02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í D-deild Alþingistíðinda. (3462)

45. mál, skelfisk- og rækjuveiðar á Breiðafirði

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Þegar skelfisksveiðarnar í Breiðafirði byrjuðu í haust, var það fjölmennur floti, sem sótti í þær, og var allmikill fyrirgangur í þeirri veiðiaðferð í upphafi, svo að menn uggðu um, að hér væri hranalega að farið og mundi fyrr eða síðar verða búið að eyðileggja þessi mið, sem þarna höfðu fundizt. Á þessum tíma ræddi ég m.a. við Hafrannsóknastofnunina um þetta mál og spurðist fyrir um það, hvort ekki væri eðlilegt, þegar slík mið fyndust, að þeir gerðu till. til stjórnvalda um það, hvort setja ætti reglur um að nýta miðin. Forstöðumaður stofnunarinnar taldi, að þetta væri á margan hátt eðlilegt. Þeim væri þetta ekki uppálagt og hefðu ekki gert það í þessu tilfelli, enda teldu þeir, að hér væri um mikið magn að ræða og það mundi endast verulega, svo að ekki væri að óttast, þó að nokkuð væri veitt, eins og gert var í haust.

Enda þótt þá væru ekki settar reglur, lít ég svo á, að það sé nauðsyn að setja reglur um þetta, og er því fylgismaður þeirrar till. á þskj. 45, sem hér er til afgreiðslu, og tel, að nokkur reynsla hafi fengizt um þessi mál, sem geti styrkt þær reglur, sem settar kunna að verða og nauðsyn ber til að gera að minni hyggju.

Út af till. á þskj. 55 verð ég að segja það, að mér kom til hugar í haust, þegar mest var um þetta rætt, að svona till. gæti verið hugsanleg. En eftir því sem ég hef kynnt mér þetta mál betur og hugsað það meira, þá sýnist mér, að hún sé ekki framkvæmanleg. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að ef þannig væri að farið, þá væri ekki hægt nú að nýta þessi mið, vegna þess að t.d. á Snæfellsnesi er nú hvergi tekið á móti skelfiski, þar sem frystihúsin hafa ekki tekið á móti skelfiski eftir að fiskvinnsla byrjaði á vertíðinni. Þetta mundi þýða það, að þessi veiði hefði lagzt niður, ef slíkar reglur væru settar. Enn fremur hefur það komið í ljós í viðræðum við útgerðarmenn og sjómenn, að ef farið væri að setja slíkar takmarkanir eins og hér er lagt til, þá væri strax skapað fordæmi, eins og hv. 3. þm. Sunnl., Guðlaugur Gíslason, vék hér að áðan, sem ekki væri séð fyrir, hvaða enda mundi hafa. Þess vegna get ég ekki fylgt brtt. af þessum tveimur ástæðum, sem ég hef nú greint, og tel, að hún gæti skapað fordæmi, sem væri hættulegt.

Hins vegar tel ég nauðsyn bera til, að því verði fylgt framvegis að setja reglur um nýtingu slíkra nýfundinna miða, eins og hér er fjallað um, og enn fremur og sérstaklega að halda áfram að leita að nýjum miðum og nýjum fisktegundum, sem ekki hafa áður verið nýttar hér á landi, en virðist vera mikið af. Ég verð að segja það í þessu sambandi, að í mínum fyrri viðræðum við Hafrannsóknastofnunina um þessi mál var því lengi haldið fram, að rækja væri ekki finnanleg í Breiðafirði. Það hefur hins vegar sýnt sig, að hún er þar. Ég vil því leggja áherzlu á það, að frekari leit að nytjafiski verði fram haldið fyrir Vesturlandi, meira en áður hefur verið. Endurtek ég svo fylgi mitt við till., sem ég hef áður lýst.