09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

1. mál, fjárlög 1971

Frsm. meiri hl. (Jón Árnason):

Herra forseti. Þegar ég sá þessa till. á þskj., lét ég skrifa mig og taldi sjálfsagt, að ég segði nokkur orð í sambandi við þetta mál. Það er rétt, sem flm. hélt hér fram, að sjómannastofur eru nauðsynlegar, þar sem mikið er um aðkomusjómenn og til þess að dvelja á, þegar landlegur eru. Og það var svo fyrir allmörgum árum á Akranesi, að þá var nokkuð mikið um aðkomumenn á bátunum. Nú var það svo fyrir nokkrum árum síðan, og einmitt með tilliti til þess arna, að Akranesbær byggði sjómannaheimili eða sjómannastofu á mjög góðum stað rétt við höfnina. Akranesbær gaf sjómannadeildinni og verkalýðsfélaginu þetta hús. Það var aðeins eitt skilyrði, sem fylgdi gjöfinni, og það var það, að þetta hús yrði rekið sem sjómannastofa. Nú liðu árin og tiltölulega fljótt fór svo, að þeir, sem húsið var afhent, óskuðu eftir því að þurfa ekki að framfylgja þessari gjafaskyldu, og í stað þess að reka sjómannastofuna eða hafa hana opna, þó að ekki væri nema 2–3 tíma á dag, var húsnæði þetta notað fyrir verkalýðsfélagið, fyrir starfsemi þess og sem félagshús.

Fyrir aðeins tveimur árum fara þessi félagasamtök fram á það við bæjarstjórnina á Akranesi, að hún samþykki eða fallist á það, að þeir fái að selja þetta hús, sem er mjög góð bygging. Hún er ekki mjög stór, en þar er góð stofa eða salur og eldhús, herbergi og önnur aðstaða. En það er ekki lengra síðan en, eins og ég segi, 1½ ár og bæjarstjórnin sá ekkert athugavert við það með tilliti til þess, að þeir, sem báðu um þetta, hlytu að skilja eða vita, að það væri ekki nauðsynlegt að halda slíkum rekstri áfram. Og það var fallizt á þetta. Þess vegna hygg ég, að það sé af ókunnugleika hjá flm., að hann flytur nú þessa till., því að ég tek undir það með honum og ég harma það, að sjómannadeildin og verkalýðsfélagið á Akranesi skyldu ráðstafa þessari ágætu eign, sem þeim var gefin einmitt í þessu augnamiði, að reka slíka starfsemi eins og sjómannastofa er, og það verður að segja, að enda þótt það sé svo nú á Akranesi, að bátarnir séu að verulegu leyti gerðir út eða mannaðir af heimamönnum, þá er alltaf þó nokkuð af aðkomumönnum, eins og gerist og gengur í svo stórum bátaflota. En með tilliti til þess, sem gerzt hefur í þessum efnum, þá sé ég ekki, að það sé ástæða til þess að flytja slíka till., sem hér hefur verið flutt. Það er ekki hægt að kenna því um, að slíkt hús hafi ekki verið hagstætt til slíks rekstrar. Það er síður en svo. Húsið er alveg niður við höfnina. Þetta er steinbygging og vandað hús, að svo miklu leyti sem það er, og nægði að sjálfsögðu fyllilega til þess arna, vegna þess að hér er ekki um svo stóran hóp að ræða. En sem sagt, ég taldi rétt, af því að ég er kunnugur þessum málum og þessi till. kom hérna fram, að gefnu tilefni að skýra frá þessu. En svona hefur gangurinn verið í þessu máli