05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í D-deild Alþingistíðinda. (3415)

37. mál, fiskileit og fiskirannsóknir

Frsm. (Bragi Sigurjónsson):

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til afgreiðslu, fjallar um fiskileit og fiskirannsóknir í Húnaflóa. Hún er flutt af hv. 8. landsk. þm., Steingrími Pálssyni. Allshn. Sþ. hefur fengið þessa till. til umsagnar og sent hana til athugunar bæði Fiskifélagi Íslands og Hafrannsóknastofnuninni, sem bæði mæla með till., en Hafrannsóknastofnunin vill benda á bæði í sambandi við þessa till. og ýmsar aðrar, sem liggja fyrir Alþ„ að til þess að hún geti annað öllum þeim óskum, sem koma fram frá hv. þm. á Alþ. varðandi leit að fiski og rækju o.fl. kringum allt land, þá mætti Alþ. muna eftir því að veita meira fé til stofnunarinnar.

Að athuguðu máli leyfði n. sér að gera tilteknar breytingar á till., og eru þær gerðar í samráði við flm. Eins og stendur í nál., er bætt inn í, á eftir orðunum fiskirannsóknir í Húnaflóa: „og annars staðar fyrir Norðurlandi“, og í lokin: „verði einnig rannsakað, hvort hagkvæmt gæti verið að koma upp fiskirækt eða fiskuppeldi í Húnaflóa og annars staðar í fjörðum norðanlands.“ Með þessum tilteknu breytingum, sem fylgja á þskj„ leggur n. til, að till. verði samþ.