin ár. T. d. er gert ráð fyrir hækkun á kostnaði við aðalskrifstofu rn. um rúmlega 32 millj. kr. á næsta ári. Kostnaður við embætti lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli vex um 6.2 millj. kr. Kostnaður við skattstofur eykst um 14 millj. kr. og nemur nú í heild 75 millj., en var fyrir 5 árum um 20 millj. 20 millj. kr. eru greiddar úr ríkissjóði í yfirdráttarvexti til Seðlabankans. Þar ætti að vera hægt að koma upphæðinni í lóg, því að starfslið þess banka eins jafnast á við a. m. k. 4 togaraáhafnir að tölunni til. Þannig heldur höfuðið á þjóðarlíkamanum áfram að vaxa, en þeir, sem framleiðslustörfin stunda og eiga að bera þetta höfuð, riða undir sífellt hærri skattaálögum og óðadýrtíð. Útþenslan í rekstrarkostnaðinum hefur svo þær afleiðingar, að hlutfallslega minna af verklegum framkvæmdum er unnið fyrir það fjármagn, sem til fellur á viðkomandi ári. Þess í stað er í æ ríkara mæli stuðzt við erlent lánsfé og jafnvel afborganir lána vegna verka, sem þegar hafa verið unnin, eru ekki greiddar með samtímatekjum, heldur með enn nýjum lántökum, sem velt er yfir á framtíðina að greiða. Þannig er í pottinn búið um þær framkvæmdir, sem helzt kveður að um þessar mundir, lagningu varanlegs slitlags á þjóðvegi. Á árunum 1970 og 1971 nema afborganir af lánum vegna Reykjanesbrautar samtals 47 millj. kr. Til þess að standa skil á þeim, er tekið nýtt lán, ekki aðeins fyrir afborgununum, heldur einnig verulegum hluta vaxtanna og vísitölugreiðslna, þannig að til þess að greiða 47 millj. kr. afborganir er stofnað til nýrrar skuldar og tekin lán að upphæð 74 millj. kr. Þannig er skuldunum hlaðið upp, þrátt fyrir sífellt hærri skattheimtu til ríkissjóðs, er greiðslu verklegra framkvæmda í æ ríkara mæli velt yfir á framtíðina og við skuldir af verkum, sem búið er að vinna, er enn bætt nýjum böggum til að glíma við á ókomnum árum.

Á undanförnum árum hefur verið tekizt á um þá stefnu Alþb. að stórauka þjóðartekjur Íslendinga með bættri meðferð, betri nýtingu og fullvinnslu sjávarafla og annarra hráefna, sem til falla í landinu og hins vegar stefnu viðreisnarflokkanna, sem hafa sýnt það í verki allan sinn stjórnarferil, að þeir ætla Íslendingum annað hlutverk í framtíðinni. Þeirra stefna hefur mótazt af vantrú á sjávarútvegi og vantrú á því, að Íslendingar geti staðið á eigin fótum og nýtt sjálfir þau gæði, sem landið og hafið í kring hafa að bjóða. Segja má, að öll þau ár, sem viðreisnarflokkarnir hafa farið með völd, hafi ríkisvaldið ekkert frumkvæði haft í því skyni að auka nýtingu og vinnslu sjávarafla. Svo lengi sem síld veiddist, var langmestum hluta aflans mokað í bræðslu og enn er aflinn fluttur í ríkum mæli á erlendan markað, enn fara stórkostleg verðmæti forgörðum vegna slæmrar meðferðar á hráefnum og vegna þess að úr þeim er ekki unnið sem skyldi og unnt væri. Svo til eina viðleitnin, sem höfð er í frammi til að bæta geymsluaðferðir á afla í fiskiskipum, á sér stað varðandi það hráefni, sem flutt er á erlendan markað óunnið. Við öllum kröfum um úrbætur, aðgerðir og forustu ríkisvaldsins, skellir það skollaeyrum. Ekkert er gert til þess að auka menntun og þjálfun, sem að gagni mætti koma við aukna hagnýtingu sjávarfangs. Hugur þeirra, sem með völdin fara, dvelst við aðrar lausnir. Þeir koma ekki auga á önnur framtíðarúrræði en þau að leita á náðir erlendra auðhringa. Stefna viðreisnarflokkanna hefur markazt af uppgjöf ráðamanna þjóðarinnar gagnvart því verkefni, að Íslendingar nýti sjálfir gæði lands síns til aukinnar velmegunar og til tryggingar fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Í öllu mæna ráðamenn viðreisnarflokkanna á útlendinga til bjargar. Erlendum auðfyrirtækjum er ætlað að koma í staðinn fyrir þær athafnir og þau umsvif Íslendinga sjálfra, sem ráðleysi og stjórnleysi viðreisnarflokkanna hefur hindrað á undangengnum árum. Verðbólgustefna ríkisstj.-flokkanna hefur haft víðtækari áhrif en þau, að færa afraksturinn af vinnu launafólks í ríkum mæli í hendur braskaranna. Sú hrapallega meðferð á íslenzkum gjaldmiðli, sem af verðbólgustefnunni hefur leitt, hefur þjónað vel tilgangi þeirra, sem stefna að því að byggja atvinnulífið í landinu í síauknum mæli á fyrirtækjum, sem væru að mestu eða öllu leyti í eigu erlendra auðfélaga. Sífelld skerðing íslenzkrar krónu í hlutfalli við erlendan gjaldmiðil gerir Ísland að ódýru landi fyrir erlenda fjármagnseigendur, sem vilja flytja fjármagn sitt til annarra landa til að ávaxta það, þar sem vinna og orka er ódýrast. Verðbólgustefnan og gengislækkanirnar, sem henni hafa fylgt, er að gera Ísland að slíku landi. Stefna viðreisnarflokkanna leiðir til þess, að Íslendingar hafa sjálfir ekki efni á því að nýta sínar eigin auðlindir og náttúrugæði, sem verða hins vegar með hverri nýrri efnahagskollsteypu og gengislækkun ódýrari og eftirsóknarverðari fyrir erlent gróðafjármagn. Verðbólgustefnan, sem nær sérstökum áfanga með fjárlagafrv. fyrir næsta ár, þjónar vel tilgangi og markmiði þeirra manna, sem opinberlega hafa lýst þeim hugsjónum sínum, að hér á landi rísi a. m. k. 10–20 álverksmiðjur í líkingu við þá, sem nú mengar umhverfi sitt flúoreitri, en malar gull í vasa erlendra eigenda og innlendra umboðsmanna þeirra. Verðbólgustefna viðreisnarflokkanna þjónar þannig vel markmiðum og stefnu þeirra manna, sem hafa lýst því yfir, að það sé þeirra hugsjón og framtíðardraumur, að vinnuafl íslenzks launafólks og orka íslenzkra fallvatna verði seld útlendingum sem hráefni, en arðurinn af hvoru tveggja fluttur úr landi. En það þýðir, að Ísland yrði til frambúðar láglaunaland eins og það er að verða nú.

Verðbólgustefna ríkisstj., sem nú kristallast í nærri 30% hækkun á tekjukröfum ríkissjóðs á einu ári, er markviss þáttur í látlausri viðleitni þessara manna að koma fram stefnu sinni um stóraukinn hlut erlends auðmagns í atvinnulífi á Íslandi. Þessir menn hafa ekki áhuga á því, að íslenzkt vinnuafl verði dýrara en það var fyrir verkföllin í vor. Þess vegna eru viðbrögðin þau, sem raun ber vitni, að leyfa fyrst allar verðhækkanirnar, en kalla síðan á ýmsa aðila til viðræðna um þær sömu verðhækkanir, sem ríkisvaldið gerði ekkert til þess að stöðva. Launafólk í landinu var miskunnarlaust látið taka á sig skakkaföllin af afturkippnum í efnahagslífinu 1967 og 1968. Afli hefur nú stóraukizt og verð útflutningsvara er hærra en nokkru sinni fyrr. En ríkisstj. hefur lagt blessun sína yfir allar þær verðhækkanir, sem skipulega eru látnar eyða þeim hlut launþega í bættri afkomu þjóðarinnar, sem samið var um við atvinnurekendur í verkföllunum s. l. vor.

Sjómenn urðu fyrir mestri kjaraskerðingu, þegar verr áraði. Þeir búa við þau kjör, að með lagaboði eru tekin af þeim hundruð millj. kr. á ári af óskiptum afla til greiðslu á fjármagns- og rekstrarkostnaði útgerðarinnar. Sjómenn búa einnig við þær aðstæður, að nú, þegar útflutningsverð sjávarafurða hækkar, er helmingur hækkunarinnar tekinn í verðjöfnunarsjóð. Heimili þeirra fá hins vegar óskiptar verðhækkanirnar, sem yfir þau dynja dag hvern. Greiðsla á þeim er ekki tekin af óskiptum afla.

Þjóðin hefur nýlega lagt að baki tímabil, þegar afli og afurðaverð komst niður í það, sem áður var talið meðallag. Undir viðreisnarstjórn þýddu þær ytri aðstæður stórfellt atvinnuleysi svo til þegar í stað og mikla kjaraskerðingu. Nú hefur afli aukizt og afurðaverð hækkað mjög. Undir viðreisnarstjórn þýða þessar nýju, hliðhollu ytri aðstæður óðaverðbólgu þegar í stað. Öllu launafólki er ljóst, að hér stefnir í algert óefni. Lífskjör alþýðu manna og fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar er í hættu, ef áfram er haldið stefnu ríkisstj.-flokkanna. Ríkisstj. hefur sem fyrr brugðizt launafólki í verðlagsmálum, og eins og mál horfa telur Alþb. óhjákvæmilegt, að gripið verði nú þegar til algerrar verðstöðvunar og hefur lagt fram á Alþ. frv. til l. um tafarlausa verðstöðvun, sem gildi til 1. september á næsta ári. Jafnframt verði hafizt handa um að ná sem viðtækustu samstarfi um eftirfarandi ráðstafanir í dýrtíðar- og verðlagsmálum:

1. Löggjöf um eignakönnun í því skyni að fá réttan grundvöll til að skattleggja verðbólgugróðann.

2. Lög og framkvæmdareglur til að koma í veg fyrir skattsvik og lækka þannig verðlag.

3. Að fella niður eða lækka verulega söluskatt og tolla á nauðsynjavörum.

4. Að gera núgildandi verðlagseftirlit haldbetra og virkara en það er.

5. Að afnema nefskatta, en afla fjár í þeirra stað með hækkun skatta á stóreignum og gróða.

6. Að rækileg athugun fari fram á núgildandi verðlagi og verðlagningarreglum og verð lækkað, þar sem þess er kostur.

Frv. okkar Alþb.-manna gerir ráð fyrir tafarlausri verðstöðvun, sem gildir til 1. september n. k. Það er flutt í þeim tilgangi, að samþykkt þess mætti koma í veg fyrir, að athafnaleysi ríkisstj. í verðlagsmálum valdi meiri skaða en þegar er orðinn, áður en kjósendur leysa hana frá störfum í alþingiskosningunum næsta sumar og gefa nýrri ríkisstj. færi á að tryggja farsælli þróun í kjara-, verðlags- og atvinnumálum á næstu árum. — Góða nótt.