17.11.1970
Sameinað þing: 10. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í D-deild Alþingistíðinda. (3449)

45. mál, skelfisk- og rækjuveiðar á Breiðafirði

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það var snemma á s.l. sumri, sem sýslunefnd Austur-Barðastrandarsýslu sótti um fjárframlag úr Fiskimálasjóði til að leita að rækju- og hörpudisksmiðum á Breiðafirði. Ólafur Ólafsson kaupfélagsstjóri í Króksfjarðarnesi hafði forgöngu um þetta mál við sýslunefndina þar. Stjórn Fiskimálasjóðs varð við þessari beiðni og veitti verulega fjárhæð í þessu skyni, enda færi leitin fram undir yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar. Stjórn Fiskimálasjóós hefur mjög oft á undanförnum árum veitt fé til skelfisksleitar, þar sem fjárveitingar á fjárlögum til þessara rannsókna hafa náð allt of skammt. Ég get nefnt sem dæmi, að Fiskimálasjóður hefur veitt Hafrannsóknastofnuninni styrk í þessu skyni. Sjóðurinn hefur veitt styrk til leitar að skelfiski, hörpudisk og rækjum í Ísafjarðardjúpi, við Arnarfjörð, við Húnaflóa, við Vesturland og Norðvesturland, við Norðausturland, við Faxaflóa, á Breiðafirði og við Austurland. Skelfisksleitin á Breiðafirði fór fram 23. júlí til 21. ágúst s.l. sumar, en ég lít svo á, að henni sé ekki lokið, því að stjórn Fiskimálasjóðs gerði það að skilyrði fyrir fjárveitingunni, að leitin stæði í tvo mánuði. En hún stóð, eins og áður er getið, í einn mánuð.

Þessi leit á Breiðafirði mun aðallega hafa beinzt að hörpudiski á þessum eina mánuði, sem hún stóð yfir. Henni var stjórnað af sérfræðingnum Hrafnkatli Eiríkssyni frá Hafrannsóknastofnuninni, en hann hafði sér til aðstoðar tvo menn af Breiðafirði nákunnuga á öllum þessum slóðum. Árangurinn af þessari rannsókn má teljast góður, því að hörpudiskur fannst á 23 leitarsvæðum víðs vegar á Breiðafirði, bæði sunnanverðum og norðanverðum. Að vísu var magnið mismunandi á þessum slóðum. En þá fannst einnig verulegt magn af öðuskel, einkum á grunnu vatni, og auk þess kúskel og báruskel á nokkrum stöðum, en lítið magn af þeim.

Það virðist ekki hafa liðið langur tími frá því, að þessum leiðangri lauk, sem ekki var nein fullnaðarrannsókn á þessum skelfiskmiðum, þar til sjútvrn. fór að veita veiðileyfi á skelfisk á Breiðafirði og þar á meðal allstórum fiskiskipum frá Faxaflóa. Og það er svo að sjá, að ásóknin í hörpudiskinn hafi verið úr hófi fram, þegar þess er gætt, að rannsóknir á hörpudisksmiðunum voru nánast á byrjunarstigi og því mjög ókunnugt um, hvað þessi mið mundu þola. Aflinn var svo að mestu fluttur til Reykjavíkur til vinnslu. Þetta hefur eðlilega valdið mikilli óánægju þar vestra, og það hefur eðlilega valdið ótta við það, að þessi nýfundnu og lítt rannsökuðu mið yrðu eyðilögð á skömmum tíma.

Nú hafa þrír hv. þm. flutt till. til þál., þá, sem hér er til umr., á þskj. 45, þar sem skorað er á hæstv. ríkisstj. að setja reglur um skelfisksveiðar á Breiðafirði og auka þar skelfisksleit. Ég vil lýsa ánægju minni með þessa till., er henni algerlega sammála, og ég tel mikla nauðsyn á, að þetta verði gert hið allra fyrsta, því að það er hægt að vinna þarna mikið tjón, ef látið er dragast að setja slíkar reglur. Eins og hv. frsm. till. nefndi réttilega hér áðan, þá getur verið mikið í húfi, að hér séu ekki eyðilögð mikilsverð mið.

Ég hef leyft mér að flytja viðbótartillögu á þskj. 55 við þessa þáltill. Hún er þess efnis, að leyfi til skelfisksveiða á Breiðafirði eigi að veita eingöngu þeim mönnum, sem eru búsettir við Breiðafjörð og landa aflanum þar til vinnslu. Hv. frsm. þessarar till. lýsti fylgi sínu við þessa brtt., og þykir mér vænt um það, enda er honum ljóst, eins og mér, hvað það getur haft í för með sér, ef ekki eru settar hér reglur, eins og bæði aðaltillagan og viðbótartillaga mín miða að.

Það hefur verið föst venja fram á þennan dag, eftir því sem ég veit bezt, að leyfi til rækjuveiða og skelfisksveiða í fjörðum og flóum hafa aðeins verið veitt þeim, sem búsettir eru í nágrenni við þessi veiðisvæði. Nefna má það sem dæmi, að á Arnarfirði, þar sem mjög lengi hefur verið stunduð rækjuveiði, hefur enginn leyfi til þess að veiða nema útgerðarmenn á Bíldudal, í þessu eina sjávarplássi við Arnarfjörð. Í Ísafjarðardjúpi mega engir veiða nema útgerðarmenn frá Bolungarvík, Hnífsdal, Ísafirði og Súðavík, þ.e. útgerðarbæjunum við Ísafjarðardjúp. Á Ingólfsfirði á Ströndum eru rækjumið, og þar má enginn veiða nema útgerðarmennirnir tveir, sem eru búsettir á Eyri við Ingólfsfjörð. Við vestanverðan Húnaflóa hafa fundizt rækjumið, og þar hafa verið stundaðar rækjuveiðar allmörg ár. Þar mega engir veiða nema útgerðarmenn frá Hólmavík, Drangsnesi og Skagaströnd, og svona ætla ég, að þetta sé allt í kringum landið. Mér kom það því mjög á óvart, að á Breiðafirði skyldi vera farið allt öðruvísi að. Auk þess að takmarka þannig veiðarnar við næsta nágrenni veiðisvæðanna, þá hefur leyfilegt aflamagn verið takmarkað, og svo var einnig um bátafjölda til skamms tíma og er kannske víða enn, að bátafjöldinn er líka takmarkaður. Í Ísafjarðardjúpi er hann þó ekki, að ég ætla, takmarkaður samkv. síðustu ákvörðun, en veiðimagnið er takmarkað. Þetta hefur allt saman verið gert til þess að vernda miðin fyrir ofveiði, en á Breiðafirði skeður það, að um leið og þar finnast hörpudisksmið, þá er allt í einu kominn þangað hópur báta sunnan úr Reykjavík og margir þeirra stórir og farnir að plægja upp hörpudiskinn, án þess að nokkur viti, hvað þessi mið þola. Þarna gerist þess vegna tvennt í senn. Annars vegar, að lítil aðgæzla er höfð í því að ofbjóða ekki þessum nýfundnu og lítt rannsökuðu skelfisksmiðum, hins vegar er ekkert hirt um atvinnuöryggi þeirra byggðarlaga, sem eru þarna í nágrenni við Breiðafjörð, þvert á móti því, sem alls staðar annars staðar hefur verið gert. Ég vona því, að hv. þd. fallist bæði á aðaltillöguna og á brtt. mína, eins og hv. frsm. hefur líka gert grein fyrir í framsöguræðu sinni, því að hér er verið að vernda mikilsverð skelfisksmið, sem enginn veit enn, hvað þola, og því getur tjón hlotizt af, ef ekki verða settar þessar reglur.

Ég sé eftir, að hæstv. sjútvrh. er ekki hér staddur í dag, þar sem þetta mál var á dagskrá og að ég held í þriðja sinn. En það er ekki hægt að gera við því. Ég vildi minna á það, að á síðasta þingi var samþ. þáltill., sem við Þorsteinn Gíslason fluttum, en Þorsteinn Gíslason var þá hér varaþm., sat hér um stund á þinginu, en hann er auk þess varafiskimálastjóri. Þessi þáltill., sem við fluttum og var samþ. svo að segja óbreytt, hljóðar svo, eins og hún var samþ. frá þinginu:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að ráðinn verði til reynslu á vegum Fiskifélags Íslands og Hafrannsóknastofnunarinnar vel hæfur erindreki, sem ferðist um landið til að glæða áhuga og kynna mönnum nýjungar við leit, útbúnað báta, veiðar og vinnslu á rækju og þá sérstaklega eins og það gerist meðal þeirra þjóða, sem lengst eru komnar á þessu sviði.“

Mér hefur verið tjáð, að það hafi ekkert verið gert í þessu máli, enginn erindreki ráðinn. En því miður er hæstv. ráðh. ekki við, svo að ég verð að láta það niður falla að ræða frekar um þetta eða fá svar við því, hvernig því víkur við, að ekkert hefur verið aðhafzt í málinu, en það kann að vera, að ég geti komið því að síðar eða þá flutt formlega fsp. um þetta í þinginu.