09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3505)

97. mál, kynferðisfræðsla í skólum

Flm. (Jónas Árnason):

Herra forseti. Hér á landi hafa nú að undanförnu orðið miklar umræður um kynferðismál eða réttara sagt kynlífsmál. Og margt hefur þar verið sagt af töluverðum skaphita. Aðalorsök þessara umræðna hefur verið það aukna frjálsræði í túlkun kynlífsmála, sem borizt hefur hingað frá nágrannaþjóðum okkár og birzt hefur í blöðum og bókum og tímaritum, en einkum þó í kvikmyndum. Sumir hafa kallað þetta hina örgustu spillingu og hafa hinir fornu staðir Sódóma og Gómorra heyrzt nefndir í því sambandi, en aðrir hafa hins vegar fagnað frjálsræðinu af miklum ákafa, og hefur jafnvel mátt skilja á málflutningi þeirra, að Íslendingar hafi allt frá öndverðu verið algerir glópar í þessum málum. Þjóðin hafi alla sína tíð búið við misheppnað kynlíf, og því sé ekki seinna vænna, að þessu verði komið í lag.

Tilgangurinn með flutningi þessarar till., sem hér liggur fyrir, er ekki sá að hrinda af stað hér á hinu háa Alþingi umræðum um kynlífsmál í þeim dúr, sem ég var nú að nefna, þó að hugsazt gæti reyndar, að hv. alþm. hefðu engu minna vit á þeim málum heldur en ýmsir þeir, sem talað hafa um þau sem mestir spakvitringar að undanförnu. Nei, tilgangurinn með flutningi þessarar till. er sá að taka undir eða fara þess á leit við hv. alþm., að þeir taki undir hógværar óskir þeirra, sem vilja, að kynlífsmál hætti að vera einhvers konar vandræða- og feimnismál í skólum okkar á meðan segja má, að þjóðfélagið sé að öðru leyti undirlagt af þeim og hinir og aðrir aðilar hampa þeim linnulaust framan í börn og unglinga, oft af harla lítilli hæversku. Tilgangurinn með þessari till. er sem sé í stuttu máli sagt að fá fræðslu um kynferðismál eða um kynlífið viðurkennda sem einn þáttinn og ekki þann þýðingarminnsta í almennri líkams- og heilbrigðisfræðslu skólanna. Sú fræðsla er nú lítil sem engin, eins og fram kemur í ummælum ýmissa skólamanna, sem birt eru í grg., sem fylgir þessari till., en af vanþekkingu barna og unglinga á þessu sviði geta orsakazt miklir og alvarlegir erfiðleikar, eins og fram kemur í ummælum hins ágæta læknis Jónasar Bjarnasonar, sem einnig er vitnað til í grg. En Jónas hefur manna mest barizt fyrir skynsamlegri skipan þessara mála innan fræðslukerfisins, enda hefur hann vegna starfs síns, vegna sérgreinar sinnar, flestum mönnum frekar getað gert sér grein fyrir þeim vanda, sem hér er við að stríða, og þá um leið hvernig helzt væri hægt að leysa þennan vanda. Jónas læknir segir m.a. í grg., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég álít, að kennsla í þessum efnum þoli enga bið. Sennilega verður erfitt að fá nógu vel menntað fólk til þess að taka hana að sér, en ég tel, að e.t.v. verði að byrja á því að halda námskeið fyrir kennara, sem hefðu áhuga á því að veita slíka tilsögn. Einnig gæti komið til greina, að skólar réðu lækna í þjónustu sína til þess að tala um þessi mál, því að þeir hafa mesta og bezta menntunina og aðstöðu til að gera það. Á þennan hátt hygg ég að megi upphefja vankunnáttu þá, sem ríkir í þessum efnum hér hjá okkur.“

Áðurnefndir skólamenn og aðrir þeir, sem af alvöru hafa rætt þessi mál, eru sammála Jónasi Bjarnasyni um það, að enda þótt þörfin sé brýn að leysa þennan vanda, þá sé ekki þar með sagt, að lausnin verði auðfundin. Hvað sem líði tali manna um frjálsræði, þá séu þetta óneitanlega vandasöm mál og viðkvæm. Og ekki megi kasta til höndunum við undirbúning þeirra og framkvæmdina. En jafnframt ætti þá líka hitt að vera ljóst, að ekki má lengur dragast, að tekið sé til við að athuga þessi mál og undirbúa, og sýnist mér, að rétti tíminn til slíks sé einmitt núna, þegar gagnger endurskoðun á sér stað á öllu skólakerfinu.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar. Ég geri ráð fyrir því, að n. sú, sem fær málið til meðferðar, sendi það til umsagnar ýmsum þeim aðilum, sem trúandi er til að leggja gott til þessara mála.

Ég legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.