02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í D-deild Alþingistíðinda. (3487)

58. mál, skipulag vöruflutninga

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég er meðnm. mínum þakklátur fyrir afgreiðslu á þessu máli, og ég vil einnig þakka hv. þm., sem talaði hér seinast, fyrir þann ákveðna og jákvæða skilning, sem hann lét hér í ljósi.

Ég get vel fallizt á það, að ríkisstj. annist þessa könnun, en ekki mþn. Ég vil þá líka mega vænta þess, að ríkisstj. hagi þeirri könnun þannig, að sem flest sjónarmið komi fram við athugunina og þá auðvitað alveg sérstaklega sjónarmið dreifbýlisins. Ég vil einnig láta það koma fram hér, að ég vil mega vænta þess, að sú athugun, sem hér um ræðir, heildarathugun, sem væntanlega tekur nokkurn tíma og er viðamikil, að hún verði ekki látin tefja það eða koma í veg fyrir það, að ríkisstj. athugi nánar um það sérstaka atriði, framflutninga innfluttrar vöru, sem var hér til umr. í fyrirspurnatíma nú fyrir stuttu.

Ákvörðun um innflutningshöfn á Reyðarfirði var þýðingarmikil leiðrétting, þar sem einn landshluti hafði orðið út undan varðandi innflutningshafnir. En það er aðeins einn þáttur málsins, einn þáttur þess að ná aftur þeirri stöðu, sem dreifbýlið hafði 1962 en síðan hefur farið versnandi. Og ég vil mega vænta þess, að hvað sem líður þessari athugun, þá verði haldið áfram aðgerðum af hálfu hæstv. ríkisstj. til að fá fram þær breytingar varðandi framflutninga innfluttrar vöru, . sem þarf til þess, að dreifbýlið búi ekki við verri kjör að því leyti en það naut fram til 1962.