02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3499)

61. mál, haf- og fiskirannsóknir

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil gjarnan lýsa stuðningi mínum við þessa till., en vildi geta þess, að það er ekki nýtt, að reynt sé að gera áætlanir um þessa þætti. Það er búið að leggja áherzlu á það í nokkur ár, a.m.k. þrjú, fjögur eða fimm, og ekki eingöngu við Hafrannsóknastofnunina heldur raunar við allar rannsóknastofnanirnar, því að við erum margir þeirrar skoðunar, að rannsóknir eigi að byggjast á áætlunum nokkuð fram í tímann, verklýsingum og starfslýsingum. Því miður verð ég að upplýsa það, að þetta hefur gengið heldur treglega. Því fagna ég þessari till., ef hið háa Alþingi getur komið því til leiðar, að þessi sjálfsögðu vinnubrögð verði upp tekin. En ég vil aðeins nefna það hér, að mér sýnist, að þetta mætti raunar gera við allar aðrar rannsóknir, sem skipulagðar eru á vegum hins opinbera og kostaðar af opinberu fé. Hygg ég, að hv. fjvn. mætti gjarnan leggja ríkari,áherzlu en hún gerir nú á slík vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu fjárlaga til rannsóknastofnana.