09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

1. mál, fjárlög 1971

Frsm. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Mér er ljúft að byrja þessa ræðu mína með því að þakka formanni og öðrum nm. í fjvn. fyrir samstarfið í n. og get tekið undir það, sem formaður sagði hér áðan, að þó að leiðir skiljist um afgreiðslu fjárlaga, svo sem venja er og eðli málsins samkv., þegar um er að ræða meiri hl. og minni hl. Alþ., þá er það ekki af því að við teljum, að meiri hl. n. hafi beitt okkur ofríki í sambandi við nefndarstörfin. Þau hafa gengið með eðlilegum hætti og samstarf þar allt verið með ágætum. Mér er því ljúft að þakka fyrir það. Það breytir ekki neinu um það, þó að viðhorf okkar til afgreiðslunnar verði nokkuð á annan veg, minnihlutamanna, heldur en hinna, sem meiri hl. skipa.

Um aðild okkar að till. fjvn. vil ég segja það, að það er eins og venja er, að við höfum fyrirvara um þá afgreiðslu, — enda þótt við séum meðflm. að þeim till., þá höfum við fyrirvara um afgreiðslu á einstökum till. og til þeirra í heild. M. a. stafar það af því, að við höfðum ekki tækifæri til þess að bera okkur saman við okkar flokksmenn fyrr en afgreiðslu var raunverulega lokið í n. Ég vil nú einnig taka það fram í upphafi máls míns, að samstarf okkar í minni hl. við hagsýslustjóra hefur verið með ágætum og hefur hann greitt út þeim erindum, sem við höfum leitað eftir hjá honum. Ég tel, að fjvn. hafi með starfsemi sinni gert ýmsar bætur á fjárlagafrv., svo að málaafgreiðslur þar hafi orðið til þess að bæta frv. frá því, sem það áður var að þeim till., sem raunverulega voru till. n. Hins vegar hafa komið inn í þessa afgreiðslu stórvægilegar brtt., sem hafa verið gerðar vegna þeirra pólitísku ákvarðana, sem teknar hafa verið hér á hv. Alþ. í sambandi við niðurgreiðslur á verðlagi.

Eins og kom fram í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., frsm. meiri hl. fjvn., eru nokkur málefni, sem bíða afgreiðslu til 3. umr. Þar er veigamesti þátturinn, að hann hyggur, launakjör ríkisstarfsmanna, sem nú er verið að semja um og ekki er séð, hvað muni kosta ríkið í sambandi við þá fjárlagaafgreiðslu, sem nú er verið að gera. Hins vegar má gera ráð fyrir því, að þar verði um allverulega upphæð að ræða, sem kemur inn á fjárlagafrv., áður en það verður endanlega afgreitt. Meðan þessi stóri málaliður er ekki til meðferðar í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna, er raunverulega erfitt að gera sér grein fyrir því, hver heildarniðurstaða útgjaldanna kann að verða. Þá er einnig eftir að afgreiða nýbyggingar skóla á barna- og gagnfræðastiginu og einnig þá skóla, sem kunna að fá undirbúningsfjárveitingu að þessu sinni. Ekki er vafi á því, að hér er um nokkuð stórfellda fjárhæð að ræða, þar sem umsóknir um nýjar skólabyggingar eru verulegar nú, eins og verið hefur, og full þörf á því að leysa úr þeim. Enn fremur er það, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, að verðhækkanir á framkvæmdum hafa orðið verulegar á þessu ári, sem nú er senn liðið, sem hefur áhrif á framkvæmdamátt framkvæmdafjárins á næsta ári. Þá eru eftir nokkrir smærri málaflokkar, sem bíða afgreiðslu við 3. umr.

Þegar fjárlagafrv. er lagt fram við 2. umr. að þessu sinni, eru heildarniðurstöðutölur á teknahlið fjárlagafrv. 11 milljarðar 536 millj. kr. Hér er um stórfelldari hækkun að ræða heldur en nokkru sinni fyrr á fjárlagafrv., þar sem hækkunin ein nemur 3 milljörðum 139 millj. kr. Á undanförnum þingum hafa hv. alþm., og þar á meðal ég, gert að umtalsefni þær hækkanir, sem hafa orðið á fjárlagafrv., en ég verð nú að viðurkenna það, að allt, sem hefur gerzt um þá hluti á undanförnum árum, eru smámunir einir samanborið við það, sem nú er að gerast. Það má geta þess, að árið 1965 eða fyrir 6 árum voru niðurstöðutölur fjárlagafrv. 3 milljarðar 529 millj. kr. eða 390 millj. hærri tala heldur en hækkunin ein er nú. Þá má einnig geta þess, að þegar gengið var til kosninga 1967, voru niðurstöðutölur fjárlagafrv. 4 milljarðar 700 millj. kr., svo að hækkunin nú nemur 2/3 af heildarupphæð fjárl. fyrir 4 árum. Þessi þróun er a. m. k. greinileg, svo að ekki verður um deilt, að hraustlega er að staðið í hækkun fjárlagafrv. Það má vel vera, að að dómi þeirra, sem að þessu standa, sé hér vel gert og rétt stefnt, þó að okkur hinum sýnist, að svo sé ekki.

Mér varð það að orði í sambandi við 1. umr. fjárlagafrv. núna á yfirstandandi hausti, að fjárl. væru spegilmynd af þeirri stjórnarstefnu, sem fylgt væri, og enn fremur, að stjórnarstefnan hefði áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar og hækkun verðbólgunnar í landinu. Ég sá það í ræðu þeirri, sem hæstv. fjmrh. flutti eftir að ég hafði lokið máli mínu þá, að þá taldi hann, að þessi orð væru mælt gegn betri vitund. Ég vissi betur, að fjárlagafrv. og afgreiðsla fjárl. hefði ekki áhrif á verðbólguna í landinu, heldur hefði verðbólgan áhrif á fjárl. og það mætti því frekar segja, að fjárl. væru spegilmynd af efnahagsástandinu í landinu, sem ríkisstj. að sjálfsögðu réð ekki við.

Í sambandi við þessi ummæli og það fjárlagafrv., sem hér er nú til afgreiðslu, þykir mér rétt að víkja nokkuð að þessu, því að mér finnst það allsögulegur viðburður að afgreiða fjárlög á verðstöðvunartímabili, sem eru á 4. milljarð eða svipuð fjárhæð og fjárl. voru í heild fyrir 5 árum síðan. Ég vil geta þess eða minna á það réttara sagt, að árið 1969 mátti heita rólegt ár í efnahagsmálum þjóðarinnar. Með gengisbreytingunni haustið 1968 voru við þá afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1969 teknar inn þær hækkanir, sem gert var ráð fyrir, að stöfuðu af gengisbreytingunni haustið 1968 voru þá við afkaupgjaldið í landinu lækkaði þá um haustið og hreyfingar í kaupgjaldsmálum urðu ekki neinar sem heitið gátu á árinu 1969. Það var því fullkomin ástæða til að ætla, að hæstv. ríkisstj. notaði einmitt þetta ár til þess að reyna að gera verðstöðvun í landinu varanlega og reyna að koma til móts við fólkið um það, að verðhækkanir ættu sér ekki stað og ný verðskriða kæmi ekki til. En hvað gerðist við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1970? Þá gerðist það, að þrátt fyrir það að verðlag hefði yfirleitt ekki hækkað í landinu á árinu 1969, þá hækkuðu fjárl. um 1.3 milljarða kr. Þannig var tekið af þjóðinni 1.3 milljarði kr. meira til fjárl. 1970 heldur en árið áður. Þetta stafaði þó ekki af því, að nein sérstök verðskriða hefði átt sér stað eða kaupgjald í landinu verið hækkað nema síður væri. Þessi áhrif eru að minni hyggju stefna hæstv. ríkisstj., sem þarna var að verki, en ekki stefna frá fólkinu sjálfu, eins og hæstv. fjmrh. vildi vera láta í sinni ræðu í haust. Og ávöxturinn af þessari þróun er nú að segja til sín. Ég vil minna á það einnig og í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna fyrir árið 1970, einmitt þegar meiri rólegheit voru í efnahagsmálum þjóðarinnar heldur en verið hafði um langt bil, þá var gerð sú breyting á tekjuöfluninni, að söluskattur var hækkaður verulega þannig, að hann gaf um milljarð í tekjuviðbót. Þessi söluskattur lagðist á allan almenning og mestu nauðsynjavörur fólksins.

Á þinginu í fyrra fluttum við framsóknarmenn frv. til l. um breytingu á söluskatti. Þar var gert ráð fyrir því að fella niður söluskatt af mestu nauðsynjunum, einmitt þeim vörum og þeirri þjónustu, sem allur almenningur í landinu varð að njóta. Hvernig var þessu máli tekið hér á hv. Alþ.? Þetta var að minni hyggju mál til þess raunverulega að sporna gegn verðbólgu, sporna gegn því, að ný verðbólguskriða kæmi til. En hvernig var tekið á þessu máli hér á hv. Alþ.? Því var haldið fram, eins og venja er hér af hv. stjórnarsinnum um till. okkar og tal okkar um fjárhag ríkisins, að þar sé ábyrgðarleysið eitt á ferðinni, sem ekki sé mark á takandi. Og hvernig ætti svo að mæta þessari hækkun? Hvernig ætti ríkissjóður að fara að, ef hann missti þessar tekjur?

Nú liggur svarið nokkurn veginn fyrir. Við héldum því fram, að ef úr þessum útgjöldum yrði dregið hjá fólkinu í landinu, þá mundi það hafa áhrif á kröfugerð þess, mundi hafa áhrif á það, hve mikilla tekna það þyrfti að afla, til þess að komast sæmilega af. Og þess vegna mundi ríkissjóður fá tekjur af betri afkomu fólksins og aðrar kröfur verða minni.

Það er gert ráð fyrir því, að eins og verðlagið var fyrir 1. nóvember mundi þetta vera tekjumissir hjá ríkissjóði hátt í 400 millj. kr. En hvað gerði þetta svo að öðru leyti? Það gerði það að verkum, að það hækkaði vísitöluna um nærri 2 vísitölustig, — og hvað þarf nú hæstv. fjmrh. og ríkissjóður til þess að greiða niður vísitölustigin? Það eru um eða yfir 200 millj. Þannig er þessu varið með söluskattinn, sem við vildum láta fella niður til þess að hlífa þeim, sem minni höfðu tekjurnar, það hefði verið fyrst og fremst hagur fyrir þá, við vildum ekki una þeirri tekjubreytingu, að höfuðtekjustofn ríkisins væri tekinn af því fólki, sem minnsta hefði getuna. En inn á þessa braut var farið með breytingunum á tekjuöfluninni á þinginu í fyrra. Og nú verður ríkissjóður að greiða niður vísitölustigin með meiri fjárhæð heldur en hann hefur upp úr því að innheimta þennan söluskatt. Það geta þeir, sem vilja, kallað búmennsku að haga sér svona. En hvað er þetta búið að kosta ríkissjóð? Hvað er þetta búið að vera mikill þáttur í verðbólgufjárlögunum, sem við erum nú að afgreiða? Hvað á einmitt þessi ákvörðun mikinn þátt í þeirri 3200 millj. kr. hækkun fjárl., sem hér er nú verið að ræða um? Það geta þeir, sem vilja, kallað slíka tillögugerð ábyrgðarleysi og annað eftir því. En ef það er ábyrgð að standa að afgreiðslu fjármála á þennan hátt að innheimta söluskatt hjá þeim, sem minnsta hafa getuna, af því, sem þeir verða að borga, af húsunum, sem þeir verða að hita upp, og greiða svo aftur niður vísitöluhækkunina með fleiri krónum, þá kann ég nú ekki að skilja hvað ábyrgð er. Ég verð því að halda því fram sem fyrr, að stefna hæstv. ríkisstj., það sé hún, sem er stærsti verðbólgugjafinn, það sé hún, sem kyndi undir verðbólgunni, og það sé hún, sem beri ábyrgð á þeim hækkunum fjárlagafrv., sem hér er til umr. Ég undirstrika það, að hæstv. ríkisstj. gerði ekkert á árinu 1969 í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir 1970, til þess að koma í veg fyrir þá verðbólguskriðu, sem nú er hlaupin af stað.

Hæstv. fjmrh. heldur því fram og hæstv. ríkisstj. yfirleitt, að það sé ekki til nema ein stefna í efnahagsmálum, það sé aðeins ein stefna rétt, það sé sú stefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. fylgir og framkvæmir með þeim árangri, sem allir þekkja. Það er ekki talin stefna, þó að við leggjum til og tölum fyrir því, framsóknarmenn, að draga úr kostnaði við reksturinn í landinu. Það er okkar skoðun og okkar mat, að til þess að snúast gegn raunverulegri verðbólgu verði að draga úr reksturskostnaði í landinu, það verði ekki hægt að sporna gegn verðbólgunni nema með því að draga úr reksturskostnaðinum. Það eru mörg atriði, sem þar koma til greina, sem ég ætla ekki að fara út í að þessu sinni, en stefnan er þessi. Við höldum því einnig fram, að það verði að hafa stjórn og skipulag á fjárfestingu, það sé ekki hægt að láta fjárfestinguna gerast með þeim hætti, eins og gert hefur verið núna, að það sé allt tómt skipulagsleysi og það sé farið að finna verkefni handa framkvæmdunum, eftir að þær hafa verið gerðar. Það verði fyrst að hugsa, til hvers eigi að gera fjárfestingarframkvæmdina, hvaða hlutverki hún eigi að þjóna, en það eigi ekki að gerast á eftir, eins og mörg dæmi eru til frá síðustu árum. Við höldum því fram, að það verði að gera áætlun um uppbyggingu atvinnuveganna. Við höfum lagt fram frv., sem gengur í þessa átt, og lýst þessari skoðun okkar í ræðu og riti. Við teljum, að það verði ekki séð vel fyrir atvinnumálum þjóðarinnar nema það sé gerð áætlun um atvinnuuppbygginguna. Við teljum, að það verði að endurskoða starfsemi opinberra sjóða og banka og leita eftir því að gera þessa starfsemi einfaldari og sameina það, sem sameina á og hentar vel til þess að gera reksturinn ódýrari og einfaldari heldur en nú er. Við höldum því einnig fram, að það eigi að sameina stofnanir í ríkisrekstrinum til þess að draga úr kostnaði við ríkisreksturinn og það sé orðið margt í starfsemi ríkisstofnana, sem áður hentaði, en henti ekki nú. Þetta er það, sem við framsóknarmenn m. a. höldum fram sem stefnu til þess að stöðva verðbólguna. Þetta er það, sem við teljum, að þurfi að gera til þess að koma í veg fyrir óðaverðbólgu eins og hér hefur átt sér stað m. a., og fleira kemur þar til. Þetta er hins vegar það, sem hæstv. fjmrh. segir, að sé moðreykur einn, aðeins moðreykur, þegar slíku er haldið fram. Það má vel vera, að það sé svo frá hans bæjardyrum séð, en ég fæ ekki séð, að þetta sé ekki frambærileg stefna, frambærileg rök til þess að vinna að málum engu síður nema frekar þó heldur en gengislækkanir og verðbólguskriður núv. valdhafa með stöðvunum í kringum hverjar kosningar. Ég sé ekki, að það sé meiri ábyrgð í slíkum vinnubrögðum og slíkri stefnu, sem eys fjórða hvert ár nokkrum hundruðum millj. kr. í niðurgreiðslur til þess að halda verðlagi í skefjum í nokkra mánuði, meðan á kosningaundirbúningi stendur. Og hver er svo árangurinn af stefnu hæstv. ríkisstj., þessari einu réttu, þessari ábyrgu? Árangurinn er þessi, sem ég nefndi áðan,.að fjárl. eru 11 milljarðar 536 millj. kr. og hækkunin ein er 3139 millj. kr., — og hvert fara svo þessir fjármunir? Í niðurgreiðslurnar er áætlað nú, að fari 1127 millj. kr., Í milljarður 127 millj. kr. En það er ekki öll sagan sögð með þessu, því að þegar 1. september kemur, þá eru engar tekjur til þess að greiða niður, vegna þeirrar ákvörðunar, sem nú hefur verið tekin um niðurgreiðslur og hófust 1. desember, þá er búið að kjósa og þá þarf ekki að hugsa um verðstöðvun lengur. 550 millj. kr. kosta niðurgreiðslurnar, sem voru ákveðnar 1. desember til 1. september, frá 1. janúar til 1. september. Eftir það þarf ekki að sjá fyrir þeim. Og það er meira en það, því að þá þarf ekki einu sinni að ætla fé til þess að greiða ríkisstarfsmönnum verðlagsuppbætur á laun, þá hækkun, sem kynni að verða við það, að þessi breyting væri gerð.

Í fjárlagafrv., sem er upp á 11 500 millj. kr., er þó ekki rúm til þess að halda verðbólgunni í skefjum lengur en til 1. september næsta ár. Þá er búið að éta upp þær tekjur, sem til þess arna eru áætlaðar. Ekki er nú hægt í þessu sambandi að tala um ábyrgðarleysi, því að hér er nú af fullri ábyrgð unnið. Og ef við svo lítum okkur nær, gerum við okkur grein fyrir því, að það árferði, sem nú er í landinu, er eitt það bezta, sem hugsazt getur. Verðlag á útfluttum sjávarafurðum er nú hærra heldur en nokkru sinni fyrr og árferði til sjávarsíðunnar hefur verið sérstaklega gott. Þetta gerir það að verkum, að tekjur ríkissjóðs vaxa gífurlega og eru meiri heldur en nokkru sinni fyrr vegna þess arna. Þrátt fyrir þetta getum við ekki afgreitt fjárlög, sem geta haldið óbreyttri stefnu og óbreyttu verðlagi nema í 8 mánuði á næsta ári. Hvað mundi gerast í landinu, ef harðnaði á dalnum frá því, sem nú er orðið, fyrst búskapurinn er með þessum hætti við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi?

Við skulum líka gera okkur grein fyrir því, hv. alþm., að það eru mörg verkefni, sem eru óleyst og verða óleyst við þessa fjárlagaafgreiðslu, sem þó er ekki hægt að komast hjá að leysa fyrr en seinna. Og við þurfum jafnframt að gera okkur grein fyrir því, hvert þær hækkanir fara á fjárl., sem við erum nú að afgreiða, frá því sem var á yfirstandandi ári. Af þeim hækkunum, sem fyrir liggja nú við 2. umr., eru um 28 millj. kr., sem ganga til skólabygginga, frá því sem var á s. l. ári. Þá er átt við barna- og gagnfræðaskóla, og er hér ekki um mikla fjárhæð að ræða. Hins vegar má gera ráð fyrir því, að þessi tala breytist verulega til hækkunar við 3. umr., þegar endanleg afgreiðsla verður á skólamálunum. Til annarra skóla ganga 60.3 millj. kr. frá því sem var á þessu ári. Er þar háskólinn með 30 millj. kr. til fjárfestingar, og aðrir skólar skipta hinum hlutanum. Til sjúkrahúsa, læknabústaða og læknamiðstöðva fara 16.6 millj. kr. Það er öllum augljóst, að hér er um allt of lága fjárhæð að ræða, sem ekki verður hugsanlegt, að geti farið óbreytt í gegnum 3. umr. Þessi mál hafa verið mjög á dagskrá hjá okkur og ýmis vandkvæði komið þar upp, sem nauðsyn ber til að bæta úr. Eitt af því, sem hefur verið unnið að á síðari árum, er að koma á skipulagsbreytingu um læknaþjónustu í landinu, þar sem fleiri læknar störfuðu saman, og átti það að verða til þess að tryggja öruggari læknaþjónustu og betri heldur en nú er. Þrír staðir hafa nú ákveðið að koma upp læknamiðstöðvum hjá sér. Á Egilsstöðum var byrjað á þessu á yfirstandandi ári og verður haldið áfram, en nú er ákveðið að koma upp læknamiðstöðvum í Borgarnesi og á Ísafirði. Fjárveitingar þær, sem um er að ræða í fjárlagafrv. nú til framkvæmda á næsta ári, eru of lágar, og við í minni hl. höfum flutt brtt. til hækkunar á þessum lið. Við munum hins vegar taka þá afgreiðslu aftur til 3. umr., þar sem við gerum okkur vonir um, að samstaða náist í fjvn. um að hækka fjárveitingar vegna þessara læknamiðstöðva, til þess að hægt sé að ná vissum áfanga í framkvæmd þeirra á næsta ári. Hér er um stórmál að ræða, sem ekki verður hægt fram hjá að horfa og ríkisvaldið verður að leggja sig fram um að bæta úr, þar sem samstaða hefur tekizt um þessa breyttu skipan í von um, að hún muni koma að þeim notum, sem hugsað er og að er stefnt. En heilbrigðismálin í okkar landi eru nú með þeim hætti, að allt verður að gera sem unnt er til þess að bæta úr þeim. Ég geri mér vonir um það og tel nokkurn veginn öruggt, að fjvn. muni taka þessi mál til frekari athugunar á milli 2. og 3. umr.

Hafnarmannvirkin hækka um 19.3 millj. kr. frá því, sem var í gildandi fjárl., og er hér að vísu ekki um háa fjárhæð að ræða miðað við þau verkefni, sem í hafnargerðunum eru, og mun það ekki gera öllu betur heldur en að mæta þeim verðhækkunum, sem hafa orðið á hafnarframkvæmdum á þessu ári. Þá kemur inn að þessu sinni nýr liður til vegamála, um 50 millj. kr., og verður með þeim hætti reynt að laga ofurlítið fjárhag Vegasjóðs, sem er mjög erfiður eins og kunnugt er, m.a. vegna þess hve verðlag allt hefur hækkað á árinu og framkvæmdir því orðið dýrari en gert var ráð fyrir. Hér er um að ræða mál, sem frekari athugunar þarf við, til þess að séð verði fyrir eðlilegum framkvæmdum á næsta ári.

Til rafvæðingar sveitanna er hækkun aðeins 4.9 millj. kr. frá gildandi fjárl., og er hér um að ræða það litla fjárhæð, að undrum sætir. Það kom fram í fjvn. hjá framkvæmdastjóra Rafmagnsveitna ríkisins, að til þess að hægt væri á næstu 5 árum að ljúka sæmilega dreifingu raforkunnar um sveitirnar, þyrfti um 60 millj. kr. fjárveitingu eða fé til að vinna fyrir á ári miðað við svipað verðlag og nú væri. Það er svipuð fjárhæð og unnið verður fyrir á árinu 1970. Framkvæmdastjórinn taldi, að með þessum hætti mætti koma í framkvæmd að rafvæða upp að 4 km vegalengd, og gerði hann þá ráð fyrir, að segja mætti, að þessu verki væri lokið. Nú er unnið að því að taka þessi mál til endurskoðunar á nýjan leik, gera sér grein fyrir því, hvað eftir er að rafvæða í sveitunum, og setja upp heildaráætlun um þá framkvæmd, og ber þá nauðsyn til, að gerð verði áætlun um það, hvernig ljúka á þessu, á hvaða tíma, svo að hægt verði að gera fólki grein fyrir því með öruggum hætti. Við leggjum til að hækka þessa fjárveitingu upp í 60 millj. kr., svo að á árinu 1971 verði raunverulega hafin þessi framkvæmd, sem rafmagnsveitustjórinn minntist á í heimsókn sinni í fjvn.

Til rannsókna á sviði vísinda er hækkunin 17 millj. kr. og mun það ekki verða til þess að mæta þeim hækkunum, sem hafa orðið á kostnaði miðað við verðlagsbreytinguna á þessu ári eða þær kaupgjaldsbreytingar, sem núna eru komnar fram.

Á fjárlagafrv. er gerð till. um fjárveitingu til Kennaraskóla Íslands. Þessi stofnun hefur búið við mjög þröngan húsakost, svo að undrum sætir, þar sem í húsnæði Kennaraskólans er gert ráð fyrir, að séu að námi 240–260 nemendur, en eru núna milli 800–900 nemendur. Hér er eiginlega um mjög alvarlegt mál að ræða og hafa nemendur og forráðamenn skólans sent m. a. frá sér myndir, þar sem nemendur eru sýndir uppi í rishæð hússins, þar sem þeir geta ekki staðið uppréttir nema í gluggatóftunum. Þetta mál er lengi búið að vera mjög mikið vandræðamál og hefur þó ört verið vaxandi vegna aðsóknar að skólanum. Nú er gert ráð fyrir að veita 8 millj. kr. til framkvæmda í Kennaraskólanum, en fyrir er nokkur fjárhæð, svo að hægt verður á þessu ári að hefjast handa um framkvæmdir við skólann. En jafnhliða því, sem skólann vantar kennsluhúsnæði, vantar hann einnig íþróttahús, því að hann hefur enga íþróttaaðstöðu nema í leiguhúsnæði út um bæ. Gert er ráð fyrir því, að þessi fjárveiting, sem nú er veitt, gangi til þess að hefja byggingu íþróttahússins. Nú er það skoðun okkar, sem minni hl. skipum, að það hafi ekki verið hægt að komast fram hjá því að gera einnig þá till., að Kennaraskólinn fengi fjárveitingu til framkvæmda í sambandi við kennarahúsnæðið. Þó að við metum og styðjum till. um byggingarframkvæmd íþróttahúss, þá sýndist okkur, að hinn þátturinn gæti ekki legið eftir. Í sambandi við framkvæmdina á íþróttahúsinu hefði mér fundizt eðlilegt, að sú framkvæmd hefði verið miðuð við það, að skólarnir, sem eru nærliggjandi, eins og Hamrahliðarmenntaskólinn, Æfinga- og tilraunaskólinn og Kennaraskólinn, fengju sameiginlegt íþróttahús þarna á þessu svæði, þar sem nemendur ættu auðvelt með að sækja nám í það hús einmitt þarna úr þessu umhverfi. Ég hefði því talið og við, sem minni hl. skipum, eðlilegt, að þessi uppbygging á íþróttahúsinu væri miðuð við samstarf fleiri skóla og ekki eingöngu bundið Kennaraskólanum. Ég vil líka láta koma fram þá skoðun, að nauðsyn ber til, að það íþróttahúsnæði, sem þarna verður byggt, sé miðað m. a. við þá íþróttaleiki, sem æskan í dag sækir mjög eftir og iðkar mjög. Það hefur einmitt verið tekin upp sú stefna nú á síðari árum, að íþróttasalir skólanna hafa verið minnkaðir frá því, sem áður var og þeir geta því ekki þjónað þeim tilgangi, sem bæði handknattleikir og ýmsir leikir innanhúss þurfa húsnæði til. Ég vona því, að í sambandi við þetta mál ríki sú framsýni og sú víðsýni, að það verði byggt fyrir fleiri aðila og það verði byggt með þeim hætti, að æskan fái fullkomna íþróttaaðstöðu, einnig til kappleikja.

Þá vil ég nefna það, að við höfum gert till. okkar í minni hl. um að hækka framlag til Atvinnujöfnunarsjóðs um 20 millj. kr. Í þessum fjárl. er ekki, þrátt fyrir mikla fjárhæð þeirra, gert ráð fyrir því að skapa með þeim verulegt atvinnuöryggi, og enda þótt við vitum, að þessi till. okkar getur ekki breytt þar miklu um, þá mundi Atvinnujöfnunarsjóður, með því að hún yrði samþ., halda þeirri fjárveitingu, sem hann hafði á árinu 1970, og fá þær auknu tekjur, sem hann hefur frá álverksmiðjunni, það yrði tekjuauki fyrir sjóðinn. Við væntum því, að hv. Alþ. sjái sér fært að verða við þessari till. okkar.

Þá höfum við á þskj, því, sem við flytjum okkar brtt. á, lagt til að hækka fjárveitingu til að jafna aðstöðu skólafólks úr 12 millj. í 25 millj. Það hefur komið í ljós, þegar unnið var að því að skipta þessari fjárveitingu, sem var 10 millj. á yfirstandandi ári, að það var mjög erfitt, vegna þess hve fjárhæðin var lág, og m. a. hefur framkvæmdin verið með þeim hætti, að nemendur, sem stunda nám í heimavistarskólum, hafa orðið algerlega fyrir utan þessa aðgerð, og það hefur heldur ekki verið gerð önnur ráðstöfun, sem gæti komið þeim að sama gagni, eins og t. d. það að greiða starfsfólki við mötuneyti og þjónustu eins og á sér stað í barnaskólunum og þeim skólum, sem eru á skyldunámsstiginu. Við teljum, að 12 millj. kr. fjárveiting nú muni reynast enn þá minni heldur en 10 millj. kr. fjárveiting á árinu 1970 og eftir því, sem við höfum sagnir af um áætlanir eða till., sem fram hafa komið hjá þeim, sem unnið hafa að skiptingunni, þá mundu 25 millj. kr. nægja til þess að mæta þeim till., sem þar er gert ráð fyrir. Nú er um það að segja, að þær till. eru algert lágmark, en eru þó miðaðar við það að taka flesta flokka nemenda með, sem hér um ræðir, og eru því á réttri leið. Og till. okkar gengur ekki lengra en það að reyna að mæta lágmarkinu, svo að öllum sé sinnt.

Þá vil ég þessu næst víkja að því, að á s. l. sumri, þegar undirnefnd fjvn. var að störfum, þá heimsótti hún ríkisspítalana hér í Reykjavík, svo og Borgarsjúkrahúsið og Vífilsstaðahæli. Þessi heimsókn var í sjálfu sér mjög mikil og dýrmæt reynsla fyrir nm. og þeir kynntust, með samtali við og við að skoða þessar stofnanir ásamt stjórn ríkisspítalanna, þessum málum betur heldur en áður hafði verið, og höfðu því meiri möguleika til þess að meta það, sem þarna þurfti að meta, og starfsemi þessara stofnana. Það kom í ljós, að á þessum stofnunum var í raun og veru mjög mikill skortur á starfsfólki til þess, að hægt væri að halda starfseminni eðlilega uppi, og það kom einnig í ljós í þeim skýrslum, sem fjvn. fékk frá framkvæmdastjóra ríkisspítalanna, að það var margt starfsfólk, sem þarna var að starfi, sem engin samþykkt hafði fengizt fyrir, að mætti vera að störfum hjá ríkisspítölunum. Var það á milli 40–50 manns, sem þannig starfaði við ríkisspítalana, án þess að samþykkt hefði verið. Hins vegar hafði ekki verið ráðið í öll þau störf, sem samþykkt voru, og fjármunir þess vegna verið notaðir á þennan hátt. Nú kom það fram í umr. í fjvn., að nauðsyn bæri til að breyta þessu, eins og fram kom í ræðu hv. frsm. meiri hl. n., hv. 2. þm. Vesturl. Og í framhaldi af því fékk fjvn. till. frá stjórnarnefnd ríkisspítalanna um það, hvað hún teldi lágmark, að þyrfti til — eða endurskoðaðar till. um það lágmark, sem hún taldi sig geta unað við — í sambandi við fjölgun á starfsmönnum spítalanna. Hér var um allverulegar hækkanir að ræða, og í útgjöldum mundu þær hækkanir hafa kostað um 28.2–28.3 millj. kr. Við það að yfirfara þessar till. virtist það nú koma í ljós, að erfitt yrði að komast fram hjá því að sinna þessu. jafnframt var gerð grein fyrir því, að þó að einhverju af þessu yrði frestað, yrði það að koma til framkvæmda á næsta ári. Meðal þeirra atriða, sem komu fram í þessum umr., var það, að til að spítalarnir, þ. e. Landsspítalinn og Kleppsspítalinn, gætu fengið hjúkrunarkonur til starfa, varð að setja upp barnaheimili við þessar sjúkrastofnanir, til þess að börn hjúkrunarkvennanna gætu fengið þar gæzlu. Þessi heimili eru búin að starfa í nokkur ár, en starfsfólk, sem að þeim vinnur, — eða tilvera þeirra hefur aldrei verið viðurkennd af þeim, sem fjármálum stjórna í þessu landi. Þetta hefur því verið gert í trássi við þá, sem hafa farið með fjárveitingavaldið og framkvæmd þess. Eitt af því, sem fram kom í þeim umr., sem fram fóru við undirnefnd fjvn. í sumar, var einmitt það, að þarna yrði að koma viðurkenning á. Það væri ekki hægt fyrir þessar stofnanir að halda uppi starfsemi sinni, ef þær misstu þessa starfskrafta. Nú hefur það áunnizt í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna að þessu sinni, að þessi barnaheimili, starfsemi þeirra við Landsspítalann og á Kleppi er viðurkennd, og það er viðurkennt, að þar skuli ráða forstöðukonu og fóstru, þó að það hafi ekki verið teknir þeir starfskraftar allir, sem um var beðið. Ég er sannfærður um það, að þó að nú hafi verið skorið niður verulega stórkostlega frá till. forstöðumanna stofnananna, verulega frá till. sjúkrahúsnefndarinnar og enn verulegar frá þeim endurskoðuðu till. sjúkrahúsnefndarinnar á starfsfólki og öðru, er lýtur að rekstri þessara sjúkrahúsa, þá verður ekki hjá því komizt að taka þetta til endurskoðunar fyrir árið 1972 og bæta þar verulega úr. Og það, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi, er það, að það má ekki endurtaka sig, að það séu tugir fólks að störfum við þessar stofnanir, sem ekki er viðurkennt, að séu þar eða eigi að vera þar í starfi.

Ég vil líka minna á stofnun eins og Kleppsspítalann, sem starfar að nokkru leyti í gömlu húsi. Elzti hluti Kleppsspítalans er timburhús og ég álít, að það sé í raun og veru mikill ábyrgðarhluti að hafa sjúklinga í þeim hluta hússins, því að það væri meira en lítið áfall, ef slys henti þar í sambandi við eldsvoða, því að erfitt yrði að verja það hús, ef eldur kæmi upp. Ég vil líka minna á það, að við það, að komin er við Borgarsjúkrahúsið lítil deild fyrir þá sjúklinga, sem er að öðru leyti sinnt á Kleppi, þá er aðstaða þess fólks, sem vinnur við Kleppsspítalann, svo mikið verri heldur en við Borgarsjúkrahúsið, að það mun ekki una því til lengdar, einmitt það fólk, sem bezt er og kann að meta starfsaðstöðu og vill hafa hana í lagi. Þess vegna tel ég, að brýna nauðsyn beri til að taka ekki sízt mál Kleppsspítalans til sérstakrar athugunar. Það hefur nokkuð verið bætt úr húsakynnum þar og þau líta vel út, en betur má, ef vel á að fara. Eins er að segja með Vífilsstaði. Þar er nú gert ráð fyrir, að þær breytingar, sem yfirlæknirinn þar óskaði eftir, verði gerðar á næsta ári að því leyti, sem þær eru ekki komnar til framkvæmda, en það gerbreytir því gamla húsi, sem var alveg óviðunandi eins og það var, áður en farið var að byrja á breytingunum. Þessa þætti heilbrigðismálanna má ekki yfirstjórn heilbrigðismála eða fjárveitingavaldið láta eins og það sjái ekki. Hér er um slíkt stórmál að ræða.

Ég hef áður vikið að því í sambandi við umr. um fjármál, að það er mín skoðun, og svo er um okkur, sem stöndum að nál. minni hl., að nauðsyn bæri til að taka ríkisreksturinn til endurskoðunar, og það séu ýmsar stofnanir í ríkisrekstrinum, sem bæri að leggja niður starfræksluna á með að sameina þær öðrum. Þessar stofnanir voru góðar og nauðsynlegar, þegar til þeirra var stofnað margra hverra, og m. a. var þjóðfélagið þá á því stigi, að það hafði enginn aðili efni á eða möguleika til að setja upp sumt af þessum stofnunum. En það segir ekki, að þær séu jafnnauðsynlegar nú eða gegni því hlutverki, sem þær áður gegndu, og það ber nauðsyn til þess, að við reynum að laga þetta að nútímaháttum. Í ferðalögum undirnefndar fjvn. í sumar kom n. m. a. í stofnanir, þar sem mörg vinnutæki stóðu inni og ekki var útlit fyrir, að yrðu hreyfð á þessu sumri. Það er mín skoðun, að einmitt í opinberum rekstri verði að gæta þess að hafa ekki meira af vinnutækjum en svo, að þegar lágmarksvinnu er um að ræða, séu þau samt fullnýtt, því að ef svo er ekki, þá annaðhvort standa þau óhreyfð eða farið er að skapa verkefni til þess að hreyfa þau. Þetta tel ég, að þurfi að taka til endurskoðunar, og við höfum í sambandi við umr. um þetta m. a. vikið að viðgerðarverkstæðum, sem ýmsar ríkisstofnanir hafa. Það er mín skoðun og það mun vera sameiginleg skoðun okkar í minni hl., að það væri nauðsynlegt að gera á þessu breytingu. Það hefur verið í athugun, en úr framkvæmdum hefur ekki orðið. En það eru ýmsar stofnanir með kannske fleiri en eitt viðgerðarverkstæði. Svo er t. d. í flugmálunum. Það er eitt viðgerðarverkstæði vegna Reykjavíkurflugvallar og annað vegna flugvalla úti á landi. Starfsemi eins og viðgerðarverkstæði hjá vélasjóði, Landnámi ríkisins og fleiri slíkum stofnunum, sýnist mér vera mjög fráleit, þetta hljóti að verða dýrt, þetta sé skipulagslaust og það væri miklu auðveldara að vinna þetta á einum stað eða færri stöðum, þar sem tæki og starfskraftar væru einmitt miðaðir við það, sem bezt gæti orðið.

Ég er á þeirri skoðun, að í mörgum tilfellum sé illa búið að ríkisrekstrinum, og ég held, að það væri miklu betri leið að búa vel að þeim ríkisrekstri, sent eðlilegt er, að sé í landinu, heldur en halda honum öllum uppi eins og nú er. Það er eins með ýmsar stofnanir, sem settar hafa verið á stofn á síðari árum. T. d. finnst mér, án þess að ég hafi nú getað athugað það sem skyldi, að verkefni þau, sem Efnahagsstofnuninni voru upphaflega ætluð, séu nú að nokkru eða verulegu leyti komin til Seðlabankans og sumt til hagsýslunnar, fjármáladeildar menntmrn., og svo hefur Hagstofan vissan þátt í þessu. Ég hef áður hreyft því hér á hv. Alþ., hvort ástæða væri til þess að vera að halda þessari stofnun uppi lengur, hvort það væri ekki hægt að sameina hana Hagstofunni og velja Hagstofunni þau verkefni, sem eftir eru hjá þessari stofnun.

Ég kynntist því um daginn, að ýmislegt getur verið svona vafasamt og jafnvel skrýtið í framkvæmdum í okkar opinbera rekstri. T. d. kom það fram við 1. umr. fjárl., að Rafmagnsveitum ríkisins hefur verið sett stjórn. Um daginn fór ég að kynna mér ákvörðun þessarar stjórnar um verð á rafmagni til dreifiveitna og vegna þess að þetta hafði verið flokkað. 1. flokkur var Suðurlandið, af því að þar var hagkvæmust og mest salan, 2. flokkur var svo Vestmannaeyjar og Andakílsveitan og í 3. flokki kom svo Patreksfjörður, Ísafjörður, Sauðárkrókur og Reyðarfjörður. Þarna var nú látin gilda sú regla, að þeir, sem erfiðari áttu aðstöðuna og voru minni fyrir sér, áttu að greiða meira. Út af fyrir sig er það stefna hjá þeim, sem þeirri stefnu fylgja, þótt það sé öðru vísi heldur en ég og slíkir menn hugsa. Við það að fá nú upp, hvaða fjárhæð var þarna um að ræða, sást, að hún er svo lítil, að hún er næstum hlægileg. Þetta munaði einhverjum þúsundum í þessum milljónahítum, sem þarna er um að ræða. Svo fór ég að spyrja, hvernig þetta væri ákvarðað. Þá var það þannig, að fyrst tók stjórn Rafmagnsveitnanna ákvörðun um verðið. Svo leitaði hún umsagnar hjá Efnahagsstofnuninni og síðan var það svo sent aftur í rn. og þannig var það nú staðfest þar endanlega. En formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins er forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar. Hann sendi sjálfum sér málið til umsagnar, sem hann hafði ákveðið sem formaður stjórnar Rafmagnsveitnanna. Nú geta menn víst gert þetta, hvort sem þeir vilja gera sér þetta til gamans eða af öðrum ástæðum, en ósköp held ég að sé nú lítils virði að fá umsögn Efnahagsstofnunar um ákvörðun forstjórans sem stjórnarformanns í Rafmagnsveitunum. En út af fyrir sig þá er þetta nú ekki mergur málsins heldur hitt, að ég tei, að við gætum komið verkefnum Efnahagsstofnunarinnar vel fyrir hjá Hagstofunni, að því leyti sem það er ekki komið til annarra stofnana, og fjárlaga- og hagsýslustofnuninni að því er varðar tekjur ríkisins. En ég vil undirstrika það, að það ber nauðsyn til þess, að við endurskoðum ríkiskerfið og reynum að færa saman ríkisstofnanir og fækka þeim og gera málin bæði ódýrari heldur en nú er og að mörgu leyti einfaldari heldur en þau eru nú í framkvæmd.

Herra forseti. Ég fer nú senn að ljúka máli mínu, en ég vil minna á það, áður en ég lýk því, að einmitt nú við þessa fjárlagaafgreiðslu erum við á því tímabili, sem hefur verið óskatímabil hæstv. ríkisstj., í sambandi við kosningar að vera búin að koma á l., sem þeir hafa kallað verðstöðvunarlög. Þetta er nú í þriðja sinn, sem sá háttur er endurtekinn og settur á leiksvið og nú stórfelldari heldur en nokkru sinni fyrr, því nú kostar hann enn þá meira, heldur en hann kostaði 1959 og 1967. Það þarf enginn að efast um, hvernig framhaldið verður á leiksýningunni, þegar kosningarnar verða búnar, enda segir fjárlagafrv. alveg þar til um, ef núverandi valdhafar ráða þá áfram. Því með því að gera ráð fyrir því að borga niður verðlag aðeins fram yfir kosningar og eiga ekki aura í buddunni lengur til þeirra verka, þá er verið að sanna fólkinu í landinu það, að það er sami hugsunarhátturinn á bak við þessa framkvæmd og fyrri ráðstafanir hæstv. ríkisstj. um verðstöðvun. En ég vil svo jafnframt minna á í lokin og leggja áherzlu á það, að þrátt fyrir það, þó ríkisstj. sé nýbúin að afgreiða l., sem hún kallar verðstöðvun og eiga að tryggja það, að stöðugt verðlag verði í landinu, þá er hér verið að afgreiða hærri fjárlög en nokkru sinni fyrr og fjárlög, sem hækka á 4. milljarð frá yfirstandandi fjárlögum. Framkvæmdamáttur þess fjár, sem gengur til uppbyggingar í landinu, rýrnar með hverju ári sem líður, og verður framkvæmdaféð í þessum fjárlögum engin undantekning frá því. Ekki hrökkva tekjur fjárlagafrv. til þess að halda óbreyttu verðlagi nema í 8 mánuði af þessu fjárlagaári. Mörg stór og nauðsynleg verkefni krefjast aukins fjármagns þegar á árinu 1972, eins og ég hef áður vikið að, og verður þess vegna það að vanta fjármuni til niðurgreiðslnanna, sönnun fyrir því, að enn þá þarf að halda áfram á sömu braut um hækkun fjárlaga. Skuldir vegna verklegra framkvæmda, sem unnar hafa verið á undanfarandi árum, eru nú hærri en nokkru sinni fyrr. Ekki verður komizt hjá því að afla Vegasjóði nýrra tekna, til þess að hægt sé að halda áfram þeim framkvæmdum, sem sjóðurinn vinnur nú að og ákveðið er. Árferðið nú til tekjuöflunar er með því bezta, sem gerist, þrátt fyrir það er ekki hægt að ná þeim tekjum, sem þarf til þess að afgreiða fjárlögin fyrir allt næsta ár. Þarf nokkurn að undra, þegar þannig er að staðið, þó að til séu menn í landinu, og það margir, sem álíta, að stefnan sé röng, stjórnarstefnan sé röng, og að staðreyndin sé þessi, að ef ekki tekst að snúa frá verðbólgustefnu ríkisstj., þá sé allt unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir dyrum.