03.12.1970
Neðri deild: 27. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

107. mál, eftirlit með dráttarvélum

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég held, að það hafi ekki verið dráttarvélarnar eða orð mín um þær, sem kveiktu í hv. 5. þm. Austf., heldur hitt, að ég minntist á tillagið til Stéttarsambandsins.

Í raun og veru vorum við Stefán Valgeirsson alveg sammála um þetta. Það er ágætt og nauðsynlegt að reyna að hafa dráttarvélar í sem beztu lagi, en ef farið verður að skipa nefnd í þetta, þá finnur hún upp ótal atriði, eins og flestar nefndir gera, og það getur gengið út í öfgar. Ég hef ekkert á móti þessum grindum. En hitt fullyrði ég, eins og ég gerði áðan, að það sem fyrst og fremst veldur því, að menn hafa ekki vélar sínar í lagi, það er skortur á fjármagni. Ég keypti þessar grindur. Þær kostuðu 7 eða 8 þús. kr., og núna er gengið breytt, munar helmingi á því, þannig að ég ætla, að nú kosti uppsettar grindur 15–20 þús. kr. Viðgerðir eru orðnar svo dýrar, að margir eru í vandræðum með að greiða þær. Ég þurfti að láta gera við dráttarvél hjá mér í sumar. Það kostaði 65 þús. kr. Það þurfti að taka vélina upp og setja smávegis aukahluti í hana, þannig að við skulum ekki gera of lítið úr því. Það er sjálfsagt að gera þetta og athuga þetta á skynsamlegan hátt, en það má bara ekki ganga út í öfgar, þannig að bændur verði fyrir óþarfa kostnaði með viðgerðir á þessum vélum. Það er fyrst og fremst efnaskortur, að menn hafa ekki vélar sínar í lagi.

Viðvíkjandi því með unglingana er ég ekki alveg sammála Stefáni um 12 ára aldurinn. Ég tel hann of lágan, sérstaklega við stærri vélar. Þær eru of erfiðar í stjórn. Það eru ekki allir unglingar 12 ára, sem hafa afl til að stjórna þeim.

Að láta 12–14 ára börn taka próf, það er ákaflega örðugt. Þau eru of ung til þess. Það er ekki alltaf auðvelt að ráða við þau. Annars eru svo margþætt slys í kringum allt þetta vélakerfi, sem orðið er svo að segja á hverjum einasta bæ, að eigi verður komizt hjá slysum, þó að við setjum grindur á alla traktora. Það væri ekki mikið að gera það, ef það eitt dygði. En slys geta orðið svo að segja við flesta vinnu, Það er orðin svo mikil véltæknin.

Svo læt ég það liggja milli hluta, þó að það fyki í hv. 5. þm. Austf. Það er eins og gengur, menn eru viðkvæmir, ef að einhverju er fundið, en hitt veit ég, að Stéttarsambandið hefði ekki endilega þurft að skattleggja okkur bændur jafnmikið og það hefur gert. En þó að fjúki í félaga manns, tekur maður það ekki alvarlega.