09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í B-deild Alþingistíðinda. (344)

1. mál, fjárlög 1971

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég flyt hér eina brtt. við 2. umr. fjárl. Ég ætla að leyfa mér að gera grein fyrir henni með örfáum orðum, en ekki að blanda mér í þær umr. um fjármál ríkisins, sem hér hafa af eðlilegum ástæðum farið fram og standa yfir.

Till. sú, sem ég flyt, er prentuð á þskj. 220 og meðflm. minn að henni er hv. 4. þm. Sunnl. Hún fjallar um framlag til gæzluvistarsjóðs, það framlag verði tvöfaldað, hækkað úr 8.3 millj. kr. í 16.6 millj. Þetta mál, málefni gæzluvistarsjóðs og áfengissjúklinga, hef ég svo oft rætt hér, að það má segja, að það sé að bera í bakkafullan lækinn að endurtaka þær ræður og áheyrendur eru með færra móti, svo að ég skal reyna að stytta mál mitt. En ég vil þó nota tækifærið til þess að rifja upp fyrir hv. þm. það ástand, sem skapazt hefur í málefnum drykkjusjúklinga á undanförnum árum. Það var árið 1964, sem ný lög voru sett um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra. Í þeim lögum er gert ráð fyrir því annars vegar, að það sé farið með ölvaða menn á sjúkrahús, sem séu til þess fær að veita þeim viðtöku, og í II. kafla er gert ráð fyrir því, að á geðsjúkrahúsi ríkisins og síðar á móttökudeild þess, er byggð verður, skuli vera unnt að veita drykkjusjúklingum meðferð og framkvæma á þeim nauðsynlegar rannsóknir. Í þessu skyni, segir í l., skal auka sjúkrarými stofnananna, svo að unnt verði að vista þar drykkjusjúklinga til skammrar sjúkrahúsmeðferðar. En í tengslum við geðsjúkrahúsið á að rísa lækningastöð fyrir þá, sem ekki þarfnast innlagningar, enn fremur til eftirmeðferðar þeirra, sem inn hafa verið lagðir, og í tengslum við geðsjúkrahúsið á að reisa og reka sérstök hæli til meðferðar þeirra, sem ekki er talið, að veitt verði viðhlítandi meðferð á annan hátt. Ekkert af þessu hefur komizt til framkvæmda á þeim 6 árum, sem liðin eru síðan l. voru sett. Jafnhliða því að kveða á um byggingu þessara stofnana, er í l. sérstakur tekjustofn ætlaður til þessara framkvæmda. Af ágóða Áfengisverzlunar ríkisins á að greiða til svokallaðs gæzluvistarsjóðs 7.5 millj. kr. ár hvert. Sjóðurinn hefur það hlutverk að standa undir kostnaði af framkvæmd laga þessara og þá fyrst og fremst að auka og reisa stofnanir þær, sem um getur í 4. og 9. gr. l., það eru þær stofnanir, sem ég var að gera grein fyrir. Þegar þessi lög voru upphaflega sett, var hér allrausnarleg fjárveiting á ferðinni. Þá voru 7.5 millj. kr. um það bil 2.3% af ágóða Áfengisverzlunar ríkisins. Þessi sjóður fær enn þá 7.5 millj. kr. á ári, en ágóði Áfengisverzlunarinnar hefur hækkað úr 320 millj. í 730 millj. miðað við s.l. ár. Og 1969 var hlutur sjóðsins tæplega 1% af tekjustofninum. Ef hlutfallinu hefði verið haldið, hefðu tekjur sjóðsins 1969 átt að vera 16.8 millj. kr., ef það væru árlegar tekjur sjóðsins, mundu þessi hæli rísa fljótt, ef þeirri stefnu hefði verið haldið, sem mörkuð var 1964, þá væru þessi hæli trúlega komin. Þetta ár, 1964, þegar l. voru sett, voru niðurstöðutölur fjárl. 2242 millj. kr. Það fjárlagafrv., sem hér er til umr., er fimm sinnum hærra, 11 536 millj. kr.

Ég hef á tveim s. l. þingum flutt sérstakt frv. um þetta mál, þar sem ég hef lagt til, að tekjur gæzluvistarsjóðs verði til frambúðar ákveðnar þannig, að hann hafi einhverja möguleika á því að rækja hlutverk sitt, og tiltekið 2.5% af tekjustofninum sem hæfilega greiðslu til gæzluvistarsjóðsins. Þegar þetta frv. var flutt fyrst á s. l. þingi, þá var það ekki afgreitt. Ég gerði þá tilraun til þess við afgreiðslu fjárl. að fá tillagið hækkað um 5 millj. kr. Sú till. var felld. Þegar ég flutti þetta frv. aftur nú í haust, var því vísað til heilbr.- og félmn. Ed. og formaður þeirrar nefndar hefur tjáð mér, að hann hafi oft gengið á fund ráðh. til þess að mæla með því, að tillag til gæzluvistarsjóðs yrði hækkað. Þess verður að geta, sem gert er, að tillagið er samkv. frv. ákveðið 10 millj. kr. og er þar um að ræða 1700 þús. kr. hækkun frá því, sem var í fjárl. yfirstandandi árs. En þegar þess er gætt . . . (Gripið fram í.) Ég hygg, að fjárveiting yfirstandandi árs sé 8.3 millj. og sú hækkun, sem hæstv. ráðh. er að minnast á, hafi verið gerð í fyrra. En þetta skiptir ekki máli. Ég má segja, að það sé svo, að það sé á fjárl. yfirstandandi árs 8.3 millj. og hækkunin sé 1700 þús. Ég bið afsökunar, ef ég fer rangt með það, en ég hygg, að það sé þannig. Það er að vísu nokkur fjárhæð, ég er ekki að gera lítið úr því. En þegar þess er gætt, að samkv. fjárlagafrv. nú er rekstrarkostnaður drykkjumannahælisins í Gunnarsholti sem þessar tekjur hafa gengið til, áætlaður 9.5 millj. kr., þá er ljóst, að mjög lítið, varla neitt, verður til ráðstöfunar til að byggja þau hæli, sem sjóðnum er þó ætlað að reisa.

Ég hafði von um það, að hæstv. ráðh. og hv. fjvn. mundu koma rösklegar til móts við þær háværu kröfur, sem daglega má segja komi fram um aðgerðir í þessu máli, og ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því, að hv. alþm. felli þá till., sem ég hef borið fram ásamt hv. 4. þm. Sunnl. og ég er hér að mæla fyrir. Sérstaklega get ég ekki trúað því, að þeir hv. alþm., sem annars staðar hafa samþykkt áskoranir á Alþ. um a. m, k. að tvöfalda framlagið til gæzluvistarsjóðs, treysti sér til að hafa aðra skoðun á málinu, þegar til atkvgr. kemur á hv. Alþ. (Gripið fram í.) Ég þakka, ég var nýbúinn að líta í þessar tölur og taldi mig muna það rétt, en ég fullyrði það ekki nema hafa þær fyrir framan mig. Þær áskoranir, sem Alþ. hafa borizt um aðgerðir í þessum málum, koma víða að. Ég minnist sérstaklega samþykktar, sem gerð var í borgarstjórn Reykjavíkur fyrir um það bil tveimur mánuðum síðan, sem allir borgarfulltrúar þar stóðu að án tillits til flokka, og allir þeir flokkar, sem fulltrúa eiga á Alþ., eiga einnig fulltrúa þar. Með 15 atkv. var sú áskorun gerð, með leyfi forseta. Hún var send Alþ. og geymd hér í dagbók 70 nr. 49:

„17. október var samþ. í borgarstjórn Reykjavíkur að beina þeirri eindregnu áskorun til Alþ. og ríkisstj., að framlag til gæzluvistarsjóðs verði tvöfaldað á næsta ári, þannig að unnt verði þegar að hefja undirbúning að stofnun lokaðs hælis fyrir áfengissjúklinga.“

Fyrir um það bil hálfum mánuði var haldið 9. þing Landssambandsins gegn áfengisbölinu. Þar voru nokkrar samþykktir gerðar. Sú, sem skiptir máli í þessu sambandi, er, að þingið mælir eindregið með frv. á þskj. 17, eins og segir í samþykkt þess, en það er þetta frv., sem ég hef verið að gera hér að umtalsefni. Væntir landsþingið, að verði gæzluvistarsjóður efldur, eins og þar er lagt til, verði lagt kapp á að framkvæma í fyllra mæli en verið hefur ákvæði nefndra l. og einkum að því er snertir ákvæði 17. gr. l. um að reisa nauðsynlegar stofnanir. Þingið telur mikla nauðsyn, að meðal þeirra stofnana verði lokuð hæli fyrir áfengissjúklinga, konur og karla, auk móttökudeilda fyrir slíka sjúklinga, sem þurfa bráðrar meðferðar við. Ég hygg, að talsverður undirbúningur hafi þegar farið fram til byggingar slíks hælis hér í grennd við Reykjavík og það, sem vantar, sé einungis fjármagn. Ég beini þeirri eindregnu áskorun til þeirra, sem ráða því, hvernig fjárlög ársins 1971 verða, að þeir komi til móts við þessar óskir, og ég mun taka till. aftur við atkvgr. við 2. umr. í trausti þess, að þetta mál verði athugað að nýju, því að ég óttast og ég veit raunar, að verði fjárveitingin látin standa óbreytt, dugar fjármagnið ekki til byggingarframkvæmda, þá situr allt í sama farinu og þessi vandræðamál fá ekki þá lausn, sem nauðsynleg er. Ég held, að ég hafi heyrt það nú síðast í hádegisfréttum, áður en ég kom til þessa fundar, að Bandalag kvenna hafi haldið fund og þar hafi það samþykkt mjög eindregna áskorun til Alþ. og hæstv. ríkisstj. að tvöfalda framlagið til gæzluvistarsjóðs. Ef hægt yrði að koma til móts við þá beiðni, sem sett er fram á þskj. 220, þá má einu gilda að þessu sinni, hvort frv. okkar hv. 4. þm. Sunnl. fær afgreiðslu eða ekki, því að þá er tilganginum með því náð að sinni. En ég álít, að til frambúðar verði þessi mál aldrei leyst nema nú um nokkuð langt árabil geti þessi sjóður treyst því að hafa öruggan tekjustofn, sem til þess dugir að hægt sé að reisa þau hæli, sem honum er ætlað, því að málið þolir, að ég held, ekki bið. Ég veit, að hæstv. fjmrh. hefur skilning á þessum málum, og ég leyfi mér að beina þeirri ósk til hans, að hann endurskoði þessa afstöðu milli umr., og ég geri það í þeirri von, að þá verði niðurstaðan jákvæð fyrir allan þann fjölda manna, sem á um sárt að binda vegna þess sjúkdóms, sem hér er um að tefla og sem engin lækning virðist vera við.