09.02.1971
Sameinað þing: 25. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (3524)

112. mál, kalrannsóknir á Akureyri

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér liggur fyrir, var flutt á fyrri hluta þings af hv. varaþm. Jónasi Jónssyni. Þar sem hann er nú ekki á þingi, hefur það komið í minn hlut sem 2. flm. að mæla fyrir till., en hún fjallar um eflingu kalrannsókna á Akureyri og hljóðar svo:

„Alþingi skorar á ríkisstj. að sjá til þess, að efldar verði verulega kalrannsóknir á Akureyri, þannig að þar verði í framtíðinni höfuðstöðvar þessa þáttar gróður-, jarðvegs- og ræktunarrannsókna.“

Ég vil í meginatriðum til rökstuðnings þessari till. vitna til grg., sem till. fylgir, og þá jafnframt til grg., sem fylgdi sams konar máli, sem flutt var á Alþ. 1969. En í þessari grg. er gerð grein fyrir því mikla tjóni af völdum kals, sem hefur orðið í landinu á undanförnum tímum, og þá ekki sízt á Norðurlandi. Á Akureyri er ein af jarðræktartilraunastöðvum Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, en þar er einnig Rannsóknarstofa Norðurlands, sem Ræktunarfélag Norðurlands rekur og fæst við jarðvegsrannsóknir og efnagreiningar. Sami maðurinn, Jóhannes Sigvaldason, sérfræðingur í jurtanæringarefnum, veitir báðum þessum stöðvum forstöðu, og tryggir það samstarf þeirra. Nokkrir starfskraftar til rannsókna eru þegar fyrir hendi á Akureyri, en við þá þarf þó að bæta, svo að hægt sé að sinna kalrannsóknum verulega.

Varðandi rannsóknir á kali á Norðurlandi og raunar einnig á Austurlandi þá gefur auga leið, að miðstöð rannsókna í þessum landshluta er hvergi betur sett en á Akureyri, og þar eru þegar fyrir hendi skilyrði til þess, að hægt sé að framkvæma þessar rannsóknir, og get ég vísað til grg. þar um. Nú er það að vísu svo, að kalrannsóknir hafa farið fram hér á landi, og er miðstöð þeirra hér í Reykjavík, en að margra manna áliti væri það mjög til stuðnings þessum allsherjarrannsóknum, ef aðalstöðvar kalrannsóknanna fyrir Norðurland og einnig Austurland væru á Akureyri. Veit ég, að ýmsir eru þessarar skoðunar, ekki aðeins menn nyrðra, sem áhuga hafa á þessum málum og sérþekkingu, heldur hef ég einnig rætt við menn, sem standa að kalrannsóknum hér syðra, sem hafa verulegan áhuga fyrir því, að þessi kalrannsóknarstöð verði sérstaklega efld.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð, en ég vil leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til allshn.