25.01.1971
Sameinað þing: 21. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (3395)

81. mál, varnir gegn sígarettureykingum

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í raun og veru þarf ekki að hafa mörg orð til viðbótar orðum frsm. um þessa till., en hún er þó svo vel úr garði gerð og skynsamlega samin, að rétt er að veita henni stuðning þegar í upphafi.

Ég varð til þess að flytja hér lítið frv. í Ed. um bann við tóbaksauglýsingum í háust. Ég hef orðið var við svo góðar undirtektir í því efni, að það er ástæða til þess að vænta þess, að nú sé fyrir hendi möguleiki á að gera átak í því að hefta útbreiðslu sígarettureykinganna. Raunverulega er þessi þáltill, svo vel samin, að að mínu mati mætti vel gera hana að lögum þegar í stað, því að hún sameinar svo mikið, að það er nauðsyn að fá kjarna hennar eða hana raunverulega alla tekna í lög.

Það fer víða hreyfing um lönd núna vegna þeirrar staðreyndar, hversu alvarlegar sígarettureykingar eru. Þá er hreyfing víða um það að draga úr reykingum vindlinga eins og hægt er, og þá beinist baráttan aðallega að því að fá ungmenni til þess að hefja ekki reykingar. Verra er viðureignar að fá menn, sem hafa reykt í mörg ár, til að láta af vana sínum. En það er líka lagt til hér í þessari þáltill. og er sérstaklega athyglisvert, að stofnaðar verði opnar deildir, sem stjórnað væri af sérfróðum læknum, og þar gefist reykingamönnum kostur á að hætta að reykja.

Núna er á hinum Norðurlöndunum uppi mjög sterk hreyfing meðal þm. um það að reyna að fá aðra landsmenn til þess að draga úr reykingum og hvetja unglinga til þess að hefja ekki reykingar, og það er meginatriðið, að við stuðlum að því, að ungmenni hefji ekki reykingar þegar á fermingaraldri eða jafnvei undir fermingu, eins og framsögumaður gat um. Þess vegna er það nauðsyn og virðingarvert, að svona till. komi fram, og hún er svo góð, — ég vil endurtaka það, — að það ætti að gera efni hennar sem fyrst að lögum.