17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (3331)

26. mál, varnir gegn mengun

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Efni þessarar till., sem hér liggur fyrir á þskj. 26, er að fela ríkisstj. að láta undirbúa löggjöf um ráðstafanir til varnar gegn skaðlegri mengun í lofti og vatni. Eins og segir í grg. till., er það nú svo, að mengun lofts og vatns er orðin eitt af mestu vandamálum í þéttbýlum iðnaðarlöndum. Hér á landi hefur þegar orðið vart nokkurrar mengunar; sem má þó teljast smámunir hjá því, sem annars staðar er við að stríða. Hér er loft enn þá yfirleitt tært og landið tiltölulega hreint og vötn og sjór að mestu ómenguð. En hættan er hér augljós og vaxandi, þegar verksmiðjum fjölgar og iðnvæðing færist í aukana. Flestir munu sammála um það, að koma verði í veg fyrir, að mengun spilli sjávarlífi við strendurnar eða andrúmsloftinu og dýrmætum ám eða fiskivötnum. Allshn. hefur athugað þessa till., sem fyrir liggur á þskj. 26, og leggur til, að hún verði samþykkt.