05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í D-deild Alþingistíðinda. (3423)

28. mál, strandferðir

Frsm. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um þessa till. og sent hana til umsagnar nokkrum aðilum. Eftir að hafa kynnt sér svör þeirra og rætt málið að öðru leyti, varð n. ásátt um að leggja til, að till. yrði samþ., með lítils háttar breytingu þó, sem liggur hér fyrir á þskj. 381. En það felst í þeirri breytingu, að úr tillgr. verði fellt orðið smíði. Segir í tillgr. eins og við fluttum hana, flm., að „Alþ. álykti að leggja fyrir ríkisstj. að láta gera áætlanir um smíði og rekstur strandferðaskips til farþegaflutninga“, en allshn. hefur lagt til, að till. orðist þannig: „Alþ. ályktar að leggja fyrir ríkisstj. að láta gera áætlun um rekstur strandferðaskips til farþegaflutninga.“ Ég er meðnm. mínum þakklátur fyrir þessa afgreiðslu málsins. Ég tel þessa breytingu ekki skipta máli, því að vitanlega gera menn ekki rekstraráætlun öðruvísi en að kynna sér stofnkostnaðinn einnig.

Ég og meðflm. mínir höfum flutt hliðstæðar till. þessari á þremur þingum áður. Þær hafa ekki hlotið afgreiðslu. Áður hafði Halldór Ásgrímsson alþm. flutt till. í þessa stefnu, svo að það er kannske ekki óeðlilegt, þó að manni þyki betur, að málið fær nú jákvæðar undirtektir.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef áður lýst hér, þegar ég hef gert grein fyrir þessum till., að fyrir þjóð með aðstöðu Íslendinga, þjóð, sem býr á langri strandlengju, sé það nánast útilokað að fella farþegaflutninga á sjó með öllu úr samgöngukerfinu. Og ég vona, að það eigi eftir að sýna sig að lokinni nauðsynlegri rannsókn, að grundvöllur sé fyrir þeirri starfsemi, sem þessi till. fjallar um.