02.04.1971
Sameinað þing: 40. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í D-deild Alþingistíðinda. (3536)

114. mál, útflutningur á neysluvatni

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Allshn. Sþ., sem þetta mál hafði til meðferðar, varð sammála um að mæla með samþykkt þessarar þáltill., en þó með nokkurri breytingu, eins og fram kemur á þskj. 692. Þetta mál var sent til umsagnar Rannsóknaráði ríkisins eða framkvæmdanefnd þess, og þaðan kom umsögn, þar sem að vísu er talið, að þetta mál hafi nokkuð verið til athugunar að undanförnu, sérstaklega á vegum Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson og e.t.v. fleiri aðila. Það er viðurkennt í umsögninni, að málið sé merkilegt og þess virði að sinna því, en dregið kannske nokkuð í efa, að til þurfi að koma íhlutun af opinberri hálfu. En n. var þó þeirrar skoðunar, að einmitt það væri rétt.

Það er, eins og menn hafa veitt athygli í frásögnum frá Noregi, allmikið talað þar um útflutning á vatni og það jafnvel í mjög stórum stíl, og það kom mjög upp, þegar n. var að ræða þetta, að þarna væri um að ræða útflutning, sem e.t.v. gæti orðið umtalsverður, og þá væri sannarlega tækifæri til þess að leggja til grundvallar við þessa rannsókn það atriði að styrkja einhverja af strjálbýlisstöðum landsins með því að þar yrði sérstaklega stefnt að því að koma upp slíkum útflutningi, ef um hann yrði að ræða. Það liggur í augum uppi, að það má ætla, að eftir því sem strjálbýlla er, þá sé vatnið hreinna. Það má enn fremur benda á það, að umhverfis allt land og ekkert síður á þeim svæðum, þar sem snjóar eru meiri, eins og norðanlands og austan og vestan, þar er gnægð neyzluvatns. N. varð sammála um að láta það koma fram í þessu stutta nál., sem hér er á þskj. 692, að það væri sérstaklega litið á það við rannsókn þessa máls, hvort ekki væri möguleiki til þess að láta þessa starfsemi, ef eitthvað gæti orðið úr henni, verða til þess að styrkja strjálbýlið í landinu.

Sem sagt, n. mælir með samþykkt till. með tiltekinni breytingu, sem birt er á þskj. 692.