03.12.1970
Neðri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (3378)

107. mál, eftirlit með dráttarvélum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég get vel gengið inn á, að það sé eftir atvikum rétt að vísa þessari till. til n. og að þetta sé athugað, en það er nú þannig með eftirlit með vélum eins og ýmislegt fleira, að það má ekki ganga út í öfgar.

Hv. 5. þm. Austf. gat þess hér áðan, að 40% af slysunum væru í sambandi við vinnutækin. Ég las þessa skýrslu um slysin, og þau eru af ýmsum ástæðum, og við vitum það, að það er erfitt að komast alveg hjá slysum. En við skulum bara gera okkur það ljóst, að það, sem fyrst og fremst veldur því, að dráttarvélarnar eru ekki í lagi, er skortur á fjármagni þeirra, sem eiga vélarnar. Ég veit t.d. með þessa bíla, að það eru orðnar fáránlegar kröfur um ýmislegt viðvíkjandi þeim, sem skapar feiknakostnað fyrir bíleigendur. Það er t.d. eitt, þessir svokölluðu drullusokkar, sem eru festir aftan á og eiga að varna því, að grjót kastist á rúður. Við, sem búum uppi um sveitir og erum lítið í kappakstri á þessum brautum. verðum að gera svo vel að hafa þetta allt í topplagi. Svo slitnar þetta af í vinnunni og skapar okkur mikinn aukakostnað, og þannig er ýmislegt viðvíkjandi þessu, að það væri hægt að nota miklu meiri hagsýni. Þetta er eiginlega alveg tilgangslaust.

Ég er hræddur um það, að ef einhverjir sérfræðingar fara að líta eftir dráttarvélunum, þá gangi þetta út í öfgar. Tökum t.d. ljós á dráttarvélum. Ef þær eru eingöngu notaðar við vinnu, þá er ekki brýn þörf á að hafa ljós á þeim. Ég hef átt dráttarvél í um 20 ár og hef alls ekki haft ljós á henni. Ég nota hana aldrei í myrkri. Við vinnum að björtum degi. Þeir, sem eiga jeppa, þurfa ekki að nota dráttarvélar yfirleitt, þegar dimmt er. En bara þetta, að fara að krefjast þess, að dráttarvélar séu með ljós, þó að þess gerist ekki þörf, þær séu ekki notaðar nema að deginum, það eykur ekki lítið kostnað.

Ég gæti vel gengið inn á, að það væri eitthvert öryggi í þessum grindum. Þó munu nú margs konar slys geta komið fyrir, þó að grindur séu á vélum, eins og minnzt var á hér áðan, einmitt af tækjunum, því að þau eru orðin öllu hættulegri en sjálf vélin í mörgum tilfellum, blásarar og alls konar tæki. Það er ekkert á móti því að gera þetta. En það kostar 20 þús. kr. á dráttarvél.

Nú hefur Stéttarsambandið mikinn áhuga á því, að þetta sé gert, og ég get vel skilið það. Á öllum þingum og fundum þurfa menn eitthvað til að ræða um. Eitthvað þurfa menn að hafast að. Stundum er það til ills, stundum til góðs, eins og gengur. Þeir skattleggja okkur meira til Stéttarsambandsins en þörf er á. Bændur greiða það og ýmislegt fleira. Ef Stéttarsambandið vildi nota það fé, sem það tekur af bændum og þarf alls ekki allt til eigin þarfa, til þess að hjálpa fátækari bændum, sem ekki hafa haft efni á að setja grindur á traktorana sína, til þess að gera það, þá væri ekkert nema gott um það að segja. En ég veit bara ekki, hvort allir bændur hafa handbærar 20 þús. kr. til þess að gera þetta. Sannleikurinn er sá, að það er þannig með fjölda af bændum, að þeir hafa ekki efni á að kaupa þau tæki, sem þeir þurfa að kaupa, alveg sérstaklega má nefna áburðardreifarana. Húsdýraáburðurinn er ekki borinn á alls staðar, eingöngu af því að menn hafa ekki efni á að fá sér góða dreifara.

Það er sjálfsagt að reyna að hafa þessar vélar í eins góðu lagi og hægt er. En enda þótt hert væri mikið á öllum þessum ákvæðum, þá verða alltaf einhver slys, og sannleikurinn er sá, að það er stórhættulegt að láta unglinga og krakka vera með vélarnar. En þótt við settum aldurslágmark, þá er svo að segja útilokað að vera öruggur með vélarnar fyrir börnunum. Þau sækja svo eftir að grípa í þær. Þau eru undarlega fljót að sjá, hvernig á að fara að aka þeim, og eru afar fljót að læra. Þau hafa ekki eins mikið og gott vald á vélunum eins og þeir, sem eru stærri og sterkari, sérstaklega ekki stærri vélunum. Þær eru of þungar fyrir börn að stjórna þeim, en það er erfitt að ráða við þetta í mörgum tilfellum.

Það er ekkert skemmtilegt, þegar slys verður á tökubörnum úr kaupstöðunum. Það eru vissir hlutir, sem verða skilyrðislaust að vera í lagi á vélunum, eins og hemlar og stýrisútbúnaður. En kröfur viðvíkjandi ljósaútbúnaði og fleiri atriði viðvíkjandi vélunum geta gengið út í öfgar, þannig að það baki eigendunum óþarfa kostnað. Því þarf að stilla þessu öllu í hóf. En út af fyrir sig ætti ekki að vera saknæmt að samþykkja þessa till., ef hún er rétt og skynsamlega framkvæmd. En ég hygg, að það, sem á meginþáttinn í því, að dráttarvélar sumra bænda eru ekki í fullkomnu lagi, sé fjármagnsskortur þeirra. Ef fara þarf með vél á verkstæði, kostar þetta tugi þúsunda.