05.11.1970
Neðri deild: 13. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (3358)

50. mál, hitun húsa með raforku

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 50 er þáltill. flutt af okkur sex þm. Sjálfstfl. hér í hv. d. um hitun húsa með raforku. Tillgr. er á þessa leið, með leyfi forseta:

„Neðri deild Alþingis ályktar að skora á iðnrh. að beita sér fyrir aukinni notkun raforku til húsahitunar á öllum þeim svæðum, þar sem jarðhita er ekki völ sem hagkvæmari hitagjafa. Stefnt skal að því að gera 5 ára áætlun um framkvæmd hitunarmálsins þannig, að innlendar orkulindir hiti hvert híbýli landsins að þeim tíma liðnum.“

Nú veit ég. að hv. alþm. kannast við það, að þetta er ekki með öllu nýtt mál á dagskrá hér á Alþ., en málið er á hinn bóginn það stórt að áliti okkar flm., að það sé nauðsyn á að hreyfa því að þessu sinni. Auk þeirra raka, sem fram eru talin í stuttri grg., sem fylgir þessari þáltill., má draga fram ýmislegt fleira, og ég vil þá í örstuttu máli víkja að nokkrum frekari rökum. Ég veit það, að af sumum er talið, að vegna raforkukerfanna og orkuöflunar í landinu sé þetta mál ekki eins einfalt til skjótra framkvæmda og ýmsir og m.a. við flm. viljum vera láta. En út af því vil ég sérstaklega benda á eftirfarandi: Vélaafl vatnsorkuvera er yfirleitt ekki nýtt að fullu nema stutta stund á hverjum sólarhring, og þess vegna er auðvelt að auka nýtingu þess með orkusölu til húsahitunar utan há-álagstíma orkuveranna. Það má enn fremur benda á, að flutningslínur og dreifikerfi þau. sem nú eru til, geta tekið á sig aukinn orkuflutning, sem fylgir rafhitun utan há-álagstímans, að vísu ekki nema að vissu marki, án þess að leggja þurfi í fjárfestingar til þess að styrkja þessi mannvirki. En auk þess liggur í augum uppi, að það getur reynzt og verður yfirleitt arðbært að auka flutningsgetu gamalla kerfa vegna húsahitunarinnar og þá í sumum tilfellum að byggja eða koma upp nýjum kerfum með hliðsjón af slíkum orkuflutningi til viðbótar við almennan orkuflutning eða til almennrar notkunar.

Þá má einnig benda á, að á raforku, sem unnin er utan há-álagstíma í vatnsaflsstöðvum og flutt um dreifikerfi rafveitna, er mun lægar verð en þeirri forgangsorku, sem segja má, að nú sé mest notuð, og það leikur enginn vafi á því, að þessi afgangsorka, umframorka, er mjög vel samkeppnisfær við aðra orku til húsahitunar, jafnvel í sumum tilfellum við jarðvarmann.

Ýmsir aðilar hafa látið þessi mál til sín taka, þ. á m. Samband ísl. rafveitna, en það eru samtök rafveitnanna í landinu. Ég vil minna í því sambandi á nokkra þætti, t.d. það, að á fyrri hluta þessa árs, 1970, gekkst Samband ísl. rafveitna í samvinnu við Ljóstæknifélag Íslands fyrir sýningu, sem nefnd var Lýsing og hitun, og þáttur íslenzkra rafveitna var einmitt sá að annast þann hluta sýningarinnar, sem fjallaði um búnað til rafhitunar húsa. Upphaflega var einungis ætlunin að hafa þessa sýningu í Reykjavík, en þá kom strax í ljós mikill áhugi fyrir því, að farið yrði með hana víðar, og það varð því úr, að sýningin var sett upp á Akureyri í samvinnu við Rafveitu Akureyrar og að hluta á hennar kostnað, og enn fremur var hún sett upp á Egilsstöðum í samvinnu við Ragmagnsveitur ríkisins og að lokum í Vestmannaeyjum í samvinnu við Rafveitu Vestmannaeyja og á kostnað hennar. Í sambandi við sýningarnar á Akureyri og Egilsstöðum hélt framkvæmdastjóri Sambands ísl. rafveitna, Gísli Jónsson, sérstök erindi á vegum S.LR. um rafhitunina. Þá hefur Samband ísl. rafveitna gefið út leiðbeiningar um hönnun eða byggingu safnhitunargeyma fyrir næturhitun, og S.LR. hefur jafnan verið reiðubúið og látið í té margháttaðar upplýsingar og leiðbeiningar um rafhitun og lagt sig fram um að fylgjast með þessum málum og læra af því, sem gerist í nágrannalöndum. Þá er enn fremur rétt að minna á það, að hér kom fram um rafhitunarmálið fsp. á síðasta þingi, og þá var upplýst, að starfandi er nefnd á vegum Orkustofnunar til rannsókna á þessum málum. Ég hef að vísu ekki mikið frá þeirri nefnd heyrt, og ég tel það mjög miður, vegna þess að þetta mál er ákaflega þýðingarmikið og raunar eitt af stærstu sviðum til aukins framleiðslugildis í þjóðfélaginu, eitt af stærstu sviðum og auðnýttustu, sem við eigum nú völ á.

Það hefur alltaf nokkuð borið á því, að menn hafa viljað bera saman rafhitun og olíuhitun, og þar sem gengislækkun íslenzku krónunnar hefur nú á seinni árum ásamt öðrum atriðum leitt til hækkunar olíuverðsins, hefur þessi samanburður vitanlega orðið æ hagstæðari fyrir rafhitunina. Ég hef hér fyrir framan mig tölur, sem mér voru látnar í té, þar sem reiknað er út frá vissum forsendum, að þegar rafhitunin var 100, þá var olíuhitunin 112. Hlutfallstölurnar voru þessar, en nú hefur þetta eftir síðustu hækkanir á olíu breytzt þannig, að miðað við 100 á rafhituninni er olíuhitunin 117.5. Nú skal ég ekki fullyrða, að þessar tölur stæðust alla gagnrýni. Mér eru látnar þær í té af Sambandi ísl. rafveitna, og m.a. vil ég upplýsa það, að talið er, að greiðsluþol rafhitunar sé orðið 103 aurar á kwst. í samanburði við olíu. En öll þessi atriði leiða til þess og mörg fleiri, að þetta er, eins og ég sagði, stórmál, sem verður að taka miklu fastari tökum og knýja til meiri framkvæmda á næstunni en verið hefur að undanförnu. Það eru að vísu mestar líkur til þess, að þar sem auðvelt er að nýta heitt vatn, verði það hagkvæmara m.a. vegna þess, að auk þess að fullnægja hitaþörfinni með heita vatninu er líka fullnægt verulegum hluta af vatnsþörfinni, sem í ýmsum tilfellum er mjög kostnaðarsamt. En þó er það svo, að ef ekki er því hagstæðari aðstaða til þess að afla heita vatnsins, þá mun rafhitunin í mörgum tilfellum geta keppt þar við. En svo eru stór svæði landsins, sem enga möguleika hafa til þess að nýta jarðhitann, þ. á m. yfirgnæfandi fjöldi sveitabýla í landinu og mjög margir þéttbýlisstaðir víða um land. Ekki er t.d. vitað um nema einn stað á Austurlandi, a.m.k. enn sem komið er, þar sem möguleiki mun vera á að ná í heitt vatn, sem nýtanlegt væri til hitunar í þéttbýlishverfi. Það er í nágrenni Egilsstaða. Nú kunna ýmsir að draga í efa, hversu mikið gildi slíkur tillöguflutningur kann að hafa til framdráttar málinu, en vitanlega er það aðalatriði málsins, og þess vegna setjum við viss stefnumörk í niðurlag till. um, að það sé gerð ákveðin áætlun, sem miðist við 5 ár um það að leysa þetta upphitunarmál, leysa það á þann hátt, að raforka hiti öll híbýli landsins, eins og þar er komizt að orði, ekki einasta íbúðir, heldur einnig vinnustaði, þar sem ekki verður hægt að fullnægja þessari hitaþörf á annan hátt með innlendum orkulindum.

Ég vænti þess og við flm. allir, að þessi till. fái góðan hljómgrunn hjá hv. alþm., og við viljum einnig vænta þess, að samþykkt hennar megi bera árangur. Við teljum það eðlilegt og raunar sjálfsagt, að þetta mál sé falið iðnrn. fyrst og fremst til þess að beita sér fyrir. Og ég held, að það sé að mörgu leyti sérstaklega heppilegt tækifæri um þessar mundir. Ég held, að það sé rétt, að áhuginn fyrir nýtingu raforkunnar til hitunar sé mjög mikill og skilningur á gildi þess. Það kann að vera, að hið háa verð á olíunni eigi þar verulegan þátt í, en ég held einnig, að það sé vaxandi skilningur á því, að það er ekki sama, hvort við greiðum andvirði hitans fyrir olíu og látum það þar með að mestu leyti fara út úr landinu eða við greiðum það fyrir raforku, þar sem meginhluti greiðslunnar verður greiðsla á orkuveri, sem nýtist í raun og veru líkt og sparifjárinnlegg eftir mismunandi langan tíma. En það er kunnugt og vita allir, að vatnsorkuverin endast mjög lengi og þau eru hrein gullnáma eftir að þau hafa verið afskrifuð til fulls.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði þessari till. vísað til hv. iðnn.