29.01.1971
Sameinað þing: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í D-deild Alþingistíðinda. (3514)

108. mál, bann við laxveiði í Norður-Atlantshafi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Till. þessi, sem hér um ræðir, er um það, að Alþ. skori á ríkisstj. að beita sér fyrir samkomulagi Evrópuþjóða um algert bann við laxveiði í Norður-Atlantshafi. Það er enginn vafi á því, að hv. alþm. hafa aðeins eina skoðun á þessum málum og hún er sú að koma í veg fyrir rányrkju og laxveiði í sjó, eftir því sem mögulegt er, og þannig hefur verið að málinu unnið. Flm. þessarar till. hafa ekki vitað vel um það, sem gerzt hefur í málinu, og ekki heldur um afstöðu ríkisstj. í þessu máli á erlendum alþjóðaþingum, og kom það reyndar fram hjá frsm. till. hér áðan. En út af fyrir sig er þá ekki óeðlilegt, að till. sem þessi kæmi fram, úr því að flm. voru ekki alveg vissir um gang málsins. Ég tel ástæðu til að gera nokkra grein fyrir því, hvað gerzt hefur í þessum málum, því að vissulega er það mikið atriði fyrir okkur Íslendinga, og við eigum þar mikilla hagsmuna að gæta, að það takist að koma í veg fyrir rányrkjuna.

Laxveiði er mjög mikilvæg fyrir Íslendinga nú orðið. Það hefur mikið verið unnið að fiskirækt síðustu árin, og árangurinn er farinn að koma í ljós. Íslenzkar veiðiár eru nú að verða mjög verðmiklar og eftirsóttar. Og það er enginn vafi, að að fáum árum liðnum munu margar ár, sem nú er lítil veiði í, verða góðar veiðiár. Það er þess vegna mikið hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga, að við getum beitt áhrifum okkar í þá átt að banna laxveiði í sjó eða annað það, sem hindrar, að við getum haldið áfram ræktunarstarfinu hér á landi.

Laxveiði í sjó meðfram ströndum laxveiðilandanna við Norður-Atlantshaf er gamalt fyrirbæri nema hér við land, þar sem laxveiði í sjó er bönnuð. Hefur þessi veiði verið stunduð innan landhelgi viðkomandi landa að langmestu leyti. Mikil breyting á laxveiði í sjó varð, er lax fór að veiðast við Vestur-Grænland að ráði fyrir einum áratug, en veiði þessi hefur aukizt úr 55 tonnum 1960 upp í 2144 tonn 1969. Framan af var laxveiðin við Vestur-Grænland eingöngu stunduð innan landhelgi, en 1965 var hafin laxveiði utan landhelgi, og hefur hún aukizt ár frá ári síðan. Árið 1965 veiddust á þeim slóðum rúmlega 36 tonn, en 1969 1204 tonn. Laxinn, sem veiðist við Vestur-Grænland, er að langmestu leyti lax á öðru ári í sjó, og hefur laxinn samkv. niðurstöðum og merkingum verið að verulegu leyti frá Kanada og þar næst frá Bretlandseyjum.

Vorið 1965 hófu Danir laxveiðar í sjó út af norsku ströndinni, en lengi þar áður höfðu Norðmenn veitt lax utan landhelgi við Norður-Noreg í smáum stíl. Úthafsveiðar vestur af Noregi hafa farið vaxandi síðan 1965, og hafa Svíar, Færeyingar og Þjóðverjar bætzt í hóp veiðimanna hin síðari ár. Veiði hefur farið fram 30—150 sjómílur undan landi. Veitt er að vorinu á línu. Laxinn, sem þarna veiðist, er mestmegnis norskur lax. Mestur hluti hans er lax, sem hefur verið tvo vetur í sjó. Veiðimagnið 1969 nam 929 tonnum. Laxveiðar í sjó hafa verið reyndar við Færeyjar 1968 og 1969, og veiddu þeir 5 tonn af laxi fyrra árið, en eitthvað minna seinna árið.

Tveir laxar, sem merktir hafa verið sem gönguseiði hér á landi, hafa veiðzt utan Íslands. Annar var merktur vorið 1966 í Kollafirði og sleppt þar. Hann veiddist nálægt Sukkertoppen á Vestur-Grænlandi í sept. 1967. Hinn veiddist við Færeyjar hinn 1. júlí 1967, en honum hafði verið sleppt í Tungulæk í Landbroti árið áður. Og á síðasta ári hafa veiðzt tveir laxar merktir á Íslandi við Grænland og á norskum miðum. Nú er það ekkert ótrúlegt, að það veiðist meira af laxi frá Íslandi en það, sem gefið er upp, eins og geta má nærri. Það er ekki víst, að það sé alltaf tekið eftir merkingunum. En sem betur fer er nú talið, að enn sem komið er sé það tiltölulega lítið, sem hefur veiðzt af íslenzkum laxi.

Hinn öri vöxtur á laxveiðunum við Grænland, sem varð á árunum eftir 1960, olli mörgum áhyggjum um framtíð laxveiðanna í heimalöndum laxins, þar sem vitað var, að laxinn, sem veiddist við Grænland, var ekki upprunninn þar í landi. Í Kanada voru menn mest uggandi, enda er grænlenzka veiðisvæðið þar í næsta nágrenni. Kanadamenn urðu. því fyrstir til þess að vekja máls á hættunni, sem löndunum, sem laxinn elst upp í, stafaði af sjóveiðunum við Grænland, á fundum fiskveiðinefndar Norðvestur-Atlantshafsins í Halifax í júní 1965. Samþykkti nefndin áætlun um rannsóknir, sem miðuðu að því að kanna uppruna laxins, sem veiddist við Vestur-Grænland, svo og um veiði og veiðiálag í heimalöndum laxins og áhrif Grænlandsveiðanna á hann. Á fundum Alþjóðahafrannsóknaráðsins, sem haldnir voru í Róm í okt. þá um haustið, var gerð samhljóða samþykkt sama efnis og jafnframt lagt til, að stofnað yrði til samstarfs við Norðvestur- Atlantshafsnefndina um áðurnefnd rannsóknaráform. Hefur samstarfsnefnd þessara aðila starfað síðan, og á Ísland fulltrúa í henni.

Fiskveiðinefnd Norðvestur-Atlantshafsins hélt fund í Boston 1967 og lagði fram tillögu um að banna laxveiðar á úthafinu, en auk Kanadamanna studdu Bandaríkin og Spánn tillöguna. Var henni vísað frá á þeim grundvelli, að vísindalegar sannanir skorti til þess, að hægt væri að samþykkja hana, sbr. ákvæði VII. kafla starfsreglna fiskveiðinefndar Norðvestur-Atlantshafsins.

Vorið 1968 hélt fiskveiðinefndin hinn árlega fund sinn í London. Kom þar fram á síðustu stundu önnur tillaga frá Kanada um laxveiðar á úthafinu. Var hún á þá leið, að takmarka bæri laxveiðar á úthafinu við það veiðimagn, sem þá fékkst. Kom þessi tillaga fram svo seint, að lítill tími var til þess að undirbúa málið heima fyrir í þátttökulöndunum, enda hafði málið ekki verið kynnt með nægum fyrirvara. Tillagan var ekki borin undir atkvæði, þar sem augljóst þótti, að hún mundi ekki hljóta tilskilinn meiri hluta atkvæða. Fulltrúar Íslands, Noregs, Frakklands og Spánar höfðu skýrt frá því, að þeir mundu sitja hjá við atkvgr. að því sinni, og fleiri þjóðir höfðu látið í það skína, að þær mundu einnig sitja hjá, ef til atkvgr. kæmi. Danir höfðu lýst sig andvíga tillögunni. Það kom því aldrei til atkvgr. í málinu.

Á fundi í London í apríl 1969 kom fyrst fram tillaga um algert bann við laxveiðum í úthafinu, og var hún studd af flestum þátttökuþjóðunum þ. á m. Íslandi.

Í maí 1969 hélt fiskveiðinefnd Norðaustur-Atlantshafsins fund í London, þar sem samþ. var bann gegn laxveiðum í úthafinu með 10:3 atkv., og ein þjóð, Portúgalar, sat hjá. Á móti tillögunni voru Danmörk, Vestur-Þýzkaland og Svíþjóð. Á fundi nefndarinnar í Varsjá í júní það ár var samþykkt tillaga sama efnis, og var hún samþykkt með atkvæðum 11 þjóða, en á móti voru Danir og Vestur-Þjóðverjar, og Portúgalar sátu hjá. Þannig hafa 14 lönd af 18, sem aðild eiga að hinum tveimur alþjóðlegu fiskveiðinefndum við Norður-Atlantshaf, greitt atkvæði með banni við laxveiði á úthafinu, og þrjú lönd hafa verið andvíg, en eitt land setið hjá.

Í starfsreglum fiskveiðinefnda Norðvestur- og Norðaustur-Atlantshafsins er svo ákveðið, að ef þjóð hefur tjáð sig fylgjandi takmörkunum á veiði fisktegundar, hefur hún siðferðilegar skuldbindingar til þess að fylgja slíkum takmörkunum eftir í sínu landi. Ef á hinn bóginn þjóð lýsir sig andvíga samþykkt nefndra alþjóðastofnana og sendir andmæli innan þriggja mánaða frá samþykkt veiðitakmarkana, er hún ekki skuldbundin til þess að fara eftir samþykktinni, en tillagan þarf 15 atkvæða til að hljóta samþykki. Nú hafa Danir, Svíar og Vestur-Þjóðverjar andmælt samþykkt Norðvestur- og Norðaustur-Atlantshafsnefndanna og telja sig ekki vilja hlíta henni. Hafa þessar þjóðir borið því við, að óheimilt sé að gera samþykktir um algert bann við veiði á fisktegund í úthafinu og hafa vísað í starfsreglur alþjóðastofnana í því sambandi. Danir hafa tjáð sig reiðubúna til þess að ræða takmarkanir á laxveiðum í úthafinu, sem mundu hugsanlega geta náð til takmarkana á möskvastærð laxaneta, á lengd veiðitíma og jafnvel stærð veiðisvæða.

Á fiskveiðinefndarfundi Norðvestur-Atlantshafsins í London í maí 1970 var laxveiðin í úthafinu enn á dagskrá. Vestur-Þjóðverjar lögðu fram tillögu til málamiðlunar, þar sem gert var ráð fyrir að takmarka laxveiðar á Austur-Atlantshafinu. Í tillögunni var lagt bann við laxveiði á svæðum 1 og 2 úti fyrir Noregsströndum, á starfssvæði Norðaustur-Atlantshafsnefndarinnar, utan landhelgi, frá 1. júlí til 5. maí, bann við að hirða minni lax en 60 cm að lengd, að nota minni möskva en 160 mm og bann við notkun á önglum undir vissri stærð. Þá var ákvæði um lágmarksstyrkleika tauma og bann við notkun botnvörpu, eingirnisneta og færa. Þessar tillögur voru samþykktar, og gengu þær í gildi 1. jan. s.l. Má endurskoða samþykktina eftir tvö ár. Ísland greiddi atkvæði gegn þessari málamiðlun og lýsti yfir vilja sínum á fullu banni við laxveiðum í úthafinu.

Á fundi fiskveiðinefndar Norðvestur-Atlantshafsins á Nýfundnalandi í júní 1970 var samþykkt að takmarka tonnafjölda laxveiðiskipa á starfssvæði nefndarinnar við Vestur-Grænland við það, sem hann var 1969, að binda laxveiðitímann á úthafinu við tímabilið frá 1. ágúst til 30. nóv. og að nota ekki botnvörpu, eingirnisnet eða færadrátt, en þó má nota þau eingirnisnet, sem keypt höfðu verið fyrir 1. júlí 1970. Þessar veiðitakmarkanir gildi árið 1971. Með tillögunni greiddu 10 þjóðir atkvæði, en fjórar þjóðir voru á móti, Kanadamenn, Íslendingar, Pólverjar og Rússar.

Nú nýverið hafa Bandaríkjamenn og Kanadamenn lagt aukna áherzlu á það að hindra veiðar Dana við Grænland, og er það rétt, sem frsm. minntist hér á áðan, að útlit er fyrir, að Danir séu að láta undan síga í þessu máli, vegna þess að þeir hafa fengið almenningsálitið á móti sér. Er fróðlegt að vita, hvernig afstaða þeirra verður á næsta alþjóðafundi um þessi mál, sem verður snemma á þessu ári.

Hér að framan hafa verið rakin nokkur helztu atriði varðandi laxveiðar í úthafinu og meðferð mála, er þær veiðar varða, á alþjóðlegum vettvangi. Kemur þar fram, að Ísland hefur fyllt þann flokkinn, sem vill algert bann við laxveiðum á úthafinu. Eins og fram kom hér áður, hafa einstaka þjóðir í þeim alþjóðlegu fiskveiðinefndum, sem hér að framan getur, neitunarvald um samþykktir gerðar á fundum nefndanna, en af því leiðir, að fara verður samkomulagsleiðir til þess að ná fram meiri takmörkunum.

Ég hef talið ástæðu til þess að rekja þessa sögu nokkuð, til þess að hv. alþm. geti gert sér grein fyrir því, hvernig á þessum málum hefur verið haldið. Það kemur þá í ljós, að ríkisstj. hefur beitt sér fyrir því, að það verði gert í þessum málum, sem þáltill. fer fram á. Það verður svo Alþingis að ákveða, hvort ástæða þykir til, þrátt fyrir afstöðu ríkisstj. á undanförnum árum og þrátt fyrir það hvernig haldið hefur verið á þessum málum og unnið er að samkomulagi og algeru banni af Íslands hálfu, að samþykkja tillöguna. Um það ætla ég ekkert að segja að þessu sinni, en ég legg áherzlu á það og vek athygli á því, að ríkisstj. hefur þá stefnu í þessu máli og hefur unnið eftir þeirri stefnu, sem gert er ráð fyrir, að mörkuð verði af hálfu Alþingis með þessari tillögu, ef hún yrði samþykkt.