03.12.1970
Neðri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3380)

107. mál, eftirlit með dráttarvélum

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég bjóst nú ekki við að koma hér aftur í ræðustól. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég veit ekki, hvaða erindi svona ræða á hér á Alþ. og það í þessu máli. Ég veit ekki betur en þetta sé eitthvert alvarlegasta slysamál okkar, ef einstök mál eru tekin, dráttarvélaslysin. Svo kemur hér bóndi norðan úr landi og vill telja sig tala hér sem fulltrúa bænda, og hann er með úrtölur í þessu máli. Ég verð að segja það, að svona ræðuhöld finnast mér til skammar, hreint og beint. Það er fánýtt að vera að tala um, að það sé skortur á fjármagni, fávíslegt, að það sé skortur á fjármagni, sem veldur því, að menn trassa að hirða vélar sínar eða bíla, hafa bremsur í lagi og annan öryggisútbúnað, sem skylt er að hafa á öllum vélum. Þetta er fávíslegt að heyra. Tökum t.d. öryggisútbúnað á aflúrtaki á dráttarvél. Það er ekkert ofsalegt fjármagn, sem þarf til þess að hafa þann öryggisútbúnað í lagi. Það vita þeir, sem einhvern tíma hafa ekið dráttarvél eða fengizt við vinnu með henni, að þær hlífar, sem þar er um að ræða, kosta ekki mikla fjármuni, en það er bara að hafa þær á sínum stað, og þar ætti aukið eftirlit að koma að fullu gagni, að svo miklu leyti sem eftirlit á annað borð getur gert, því að þar er ekki um neinn stóran kostnaðarlið að ræða. Og þó að öryggisgrindur séu nokkuð dýrar, þá kosta þær ekki nándar nærri eins mikið og þessi hv. þm. vildi vera láta. Og það sjá auðvitað allir, að sá kostnaður er smámunir einir, ef borinn er saman við mannslífið. Og það er ekki heldur hægt að ætlast til þess, að það verði gert á einum degi eða einni viku eða einum mánuði að koma öryggisgrindum á allar dráttarvélar í landinu, en það ber að vinna að því með öllum ráðum, að þær komist á allar vélar, því að það er búið að sýna sig bæði hér og annars staðar, að þær veita mikið öryggi. Og ég held, að það sé óhætt að segja það um vélarnar eins og yfirleitt allar eignir, að það verður trassaskapurinn og vanhirðan, sem verður þar dýrast, en ekki hitt að halda eigninni í lagi. Það er víst óhætt að segja það. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en ég gat ekki látið hjá líða að láta í ljósi undrun mína yfir málflutningi af þessu tagi frá þm. úr bændastétt.

Ég vænti þess og treysti því raunar, að þessi hv. deild samþykki þessa till. og að þessu máli verði síðan fylgt eftir af fullri festu.