21.10.1970
Sameinað þing: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 39 í D-deild Alþingistíðinda. (3419)

28. mál, strandferðir

Flm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt fjórum öðrum þm. af Austfjörðum og Vestfjörðum flutt hér till. um strandferðir, en í tillgr. segir:

„Alþingi ályktar að leggja fyrir ríkisstj. að láta gera áætlanir um smíði og rekstur strandferðaskips til farþegaflutninga.“

Till. um þetta efni hefur verið flutt áður hér á hv. Alþ. oftsinnis, og hv. þm. er málið vafalaust vel kunnugt, svo að ég get þess vegna komizt af með frekar stutta framsögu.

Skipaútgerð ríkisins er orðin nokkuð gamalt fyrirtæki. Það byrjaði smátt, eins og fleiri fyrirtæki hér á landi. Um skeið var Skipaútgerðin það vel skipum búin, að hún hafði til umráða sex skip, eitt olíuflutningaskip, tvö stærri skip, sem voru jöfnum höndum ætluð fyrir farm- og farþegaflutninga, tvö minni skip til vöruflutninga eingöngu eða fyrst og fremst og loks eitt minna skip, sem var sérstaklega sniðið fyrir Vestmannaeyjaferðir og Hornafjarðar. Þegar þessari uppbyggingu var lokið eða í þann mund, gerðist svo það, sem öllum er kunnugt, að flugið ruddi sér til rúms og með mjög skjótum hætti og öll aðstaða varðandi fólksflutninga gerbreyttist. Varðandi Skipaútgerðina var ekki brugðizt við á þann hátt að samhæfa skipakost hennar og aðstöðu þessu nýja fyrirkomulagi. Þvert á móti er hægt að segja, að starfsemi Skipaútgerðarinnar væri brotin niður, m.a. með því að selja skipin, áður en önnur komu í staðinn, og að gera ekkert til þess að aðskilja farmflutninga og farþegaflutninga í samræmi við breyttar kröfur í farþegaflutningunum og einnig með því, að alls ekkert eða nálega ekkert var gert til þess að bæta úr aðstöðu Skipaútgerðarinnar í Reykjavík til þess að annast meðferð vöru. En bara þetta út af fyrir sig háði starfseminni mjög. Þessa sögu ætla ég ekki að rekja frekar. Við, sem á ströndinni búum, teljum þetta sorgarsögu.

Nú hefur aftur á móti verið tekið til við þann þáttinn, sem að vöruflutningunum snýr. Snúizt hefur verið við þeim þætti með því að láta byggja hér innanlands tvö ágæt vöruflutningaskip. Aftur á móti virðist mér það liggja í loftinu, og ég veit a.m.k. ekki betur en að ekkert sé áformað um aðgerðir í sambandi við farþegaflutninga á sjó. Esja og Hekla hinar eldri voru mjög myndarleg skip. Að þeim var mikið öryggi fyrir strandbyggðirnar, og þær veittu þeim mjög mikilsverða þjónustu. Með þessum skipum var búið að byggja upp hringferðir að sumarlagi fyrir skemmtiferðafólk, innlent jafnt sem erlent, og þær ferðir nutu orðið mjög mikilla vinsælda, enda þótt þær væru bæði byggóar upp með skipum, sem voru orðin nokkuð gömul og ekki fyllilega nýtízkulega búin, og byggðar upp með skipum, sem ekki gátu — ekki heldur í þessum sérstöku ferðum — látið þjónustu við farþegana vera einráða um tilhögun, heldur urðu einnig að taka nokkurt tillit til vöruflutningahagsmunanna. En þrátt fyrir það voru þessar ferðir mjög vinsælar, og mátti segja, að upppantað væri í þær fyrir fram á síðustu misserunum, sem þær voru reknar.

Það er skoðun mín og okkar, sem flytjum þessa till., að þegar farþegaflutningar á sjó hafa raunverulega verið dæmdir úr leik af hálfu stjórnarvalda, þá sé það gert á röngum forsendum. Sú reynsla, sem hægt var að byggja á, var eingöngu bundin við skip, sem voru jöfnum höndum byggð fyrir vöruflutninga og farþega, og þá með þeim afleiðingum, að viðkoma eða viðdvöl á einstökum höfnum gat farið upp í eitt dægur vegna lestunar og losunar, þar sem mest var að gera. Það er því ekki nema að takmörkuðu leyti hægt að draga ályktanir af þessari reynslu um það, hvort eðlilegt sé og réttmætt að halda uppi myndarlegu farþegaskipi til siglinga umhverfis landið. Við lítum svo á, að enn þá séu mikil verkefni fyrir myndarlegt farþegaskip og þá fyrst og fremst tvíþætt. Annars vegar það að þjóna strandbyggðum, alveg sérstaklega á Austfjörðum og Vestfjörðum, á þeim árstímum, þegar samgöngur á landi eru erfiðastar. Slík þjónusta mundi auðvitað veita hvort tveggja í senn, tengingu þessara svæða við aðalþéttbýlissvæði landsins, og hins vegar, og það er ekki lítið atriði, mjög mikilsverða tengingu á milli hinna ýmsu þéttbýlisstaða á þessum svæðum, á milli þeirra innbyrðis. Menn kunna að deila um það, hvort það sé réttlætanlegt að veita þessa þjónustu, jafnvel þó að það kynni að verða einhver halli á slíkum rekstri út af fyrir sig. Og eins og ég sagði áðan, þá er engin reynsla af svona starfsemi, þannig að það er í raun og veru ekki hægt að fullyrða um það fyrir fram, hvernig hún kæmi út. En um hinn þáttinn, starfsemina að sumarlagi, má slá því föstu, að úr því að ferðirnar með gömlu skipunum voru svo vinsælar sem raun bar vitni, þá yrðu ferðir með nýrra skipi, sem að sumrinu þjónaði eingöngu hagsmunum skemmtiferðafólks, þá hlytu þær að verða mjög notaðar. Annað má telja útilokað, einkum þegar það þá einnig er haft í huga, að ferðamannastraumurinn til landsins vex hröðum skrefum og einnig ferðalög manna innanlands. Það kann auðvitað að vera, að þegar til kæmi með rekstur slíks skips, kynnu að koma þau tímabil árlega, þar sem ekki væri full þörf fyrir farþegaskip á ströndinni, ég skal ekki taka fyrir það. En ég álít, að það ætti þá að vera hægt að finna önnur verkefni fyrir nýtt og vel búið skip, finna verkefni fyrir það annars staðar.

Ég vil að lokum minna á það, að hjá Norðmönnum, sem hafa einna líkastar aðstæður og við af þeim þjóðum, sem við höfum verulegar spurnir af, eru núna uppi ráðagerðir um að aðskilja miklu meira en verið hefur farm- og farþegaflutningana. En það eru áreiðanlega engar ráðagerðir uppi um það hjá Norðmönnum — og ég vil segja hjá engri þjóð, sem býr við líkar aðstæður og Íslendingar og Norðmenn, að þjóðin er dreifð víðs vegar á langri strönd með góðum höfnum, — það eru áreiðanlega hvorki þar eða nokkurs staðar annars staðar undir slíkum kringumstæðum uppi ráðagerðir um það að leggja með öllu niður farþegaflutninga á sjó. Og ég vil aftur minna á það alveg sérstaklega, sem ég hef þegar vikið að, með ferðamennina, innlenda og erlenda, að það virðist ákaflega vafasamt, að á sama tíma og stefnt er að því að margfalda ferðir erlendra manna til Íslands og á sama tíma og verið er að vinna að því, að menn geti jöfnum höndum eytt sumarleyfinu í ferðir innanlands, þá sé þessi þáttur samgangna alveg lagður niður. Ég segi það að lokum, að mér og okkur, sem flytjum þessa till., finnst það algert lágmark, sem í till. felst, að ríkisstj. láti gera áætlanir um smíði og rekstur strandferðaskips til farþegaflutninga og síðan yrði málið þá skoðað nánar, áóur en endanlegar ákvarðanir yrðu teknar.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til, að þessari till. verði vísað til hv. allshn.