25.01.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 28 í D-deild Alþingistíðinda. (3393)

81. mál, varnir gegn sígarettureykingum

Flm. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Dagana 11., 12. og 13. sept. 1967 var haldin í New York alþjóðleg ráðstefna, sem 500 fulltrúar frá 34 þjóðlöndum sátu, og var umræðuefnið reykingar og heilsufar. Dr. Luther L. Terry, vel þekktur bandarískur skurðlæknir og landlæknir í Bandaríkjunum í eina tíð, hélt þar m.a. mjög athyglisverða ræðu, en einmitt þessi maður hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir því, bæði í sínu heimalandi og eins annars staðar, að menn drægju úr sígarettureykingum, og hefur haft í frammi mörg og þung rök um skaðsemi sígarettureykinga á heilsu manna. Á þessu þingi sagði hann m.a.:

„Við erum nú staddir á tímamótum í sögu reykinga og heilsugæzlu. Tímabil efasemdanna er nú liðið. Vafalítið munu vísindamenn okkar halda áfram á næstu árum að reyna að svara spurningunni, hvers vegna sígarettureykingar séu hættulegar heilsu manna, en enginn minnsti vafi er á því lengur, að þær eru bein ógnun við heilbrigði manna. Við vitum þegar með vissu, að lungnakrabbi, sem nú vex óðfluga um veröld víða, er beint tengdur sígarettureykingum. Við vitum þegar, að ört vaxandi dánartala þeirra, er deyja úr hjartasjúkdómum á bezta aldri, stendur í beinu orsakasamhengi við sígarettureykingar.“

Þessi orð hins heimsþekka læknis vöktu á sínum tíma mikla athygli þeirra, er á hlýddu, og má raunar telja þetta heimsþing upphaf þeirrar baráttu, sem háð hefur verið síðan undir forustu lækna og ýmissa mætra manna víða um heim, baráttu, sem ætlað er að draga úr sígarettureykingum í fyllingu tímans. Markmiðið er að sjálfsögðu að vekja almenning til vitundar um, að sígarettur út af fyrir sig eru eitur og menn þurfi að ritarka afstöðu sína til þeirra með þeirri vitund. Allar vísindalegar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á síðustu árum, benda eindregið til þessarar niðurstöðu. Þeir, sem gerst þekkja til, hafa líka margir hverjir breytt sínum eigin lífsvenjum til þess að verða fyrirmynd öðrum, sem síður vissu um hættur sígarettureykinganna, og sennilega er eitt frægasta dæmið í þeim efnum, þegar nokkur hundruð brezkra lækna ákváðu fyrir nokkrum árum að hætta sígarettureykingum algerlega. Um það var skrifað mikið í brezku blöðin, og nokkrir þættir voru fluttir í brezka sjónvarpinu í tilefni af þessari ákvörðun brezku læknanna, og vakti þetta allt mikla athygli. En þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir um skaðsemi sígarettureykinga, er staðreyndin því miður sú, að þær hafa enn þá farið vaxandi, bæði hér á landi og eins erlendis, víðast hvar a.m.k. Ekki hvað sízt er það áhyggjuefni margra, hve unglingar byrja nú fyrr að reykja en áður var. Það er orðið nokkuð algengt, að unglingar um fermingaraldur, bæði hér og erlendis, séu farnir að reykja í miklum mæli, og veit ég til þess, að í sumum skólum er þetta mjög verulegt vandamál, sem kennararnir hafa áhyggjur af.

Á Íslandi er nú vaxandi áhugi á því að herða baráttuna gegn sígarettureykingum. Landssamtökin Hjartavernd ásamt ýmsum fleiri félögum og einstaklingum hafa lagt fram drjúgan skerf í þeirri baráttu. En betur má, ef duga skal. Sú þáltill., sem ég mæli hér fyrir, um varnir gegn sígarettureykingum, er flutt af fimm hv. alþm., einum úr hverjum þingflokki. Hún er flutt og samin í samráði og í samvinnu við nokkra lækna hér á landi, sem sérstaklega hafa lagt sig fram í baráttunni gegn sígarettureykingum. Með henni á að freista þess m.a. að vekja forsvarsmenn hins opinbera, — en eins og menn vita, hefur ríkið einkasölu á tóbaki hér á landi, — vekja forustumenn ríkisvaldsins til betri vitundar um þær skyldur, sem þeir hafa vegna þessarar einkasölu sinnar við landsmenn almennt og þá ekki sízt unga fólkið í landinu. Þáltill. hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj., að eftirfarandi ráðstafanir verði gerðar til þess að draga úr tóbaksreykingum og þá sérstaklega sígarettureykingum:

1. Víðtæk upplýsingastarfsemi um skaðsamlegar afleiðingar sígarettureykinga verði hafin í dagblöðum, hljóð- og sjónvarpi. Höfuðáherzla verði lögð á þær skyldur, sem foreldrar og kennarar hafa.

2. Í skólum verði hafin reglubundin kennsla um heilsufarslegar hættur sígarettureykinga.

3. Regluleg fræðsluerindi (námskeið) verði haldin fyrir kennara og kennaraefni um þessi mál.

4. Stofnaðar verði „opnar deildir“ (poliklinik), sem stjórnað sé af sérfróðum læknum, og þar geti reykingamenn fengið aðstoð til þess að hætta reykingum.

5. Stofnað verði ráð lækna og leikra, sem hafi eftirfarandi hlutverk: a) að safna upplýsingum um, hversu víðtækar reykingar séu, t.d. meðal skólabarna og unglinga, b) að stjórna vísindalegum rannsóknum um áhrif reykinga, c) að vera yfirvöldum til ráðuneytis um þessi mál.

Kostnaður við starfsemi ráðsins verði greiddur úr ríkissjóði.“

Ég gat um það áðan, að síðan heimsþingið var haldið í New York fyrir þrem árum, hefðu vísindalegar rannsóknir allar leitt til einnar niðurstöðu um skaðsemi reykinga og þá fyrst og fremst sígarettureykinga. Hér á Íslandi hefur síðustu tvö árin fyrst og fremst verið mikið rætt og ritað um þessi mál. Í Læknablaðinu frá því í júní 1970 er m.a. að finna grein um tóbaksreykingar. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á 23. þingi Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, sem haldið var í Genf í maí í ár, var lögð fram skýrsla aðalforstjóra stofnunarinnar varðandi takmörkun tóbaksreykinga. Skýrslu þessa höfðu samið tveir af ráðunautum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, og nefnist hún á ensku Smoking and Health. Segja má, að í skýrslu þessari felist raunar fátt nýtt varðandi skaðsemi tóbaksreykinga fyrir heilsu manna. Hins vegar er röksemdafærsla sú, sem fram kemur í skýrslunni, gagngerðari en flest, ef ekki allt, sem hefur birzt að þessu lútandi hingað til. Þykir því rétt að draga fram og leggja áherzlu á í þessum dálkum þau sjö meginatriði, sem telja má niðurstöðutölur og ályktunarorð skýrslunnar.

1. Dánarhlutfallstala (mortality ratio) þeirra manna, sem reykja sígarettur, er 30–80% hærri en þeirra, sem ekki reykja.

2. Dánarhlutfallstalan eykst með auknum sígarettureykingum.

3. Aukning dánarhlutfallstölunnar meðal sígarettureykingamanna er tiltölulega meiri á aldrinum 45–54 ára en á aldursskeiðunum fyrir og eftir.

4. Aukning dánarhlutfallstölu er meiri meðal þeirra, sem byrja ungir að reykja, en meðal þeirra, sem byrja síðar á ævinni.

5. Dánarhlutfallstalan er hærri meðal sígarettureykingamanna, sem segjast anda að sér reyknum, en meðal þeirra, sem gera það ekki.

6. Dánarhlutfallstalan er lægri meðal sígarettureykingamanna, sem hætt hafa að reykja, og þess vegna því lægri sem lengra er um liðið síðan þeir hættu að reykja.

7. Dánarhlutfallstala þeirra, sem reykja pípu eða vindla, eykst í heild sinni lítið eða ekkert. Svo virðist sem pípureykinga- og vindlareykingamenn séu yfirleitt hófsamir reykingamenn, sem anda ekki að sér reyknum. Hins vegar virðist vera ástæða til þess að ætla, að dánarhlutfallstala þeirra, sem reykja mikið pípu eða vindla og anda að sér reyknum, aukist um 20–40%.

Af framansögðu má beinlínis ráða, að sígarettureykingar stofna lífi og heilsu fjölda manna á bezta aldursskeiði í voða. Er vandfundið nokkurt annað einstakt atriði í líferni nútímamanna, er stenzt samanburð við sígarettureykingar í þessu tilliti. Augljóst má því vera, að brýna nauðsyn ber til þess að draga úr og stórminnka sígarettureykingar.“

Í desembermánuði s.l. var haldinn blaðamannafundur hér á Íslandi að undirlagi fyrirsvarsmanna Hjartaverndar. Þar voru m.a. staddir Sigurður Samúelsson prófessor og Hrafnkell Helgason læknir, en við báða þessa mætu lækna höfum við flm. þessarar till. haft hina beztu samvinnu og þegið góð ráð við samningu hennar. Á þessum blaðamannafundi sagði Sigurður Samúelsson prófessor m.a., að allir kransæðasjúklingar, sem lagðir hefðu verið inn á lyfjadeild Landsspítalans s.l. 3–4 ár og voru undir 50 ára aldri hefðu verið reykingamenn. Hann sagði enn fremur á þessum fundi, að í hópi kransæðasjúklinga væri meðalaldur reykingamanna um 11.4 árum lægri en þeirra, sem ekki reyktu. Fleira fróðlegt kom fram á þessum fundi, sem ég tel óþarft að rekja nánar hér.

Um þessi mál hefur, eins og ég gat um í upphafi, mjög mikið verið ritað síðustu mánuðina, og skal ég því ekki taka mér langan tíma þingsins til þess að fara út í það, því að ég geng út frá því, að mönnum hér inni sé það almennt ljóst, því að þeir hafi fylgzt með þeim skrifum, auk þess sem með þáltill. þessari fylgir sem fskj. m.a. mjög fróðleg ræða, sem Hrafnkell Helgason læknir hélt árið 1969 og í er að finna óyggjandi upplýsingar um vissar staðreyndir í sambandi við sígarettureykingar. Vænti ég, að hv. þm. hafi lesið það fskj.

Að endingu vil ég aðeins segja það, að það er mat flestra, að nú sé mál til komið, að Íslendingar og þá fyrst og fremst hið opinbera hafist eitthvað að til þess að draga úr þeirri geigvænlegu hættu, sem orðin er í þjóðfélagi okkar, hættu, sem steðjar að hjá sífellt stækkandi hópi þjóðfélagsborgara, sem verður sígarettunum háður. Er tillaga sú, sem ég er hér að mæla fyrir, flutt í þeim tilgangi og í þeirri von, að hún verði samþ. og þar með verði mótuð stefna hins opinbera frá afskiptaleysi því, sem nú ríkir, yfir í markvissa forustu til þess að draga úr sígarettureykingum. Við leggjum megináherzlu á, að mestum hluta þeirrar baráttu, sem fyrir höndum er í þessum efnum, verði beint að skólum, þar sem unglingarnir eru, sú kynslóð, sem nú er að vaxa upp í landinu og bráðum tekur við af okkur, og þeim verði gert það vel ljóst, hversu hættulegt það getur verið að byrja á því að fikta við sígarettureykingar, og að auðveldara sé að byrja þann leik aldrei en að reyna að hætta, þegar menn hafa vanið sig á þetta eitur.

Ég held, að það sé ekki úr vegi að enda þessi fáu orð með því að vitna til ræðu, sem haldin var á þingi því, sem ég gat um í New York, en hún hafði mikil áhrif á þingfulltrúa. Þessa ræðu flutti maður, sem öllum hér inni er af afspurn kunnur, Robert Fitzgerald Kennedy, fyrrverandi öldungadeildarþingmaður í Bandaríkjunum. Hann sagði m.a. um þetta efni:

„Á hverju ári deyja fleiri Bandaríkjamenn af völdum sígarettureykinga en féllu í heimsstyrjöldinni fyrri, Kóreustríðinu og í Víetnam. Og næstum eins margir og féllu í allri heimsstyrjöldinni síðari. Á hverju ári deyja fimm sinnum fleiri Bandaríkjamenn af völdum sígarettureykinga en farast árlega í umferðarslysum í Bandaríkjunum. Á hverju ári deyja jafnmargir úr krabbameini í lungum og farast úti á vegum. Sígarettur hefðu verið bannaðar með lögum fyrir mörgum árum, ef ekki kæmi til hið gífurlega fjármálavald tóbaksframleiðenda. Ef auður sígarettuframleiðenda væri svipaður og þeirra, sem framleiða marijúana, þá væru sígarettur vissulega ólöglegar nú og sala á þeim refsiverð að lögum.“

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um till. þessa verði frestað og henni vísað til hv. allshn.