09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

1. mál, fjárlög 1971

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Við 1. umr. um frv. til fjárlaga fyrir næsta ár gerði ég grein fyrir afstöðu minni til frv., og hv. 3. þm. Vesturl. hefur nú skýrt þær brtt., sem við flytjum sameiginlega sem minni hl. fjvn. Þegar frv. kemur nú til 2. umr., eftir að fjvn. hefur haft það til meðferðar á nærri 40 fundum, þá vil ég færa meðnefndarmönnum mínum þakkir fyrir ánægjulegt samstarf og þá sérstaklega formanni n. fyrir lipurð og samstarfsvilja.

Í frásögnum af því þingi, sem nú situr, er því æðioft haldið fram, að það beri merki þess, að kosningar til Alþ. eru á næsta leiti — þetta þing sé kosningaþing — og er þá jafnan vitnað til flutnings einstakra þm. á frv. og þáltill., sem líklegar eru taldar til þess að falla kjósendum vel í geð. Nú er það svo, að þessi frv. og þáltill. eru jafnan æðimikið í samræmi við það, sem á undan er gengið í flutningi mála fyrr á þinginu, þótt meira kunni að verða tínt til nú á þessu þingi en fyrr á kjörtímabilinu. En í raun eru það ekki aukin umsvif einstakra þm., sem bera því öruggast vitni, að kosningar séu í nánd. Öruggasta merkið um yfirvofandi kosningar er, nú sem fyrr, skyndilegur og afar tímabundinn áhugi ríkisstjórnarflokkanna á verðstöðvun, — áhugi, sem vissulega er í æðimiklu ósamræmi við stefnu og störf ríkisstj. hinn hluta kjörtímabilsins.

Stöðvunarstefna er í miklu ósamræmi við aðrar athafnir ríkisstj., sem á einum áratug hefur fellt gengi gjaldmiðilsins 4 sinnum og með stefnu sinni valdið örari verðbólguþróun en þekkzt hefur nokkurs staðar annars staðar í heiminum, nema þá kannske í einstaka ríki í S-Ameríku, þar sem fjármálaóstjórnin mun hafa komizt á enn hærra stig. Svo langþreyttur er almenningur á þessari þróun, að ríkisstj. veit, að henni duga nú ekki einstakar vinsælar þáltill. Þess vegna hefur síðustu mánuðina fyrir nær hverjar kosningar blossað upp áhugi á verðstöðvun, og sá áhugi hefur jafnan enzt nákvæmlega fram yfir kosningar. En þá hafa stjórnarflokkarnir snarlega hætt að bera sprek í stífluna, en þess í stað hleypt yfir þjóðina þeirri uppistöðu, sem safnazt hefur fyrir síðustu mánuði kjörtímabilsins. Þetta gerðist 1959, þetta gerðist 1966 og þetta er að gerast nú. Það þarf því ekki að deila um það, hvort þess sjáist merki í störfum hv. Alþ., að það dregur að kosningum, en ný sýndarverðstöðvun er hin opinbera tilkynning hæstv. ríkisstj. um kosningar til Alþ. En hún ætti vegna ítrekaðrar reynslu um leið að vera aðvörun til Alþ. um nýja efnahagskollsteypu að ári, ef þessum flokkum tekst að halda völdum, því það er engin hætta á öðru en að þá muni þeir standa verðbólgubröskurunum skil á sínu. Það er ekki ýkjalangt síðan flýta varð umr. hér á hv. Alþ. einmitt um verðstöðvunina, til þess að stuðningsmenn kosningasjóðs Sjálfstfl., þeir sem margir hverjir hafa framfæri sitt af verðbólgu, gætu átt notalega stund með foringjum flokksins. Og það fara ekki af því sögur, að þeir hafi haft áhyggjur af þessari vanalegu verðstöðvun. Þeir vita, hvaða hlutverki henni er ætlað að gegna og hve langir lífdagar henni eru ætlaðir.

Nei, kaupmenn í Reykjavík þurfa ekki að hafa áhyggjur af verðstöðvun, þótt þeir hafi lýst því yfir, að kaupmannastéttin muni ekki þola langa verðstöðvun. Verðstöðvanir hafa reynzt þeim sem eins konar umbúðir utan um jólagjöfina, innan í hafa þeir svo fengið gengislækkanir og fleiri ámóta gróðavænlegar ráðstafanir, t. d. afnám vísitölubóta á laun. Eftir verðstöðvunina 1959 kom stórfelld gengislækkun og afnám vísitölubóta á laun nokkrum mánuðum eftir kosningar. Varanlegri varð verðstöðvunin ekki þá.

Fjárlagafrv., sem flutt var verðstöðvunarhaustið 1966 rétt fyrir alþingiskosningarnar, var í nokkrum einstökum atriðum miðað við verðstöðvunina, svo sem að því er varðar auknar fjárveitingar til niðurgreiðslna, en heildarniðurstöður þess báru óumdeilanleg merki fyrri verðbólgufjárlaga viðreisnarstjórnarinnar með stórfelldri útþenslu á rekstrarliðum, sem voru í hrópandi mótsögn við alla viðleitni til þess að hamla gegn verðbólgu. Á engar rætur verðbólgunnar var skorið, enda fylgdu tvær gengislækkanir í kjölfarið. Sama er að segja um það fjárlagafrv., sem hér er til umr. Það er í nokkrum tilteknum atriðum miðað við þá tímabundnu verðstöðvun, sem nú hefur verið ákveðin, niðurgreiðslur eru auknar um 545 millj. kr. frá gildandi fjárlögum og framlag til fjölskyldubóta hækkað fyrir 3. umr. um 175 millj. kr. frá því, sem var í frv. Þessar upphæðir, að frádregnum niðurfellingum verðlagsbóta og lækkun útflutningsbóta, samtals 265 millj. kr., nema um 3.7% af heildarútgjöldunum, en að öðru leyti er fjárlagafrv. markað af afleiðingum verðbólgustefnu ríkisstj. undanfarin ár í enn ríkara mæli en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir tímabundna verðstöðvun, einkennist fjárlagafrv. fyrir árið 1971 fyrst og fremst af þeirri verðbólgustefnu ríkisstj., sem nærzt hefur á stjórnleysi í fjárfestingum, innflutnings- og verðlagsmálum. Stefnu, sem hefur haft þær afleiðingar, að með skömmu millibili hefur orðið að grípa til afdrifaríkra og harkalegra efnahagsaðgerða, vegna þess að framleiðsluatvinnuvegirnir hafa verið að komast í þrot mitt í hinum mestu góðærum, sem þjóðin hefur lifað. Þegar fjárlög voru afgreidd fyrir u. þ. b. ári, hækkuðu þau frá árinu áður um 1300 millj. kr. og það var þá langsamlega mesta hækkun, sem orðið hafði á fjárlögum á einu ári. Í íþróttum er talið, að þegar einhver garpurinn er tekinn að skara svo fram úr öðrum, að hann hefur ekki lengur neina keppni, þá dragi úr afrekum hans. Hæstv. fjmrh. hefur fyrir löngu náð því afreksstigi í hækkun fjárlaga, að hann hefur við engan orðið nema við sjálfan sig að keppa, a. m. k. ekki á innlendum vettvangi. En það virðist þó ekki standa nýjum afreksverkum hans fyrir þrifum. Fjárlagafrv. er nú við 2. umr. orðið um 3100 millj. kr. hærra en fjárlög þessa árs eða um 37% hærra en núgildandi fjárlög. Hækkunin frá árinu á undan er um 140% meiri en hún var í fyrra frá árinu þar á undan. Þrátt fyrir öll hin miklu fyrri afrek viðreisnarstjórnarinnar á þessu sviði, stendur hæstv. fjmrh. svo sannarlega ekki í neinu tvísýnu sentimetrastríði við sjálfan sig, það er nú eitthvað annað. Hækkunin ein frá fjárlögum ársins 1970 nemur nú við 2. umr. ríflega tvöfaldri fjárlagaupphæðinni árið 1961 og mun þó hækkunin hafa aukizt enn meir, þegar frv. verður endanlega samþ. Að vísu hefur uppsetningu fjárl. verið nokkuð breytt á þessum tíma, en eftir sem áður er þessi þróun geigvænleg. Þetta er árangur stjórnarflokkanna í því aðalverkefni, sem þeir töldu sig hafa tekið að sér haustið 1960, að hafa hemil á verðlagsþróuninni. Þegar alþjóðastofnanir hafa verið að gefa út skýrslur um verðbólguna í ýmsum löndum heims, hafa fundizt einhver ríki í S-Ameríku, sem hafa til þessa skákað jafnvel viðreisnarstjórninni hér á Íslandi, en ég veit sannarlega ekki, hvar það ríki finnst á jörðinni, sem á þessu ári getur státað af meir en 40% hækkun fjárlaga á einu ári.

Á undanförnum verðbólguárum hefur þróun fjárlaga einnig verið sú, að rekstrarútgjöld hafa þanizt út, en framlög til verklegra framkvæmda hafa orðið æ minni þáttur heildarútgjaldanna. Enn heldur sú þróun áfram. Af þessari gífurlegu hækkun, heildarhækkun fjárlaganna, 3100 millj. kr., hafa þeir sem sagt 10% til verklegra framkvæmda og atvinnuveganna. Er þar þó engan veginn um að ræða raunverulega aukningu sem því nemur, því hækkunin í krónutölu dugir ekki til þess að mæta rýrnandi raungildi krónunnar. Heildarupphæðir til nýrra framkvæmda hverfa því gersamlega í skuggann af útþenslu rekstrarkostnaðar á einstökum liðum fjárlagafrv. T. d. hækkar framlag ríkisins til hafnarmannvirkja og lendingarbóta úr rúmlega 78 millj. kr. í rúmlega 97 millj. eða um 19.3 millj. kr. En hækkunin til aðalskrifstofa rn. nemur um 32.5 millj. kr. á árinu. Rekstrarkostnaður þeirra hækkar úr 80.7 millj. kr. í 113.2 millj. Kostnaðurinn við skattstofur, þar sem einu sinni var lofað sérstökum sparnaði, hækkar úr 60.6 millj. í 76.2 millj. kr. eða um 15.6 millj. Og kostnaður við tollstjóraskrifstofuna í Reykjavík vex um nærri 11 millj. kr. á árinu. Þessar tölur um aukinn rekstrarkostnað ríkisembætta munu þó eiga eftir að hækka allverulega áður en afgreiðslu fjárlaga lýkur, ef rétt er, að á döfinni sé hækkun á launum opinberra starfsmanna að meðaltali um þriðjung til viðbótar 15% frá í vor og um allt að 80% hjá þeim embættismönnum, sem hæst eru launaðir.

Þjóðartekjur Íslendinga á mann hafa vegna mikilla afkasta sjávarútvegsins verið taldar með hinum hæstu í heimi. Hins vegar hafa tímalaun verið lægri hér á landi en í nokkru landi öðru með sambærilegar þjóðartekjur á mann. Og er vissulega orðið tímabært, að hlutur launþega úr þjóðartekjunum hækki frá því, sem hann hefur verið. Verulegur hluti opinberra starfsmanna er lágt launaður, og því ekki nema eðlilegt að sjá svo um, að þar verði um launabætur að ræða. En þegar stjórnarvöld taka nú loks að viðurkenna, að hlutur launþega úr þjóðartekjunum hefur verið of rýr, þá mun sú viðurkenning að sjálfsögðu hafa þau áhrif, að launakröfur þeirra, sem erfiðustu framleiðslustörfin vinna, þ. e. a. s. sjómanna, muni nú við kjarasamninga, sem þeir standa í, njóta meiri skilnings en þær hafa átt að mæta undanfarin ár, þegar löggjafanum hefur sérstaklega verið beitt til þess að skerða hlut sjómanna. Þegar skilningur ráðamanna virðist nú loks vera að vakna á því, að laun eru of lág í landinu, þá er þess vissulega að vænta, að sjómönnum og öðrum þeim, sem mikilvægustu framleiðslustörfin vinna, verði tryggð svo rífleg laun, að sótzt verði eftir þeim störfum, sem eru undirstaðan undir allri þjóðarframleiðslunni.

Bætt tækni og stóraukið afurðaverð hefur aukið þjóðartekjur Íslendinga verulega á undanförnum árum. Sú kynslóð, sem nú er á bezta aldri, hefur vissulega lagt hart að sér til að ná þessum árangri, enda notið hans á ýmsan hátt. Grundvöllinn lagði þó sú kynslóð, sem er að hverfa af starfsvettvangi og lifir nú sín elliár. Hversu miklu af hinni auknu verðmætasköpun hefur yngri kynslóðin getað séð af til hinnar eldri, þeirrar, sem komin er á ellilaunaaldurinn? Hafa ellilaunin hækkað í samræmi við auknar þjóðartekjur s. l. áratug? Því fer fjarri. Ætli staðreyndin sé ekki sú, að af aukningu á aflafé þjóðarinnar hafi svo til ekkert farið til raunverulegrar hækkunar á ellilaunum á þessu tímabili.

Ákvæði almannatryggingalaga um heimild til að greiða uppbót á ellilífeyri, ef ellilífeyrisþegi kemst ekki af án hækkunar, hefur einkum verið notað til þess að gera vistmönnum á elliheimilum kleift að greiða dvöl sína þar, því ellilaunin sjálf duga hvergi nærri til þess. Með þessari uppbót hefur orðið að hækka ellistyrkinn nú síðast úr 120% í 125%, til að hann dugi fyrir dvalarkostnaði á elliheimili, sem nú nemur 10200 kr. á mánuði. Hver hefur þá verið hlutur þeirra, sem reynt hafa að búa í heimahúsum og verða flestir hverjir að láta sér duga einfaldan ellilífeyri, sem í dag nemur 4259 kr. á mánuði? Í Danmörku fær gamla fólkið, sem litlar eða engar tekjur hefur, í ellilífeyri 9700 kr. á mánuði miðað við ísl. kr. Þessi þróun hefur orðið á sama tíma og stjórnarvöldin stæra sig af verulega auknum þjóðartekjum á hvern mann í landinu undanfarin ár.

Það er út af fyrir sig vissulega ánægjulegt, að fjölskyldur í landinu hafa nú fengið 84% hækkun fjölskyldubóta með einu barni og um 45% hækkun með hverju barni úr því. Var vissulega þörf á hækkun, þegar haft er í huga, að kaupmáttur bótanna er, miðað við vísitölu vöru og þjónustu, með þeirri hækkun heldur lægri en fyrir 10 árum. Og það ætti að lýsa traustri greiðslugetu ríkissjóðs, ef rétt er, að stjórnarvöldin séu u. þ. b. að hækka laun æðstu embættismanna ríkisins um allt að 80%. Á sama tíma er boðuð aðeins 8.2% hækkun á bótum lífeyristrygginganna, annarra en fjölskyldubóta, frá næstu áramótum, einungis til að mæta rýrnun á kaupmætti þeirra síðasta hálfa árið. Enn dragast því ellilaunin og örorkubæturnar aftur úr í launakerfi þjóðarinnar. Þrátt fyrir 3100 millj. kr. hækkun fjárlaga á næsta ári, er ekki gert ráð fyrir, að ein einasta króna fari til raunverulegrar hækkunar á þessum bótum. Hagur þeirra, sem hafa ekki annað en ellilaunin eða örorkubætur að lifa af, hefur verið látinn sitja á hakanum á tímum aukinnar þjóðarframleiðslu og hvaðeina annað hefur verið látið sitja fyrir á fjárlögum ríkisins. Á þessu þarf að verða gagnger breyting. Þjóð, sem framleiðir svo mikil verðmæti á hvern íbúa sem Íslendingar, má ekki una því lengur að láta þá þjóðfélagsþegna, sem komnir eru á elliár, búa við svo skarðan hlut sem nú er. Lífskjör þeirra, sem hafa einungis elli- eða örorkulífeyri sér til lífsframfæris, eru í svo hrópandi ósamræmi við lífskjör þeirra, sem fulla starfsorku hafa að það er siðferðileg skylda þjóðar, sem hækkar fjárlög ríkisins um rúml. þrjá milljarða á einu ári, að hækka þennan lífeyri svo að um muni, og það er furðuleg lítilþægni hjá Alþýðublaðinu þessa dagana að blása sig út af sjálfsánægju, vegna þess að bætur lífeyristrygginga eiga frá næstu áramótum að hækka um 8.2%, til þess að þær beinlínis lækki ekki að kaupgildi, vegna verðlagsbreytinga, sem orðið hafa frá 1. júlí s. l. Ef vel á að vera, þarf ellilífeyrir að tvöfaldast frá því, sem hann er nú, og sé það ekki talið kleift í einum áfanga, þá verður að setja þeirri framkvæmd ákveðið tímamark og ná því marki í áföngum. Til þessa hafa allar aðrar framkvæmdir og ráðstafanir verið látnar sitja í fyrirrúmi og síðan, þegar bezt lætur, athugað, hvort eitthvað er eftir af fjármagni til að veita til umbóta í tryggingamálum. Þessu þarf að snúa við. Það verður að láta aðra hluti í þjóðfélaginu aðlaga sig þeirri ákvörðun, að elli- og örorkulífeyrir nægi til að greiða eðlilegan framfærslukostnað. Stjórnarvöldin þurfa tæpast að óttast, að almenningur muni kveinka sér undan þeim útgjöldum, sem fylgja þeirri ákvörðun að auka svo að um munar nú þegar og tvöfalda á tilteknum tíma þær bætur, sem lakastar eru í tryggingakerfinu, elli- og örorkulífeyrinn. Slíkri ákvörðun yrði án efa mætt með skilningi og jafnvel með öllu meiri skilningi en þeirri staðreynd, að stjórnarvöldin telja ástæðu til þess nú, að allt að því tvöfalda laun þeirra embættismanna ríkisins, sem hæst hafa launin fyrir. Ríkisstj. hefur með stefnu sinni rænt það með verðbólgu undanfarinn áratug og hefur með afgreiðslu hverra fjárlaga þurft að krefjast hundraða milljóna króna, og nú 3100 millj. kr., í auknar skattgreiðslur, til þess að standa undir útþenslunni í rekstrarkostnaði ríkiskerfisins. Ríkisstj., sem gerir að keppikefli stefnu, sem hefur slíkar afleiðingar, mun seint telja sig hafa efni á því, að láta elli- og örorkulífeyrisþega hljóta sinn hlut af auknum þjóðartekjum. Hvað þá enn ríflegri hlut. Grundvallarskilyrði þess, að mannsæmandi afstaða verði tekin til þessara þjóðfélagsþegna er því það, að óðaverðbólgustefnu ríkisstj. verði hnekkt og valdatíma hennar ljúki sem fyrst.

Stefna stjórnarflokkanna, sem leitt hefur af sér óðaverðbólgu við hverja gengisfellinguna eftir aðra, hefur á hinn margvíslegasta hátt mismunað þegnunum. Og má þar sérstaklega minna á, hvernig mörg þau sveitarfélög úti á landi, sem ráðizt hafa í hafnargerðir fyrir erlent lánsfé, hafa verið leikin. Á sama tíma og verzlunarstórhýsi eru reist í Reykjavík fyrir innlent lánsfé, sem greitt er til baka með smærri og smærri krónum með hverri gengislækkun, hefur fólkið í þorpunum úti á landi, fólk, sem vinnur svo til allt að gjaldeyrisöflun fyrir þjóðarbúið, orðið að kosta sjálft með útsvörum ríflegan hluta þeirra hafnarmannvirkja, sem nauðsynleg eru til þess að kleift sé að nota vinnuafl þess við framleiðslustörfin, — svo að þeir, sem verzlunarstórhýsin hafa reist, geti fengið þann gjaldeyri, sem þeir þurfa til þess að geta grætt í þessum húsum sínum. Við hverja gengislækkun, sem minnkar skuldirnar á verzlunarhúsunum, hækka svo hafnarlánin í krónutölu og verða óviðráðanleg fámennum sveitarfélögum. Þessar hafnir eru fiskiskipahafnir, en til Reykjavíkurhafnar renna gjöldin af svo til öllum innflutningi landsmanna, gjöld, sem fólk úti á landsbyggðinni sem aðrir verður að greiða í vöruverðinu. Hlutur ríkissjóðs í kostnaði við tilteknar hafnarframkvæmdir hefur að vísu verið aukinn, en ég held, að það hljóti að fara að verða hverjum manni ljóst, að það verkefni, að byggja nauðsynleg hafnarmannvirki í verstöðvum úti á landi, til þess að sjómönnum á þessum stöðum sé kleift að vinna þau störf, sem eru undirstaða þjóðarbúsins, er óskipt verkefni ríkisins, þjóðarheildarinnar, en ekki að neinu leyti sérverkefni þess fólks, sem þar leggur fram vinnu sína til gjaldeyrisöflunar fyrir þjóðarbúið dag hvern. Slíkar framkvæmdir eiga að greiðast að fullu úr sameiginlegum sjóði landsmanna, a. m. k. ekki síður en rándýrar vegaframkvæmdir langt inn í bæjarland Reykjavíkur, sem Vegasjóður kostar nú að fullu.

Það ár, sem nú er brátt liðið hefur verið þjóðinni gjöfult ár. Aflabrögð hafa verið með eindæmum og afurðaverð farið hækkandi allt til þessa dags. Og tekjur ríkissjóðs eru í samræmi við það. Það ætti því ekki að vera erfitt að koma saman fjárlögum nú í slíku árferði, sem er ekkert meðalárferði heldur langt fram yfir það. En það er reynsla þjóðarinnar af hæstv. ríkisstj., að þegar þjóðartekjurnar hafa fallið úr hæsta toppi niður í meðaltal fyrri ára, hefur óðar skollið á atvinnuleysi um land allt, þegar hins vegar, eins og nú, betur árar, þá flæða verðhækkanirnar hömlulaust yfir og allt fer úr böndunum og grípa verður til sérstakra efnahagsráðstafana mitt í góðærunum. Þessi reynsla af stefnu ríkisstj. er rækilega staðfest nú. Í mesta góðæri í sögu þjóðarinnar, þegar auðveldara var en nokkru sinni fyrr að hækka kaup launafólks, a. m. k. upp í það raungildi, sem það áður hafði haft, þá er þeim launabótum mætt með flóði verðhækkana, þar til í algert óefni er komið og ríkisstj. sér ekki annað fært vegna kosninganna á næsta ári en að grípa til verðstöðvunar. (Forseti: Ætlunin var að fresta fundi nú kl. hálffimm. Ég vildi spyrja hv. ræðumann, hvort hann ætti mikið óflutt af sinni ræðu.) Ég á svona 5–10 mínútur eftir. Ég gæti haldið áfram þess vegna.

Þrátt fyrir nær 40% hækkun fjárlaga rúmast þó ekki framlag til þess, að verðstöðvunin geti haldizt allt fjárlagaárið, ef þeir, sem með völdin fara á næsta sumri, kysu að halda henni áfram allt árið, né heldur er þá í staðinn gert ráð fyrir framlagi til greiðslu þeirra verðlagsbóta á kaup, sem ríkissjóður yrði að greiða, ef verðstöðvun yrði afnumin áður en fjárlagaárinu lyki. Þannig er fjárlagafrv. lagt fram til 2. umr. án þess að endar nái saman að þessu leyti.

Vegna eindæma aflabragða og stórhækkaðs afurðaverðs verður verðmætasköpunin í landinu meiri á þessu ári en nokkru sinni fyrr. Ef íslenzka þjóðin byggi við stjórnarstefnu, sem markaðist af skipulags- og félagshyggju, hefði nú verið fyrir hendi eitt stórfelldasta tækifærið í sögu hennar til sérstakra átaka í þágu landsmanna allra. En markmið stjórnarflokkanna er ekki það að miða notkun afrakstursins við sameiginlega hagsmuni landsmanna allra. Gróðahyggja einstaklinganna er látin sitja í algeru fyrirrúmi. Eina matið, sem stjórnvöldin leggja á nauðsyn uppbyggingar og framkvæmda, er það, hvort unnt sé að skapa einhverjum gróða. Í slíku mati er verzlunarhöll mikilvægari en skóli, bankaútibú mikilvægara en sjúkrahús. Á sama tíma og framlögum til uppbyggingar og framkvæmda á fjárlögum ríkisins er haldið í lágmarki er tekið í notkun hér í Reykjavík nýtt verzlunarhúsnæði, sem mælt er í dagsláttum, og Morgunblaðið segir í Reykjavíkurbréfi s. l. sunnudag, að almenningur geti glaðzt. Þessi dagslátta mammons teljist til þjóðareignar. Þ. e. a. s. það fé, sem fjáraflamönnum áskotnast úr vösum annarra þjóðfélagsþegna og fyrir sérstakan aðgang að innlendu lánsfé, segir Morgunblaðið, að sé fé íslenzku þjóðarinnar og eignin hluti þjóðareignarinnar. Þannig eiga þeir landsmenn, sem búa við ófullnægjandi skólahúsnæði, ónógt sjúkrahúsarými og jafnvel skort á viðunandi vegakerfi að gleðjast yfir því, að þótt góðærið mikla hafi ekki gert þjóðinni kleift að vinna átak til úrbóta á þessum sviðum, þá er þjóðareignin samt að aukast suður í Reykjavík og þeirra hlutur þá um leið, svo að ekki hafa nú máttarvöldin litið alveg fram hjá þeim.

Þeir flokkar, sem byggja stefnu sína á því sjónarmiði, að gróðavon einstaklinga eigi að vera hreyfiaflið í þjóðfélaginu, hafa fyllilega gefið ákveðnum aðilum aðstöðu til að nýta til gróðaöflunar þá verðbólgu, sem af þessari stefnu hefur leitt. En að sama skapi hefur þessi stefna gert ríkissjóði ókleift að nýta aukna verðmætasköpun þjóðarinnar til sameiginlegra átaka fyrir allan almenning í landinu. Þrátt fyrir hundruð millj. kr. hækkun fjárlaga hvert eitt undanfarið ár, og nú 3100 millj. kr. hækkun, er ekki rúm fyrir slíkar ráðstafanir, allt hverfur í verðbólguhítina. Þrátt fyrir hækkun fjárlaga á einu ári um rúml. þrjá milljarða fer ekkert raunverulega til aukinna verklegra framkvæmda og ekkert til nýrra félagslegra átaka. Þær verklegu framkvæmdir ríkisins, sem eitthvað kveður að um þessar mundir, lagning varanlegra akbrauta í nágrenni Reykjavíkur, eru unnar fyrir erlent lánsfé.

Hefði stjórnarstefnan á undanförnum árum verið byggð á skipulags- og félagshyggju í stað ræktunar verðbólgu, þá hefði slíkt árferði, sem nú er, verið gullið tækifæri til sérstakra stórátaka ríkisins, sem þjóðin verður nú af, því vegna verðbólgunnar eru allar auknar ríkistekjur gleyptar í útþenslu rekstrarkostnaðarins. Það ætti því að vera þjóðinni ljóst, í alþingiskosningunum næsta sumar, að það er ekki nóg, að árferðið sé hagkvæmt, aflabrögð góð og afurðaverð hátt, til þess að slíkar ytri aðstæður nýtist þjóðinni sem heild, landsmönnum öllum, hvar sem þeir búa, en ekki einstökum fjáraflamönnum. Það þarf að verða grundvallarbreyting á þeirri stjórnarstefnu, sem ríkt hefur í landinu undanfarinn áratug.