09.12.1970
Sameinað þing: 15. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í B-deild Alþingistíðinda. (357)

1. mál, fjárlög 1971

Gils Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 224 hef ég leyft mér að flytja fáeinar brtt. við fjárlagafrv. undir lið II, till. 1–8. Um þessar till. vil ég nú fara fáeinum orðum.

Þrjár fyrstu till. fjalla allar um það, að ríkið leggi nokkru meira af mörkum til almenningsbókasafna heldur en það hefur gert nú um skeið og heldur en ráð er fyrir gert í fjárlagafrv. fyrir 1971. Ég vakti á því athygli á þinginu í fyrra með flutningi þáltill., að nauðsyn bæri til að taka til endurskoðunar lög um almenningsbókasöfn. Þessi lög, sem eru frá árinu 1963, voru merk löggjöf og hafa tvímælalaust gert verulegt gagn. Þau höfðu hins vegar þann annmarka, að þau fjárframlög, sem ákveðin voru af hálfu ríkisins til stuðnings almenningsbókasöfnum, voru bundin við tiltekna krónutölu og þau hafa að því er ég bezt veit verið óbreytt þessi ár. Þetta hefur orðið til þess, að stuðningur ríkisvaldsins við almenningsbókasöfnin hefur farið að raungildi hraðminnkandi í hinni stórvaxandi dýrtíð. Till. mín um endurskoðun þessara laga varð ekki útrædd í fyrra, en þó hygg ég, að hún hafi gert sitt gagn, því að skömmu áður en Alþ. hófst nú í haust var tilkynnt, að hæstv. ríkisstj. eða hæstv. menntmrh. hefði skipað n. til þess að endurskoða lög um almenningsbókasöfn. Eftir því sem ég veit bezt, þá er þessi endurskoðunarnefnd tekin til starfa, en enda þótt ég vænti þess, að hún starfi vel og rösklega, þá er tæplega við því að búast, að endurskoðað frv. komi frá henni nægilega snemma á þessu þingi til þess að fá endanlega afgreiðslu. Þess vegna tel ég, að það sé í fullu samræmi við þá viðurkenningu, sem þegar er fengin af hálfu hæstv. ríkisstj. fyrir því, að hér þurfi verulegra umbóta við, þá sé það eðlilegt, að nú við afgreiðslu fjárlaga verði ákveðið, að þessar greiðslur til almenningsbókasafna hækki allverulega eða, eins og ég legg til, um helming eða rúmlega það í einu tilfellinu.

Ég held, að það sé ástæðulaust að fara um það mörgum orðum, hversu mikilvægt það er að efla starfsemi almenningsbókasafna. Það er enginn efi á því, að með því að efla slík söfn er verið að vinna íslenzkum uppeldis- og menntamálum mjög mikið gagn. Og ég tel, að það sé sízt of mikið í lagt, þótt gert sé ráð fyrir því, að ríkið styrki hin mörgu almenningsbókasöfn með því, sem svarar kostnaði við eins og einn miðlungs framhaldsskóla. Það er enginn efi á því, að þessi söfn eru það miklar uppeldis- og menntastofnanir, að því fé, sem til þeirra yrði varið af opinberri hálfu, yrði vel varið.

Fyrsta till. mín hljóðar um það, að framlagið til bæjar- og héraðsbókasafna hækki úr 3 millj. 250 þús. kr. í 71/2 millj. Í 7. gr. laganna um almenningsbókasöfn frá 1963 eru ákvæði um framlag ríkisins til bæjar- og héraðsbókasafna. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Úr ríkissjóði greiðist fjárhæð, sem nemur 15 kr. á íbúa kaupstaðar eða hrepps, þar sem safnið er staðsett, og 5 kr. á íbúa á móti framlagi sýslna.“

Þá er einnig sagt í þessari grein, að ríkið skuli greiða 50% á móti því, sem sýslur kunna að leggja söfnum til umfram lögbundið framlag sýslnanna, en þó svo, að umframgjald ríkisins nemi ekki hærri upphæð en 7 kr. á íbúa. Þessi ákvæði eru, eins og ég hef þegar nefnt, orðin algerlega úrelt, og ég tel, að það væri ekki of í lagt, þó að þetta verði leiðrétt nú á næsta ári, með því að ríkið gerði hér nokkru betur heldur en þessi 7 ára gömlu lög skylda það til, þannig að þessi fjárhæð til bæjar- og héraðsbókasafna verði ríflega tvöfölduð.

Hið sama er að segja um 2. og 3. brtt. Þær fjalla á sama hátt um styrki til sveitarbókasafna og lestrarfélaga, að sá styrkur tvöfaldist, fyrir Í millj. komi 2 millj., og að styrkurinn til bókasafna í heimavistarskólum og opinberum stofnunum tvöfaldist einnig, í stað 300 þús. kr. komi 600 þús. Ég lít svo á, að hér yrði aðeins um bráðabirgðaleiðréttingu að ræða, þangað til sú almenna endurskoðun, sem nú er hafin á lögunum um almenningsbókasöfn, sér dagsins ljós eða niðurstöður hennar, og Alþ. kemur til með að fjalla um það mál, sem ég vona að verði heldur fyrr en seinna.

4. brtt. mín er um það, að styrkur til listasafna, þ. e. a. s. annarra heldur en þess listasafns ríkisins, sem hið opinbera stendur straum af, hækki upp í 475 þús. kr. Ég sé að vísu, að hv. fjvn. leggur til, að þessi stuðningur hækki nokkuð frá því, sem hann er í fjárlögum, en á fjárlagafrv. er hann mjög lítilfjörlegur, aðeins 50 þús. kr. En n. leggur til, að hann hækki upp í 325 þús. kr. Þetta er að vísu veruleg breyting til bóta, en ég leyfi mér þó að leggja til, að þessi styrkur verði 475 þús. kr. Það er hvort tveggja, að það eru þegar komin á fót slík listasöfn, eins og listasafn Alþýðusambands Íslands og listasafn Suðurlands, sem eru alls góðs makleg, og víðar er risinn upp vísir að slíkum listasöfnum, sem full ástæða væri til að styrkja, því að það er enginn efi á því, að þau gegna mjög mikilvægu menningarhlutverki.

Þrjár síðustu, 5. 6. og 7. brtt., sem ég flyt, snerta allar listamannalaun. Eins og kunnugt er, þá er listamannalaunum nú skipt í þrennt af Alþ. sjálfu. Það eru í fyrsta lagi heiðurslaun listamanna samkvæmt ákvörðun Alþ. Slíkra heiðurslauna njóta, ef ég man rétt, 11 listamenn, og samkvæmt fjárlagafrv. er gert ráð fyrir, að til þeirra sé varið 1 millj. 686 þús. kr. Ég legg til, að þessi upphæð verði 2½ millj. kr. Það er bæði til þess, að Alþ. hafi möguleika til þess að bæta við einum eða tveimur ágætum listamönnum, ef ástæða þykir til, á þessa skrá yfir þá, sem njóta heiðurslauna, og þá ekki síður e. t. v. til þess, að það nálgist það frekar en verið hefur, að þetta geti heitið heiðurslaun, að hægt sé að hækka upphæðirnar nokkuð.

Þá legg ég til, að starfslaun listamanna hækki allverulega eða úr 674 þús. í 2 millj. kr. Ég hygg, að það muni koma í ljós, ekki sízt þegar nokkuð líður fram, að það hafi verið farið inn á rétta braut fyrir tveim árum, þegar sá háttur var tekinn upp að veita listamönnum, einkum ungum listamönnum og listamönnum, sem eru í fullu fjöri, veita þeim allverulegan stuðning um tiltekinn tíma til þess að leysa af höndum tiltekin verkefni. Ég held, að þarna hafi, eins og ég segi, verið farið út á rétta braut og það eigi að auka til muna þessa starfsemi, hækka þessa fjárveitingu allverulega.

Loks geri ég í sambandi við listamannalaunin till. um það, að hin almennu listamannalaun hækki nokkuð eða úr 5 millj. 130 þús. kr. upp í 7 millj.

8. og síðasta till. mín er þessu nokkuð skyld. Hún er um það, að styrkur til vísinda- og fræðimanna hækki úr 530 þús. kr. í 1 millj. Mér er um það kunnugt, að þessa takmarkaða styrks njóta býsna margir vísinda- og fræðimenn, bæði á sviði bóklegra fræða, náttúrufræða og fleiri greina, og það er miklum örðugleikum bundið að skipta þessari mjög svo takmörkuðu fjárveitingu.

Annars held ég, að ég hafi flutt hækkunartill. um listamannalaun flest eða öll þau ár, sem ég hef setið hér á þingi, og reynt að færa rök fyrir því, að það sé þjóðhagslega skynsamlegt frá mörgu sjónarmiði að styðja listamenn betur heldur en við höfum gert. Ég sé ekki ástæðu til í þetta sinn að endurtaka þau rök, en vil með tillöguflutningi mínum enn á ný leggja á það áherzlu, að ég tel, að okkur beri, Alþ. beri að gera sómasamlega við sína listamenn, að það hafi ekki gert það fram að þessu, ekki svo sem vera bæri, og yrði tæplega gert, þó að mínar mjög svo hóflegu till. yrðu samþ., en þó mundum við þokast mjög í áttina til þess, sem sómasamlegt gæti talizt.