02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (3460)

45. mál, skelfisk- og rækjuveiðar á Breiðafirði

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef, eins og áður hefur verið getið, flutt brtt. við þessa till. Ég er þáltill. sjálfri sammála, en ég legg til, að bætt verði við hana þessari setningu: „Jafnframt ályktar Alþ., að leyfi til þessara veiða á Breiðafirði beri eingöngu að veita útgerðarmönnum, sem búsettir eru við Breiðafjörð og landa aflanum þar til vinnslu.“

Hv. frsm. gat þess áðan, að hann hefði fulla samúð með þessari brtt., en samt er það nú svo, að nm. virðast ekki hafa tekið afstöðu til hennar, þó að hún lægi fyrir strax við l. umr. málsins, að undanteknum hv. l. þm. Norðurl. e., sem mælir með þessari till. Ég held, að þetta sé alveg í samræmi við það, sem felst í umsögn sýslumannsins í Snæfeilsnes- og Hnappadalssýslu, sem fylgir sem fskj. með aðaltillögunni. Þar leggur hann áherzlu á, að sú hætta sé yfirvofandi, að verðmæti þessi, þ.e. hörpudiskurinn, verði uppurinn á skammri stund, eins og hann segir alveg réttilega. Það, sem fyrir mér vakir, er það, að upp verði tekin sama regla um hörpudisksveiðar eins og við rækjuveiðar, en sú regla hefur verið, að ég held frá upphafi, að fara með varúð í þessar veiðar, hlífa þeim svo, að ekki verði um ofveiði að ræða, og þess vegna hefur hvort tveggja verið gert: takmarkaður fjöldi veiðiskipa eða nú á síðustu tímum takmarkað veiðimagnið, sem má afla á hverjum degi eða hverri viku, og jafnframt hafa leyfin verið einskorðuð við nágrannahéruð veiðisvæðisins. Þetta er það sama sem vakir fyrir mér, að nú verði upptekið við hörpudisksveiðar.

Nú er ætlazt til þess í þessari till., að settar verði reglur um þær veiðar, eins og líka rétt er að gera, og þá væntanlega á þann hátt, að leyfi verði veitt til þeirra, alveg eins og leyfi eru veitt til rækjuveiða. Þá ætlast ég til, að sömu reglum verði fylgt um það, að heimahéruðin hafi forgangsrétt til þeirra og eingöngu rétt til þeirra alveg eins og um rækjuveiðar í því skyni að vernda þessi mið, sem er mjög fjarri, að séu nægilega rannsökuð.

Síðan þetta gerðist hefur okkur nokkrum þm. borizt bréf frá hreppsnefndinni í Flateyjarhreppi á Breiðafirði ásamt samþykkt hreppsnefndarinnar, og segir í þeirri samþykkt m.a., með leyfi forseta:

„Hreppsnefndin hefur oft áður bent á nauðsyn þess, að tekið sé tillit til sérstöðu hreppsins, sem eingöngu er byggður á eyjum, en hlunnindi þeirra eru fyrst og fremst afkomugrundvöllur íbúanna ásamt veiðum í næsta nágrenni eyjanna.“

Nú kvarta þeir undan því, að það kunni svo að fara, ef þessir íbúar njóti ekki einhverrar verndar, að byggð verði með öllu útrýmt þarna úr eyjunum, en eins og menn vita, þá lifa eyjabúar fyrst og fremst á hlunnindum, selveiði og dúntekju, en auk þess á lúðuveiði, sem þeir nefna í þessu sambandi. Ef nú verður gengið til þessara veiða á hörpudiski í viðbót við aðrar veiðar, þá eru þeir óttaslegnir um, að þeir séu í yfirvofandi hættu með atvinnulíf sitt. Í bréfi, sem oddvitinn sendir, og ég fékk með þessari samþykkt, segir m.a., með leyfi forseta:

„Ég sendi þér hér með fundarsamþykkt, sem hreppsnefndin gerði í nóv. s.l. Ég hef dregið nokkuð að senda hana, og ég vildi sjá, hvað gerðist í hörpudisksveiðinni, þó segja megi, að afleiðingarnar sæjust í upphafi, eins og að var unnið, enda er nú hægt að segja, að hreinsað hafi verið veiðisvæðið sunnan fjarðar, og er það stærst þeirra, sem vitað er um enn þá.“

Það er orðið talsvert alvörumál, ef á að hafa óheftar veiðar með öllu þarna á Breiðafirði, en eins og menn vita, þá hrúguðust skipin þangað strax og hörpudiskurinn fannst, svo að á milli 15 og 20 skip, — og það öll stór skip, — voru komin héðan sunnan úr Faxaflóa til að veiða þarna á Breiðafirði. Hér er ekki um sams konar veiðarfæri að ræða og við rækjuveiðar. Hér er um nokkurs konar plóg að ræða, sem rífur upp botninn og skelfiskinn, hörpudiskinn, og það er ómögulegt að vita, nema á örskammri stund verði eyðilögð þessi hörpudisksmið, ef ekki er fullrar varúðar gætt. Þess vegna er þessi brtt. mín flutt.