01.04.1971
Efri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í D-deild Alþingistíðinda. (3443)

99. mál, rækjuveiðar og rækjuvinnsla

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Till. til þál. um skipulagningu rækjuvinnslu á Suðurnesjum var vísað til sjútvn., og hefur n. rætt þetta mál á tveim eða þrem fundum sínum. Till. var send til umsagnar þeim aðilum, sem talið var, að hér hefðu sérstaklega hagsmuna að gæta og efni till. ætti erindi til. Það komu svör og umsagnir um málið frá tveim eða þremur aðilum, og í þeim umsögnum, sem n. bárust frá Suðurnesjum, kom það fram, að menn eru á einu máli um það, að rækjustofninn beri að kanna sérstaklega og rannsaka, eftir því sem mögulegt er. AS öðru leyti telja menn ekki rétt að miða þá skipulagningu, sem um er rætt í till., við Keflavík eða Suðurnesin ein út af fyrir sig, heldur telja menn, að það gildi þar einu, hvort um sé að ræða skipulag varðandi fjárfestinguna í sambandi við vinnsluna í landi eða á þeim veiðitækjum, sem notuð eru til að afla hráefnisins. Það var álit sjútvn., að efnislega ætti till. þessi rétt á sér, en n. taldi hins vegar, að efni till. skyldi breytast þannig, að það væri meira almenns eðlis.

Í umsögn frá skipstjóra- og stýrimannafélaginu Vísi í Keflavík segir um þetta mál m.a., með leyfi forseta: „Við viljum benda hv. sjútvn. á, að þar sem ókannað er að okkar áliti, hve mikið veiðiþol rækjunnar er hér við land, og jafnframt allt í óvissu um, hvort rækjuveiðin hefur ekki í för með sér meira og minna óþarfa dráp á ungfiski, svo sem hrognum og ýsuseiðum, er að okkar dómi knýjandi þörf á ítarlegri rannsókn á því sviði og sú niðurstaða jafnframt höfð í huga, þegar unnið er að skipulagningu atvinnutækjanna.“

Í umsögn útvegsmannafélagsins á Suðurnesjum kemur það fram, að þeir vilja ekki einoka málið sérstaklega við Suðurnesin út af fyrir sig, en þar segir, með leyfi forseta:

„Hvað viðvíkur hömlum á uppbyggingu vinnslustöðva fyrir rækju á Suðurnesjum einum, sér félagið ekki ástæðu til, að sérstakar hömlur verði þar gerðar, vegna þess að rækjan er nú þegar flutt af Eldeyjarmiðum allt vestur til Vestfjarða, til Reykjavíkur og austur að Selfossi.“

Það er með hliðsjón af þessum umsögnum og áliti sjútvn., að hún kom sér saman um að umorða till. og afgreiðir málið eins og fram kemur á sérstöku þskj., og vil ég leyfa mér að lesa tillgr., eins og þar er lagt til, að hún verði, en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Efri deild Alþingis ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að rækjuveiðar og rækjuvinnsla verði reknar á sem hagkvæmastan hátt og fyllstu hagsýni gætt um fjárfestingu. Til að ná þessu marki skal leita samstarfs við sveitarstjórnir, atvinnurekendur og verkalýðs- og sjómannafélög á þeim stöðum, þar sem rækjuveiði er stunduð.

Jafnframt skorar deildin á ríkisstj., að hún beiti sér fyrir því, að Hafrannsóknastofnunin kanni hið fyrsta, svo sem við verður komið, hvert sé veiðiþol rækjustofnsins hér við land. Þá verði Hafrannsóknastofnuninni einnig falið að rannsaka nú þegar, hvort rækjuveiðar í þeirri mynd og með þeim veiðarfærum og stærð fiskibáta, sem þær eru nú stundaðar, valdi ekki verulegu tjóni á öðrum fiskstofnum, svo sem þorski og ýsu.“

Með þannig breyttu orðalagi leggur sjútvn. til, að mál þetta verði afgr.