05.03.1971
Sameinað þing: 31. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3572)

194. mál, ráðstafanir vegna skorts á hjúkrunarfólki

Sjútvrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég verð að lýsa ánægju minni yfir því, að hv. stjórnarandstæðingar eru farnir að fagna því að sjá ráðh. í þingsalnum, og virtist mér þó ræða hv. 11. þm. Reykv. fremur miðast við pallagesti en að sannfæra þm., því að þessa ræðu hefur hann haldið hér tvívegis á þessu þingi áður svo að segja orðrétta.

Ég skal fúslega og fyrstur manna taka undir það, að hér er um mjög alvarlegt vandamál að ræða. Það er staðreynd, að það skortir ekki fé til rekstrar Hjúkrunarskóla Íslands, heldur fyrst og fremst skortir þar kennara. Það eru mjög skiptar skoðanir í hópi starfsfólks sjúkrahúsanna, af hvaða ástæðum þessi kennaraskortur sé. Svo að ég fari ekki lengra út í þá sálma, þá hefur verið bent þar á ýmis persónuleg vandamál og svo hitt, sem sjálfsagt flestir í þjóðfélaginu geta kvartað yfir, að þeir þurfa að vinna of mikið fyrir of lág laun. Og það er rétt hjá hv. þm., að hjúkrunarkonur almennt, og þá sjálfsagt ekkert síður hjúkrunarkennarar, voru óánægðar með sinn hlut í sambandi við starfsmatið. En ég hygg, að þetta sé ekki eini hópurinn, sem um er að ræða. Það er einnig rétt, að stórum hluta af því sjúkrarými, sem til er í dag, fást ekki starfskraftar til að sinna, og má þess vegna segja, að frá þeim sjónarhóli séð hafi verið byggt of mikið miðað við þá starfskrafta, sem fyrir hendi eru eða fáanlegir eru til þessara starfa. Allt þetta eru staðreyndir, sem liggja fyrir.

Að ég hafi lýst því yfir hér á s.l. vetri, eins og þm. sagði í lok ræðu sinnar, að skipuð skyldi nefnd til þessara starfa, minnist ég nú ekki. Ég lýsti því hins vegar yfir, að rannsókn skyldi fara fram á þessu. Ég skal ekki segja, hvort það er orðrétt, enda skiptir það ekki máli. Hins vegar er það rétt, að ég lofaði því, að rannsókn skyldi fara fram á málinu, og sú rannsókn stendur enn þá yfir, og það eru vægast sagt í hópi þessa starfsfólks sjálfs mjög skiptar skoðanir um það, hvernig beri að leysa þennan vanda, sem þarna er fyrir hendi, og svo hitt, af hvaða ástæðum þessi vandi er.

Það er staðreynd, sem hv. þm. benti hér á, að fjárlagafé til Hjúkrunarskóla Íslands er ekki að fullu nýtt, vegna þess að fólk fæst þar ekki til starfa. Það er staðreynd.

Af því að hv. þm. vék að því, sem ég hafði sagt hér áður, þá vildi ég endurtaka það, að sú athugun, sem ég lýsti yfir, — ég skal ekki fullyrða um það, hvort það átti að vera í formi nefndar eða annars, - hún er í fullum gangi, og það verður að segjast eins og er, að þetta er mjög viðkvæmt mál, svo að ekki sé meira sagt, og snertir þarna ábyrgðarmiklar stöður eða ábyrgðarmikla starfsemi og mjög skiptar skoðanir um, af hverju þessi vandi er fyrir hendi. En til þess að geta komið fram með till. til lausnar á þeim vanda er að sjálfsögðu nr. eitt að gera sér ljóst, af hverju vandinn stafar. Af hverju fást svona fáar konur til þess að kenna við skólann. Það er fullyrt af mönnum, sem hafa lengi í þessum störfum unnið, að starfskraftar séu fyrir hendi, þeir séu til í landinu, en fáist ekki til starfa af einhverjum ástæðum, og það er um þessar ástæður, sem deilt er, og skal ég ekki fullyrða neitt á þessu stigi, enda óeðlilegt, að ég geri það, þar sem ég hef ekki niðurstöður þessarar athugunar fyrir framan mig. En það var aðeins þetta síðasta, sem kom mér til þess að leiðrétta hér, að af hálfu rn. hefur verið dyggilega að því unnið í samráði við Hjúkrunarkvennafélag Íslands, með hvaða hætti mætti leysa þetta. Og það liggur nú þegar fyrir ein till. frá þeim, sem sjálfsagt gæti þarna að nokkru um bætt, og það er að stofna til sérstaks hjúkrunarmálafulltrúaembættis við rn. sjálft. Undir þetta hefur verið tekið af hálfu ríkisstj., og ég vona, að efndir verði á því á þessu ári. En það leysir ekki þann vanda, sem við stöndum frammi fyrir í dag. Það mætti frekar skipa því á bekk með vandamálum framtíðarinnar og framtíðarlausnum.

Það er augljóst, að hið fyrsta þarf að komast til botns í því, hvers vegna ekki er hægt að nota það fé, sem Alþ. veitir á fjárl. til Hjúkrunarskóla Íslands. Ég efast ekki um, að hv. þm., sem er yfirleitt heiðarlegur í sínum málflutningi, hefur aflað sér réttra talna um vöntunina á hjúkrunarkonum og skal þess vegna ekki vefengja eina einustu tölu af því. Það sýnir bezt, hver vandinn er, og sannar okkur, í hvaða vanda við stöndum. Og það er alls ekki af því, að okkur í heilbrmrn. sé þessi vandi ekki ljós. Við viljum fyrst og fremst komast að því, hvers vegna hann er fyrir hendi. Það eru ekki margir liðir fjárlaga, sem eru ekki fullnýttir, og í fleiri tilfellum mun það vera, að það sé farið heldur yfir fjárlögin en þau séu ekki fullnýtt. Þessa spurningu þarf að fá upplýsta, áður en við göngum til þess vandamáls að leysa þann tvímælalausa vanda, sem hér er fyrir hendi, og ég vona, að okkur takist það, ekki sízt þegar við eigum einlæga og góða stuðningsmenn að lausn vandans í sjálfu stjórnarandstöðuliðinu. Enda hygg ég, að ágreiningur verði ekki um það mál, sem þarna mætti til bóta horfa, hér á hv. Alþ.

Það er svo og svo mikið af íslenzkum hjúkrunarkonum starfandi erlendis. Ég hygg, að þetta sé alveg rétt. Sama gildir einnig um læknana. Fjöldi lækna, sem íslenzka ríkið hefur meira og minna kostað til náms með styrkjum og lánum og skilyrðum um að starfa hér heima á eftir svo og svo langan tíma, starfar samt sem áður erlendis og kemur ekki heim. Hér er vissulega annað vandamál á ferðinni, þegar tekið er tillit til þess, hve mikill læknaskortur er, sér í lagi í dreifbýli landsins. Ég hygg, að ástæðan til þessa sé fyrst og fremst launamismunur. Ég hygg, að svo sé. Í ýmsum sérgreinum kann hann að stafa af því, að þær sérgreinar hafi betri aðstöðu erlendis. Þó eru a.m.k. nýrri sjúkrahús okkar talin í fremstu röð hvað útbúnað snertir og fyllilega sambærileg við sjúkrahús nágrannalandanna.

Ég vil sem sagt ítreka það, að ég held, að þó að flest, sem þm. benti hér á áðan, kynni að eiga einhvern þátt í hjúkrunarkennaraskortinum, þá er það ekki raunverulega meinsemdin. Það eru ekki háværar kröfur um það, að það sé of mikið á þær lagt, heldur vilja þær ekki til þessara starfa koma. Og það eru líka uppi fullyrðingar þeirra, sem þykjast gerst til þekkja, að kennarar séu fyrir hendi í landinu. Það er til fjárlagafé samkv. launaskrá hins opinbera, fé fyrir þessa starfskrafta, en þeir fást eigi að síður ekki. Það er ónotað allt að því 40% af húsrými skólans vegna kennaraskortsins, og þar af leiðandi fækkar nemendum. Og ef svo horfir áfram sem nú er í dag um þessi mál, þá er það alls ekki ósennilegt, að niðurstaða þm. um það, að við séum komnir aftur á bak um 6–7 ár, verði staðreynd. En ég veit, að hann mun vandlega vinna með mér að þessum málum og öðrum, sem við viljum vinna að í einlægni, að komast til botns í því, hvers vegna ástandið er svona, en það er alger forsenda þess, að nokkrar úrlausnir fáist. Þau atriði, sem hann nefndi hér, kunna að eiga einhvern þátt í því, en ég er viss um af þeirri athugun, sem ég þegar veit um, að þetta er ekki aðalástæðan, — alls ekki það, að kennararnir hafi kvartað undan því, að þeim þyki aðstaðan slæm eða of mikið álag á sig. En endanlegar upplýsingar um það, hvers vegna kennarar fást samt sem áður ekki, get ég því miður ekki gefið hér á þessari stundu. En ég vænti þess, að þær geti legið fyrir, áður en langur tími líður.