24.11.1970
Sameinað þing: 11. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (3468)

51. mál, jafnrétti þegnanna í íslensku þjóðfélagi

Flm. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Áður en ég vík að því máli, sem hér er á dagskrá, vildi ég gjarnan koma á framfæri gagnrýni á verkstjórn hæstv. forseta í Sþ. Þegar þing hófst hér í haust, var fundartími Sþ. færður til yfir á þriðjudag með þeim rökum, að þá yrói lengri tími til þess að fjalla um mál og koma málum til nefnda. Og það var sannarlega brýn þörf á því að reyna að bæta dálítið vinnubrögðin í Sþ. En því aðeins er bót að þessu, að hér sé um raunverulega fundi að ræða, og fundur eins og sá, sem við erum staddir á hér núna, er auðvitað enginn raunverulegur þingfundur. Hér er enginn ráðh. mættur, og hér eru mættir örfáir hv. þm. Fyrir utan okkur þrjá, sem gegnum hér skyldustörfum núna, þá tel ég fimm menn í salnum. Vinnubrögð af þessu tagi tel ég vera algera óvirðingu við Alþ., og ég tel það algerlega fráleitt hjá hæstv. forsetum t.d. að halda áfram þingfundum án þess að gefa kaffihlé. Ég veiti því athygli, að jafnvel samvizkusömustu og þaulsætnustu þm. fara og fá sér kaffi, vegna þess að þeim finnst það vera ærið langur tími að sitja hér þrjá klukkutíma án þess að hreyfa sig, og það skil ég ákaflega vel. En þegar þessi háttur er hafður á störfum, hljóta hæstv. forsetar að líta svo á, að það sé mjög eðlilegt, að menn séu ekki staddir hér í þingsölunum. Hins vegar lít ég svo á, að það sé hluti af störfum þm. að taka þátt í fundum hér og hlýða hver á annan. Það er sem betur fer oft þannig, að menn leggja allmikla vinnu í þau mál, sem þeir flytja, og þm. eiga að hlýða hver á annan, hlusta á þær röksemdir, sem fluttar eru, og reyna að meta þær sjálfstætt. Ég segi fyrir mig, ég hef reynt að hafa þann hátt á að hlusta á mál manna hér í þessum þingsal, og ég hef haft af þessu mikið gagn og lært mikið af þessu. Ég beini þessu ekki að þeim hæstv. forseta, sem situr hér fyrir aftan mig, sérstaklega, en ég vildi biðja hann um að koma þessum sjónarmiðum mínum á framfæri við félaga sína einnig.

till., sem hér er til umr., till. til þál. um rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi, fjallar um stórmál. Bæði hér á landi og víða erlendis hafa á undanförnum árum orðið miklar umr. um það misrétti þegnanna, sem tengt er kynferði þeirra, að hve miklu leyti konur njóta sama raunverulegs réttar í þjóðfélaginu eins og karlar. Aðstöðu til þess að þroska hæfileika sína, afla sér menntunar, hagnýta menntun sína og starfa við hlið karlmanna og fá sömu laun fyrir sömu vinnu. Hér er vissulega ekki um neitt nýtt vandamál að ræða, en nú er það á vissan hátt kannað frá nýjum sjónarhóli af mörgum. Sú var tíð, að menn héldu, að hægt væri að tryggja jafnan rétt kvenna og karla með löggjöf einni saman, með því að setja í lög ákvæði um jafnan kosningarrétt, löggjöf um sömu laun fyrir sömu vinnu og með annarri hliðstæðri lagasetningu, sem átti að tryggja þennan formlega rétt. En nú vita menn, að þó að slík löggjöf sé vissulega forsenda jafnréttis, þá hrekkur hún engan veginn til. Eigi konur að fá sama rétt og karlar, verða að koma til fjölþættar breytingar á sjálfri gerð þjóðfélagsins. Það verður að hugsa ýmsa vinnutilhögun í þjóðfélaginu á nýjan hátt, og það verður að koma upp ýmsum félagslegum stofnunum í miklu ríkari mæli en gert hefur verið hingað til, leikskólum, barnaheimilum og öðrum slíkum stofnunum. Og síðast en ekki sízt verður að breyta hugsunarhætti manna og viðhorfum, og vafalaust er það erfiðasta verkefnið og það verkefni, sem tekur lengstan tíma. Því aðeins, að barátta sé háð fyrir þessum atriðum öllum, þá getur þokazt í þá áttina, að komið verði á raunverulegu jafnrétti karla og kvenna, þeim jafna rétti, sem ég tel fullvíst, að allir íslenzkir alþm. vilji stefna að. Slík barátta fyrir auknu jafnrétti er nú háð víða um lönd umhverfis okkur, og einnig hérlendis hefur henni verið gefinn vaxandi gaumur, ekki sízt fyrir tilstuðlan ýmissa ungra kvenna, sem hafa vakið athygli á þessu vandamáli á hugkvæman hátt og myndarlega, enda hygg ég, að það sé mála sannast, að við Íslendingar séum eftirbátar ýmissa þjóðfélaga umhverfis okkur á þessu sviði.

Oft er minnt á þá staðreynd, sem okkur ætti að vera ríkari í huga en flestum öðrum, að á Alþingi Íslendinga situr aðeins ein kona. Hún hefur nú verið flutt í ráðherrastól, og það eru annars tíðindi, að kona verður ráðherra í fyrsta skipti á Íslandi, en engu að síður held ég, að það sé staðreynd, sem við getum varla hugsað um án þess að blygðast okkar, að hér skuli aðeins vera ein kona í okkar hópi. En þetta ástand hér á hinu háa Alþingi er því miður engin undantekning. Það er mynd af þjóðfélaginu í heild.

Fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar á Íslandi voru starfandi 1159 trúnaðarmenn á vettvangi sveitarstjórnanna. Af þessum 1159 mönnum voru aðeins 18 konur. Það varð vist einhver fjölgun á konum í þessum verkefnum í kosningunum í vor og raunar ekki sízt fyrir tilstuðlan þess flokks, sem ég tilheyri. En samt er þarna ekki um að ræða neina umtalsverða breytingu enn þá, og sama blasir við, hvert sem litið er. Í Stjórnarráði Íslands mun engin kona vera með hærri titil heldur en fulltrúi, flestar eru ritarar eða bókarar, engin deildarstjóri eða ráðuneytisstjóri. Engin kona hefur enn verið skipuð sendiherra á Íslandi, engin kona er hæstaréttardómari, og ég hygg, að það séu ekki nema tvær konur, sem hafa réttindi til að flytja mál fyrir Hæstarétti. Engin kona situr í Rannsóknaráði, og engin kona veitir forstöðu vísindalegri rannsóknarstofnun. Engin kona er bankastjóri, og það var ekki fyrr en á síðasta ári, að fyrsta konan var skipuð prófessor við Háskóla Íslands. Og aðeins ein kona gegnir yfirlæknisstöðu á sjúkrahúsum landsins. Þetta er ástand, sem full ástæða er til að hugleiða af fullri alvöru.

En sama ástand og á sér stað í embættiskerfinu blasir raunar einnig við, þegar maður athugar hina frjálsu félagsstarfsemi á Íslandi. Ég sá um daginn bréf um stöðu kvenna í heimili og þjóðfélagi, sem gefið er út af Bréfaskóla Sambands ísl. samvinnufélaga og Alþýðusambands Íslands. Það bréf er þýtt úr norsku, en hefur verið staðfært af frú Sigríði Thorlacius. Þar rak ég augun í þessi dæmi um hina frjálsu félagastarfsemi á Íslandi. Hún hefur athugað nokkur félög, sum frá 1965 og sum frá 1966, og dæmin, sem hún tekur, eru þessi: Í stjórn Alþýðusambands Íslands sitja 10 manns, ein kona. Félagar í sambandinu eru skráðir 20443, þar af 7163 konur. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, 11 manna stjórn, ein kona. Samband ísl. berklasjúklinga, sjö manna stjórn, engin kona. Samband ísl. samvinnufélaga, sjö manna stjórn, engin kona. Slysavarnafélag Íslands, sjö manna stjórn, tvær konur. Stórstúka Íslands, 12 manna framkvæmdanefnd, tvær konur. Verzlunarráð Íslands, 16 manna stjórn, engin kona. Landssamband blandaðra kóra og kvennakóra, fimm manna stjórn, engin kona. Samband ísl. barnakennara, sjö manna stjórn, engin kona. Í því sambandi eru 992 félagar, þar af 460 konur. Og síðan bætir frú Sigríður Thorlacius við: „Það er varla von, að þetta breytist mikið, á meðan konur eru ekki einu sinni kosnar í trúnaðarstöður í þeim samtökum, sem þær eru jafnfjölmennar í og t.d. í samtökum barnakennara, þar sem þær hafa þó launajafnrétti.“

Ég held, að það geti varla verið deilumál, að þetta ástand er gersamlega óeðlilegt, og þarna er um að ræða fjölþættar torfærur, sem verður að ryðja úr vegi á skynsamlegan hátt. Ein ástæðan fyrir minni hlutdeild kvenna en karla í opinberu lífi er vafalaust sú, að konur hafa allt til þessa notið minni skólamenntunar en karlar. Það hefur verið miklu minna um það, að konur hafi stundað framhaldsnám heldur en karlar. Í grg. með þessari till. hef ég tekið dæmi um það, hvernig skiptingu kynjanna var háttað í menntaskólum og háskóla á síðasta skólaári. Veturinn 1969–1970 stunduðu nám í öllum menntaskólum landsins 2400 nemendur. Af þeim voru stúlkur aðeins 850 eða rétt rúmlega þriðjungur. Í Háskóla Íslands voru veturinn 1969–1970 skráðir 1400 stúdentar. Af þeim voru 325 konur eða 23%. Auk þess vita allir, að stúlkur, sem innritaðar eru til náms við Háskólann, halda ekki eins áfram námi, raunverulegu námi, og piltar gera, og það kemur raunar fram í dæmi um þá, sem fá lán úr Lánasjóði ísl. námsmanna, vegna þess að þar reynir á, hverjar kröfur eru gerðar til manna um raunverulegt nám. Í fyrra fengu úr lánasjóðnum af þeim, sem stunda nám við Háskóla Íslands, 716 lán samkv. þeim lágmarkskröfum, sem sjóðurinn hefur sett. Af þeim voru 96 konur eða 13%. Þetta hlutfall er að sjálfsögðu algerlega óeðlilegt, og þó að mikið hafi áunnizt á þessu sviði, þarf þarna sannarlega að taka til hendi, og samt er þetta það svið, t.d. menntun í menntaskóla, sem almennur skilningur er orðinn á, að eðlilegt sé, að stúlkur stundi þar nám við hlið pilta.

Samt held ég, að alvarlegasta hlið þessa máls sé mismunun í launakjörum. Svo á að heita, að hér á landi eigi að gilda sú regla, að menn fái sömu laun fyrir sömu vinnu á flestum sviðum. En fram hjá þeirri reglu er farið með því að líta á tiltekin störf sem kvennastörf og greiða lægra kaup fyrir þau heldur en störf karla. Ég vitna hér í grg. í rannsókn, sem nýlega var framkvæmd af tveimur konum, sem vinna hér í bankakerfinu. Þær hafa kannað skipan karla og kvenna í launaflokka í öllum bönkum landsins. Þar reyndust vera 979 starfsmenn, 525 konur og 454 karlar. Í fimm kauplægstu flokkunum reyndust konur vera í yfirgnæfandi meiri hluta, en í efri flokkunum voru karlar í þeim mun stærri meiri hluta, sem ofar dró, unz þeir voru einir í þeim efsta. Stundum hefur þetta verið skýrt með því, að konur séu ekki eins varanlegur vinnukraftur og karlar, þær komi og fari. En rannsóknin leiddi í ljós, að meðalstarfsaldur kvennanna í bönkunum var hærri en meðalstarfsaldur karlanna. Þarna er um mjög augljósa mismunun að ræða, og ég er hræddur um, að þetta dæmi um bankana gæti orðið enn þá alvarlegra, ef athuguð væru fleiri svið. Ég held, að ástandið í þessu efni sé ekki sízt alvarlegt innan verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar. Mér hefur t.d. skilizt það, að þegar gerðir eru kjarasamningar fyrir Iðju, þar sem vinnur mikill fjöldi kvenna, þá séu samningarnir í rauninni aðeins samningar um kaup kvenna. Það sé orðin föst hefð, að karlarnir séu yfirborgaðir. Það er ekki litið svo á, að verið sé að semja fyrir þá. Ég hygg, að nokkuð svipað sé ástatt í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur, að þar sé kvenfólkinu hópað saman í launalægstu flokkana, en eftir því sem ofar kemur í launastigann fjölgi körlunum. Þetta er afar fróðlegt rannsóknarefni, og raunar hefur verið rætt um það áður hér á þingi, að þetta þyrfti að rannsaka. Það kom fram hér fyrr á fundinum í dag, að það skeður stundum, að þáltill. detta niður, þannig að jafnvel ráðherrar vita ekki um þær.

Árið 1957 var samþ. hér þáltill. um rannsókn á launajafnrétti á Íslandi. Hún var flutt af Öddu Báru Sigfúsdóttur og var samþ. Þessi rannsókn hefur aldrei verið framkvæmd. En ég held, að það sé orðið mjög tímabært að framkvæma þessa rannsókn nú.

Hliðstæðar rannsóknir hafa verið framkvæmdar í ýmsum grannlöndum okkar á undanförnum árum og hafa gefið býsna fróðlegar niðurstöður. Í löndum Efnahagsbandalagsins er t.d. fyrir alllöngu búið að lögfesta sömu laun fyrir sömu vinnu. Þar hefur verið kannað, hvernig háttað sé meðalkaupi kvenna annars vegar og hins vegar meðalkaupi karla. Sú könnun leiddi í ljós, að meðalkaup kvenna var 70% af meðalkaupi karla, vegna þess að það er litið á sérstök störf sem kvennastörf, og þau eru launuð miklu lægra en störf karla, og þannig komast menn fram hjá ákvæðinu um sömu laun fyrir sömu vinnu.

Á Norðurlöndum er ástandið ögn skárra. Í Danmörku og Svíþjóð kom í ljós, að meðalkaup kvenna var um 80% af meðalkaupi karla, en engu að síður er þarna um að ræða mjög mikinn mun. Hliðstæðar tölur þessu eru því miður ekki til hér á landi, og það er ein ástæðan fyrir því, að ég hef flutt þessa till., að ég tel algerlega óhjákvæmilegt, að hliðstæðar rannsóknir verði gerðar hér, bæði til þess að við vitum, hvernig ástatt er á þessu sviði í þjóðfélagi okkar, og einnig til þess að við fáum vitneskju um, hvernig við erum á vegi staddir í samanburði við aðra. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að síðustu árin hafa einmitt þjóðþingin í ýmsum nágrannalöndum okkar í Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum ákveðið að efna til rannsókna af þessu tagi. Og nú þegar er um að ræða mjög miklar og ítarlegar rannsóknir um þessi efni. Ég hef t.d. séð stórar bækur gefnar út af danska þinginu um sérstaka rannsókn, sem framkvæmd var um stöðu kvenna í þjóðfélaginu í Danmörku, öllum hugsanlegum þáttum, sem þar koma við sögu. Af slíkum rannsóknum, sem framkvæmdar hafa verið í grannlöndum okkar, gætum við lært skynsamleg vinnubrögð í þessu og ekki sízt það að átta okkur á því, hvar við erum á vegi staddir í þessu efni. Þess vegna vænti ég, að þessari till. verði vel tekið, bæði af þeim hv. þm., sem hér eru staddir, og eins þeim, sem hafa öðrum hnöppum að hneppa. Og að sú vitneskja, sem síðan fæst við rannsókn, verði okkur leiðsögn til skynsamlegra ákvarðana í þessum efnum.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þegar rætt er um jafnrétti, þá njótum við Íslendingar þess, að við erum smáríki. Það er hvergi jafnauðvelt að koma á raunverulegu jafnrétti og í litlu þjóðfélagi eins og því íslenzka. Hér er á ýmsan hátt styttra bil á milli manna en í flestum öðrum þjóðfélögum, og ég held, að það eigi að vera okkur keppikefli að halda því og auka þennan jöfnuð, og einmitt frumkvæði að því, er varðar jafnan rétt karla og kvenna, mundi geta orðið myndarlegt framlag af okkar hálfu til annarra þjóðfélaga, sem eiga við mun alvarlegri vandamál að stríða á þessu sviði.

Ég vil að lokum minna hv. þm. á það, að þessari till. hefur verið veitt athygli utan þingsalanna. Okkur hafa borizt óskir frá samtökum kvenna um að samþykkja hana. Fyrir nokkrum dögum fengum við bréf frá aðstöðunefnd íslenzkra kvenna, sem er óháð nefnd með fulltrúum frá nokkrum kvenfélögum og stéttarfélögum, og beinir hún þeim eindregnu tilmælum til Alþ., að það samþykki till. til þál. á þskj. nr. 51 um rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi. Í grg., sem þessari samþykkt fylgir, er á það bent, að við getum ekki gerzt raunverulegir aðilar að ýmsum alþjóðasáttmálum, sem við höfum tekið þátt í að samþykkja, m.a. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, án þess að framkvæma slíka rannsókn og geta svarað ýmsum spurningum, sem bornar verða upp við okkur, þegar við fullgildum slíka samninga. Hin samþykktin barst okkur í dag. Hún var frá fundi Kvenréttindafélags Íslands, en þar var gerð eftirfarandi samþykkt 18. nóv., með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur Kvenréttindafélags Íslands haldinn 18. nóv. 1970 fagnar því, að fram er komin á Alþ. till. til þál. á þskj. 51, um að gerð verði rannsókn á jafnrétti þegnanna í íslenzku þjóðfélagi, og beinir þeirri eindregnu áskorun til hv. alþm. að samþykkja hana.“

Hér er um að ræða samtök kvenna, sem hafa haft mjög lofsverðan áhuga á þessum málum að undanförnu, og ég held, að sómi Alþingis yrði að meiri með því að taka undir með þessum konum.

Ég legg svo til, herra forseti, að málinu verði að lokinni umr. vísað til allshn.