03.12.1970
Sameinað þing: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í D-deild Alþingistíðinda. (3349)

49. mál, æðarrækt

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. landbrh. er ekki viðstaddur hér, en ég hefði viljað beina til hans fsp. Það væri e. t. v. hægt, herra forseti, að stuðla að því, að hæstv. landbrh. yrði viðstaddur hér í salnum.

Ég er einn af flm. þeirrar till., sem hér hefur verið mælt fyrir, og ég hef í rauninni engu við það að bæta, sem hv. I. flm. sagði um það mál. Ég geri ráð fyrir, að ef málið fer til allshn., þá muni verða reynt að hraða afgreiðslu þess, því að í þeirri n. hafa mál yfirleitt verið tekin svo fljótt til afgreiðslu sem unnt er.

Það var ekkert ofmælt, sem hv. I. flm. sagði um það tjón, sem verður á æðarfuglastofninum af völdum svartbaks, og um fjölgun svartbaksins í landinu. Þær ráðstafanir, sem þegar hafa verið gerðar til útrýmingar svartbaks, hafa ekki borið nægan árangur, og kann að vera, að þær greiðslur, sem nú koma fyrir að vinna svartbak, hafi ekki fylgzt með þróun verðlagsins, og yrði það þá að sjálfsögðu eitt af því, sem þyrfti að athuga.

Eins og hv. 1. flm. gat um, þá voru á síðasta þingi samþ. lög um mat á æðardún, og sú fsp., sem ég vil bera fram hér til hæstv. landbrh. eða til hæstv. ríkisstj., ef hæstv. ráðh. er ekki hér nærri, er varðandi framkvæmd þessara laga, hvort framkvæmd laganna sé hafin og þar með það mat á æðardún, sem þar er gert ráð fyrir. Ef þeir hæstv. ráðh., sem hér eru viðstaddir, treysta sér ekki til þess að svara þessu, þá vil ég mega vænta þess, að þessi fsp. verði flutt hæstv. landbrh., sem þetta mun heyra undir, eða e.t.v. er það menntmrh., það er ekki gott að greina þar á milli í þessum málum, en flutt þeim ráðh., sem með þessi mál hafa að gera, þannig að þeir geti þá gefið þinginu upplýsingar um þetta, sem ég er að spyrja um.