02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3497)

61. mál, haf- og fiskirannsóknir

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft til athugunar till. á þskj. 63 um haf- og fiskirannsóknir o. fl. Tillgr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta gera fimm ára áætlun um haf- og fiskirannsóknir við Ísland, enn fremur um fiskileit, veiðitilraunir og aðra slíka þjónustu við fiskveiðaflotann.

Áætlunin sé gerð af sérfræðingum í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna. Áætlunina skal leggja fyrir Alþ. svo fljótt sem verða má.“

N. ræddi þetta mál og leitaði jafnframt umsagna nokkurra aðila um það. Það var álit n., að hún væri í sjálfu sér samþykk efni þessarar till. að verulegu leyti, en taldi þó, að það væri hæpið að samþykkja, að það væri hægt að gera slíka áætlun um fiskirannsóknir svo langt fram í tímann, fimm ár fram í tímann, og þess vegna felur brtt. n. það í sér, að aðeins verði lagt til, að gerð verði áætlun um rannsóknir til þriggja ára. Þá er í tillgr. lagt til, að áætlunin sé gerð af sérfræðingum í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna. Þetta orðalag vorum við ekki ánægðir með. Það vill oft brenna við hjá okkur hér á Alþ., að ef við ætlum að taka eitthvert mál til meðferðar og láta rannsaka það, þá þarf alltaf að stofna nýjar nefndir, fela það nýjum sérfræðingum, þó að við séum með ýmsar rannsóknastofnanir, sem kostaðar eru af ríkisfé og varið er til stórum fjárupphæðum á hverju einasta ári. Við þekkjum þetta í sambandi við landbúnaðinn, kalrannsóknir og fleira. Ef ný verkefni koma, þá þarf alltaf að fela einhverjum nýjum aðilum, en ekki þessum stofnunum, sem þó ætti að líta svo á, að væru kjörnar til þess að leysa þessi verkefni. Það er því till. n., — og það má segja, að það sé verið að fela þetta sérfræðingum eftir sem áður að láta Hafrannsóknastofnunina taka þetta verkefni að sér, án þess að orða það nokkuð öðruvísi, og þess vegna hljóðar okkar till. svo, eins og fram kemur í nál. á þskj. 478, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta gera þriggja ára áætlun um haf- og fiskirannsóknir við Ísland, enn fremur um fiskileit, veiðitilraunir og aðra slíka þjónustu við fiskveiðiflotann. Áætlunin sé gerð af Hafrannsóknastofnuninni í nánu samstarfi við samtök sjómanna og útvegsmanna. Áætlunina skal leggja fyrir Alþ. svo fljótt sem verða má.“

Aðrar breytingar sjáum við ekki ástæðu til að gera á þessari till. og leggjum til, að hún verði samþ. þannig breytt.